Það er sérstaklega ánægjulegt að nýr fjölmiðill skuli nú vera að hasla sér völl hérlendis.
Í allri umræðu um þjóðfélagsmál, efnahag, umhverfi, land og auðlindanýtingu, er grundvallaratriði að fjölmiðlar séu öflugir og sjálfstæðir. Fjölmiðlar sem lúta beinum áhrifum efnamanna eða pólitískra hreyfinga eru ekki ákjósanlegir. Þeir geta komið með ágæta vinkla, en allt sem frá þeim kemur er metið í ljósi hagsmunatengslanna. Hérlendis á það bæði við um 365 miðla og Morgunblaðið.
Það verður að viðurkennast að ég hef ekki haft mikla innsýn í starf blaðamanna og fréttamanna, og sem vísindamaður hefur mér oft blöskrað hversu léleg umfjöllun um vísindi er hérlendis. Þar eru dæmi um snöggsoðnar þýðingar á einhverju sem blaðamaðurinn veit ekkert um, hreinar rangtúlkanir byggðar á vanþekkingu og síðan einfaldar eftirprentanir á fréttatilkynningum. Sannarlega eru margir fréttamenn sem hafa fjallað vel um vísindi, t.d. hvernig lífríki hafsins bregst við loftslags breytingum eða um ris andvísindahreyfinga í BNA.
Ef umfjöllun um vísindi er gloppótt, hvernig er þá umfjöllun um önnur svið samfélagsins?
Þeir fréttamenn sem ég hef rætt við kvarta yfir tímaskorti, því að þeir hafi bara tíma til að kafa í eina til tvær sögur á viku, en hitt sé frekar hraðsoðið. Þeir kvarta einnig yfir því að samfélagið skilji ekki eða virði störf þeirra.
Blaðamenn læra ákveðin vinnubrögð, um að gæta heimilda, fá staðfestingu á staðreyndum, vitna rétt í fólk, viðhalda hlutleysi o.s.frv. Á vissan hátt eru vinnubrögðin áþekk því sem tíðkast í vísindum, nema hvað þeir lúta lögmálum fréttatíma og um vinna þeir ekki ósvipað vísindamönnum, bara á skemmri tímaskala
Vandamálið sem við - íslendingar - stöndum frammi fyrir er þetta.
Við fáum þá fjölmiðla sem við eigum skilið.
Ef við kunnum ekki að meta góða fjölmiðla, þá fáum við slæma fjölmiðla. Ef við hlaupum bara á eftir líkamsparta-fyrirsögnum og hann-sagði/hún-sagði orðaskaki, þá munu fjölmiðlarnir mæta þeirri þörf okkar!
Ef við viljum vandaða fjölmiðlun sem þorir að takast á við vandamál í þjóðfélaginu, sem og þing, framkvæmdavald og dómstóla, þá verðum við að leita þá uppi, þakka þeim fyrir, láta aðra vita hvað er vel gert og BORGA FYRIR ÁSKRIFTIR.
Blogg koma aldrei í staðinn fyrir vandaðar fréttir!
Nú veit ég ekki hvort að Kjarninn verði nýr hlutlaus og öflugur miðill Íslandi til góðs, en þeir taka allavega mið af ágætum miðlum í Newsweek og Wired (ég er minna hrifinn af Vanity fair). Í núverandi umhverfi er það eiginlega bara RÚV sem stendur sem heilstæður og hlutlaus fréttamiðill. Ásakanir samkeppnisaðilla og stjórnmálamanna um vinstri slagsíðu, eru sorglegt dæmi um innflutning á áróðursbrellum amerískra hægrimanna öfgamanna.
Ég vil hafa RÚV sem sjálfstætt starfandi (án þingskipaðrar stjórnar!) miðil í íslensku samfélagi. Ef við RÚV missir ríkisstyrki verður hann eitthvað áþekkt NPR og PBS í Bandaríkjunum, jaðar-miðill sem hverfur í skugga pólítískra (FOX) eða skemmtifréttastöðva (NBC, ABC, CBS).
Það er ekki ákjósanlegt ástand eins og margir hafa bent á nýlega. Til að mynda Chris Mooney, sem ritaði hina frábæru bók Unscientific America: How Scientific Illiteracy Threatens our Future með Sheril Kirshenbaum.
Áhugasömum er bent á að Chris Mooney verður með fyrirlestur við HÍ laugardaginn 7. september kl. 12.00 til 13.30 í stofu 105 á Háskólatorgi.
http://kjarninn.is/