Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Erindi og ráðstefnur

Erindi: Áhrif mannsins á gróðurlendi

Í dag mun Sverrir Aðalsteinn Jónsson flytja fyrirlestur um rannsókn á gróðurfari í Fljótsdalshéraði. Hann notaði jarðfræðilegar aðferðir til að skoða breytingar sem orðið hafa á síðustu 2000 árum, og kanna hvort að maðurinn eða breytingar á veðurfari hafi skipt meira máli varðandi breytingar á gróðulendi. Þetta sýnir hvernig hin mismunandi svið raunvísinda geta nýtast til að svara vísindalegum spurningum. Rannsóknin var unnin undir handleiðslu Ólafs Ingólfssonar, jarðfræðings, en spurningin er í raun líffræðileg eða umhverfisfræðileg, hvað hefur áhrif á útbreiðslu og viðgang gróðurs.

Rannsóknina vann Sverrir sem meistaraverkefni við Jarðfræðideild HÍ og er fyrirlesturinn hluti af vörn hans. Erindið hefst kl 14:00 í stofu 131 í Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ. Ágrip má nálgast hér, það er einnig endurprentað hér að neðan.

Megintilgangur rannsóknarinnar var að afla gagna sem gætu skýrt gróðurfarssögu Fljóts­dalshéraðs síðastliðin 2000 ár og kanna orsakir hnignunar skóga héraðsins. Rannsóknin var gerð á tveimur mismunandi gagnasöfnum. Í fyrsta lagi var gerð nákvæm rannsókn á öllum sagnfræðilegum heimildum um gróðurfar og veðráttu á Austurlandi frá landnámi. Í öðru lagi var gerð frjókornarannsókn á sýnum úr setkjarna er tekinn var úr tjörn innan Hallorms­staðarskógar. Sá kjarni spannar um það bil 2000 ár.

Setið í kjarnanum var einsleitt vatnaset er innihélt mörg öskulög. Öskulagatímatal var útbúið fyrir kjarnann og við það notuð sex þekkt öskulög. Niðurstöðum frjókornarannsóknarinnar var skipt upp í sex kafla (zones) og hver þeirra táknaði mismunandi gróðurfarsaðstæður. Þessir kaflar voru síðan notaðar til túlkunar gróðurfarssögu svæðisins. Við landnám var svæðið um­hverfis tjörnina þakið skógi, en skógurinn hörfaði hratt eftir landnám. Á 15. öld sótti skógurinn fram á ný og var frekar gróskumikill allt fram á miðja 18. öld en þá hörfaði hann hratt. Þessi hörfun hélt áfram allt til upphafs 20. aldar þegar skógurinn var friðaður.

Áhrif mannsins virðast hafa skipt sköpum hvað varðar ástand skógarins eftir landnám en veðurfar virðist hafa haft minni áhrif.

Leiðbeinendur: Ólafur Ingólfsson, prófessor, og Dr. Ólafur Eggertsson

Prófdómari: Dr. Egill Erlendsson


Baráttan fyrir lífinu í hrauninu

Þróunarkenning Darwins og Wallace sýndi fram á að í stofnum lífvera veljast sumar gerðir úr, alveg náttúrulega. Þetta er afleiðing þess að lífverur eru breytilegar, eiginleikar þeirra erfast og þær eignast mismörg afkvæmi. Ástæða þess að lífverur eignast mismörg afkvæmi er sú að þær eru misjafnlega hæfar til að takast á við umhverfi sitt. Umhverfi er mjög víðfemt hugtak, og getur táknað aðgang að fæðu, birtuskilyrði, hitastig, ásókn afræningja, geimgeisla og þar fram eftir götunum.

Baráttan fyrir lífinu er oftast rædd sem slagur bráðar og afræningja eða sýkils og hýsils, en getur tekið á sig fleiri myndir. Planta í gljúpum jarðvegi, þarf að berjast fyrir lífinu. Fræ sem lendir í mosaþembu þarf að berjast fyrir lífinu, og þar fram eftir götunum.

Í dag mun Jóna Björk Jónsdóttir flytja fyrirlestur um rannsóknir sínar á baráttum plantna fyrir lífinu, í Skaftáreldahrauni. Hún sýnir meðal annars fram á að mosamottan sem þekur hraunið aftrar landnámi háplantna. Ég sjálfur hélt að mosi myndi frekar búa í haginn fyrir aðrar plöntur í hrauninu en svo virðist ekki vera. 

Fyrirlestur Jónu er meistaravörn hennar frá líf og umhverfisvísindadeild HÍ, á rannsókn sem hún vann undir leiðsögn Þóru Ellenar Þórhallsdóttur og Kristínar Svavarsdóttur.

Erindið hefst kl 14:00 í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ. Ágrip erindisins má nálgast á heimasíðu HÍ.


Erindi: Íslenskar náttúruperlur og erfðamengi melgresis

Tvær meistaravarnir verða við líf og umhverfisvísindadeild HÍ í næstu viku.

Karen Pálsdóttir ræðir um rannsóknir sínar á íslenskum náttúruperlum. Hún leitaði leiða til að lýsa sjónrænum einkennum náttúruperla, flokka þær og bera við annað landslag. Þetta er mjög brýnt því við eigum svo erfitt með að meta fegurð landslags, nokkuð sem hefur flækst fyrir fólki sem vill meta á hlutlægan hátt áhrif framkvæmda. Rannsóknina vann hún undir handleiðslu Þóru Ellenar Þórhallsdóttur og Þorvarðar Árnasonar, og er hún til meistarprófs í umhverfis-og auðlindafræði.

Erindi Karenar verður mánudaginn 25 maí í Öskju, stofu 132. Það hefst kl. 16:00. Úr ágripi

Náttúruperlurnar áttu sameiginlegt háar einkunnir fyrir allar breytur sem við komu fjölbreytni. Þetta gerði það jafnframt að verkum að þær voru mjög ólíkar innbyrðis. Aðferðin greindi mun milli náttúruperla og annars "venjulegs" landslags (kerfispunktanna). Sumar náttúruperlur féllu inn í landslagsflokka ÍL, en aðrar röðuðust saman og mynduðu sinn eigin flokk. Niðurstöðurnar benda til þess að háar einkunnir fyrir fjölbreytileika, svo sem mikil fjölbreytni í formum, mynstrum, áferð og litum, greini náttúruperlur frá venjulegu landslagi. Einnig höfðu náttúruperlurnar oft meira vatn, fjölbreyttari birtingarmyndir vatns, og meiri straumþunga. Á hinn bóginn höfðu náttúruperlur að meðaltali svipaðan gróðurfjölbreytileika og minni gróðurþekju heldur en venjulegt landslag.

Ágrip á síðu HÍ.

Miðvikudaginn 27 maí heldur Sæmundur Sveinsson fyrirlestur um rannsóknir sínar á erfðamengi melgresis. Hveiti er ein helsta nytjaplanta heims. Ræktun nýrra afbrigða byggir oft á æxlunum við skyldar tegundir. "Samt sem áður er þekking á erfðafræði villtra tegunda innan hveitiættarinnar mjög takmörkkuð." Markmið rannsókna Sæmundar var að kanna fjölbreytileika melgresis og skyldra tegunda. Nálgunin var sú að einangra endurteknar raðir (örtungl) úr erfðamengjunum og finna sértæka lykla til merkja ákveðna hópa tegunda. Aðalleiðbeinandi var Kesara Anamthawat-Jónsson.

Erindi Sæmundar verður í Öskju, kl 14.00. Úr ágripi.

Nýlega einangruð fjölskylda af samfellt endurteknum satellite-röðum, nefnd Lt1, var skilgreind í þessari rannsókn.  Uppbygging Lt1 fjölskyldunnar og útbreiðsla hennar meðal meltegunda var könnuð með Southern þáttatengingu og staðsetning hennar á litningum kortlögð með flúrljómandi þreifurum.  Lt1 er fyrsta erfðamengis sérhæfða satellite-fjölskyldan sem aðskilur amerískar meltegundir frá evrópskum og asískum meltegundum.  Ljóst er að aukin þekking á erfðafræði villtra grastegunda eykur notkunarmöguleika á erfðaauðlindum fyrir kynbætur kornjurta.

Ágrip á síðu HÍ.


Erindi: Kvikasilfur í þingvallaurriða

 Þungmálmar og snefilefni finnast í öllum lífverum. Eiturefnafræðin og eiturefnavistfræðin fjalla um vandamál geta hlotist af ef styrkur slíkra verður of hár. Þau haft skaðleg áhrif á viðgang og starfsemi lífverunnar og einnig tegundir sem leggja hana sér til munns. Maðurinn er afræningi, sem leggur sér til munns dýr ættuð úr mörgum vistkerfum og af mismunandi stigum þeirra. Urriðinn í Þingvallavatni er einnig afræningi, ofarlega í fæðukeðjunni.

Matís og Laxfiskur hafa staðið fyrir rannsókn á magni kvikasilfurs í Þingvallaurriðanum og samkvæmt fréttatilkynningu er styrkur eitursins yfir viðmiðunarmörkum í meirihluta stórra fiska í vatninu. Niðurstöðunum verða gerð skil í erindi á morgun, miðvikudaginn 20 maí 2009, sbr. tilkynningu:

Matís og rannsóknafyrirtækið Laxfiskar halda fund til að kynna niðurstöður sameiginlegrar rannsóknar á magni kvikasilfurs í urriða úr Þingvallavatni. Hagsmunaaðilar og aðrir áhugasamir eru boðnir velkomnir á fundinn. Rannsóknin hafði manneldissjónarmið að leiðarljósi og var framkvæmd til að draga upp mynd  af magni kvikasilfurs í Þingvallaurriðum með hliðsjón af stærð þeirra og forsögu.

Fundurinn verður haldinn miðvikudaginn, 27. maí 2009, kl 14:00 í Sjávarútvegshúsinu, Skúlagötu 4, á 1. hæð.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að kvikasilfur er mælanlegt í Þingvallaurriða.  Í vissum tilvikum er magn kvikasilfurs í fiskholdinu yfir leyfilegum mörkum Evrópusambandsins fyrir styrk kvikasilfurs í matvælum. Smærri urriðinn er gegnumsneitt undir þeim mörkum en eftir að urriðinn hefur náð ákveðinni stærð eru umtalsverðar líkur á því að hann innihaldi meira kvikasilfur en viðmiðunarmörk gera ráð fyrir.

Sjá einnig umfjöllun á heimasíðu Matís.

Starfsfólk Náttúrufræðistofu Kópavogs vaktar einnig lífríki Þingvallavatns, vonandi mætir það á erindið á morgun og leggur orð í belg.


Erindi: Doktors og meistaravarnir

Þetta er sá tími ársins. Það fer að styttast í útskrift og framhaldsnemar keppast við að klára verkefnin sín, ritgerðir og greinar. Í lok vikunnar verða þrjár slíkar varnir við HÍ, en rétt er að árétta að um er að ræða fjölbreytt samstarf, í þessum tilfellum við Landspítalann og Hólaskóla.

Fimmtudaginn 7 maí kl 13:00 ver Sigurveig Þóra Sigurðardóttir verkefni sitt um þróun bólefna gegn lungnasýkingum, frá læknadeild HÍ.

Föstudaginn 8 maí kl 13:00 verður doktorsvörn Hólmfríðar Sveinsdóttur frá Matvæla- og næringarfræðideild. Hún fjallar um tjáningu prótínrjúfandi ensíma í maga þorska. 

Sama dag mun Guðmundur Smári Gunnarsson halda fyrirlestur um meistaraprófsverkefni sitt:  Óðals- og fæðuatferli ungra laxfiska í ám. Verkefnið var unnið undir leiðbeiningu Sigurðar Snorrasonar við Líf og umhverfisvísindadeild HÍ. Tilkynning er ekki kominn á síðu HÍ, en samkvæmt tölvupósti fjallar verkefni Guðmundar um:

Ágrip: Óðals- og fæðuatferli er almennt talið hafa mikil áhrif á þéttleika og dreifingu dýra. Hingað til hefur óðalsatferli ungra laxfiska helst verið lýst fyrir þá einstaklinga sem sitja-og-bíða og ráðast á fæðu og keppinauta frá einni fæðustöð, og ná slíkar rannsóknir því sjaldan yfir hreyfanlegri einstaklinga sem synda um í leit að fæðu eða nota margar fæðustöðvar. Í þessari rannsókn lýsi ég óðals- og fæðuatferli hjá vorgömlum (0+) laxfiskum, 31 bleikju og 30 urriðum, og tengi atferli þeirra við vistfræðilegar breytur í sex ám (þrjár fyrir hvora tegund) á NV-landi. Óðalsstærð var metin fyrir hvern einstakling, óháð hreyfanleika og fjölda fæðustöðva, með því að kortleggja fæðunám og árásir á aðra einstaklinga yfir 40 mínútna tímabil. Bleikja notaði stærri óðul en urriði og var einnig hreyfanlegri við fæðunám. Ennfremur voru hreyfanlegri einstaklingar innan hvorrar tegundar með stærri óðul en þeir sem sátu-og-biðu eftir fæðu. Stærð óðala var einnig háð vistfræðilegum þáttum: óðul stækkuðu eftir því sem einstaklingar voru stærri, minnkuðu við aukið fæðuframboð og voru, ólíkt því sem spáð var, stærri við háan þéttleika fiska. Þá virtust óðul bleikju skarast meira en hjá urriða og ekki vera eins vel varin. Almennt má segja að óðul sem eru kortlögð fyrir alla einstaklinga, þ.e. óháð því hvort þeir séu hreyfanlegir við fæðunám eða sitji-og-bíði á einni fæðustöð veiti nýstárlegar upplýsingar um óðalsatferli laxfiska í straumvatni. Óðul einstaklinga sem eru hreyfanlegir eða nota margar fæðustöðvar lúta þannig ekki alltaf að sömu lögmálum og óðul sem kortlögð eru frá einni stöð, t.d. hvað varðar fylgni við vistfræðilega þætti. Greinileg þörf er á frekari rannsóknum á slíkum óðulunum til að kanna áhrif þeirra á þéttleika, vöxt, afföll og far einstaklinga, og aðra þætti er móta stofnvistfræði laxfiska.


Erindi: Faraldsfræði veira

Fréttatilkynning um faraldsfræði veira.

 

Fyrirlesari: Ásgeir Erlendur Ásgeirsson líffræðingur.

Heiti erindis: Epstein-Barr og cytomegaloveira: Faraldsfræði og greining.

Erindið verður haldið fimmtudaginn 30. apríl, kl. 12:20 á Tilraunastöð
Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.

Annað markmið rannsóknarinnar var að kanna algengi mótefna gegn cytomegaloveiru (CMV) og Epstein-Barr veiru (EBV) meðal Íslendinga og bera saman við önnur lönd.  Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru að þessar veirur eru mjög algengar hér á landi.            

Hitt markmiðið var að þróa PCR aðferðir til að greina CMV og EBV sýkingar í sermi þegar hefðbundnar mótefnamælingar duga ekki til.  Helstu niðurstöður PCR rannsóknarinnar eru að erfðaefni CMV og EBV var greinanlegt með PCR í upphafi sýkingar.  Möguleiki er á jákvæðri niðurstöðu hjá heilbrigðum einstaklingum með gömul mótefni gegn þessum veirum.  Sjúklingar með aðrar sýkingar geta mælst jákvæðir fyrir CMV. Verkefnið var unnið á veirufræðideild LSH.


Eggertsson, Watson og Crick

Í gær flutti Guðmundur Eggertsson erindi um DNA líkan Watsons og Cricks, í fyrirlestraröðinni byltingarmenn vísindanna. Nokkrir af fyrrverandi nemendum Guðmundar sóttu fyrirlesturinn, auk fjölda annara, og vorum við sammála um að hann hefði engu gleymt og greinilega lært heilmargt nýtt. Stemmingin var áþekk því að sitja í kennslu í Erfðafræði á Grensásvegi og læra um töfra DNA sameindarinnar og vísindamennina sem rannsökuðu eiginleika hennar.

Vonandi ritar Guðmundur fyrirlesturinn upp í pistil og kemur í prentun. Guðmundur hefur af gefinni ástæðu verið kallaður faðir erfðafræðinnar á Íslandi, og það var viðeigandi að Fréttablaðið skyldi gera honum og erindinu skil á tímamótasíðunni (Hægt er að nálgast fréttina á síðu fréttablaðsins undir visir.is) en hér að neðan birtist textinn og meðfylgjandi mynd - athugið að myndin er eign Fréttablaðsins/GVA).

Fáa óraði fyrir þeim ótal möguleikum sem opnuðust

Byltingamenn vísindanna er yfirskrift á fyrirlestraröð á vegum Félags áhugamanna um heimspeki. Í dag mun Guðmundur Eggertsson, prófessor í líffræði, gera framlagi þeirra James D. Watson og Francis Crick skil en þeir settu fram líkan af DNA-kjarnsýrunni árið 1953.

"Í fyrirlestrinum verður fyrst rakinn aðdragandi þess að þeir Watson og Crick settu fram DNA-líkanið. Böndin höfðu þá borist að DNA sem erfðaefni lífvera eftir að prótín höfðu lengi verið talin líklegri til að gegna því hlutverki. Hvort tveggja finnst í litningum og menn vissu að litningar báru genin. Hins vegar var óljóst með öllu hvernig bæði byggingu og starfsemi DNA væri háttað. Líkan Watsons og Cricks lyfti hulunni af byggingu DNA-sameindarinnar og gaf sterkar vísbendingar um starfsemi hennar," segir Guðmundur.G.Eggertsson.mars.2009

Þeir félagar höfðu einbeitt sér að DNA-sameindinni um tveggja ára skeið en Guðmundur segir athyglisvert að þeir gerðu engar tilraunir sjálfir heldur nýttu sér þær upplýsingar sem voru fyrir hendi. "Aðalatriðið er að þeir komu fram með líkan sem var mjög sannfærandi. Það var svo fallegt að margir sögðu að þess vegna hlyti það að vera rétt en það var ekki að fullu sannað þegar þeir settu það fram."

Líkanið opnaði dyr fyrir margvíslegar rannsóknir á starfsemi frumunnar. "Þó að bygging sameindarinnar væri ljós tók við að skýra hvernig erfðaefnið gegndi hlutverki sínu. Í ljós kom að röð eininga í DNA-sameindinni ákvarðar röð eininga í prótín-sameindum sem eru helstu starfssameindir frumunnar. Samsvörunin á milli þessara raða er kallað erfðatáknmálið," segir Guðmundur.

Síðar hefur tækninni fleytt fram og fundu menn aðferðir til að fást við DNA með erfða- eða líftækni. "Nú er hægt að raðgreina erfðaefni manns á nokkrum dögum. Eins geta menn rannsakað DNA úr löngu látnu fólki og jafnvel löngu útdauðum tegundum. Þegar líkanið var sett fram á sínum tíma dreymdi fáa um að nokkurn tímann yrði hægt að raðgreina erfðaefni tegunda," segir Guðmundur.

Guðmundur segir merkilegt hvað erfðafræðin var komin langt í að skilgreina starfsemi gena án þess að vita úr hverju þau voru gerð áður en uppgötvun Watsons og Cricks var kunngjörð. "Erfðafræðingar voru búnir að rannsaka gen í langan tíma og vissu hvernig þau erfðust og stjórnuðu erfðaeiginleikum lífvera. Þeir vissu bara ekki úr hverju þau voru eða hvernig þau störfuðu. Þeirra framlagi var því ekki kollvarpað með uppgötvun Watsons og Cricks heldur var hún nauðsynleg viðbót." Oft er talað um að bylting hafi orðið í líffræðinni þegar líkanið var sett fram og mun Guðmundur staldra við þá fullyrðingu.

Fyrirlesturinn fer fram í sal tvö í Háskólabíói klukkan eitt í dag. Síðasti fyrirlesturinn í fyrirlestraröðinni verður svo laugardaginn 4. apríl en þá fjallar Eyja Margrét Brynjarsdóttir heimspekingur um Thomas Kuhn og vísindabyltingar almennt.

 


Erindi: Heilablóðfall og Turing

Ég vildi benda fólki á tvö erindi sem eru á döfunni. Í hádeginu í dag, fimmtudaginn 19 mars kl 12:20, mun Birkir Þór Bragason halda erindi um starfsemi prótínsins Cystatin C sem í stökkbreyttu formi veldur heilablæðingu. Erindi hans kallast Rannsóknir á frumulíffræði og genatjáningu fíbróblasta úr arfberum með L68Q cystatin C stökkbreytingu og er unnið í samstarfi við Ástríði Pálsdóttur á Keldum. Erindið fer einmitt fram í fyrirlestrasal Tilraunastöðvarinnar í meinafræði á Keldum. Frekari upplýsingar í fréttatilkynningu. Dagskrá fræðslufundanna má sjá á heimastíðu Tilraunastöðvarinnar.

Á laugardaginn 21 mars fer fram þriðji fyrirlesturinn um byltingarmenn vísindanna. Alan Turing, hin alræmda Turing vél hans og áhrif hennar verða kynnt af Kamillu Rún Jóhannsdóttur. Erindi hennar heitir Alan Turing: Turing vélin og áhrif hennar á framfarir og takmörk hugfræðinnar, og fer fram kl 13:00 í sal 2 í Háskólabíói. Turing og tölvunarfræðin gáfu okkur athyglisverða leið til að hugsa um starfsemi heilans og lífvera. Tölvunarfræðilíkingar eru orðnar mjög algengar í líf og læknisfræði, en eins og alltaf verður fólk að passa sig á að láta líkinguna ekki móta um of tilgáturnar. Nánari upplýsingar um fyrirlestraröðina og má nálgast á Fésbókinni.


Erindi um samtöl fruma

Í dag, 5 febrúar 2009 verður geysispennandi erindi um ávaxtaflugur. Þær eru undurfallegar og alger gullnáma fyrir rannsóknir á þroskun og genastarfsemi. Saman ber mynd af augnforvera og taugastilki sem tengist við heilabú flugunnar. 

augndiskur

Mynd var fjarlægð - meðan greinin var enn í vinnslu.

Myndina tók Sigríður R. Franzdóttur, sem nýverið lauk doktorsverkefni um þroskun tauga í heila ávaxtaflugunar, frá Háskólanum í Muenster. Rannsóknir hennar gengu út á að greina samskipti (samtal) sem eiga sér stað þegar angar taugafruma ferðast um heila flugunnar, á meðan á þroskun stendur. Sigríður sýndi fram á að ákveðin gen og boðferli eru nauðsynleg fyrir samskipti milli taugafrumanna og taugatróðsfruma. Það er mjög forvitnilegt að vita að mörg þessara gena eiga sér hliðstæðu í mönnum og kúm.

Kýr eru frábærar, þær lengi lifi.

Miklar líkur eru á að erindi Sigríðar á fræðslufundi Keldna verði ljómandi skemmtilegt.


Helsingjar, erfðabreytt bygg og líming á DNA

Undir lok skólaárs er alltaf mikið fjör, ritgerðir, próf og í tilfelli framhaldsnema varnir. Framhaldsnemar sem ljúka rannsóknarverkefni þurfa að flytja erindi um rannsóknir sínar, og að geta svarað gagnrýnum spurningum. Slík eldskírn er flestum holl, íslendingar mættu oft vera duglegri að standa upp fyrir framan hóp fólks, kynna málstað, hugmyndir eða rannsóknir. Reyndar farnast löndum okkar ágætlega í rituðu formi samanber pistla á vefsíðum, en við þurfum að þjálfa ungt fólk í að halda erindi. Þrátt fyrir það er ég viss um að erindi sem flutt verða af framhaldsnemum í líffræði á morgun og föstudag verða hvert öðru betra. Um er að ræða þrjú erindi, sem sýna breidd líffræðinnar í dag.

Meistaraverkefni Þórdísar Vilhelmínu Bragadóttur snýst um atferli Helsingja í Skagafirði. Þeir millilenda hér á leiðum sínum til og frá Grænlandi, aðallega til að bæta á sig fæðu. Erindið verður föstudaginn 16. maí 2008, kl 14:15 í sal N-132 í Öskju, náttúrufræðahúsi, Sturlugötu 7.

Aðalheiður Arnarsdóttir þróaði í meistaraverkefni sínu aðferðir til að stýra framleiðslu framandi prótína í byggi. Það er mikil þörf á framleiðslukerfum fyrir lífvirk efni, t.d. prótín, og ORF líftækni hefur hannað og standsett mjög öflugt kerfi til að mæta þessari þörf. Niðurstöður sínar kynnir Aðalheiður föstudaginn 16. maí 2008, kl 16:00 í sal N-132 í Öskju, náttúrufræðahúsi, Sturlugötu 7.

Þriðja erindið flytur Gísli Gunnar Gunnlaugsson um fjórðaárs verkefni sitt. Það fjallar um starfsemi DNA lígasa í bakteríum, sem eru ensím líma saman DNA þræði. Þau eru t.d. nauðsynleg í viðgerð á DNA, því brotið DNA getur leitt til litningabrengla og margskonar sjúkdóma. Erindi Gísla verður fimmtudaginn 15. maí 2008, kl 15.00 í sal N-132 í Öskju, náttúrufræðahúsi, Sturlugötu 7.

Hvert um sig eru verkefnin hluti af stærri heildamynd, það er þannig sem þekking byggist upp, tilraun fyrir tilraun. Hlutaðeigandi er óskað hjartanlega til hamingju.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband