Leita í fréttum mbl.is

Svalur á milli góðra bóka

Í sumarleyfinu datt ég niður á Sval og Val á dönsku. Ég hafði svo gott sem lokið við Musicophiliu Olivers Sacks, snilldarlega framreiddar frásagnir af undarlegustu tónlistar-sjúkdómsfellum sögunar, og var að byrja á Zen og listin að gera við mótorhjól eftir Robert M. Pirsig, eina mest tilvitnuðu bók seinni ára. Fyrstu síðurnar benda til að mótorhjólazenið muni taka á mínar taugar og lesþol, en meira um það síðar og vonandi Musciophiliuna sem fær mín bestu meðmæli.

Langhundsviðvörun. Pistillinn var nokkra stund í fæðingu og varð fyrir vikið lengri en efni stóðu til. Lesendur eru beðnir velvirðingar, þeir sem ekki geta lengur lesið nema 4-6 setningar á hverri vefsíðu er bent á að slökkva á netinu og spreyta sig á bók, jafnvel einhverju jafn einföldu og teiknimyndasögu (til að þjálfa einbeitinguna).

Frá því að bókaforlagið Iðunn hætti að gefa út Sval og Val, einhverntímann á síðustu öld, hafa komið út þó nokkrar sögur um þá félaga erlendis. Skemmst er frá að segja að eftir að hafa vafrað inn í Vindla Faraós (á Skindegade í miðborg Kaupmannahafnar) og út aftur með búnka af ferskum Sval og Val teiknimyndasögum kvaddi ég bæði tíma og rúm. Þær sögur sem danskar krónur barna minna lentu í voru Kuldakastið, París sekkur, maðurinn sem vildi ekki deyja, Svalur og Valur í Tókýó, Uppruni Z, Árás Zorkónanna, Örvænting á Atlantshafi og safnhefti með þremur bókum eftir Franquin (3-4 Sval og Val bækur eru nú endurútgefnar saman í nokkrum heftum í danmörku, hvert verðlagt á 129 danskar í Vindlum Faraós - skora á alla að nýta sér tilboðið).

splint_panikpaaatlanterhavet.jpgNú verður að viðurkennast að yðar auðmjúkur hefur alltaf haft, allt að því sjúklega fíkn í. teiknimyndasögur, sérstaklega Ástrík fyrir dauða Goscinny og Sval og Val. Þegar Andre Franquin hafði fullskapað Sval og félagar (gorminn þarmeð talinn) var loksins hægt að skilgreina snilld. Sköpunin tók sinn tíma þó, og heilmikill byrjendabragur er á eldri bókum Franquins. Sval og Val fanatíkerar voru fæstir ánægðir með Fournier, vegna yfirnáttúrunnar og geimveranna kannski, en tóku gleði sína á ný þegar Tome og Janry tóku við pennum og söguþráðum (Aðrir hafa gert sögu Svals og Vals betri skil, sbr. pistil eftir Stefán Einarsson, vandaða wikipedia síðu) og blogfærslu um Sval bækur.

Kveikjan að enduruppgötvuðum áhuga mínum á Sval og Val er að íslenska teiknimyndablaðið Neoblek prentar nú hluta af nýrri Sval og Val sögu, "leðurblökuaðgerðin" í þýðingu Stefáns Einarssonar. Hann segir:

Þessi sérútgáfuflokkur bar nafnið "Une aventure de Spirou et Fantasio par..." (ísl. Ævintýri Svals og Vals eftir...) en hefur verið breytt í "Le Spirou de..." (ísl. Saga Svals eftir...). Í þessum flokki hafa mismunandi höfundar fengið að spreyta sig. Auk sögu þeirra Vehlmann og Yoann hafa komið sögurnar Les marais du temps (ísl. ) eftir Frank LeGall, Le tombeau des Champignac(ísl. Grafir Sveppaborgar) eftir Yann og Fabrice Tarrin, Journal d'un ingénu(ísl. Dagbók ungstyrnis) eftir Emily Bravo og hlaut sú saga verðlaun á Angoulême myndasögu hátíðinni og fær einnig mín bestu meðmæli. Le groom vert-de-gris(ísl. Leðurblökuaðgerðin) eftir Yann og Schwartz en myndasagan er byggð á handriti eftir Yann sem hann skrifaði fyrir Chaland en ritstjórnin hafnaði því. Yann valdi Schwartz til að teikna þar sem að stíll hans er líkur stíl Chalands. En þessi myndasaga er birt í íslenskri þýðingu í blaðinu NeoBlek

Sumarleyfissyndin mín voru semsagt Sval og Val bækur eftir nokkra höfunda, flestar eftir Moravan og Munero, sem voru bæði hressandi og hryllilegar í senn. Kannski er þetta áþekkt því að hlusta á nýjustu plötu Bob Dylan eða endurflutning einhverra glanseygðra ungliða á gullaldargersemum the Waterboys? Það örlar á kunnuglegum stefum, mörg hver skemmtileg eða spennandi, en síðan fer allt í allsherjarrugl.

Veröld Svals og Vals er náttúrulega fáranlegur karlaheimur, örfáar kvenpersónur finnast í bókunum. Tome and Janry léku sér með kvenleg element, gerðu Val þunglyndan af ást, sendu Sval og Val á diskótek með glanspíum, en sögurnar fullornuðust samt ekki. Það er sanngjörn spurning hvort maður vilji að Svalur giftist, eignist börn og eldist? Fyrir einhverjum árum las ég bókina Tintin in the New World: A Romance eftir Frederic Tuten. Þar segir frá því þegar hinn eitilharði fulltrúi réttvísinnar, fer að þreytast á flandrinu, tekur upp drykkjusiði Kolbeins og leggur lag sitt við hitt kynið (sem sjaldnast deildi ramma með hinum toppótta í bókum Herges). Það er í sjálfu sér forvitnileg upplifun að fara í ferðalag með persónu úr svona velskildreindri veröld, eins og Tinnabókunum, inn í heim hinna fullorðnu.

Í nýju Sval og Val bókum er engin Gormur, sbr. sérstakt klúður í "teiknimyndasögunni". Með orðum Eyrúnar Hjörleifsdóttur úr ágætum ritdómi um Sval og Val í Tókíó.

Franquin og Dupuis skildu að skiptum og upp frá því var forlaginu bannað með lögum að nota gorminn í Svals og Vals sögunum. Þess í stað var hleypt af stokkunum gúrkulega leiðinlegri seríu um líf Gorms í frumskóginum. Þær bækur eru skelfileg og samhengislaus leiðindi – Gormur veiðir fisk, Gormur passar börnin sín, Gormur lemur erkióvin sinn blettatígurinn svo hann fær stóra kúlu á hausinn. Ég hugsa til þess með djúpri sorg og reiði að Svalur og Valur hafi verið rændir gorminum og nafn hans svívirt á þennan hátt. 

Ég held að allir lesendur Sval og Val bókanna hafi heillast af gorminum, fjaðurmagnaðri og uppátækjasamri skepnu, sem lumbraði á óþokkum og gleypti allt (ætt sem óætt). Sem praktíserandi líffræðingi er manni skylt að ofbjóða, það er ekki möguleiki að venjuleg hryggdýra bein eða vöðvar gætu afrekað þessi ósköp, né að mallakútur gormsins gæti rúmað 100 piranafiska eða tonn af iðandi rauðum maurum. En gormurinn er eins og DNA, ófullkominn en samt stórkostlegur.

E.s. Mig langaði afskaplega mikið til að flétta goðið og dvergasmíðina Viggó Viðutan inn í pistillinn en gat það ekki með góðu móti. Kannski er það viðeigandi að Viðutaninn sé utan við.

Beðist er velvirðingar á mistökum, fyrst lenti færslan í Vísindi og tækni en á sannarlega ekki heima þar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Ég þrælaði mér í gegnum mótorhjólaZenið á ensku fyrir tíu árum eða svo. Mér fannst það alveg þess virði, þó lítið gerist þá er hún lík Zen að því leiti að þegar upp er staðið að lestri loknum hefur eitthvað gerst.

Teiknimyndasögur hef ég aldrei lært að lesa, en dæturnar hafa verið þeim mun duglegri við það. Meira að segja barna börnin verða að finna einhvern annan til að lesa myndasögur.

Hólmfríður Pétursdóttir, 4.8.2011 kl. 00:37

2 Smámynd: Arnar

Nýlega sá ég í Nexus Sval & Val bækur á ensku, aðra hafði ég aldrei séð áður, Trouble Down Under, en hin var Svalur í New York.  Held ég verði að fara og athuga betur með þær, ef það á að endurútgefa þær allar þá má maður ekki missa af þeim menningarverðmætum.

Annars er ég stoltur Sval & Val safnari og á næstum allar íslensku bækurnar nema þrjár eða fjórar.  Konan er ekki alveg jafn hrifinn og vill ekki leyfa mér að hafa þær uppi í stofunni.

Arnar, 4.8.2011 kl. 11:12

3 identicon

Þú gætir haft gaman af þessu:

http://en.wikipedia.org/wiki/Krazy_Kat

Jóhann (IP-tala skráð) 4.8.2011 kl. 22:21

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk fyrir innlitið frænka. Ég ákvað að gefa zeninu sjéns, en er alltaf avegaleiddur af öðru, núna síðast sæborgum Úlfhildar.

Teiknimyndasögur eru sannarlega lágmenning, svona eins og myndbönd og brennandi notaður klósettpappír, en hefur engu að síður sínar góðu hliðar.

Nafni, ég sá einmitt Sval og Val í Ástralíu en lét ekki freistast. Næst þegar ég kom í nexus var hún uppseld, maður á aldrei að reyna að standast freistingar! Annars voru mjög fáar bækurnar gefnar út á ensku, sem er í sjálfu sér dulitið svalt! Danskan hefur reynst mér skást, Svalur og Valur á þýsku brúkast öðrum (Svalur á belgísku og Tinni á kínversku gagnast mér alls ekki staðfesta ítrekuð próf).

Ég státa ekki af jafn góðu safni íslensku bókanna og þú, en hef hamstrað nokkrar á útlensku (bæði til yndisauka og til að monta mig af). Þær eru á skrifstofunni í vinnuni, á hillunni fyrir neðan kennslubækur í erfðafræði.

Takk jóhann fyrir Krazy kat, hann er ljómandi góður - sérstaklega textinn. Það er vitnað í Bill Watterson á wiki síðunni, ætli Krazy kat sé innblástur fyrir Kalla og Kobba?

Vísindagleði um hæl. http://xkcd.com/882/

Arnar Pálsson, 4.8.2011 kl. 23:26

5 Smámynd: Arnar

Oh já, kíkti einmitt í Nexus í gær og þá voru þær hvorugar til.  Gleymdi að spyrja hvort þeir fengju þær ekki aftur.

xkcd er snilld með nördalegu ívafi, http://xkcd.com/327/ er í einstöku uppáhaldi hjá mér.

Arnar, 5.8.2011 kl. 09:55

6 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Frændi sæll, ég held að tregða mín við að lesa teiknimyndasögur hafi ekkert með há- eða lágmenningu að gera freka sérvisku, sennilega í upphafi vegna lesblindu.

Hólmfríður Pétursdóttir, 5.8.2011 kl. 14:05

7 Smámynd: Arnar Pálsson

Arnar

327 er mjög góður.

Ef við höldum þessu áfram verðum við eins og fangarnir í fangelsinu sem hrópa númer brandaranna á milli klefa og hlæja eins og vitleysingar.

Leiðinlegt að heyra af lesblindunni frænka, ef af sérviskunni máttu vera stolt.

Arnar Pálsson, 12.8.2011 kl. 10:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband