Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Erindi og ráðstefnur

Erindi: Galapagoseyjar: lífríki og hættur

Síðasti föstudagsfyrirlestrar Líffræðistofnunar þetta vorið verður fluttur af Hafdísi Hönnu Ægisdóttur plöntuvistfræðingi og forstöðumanni Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Fyrirlesturinn Galapagoseyjar: lífríki og hættur verður fluttur 13. maí 2011, í Öskju Náttúrufræðahúsi HÍ (stofu 131, kl. 12:30).
Hafdís Hanna Ægisdóttir mun fjalla um einstakt lífríki Galapagoseyja og þær hættur sem steðja að eyjunum. Galapagoseyjar er afskekktur eyjaklasi, staðsettur tæplega 1000 km undan strönd meginlands Suður-Ameríku. Eyjarnar voru gerðar að þjóðgarði árið 1959 og hafa verið á heimsminjaskrá UNESCO frá árinu 1978. Þrátt fyrir að eyjarnar séu einn best varðveitti eyjaklasi í heiminum, þá á lífríki eyjanna í vök að verjast, m.a. vegna ágengra tegunda og miklum fjölda ferðamanna. Í fyrirlestrinum mun Hafdís Hanna segja frá persónulegri reynslu sinni af eyjunum og velta upp þeirra spurningu hvort eyjarnar séu paradís í hættu.

hhae_mynd3.jpgLjósmyndasýning Hafdísar á slóðum Darwins stendur nú yfir í Öskju. Þar sýnir hún ljósmyndir af lífríki Galapagoseyja, sem hún tók á meðan hún stundaði rannsóknar þar árið 2007 (sjá meðfylgjandi mynd af sæljóni - copyright Hafdís H. Ægisdóttir).

Hafdís er einn ritstjóra bókarinnar Arfleifð Darwins, sem hið Íslenska bókmenntafélag gaf út á haustmánuðum 2010.

Föstudagfyrirlestrar Líffræðistofnunar eru öllum opnir með húsrúm leyfir og eru fluttir á íslensku (nema annað sé tekið fram). Dagskrá vorsins má sjá á vef Líf og umhverfisvísindadeildar HÍ.


Erindi: Erfðatækni, ofurtölvur og hjartavernd

Notkun erfðatækni og ofurtölva hefur kollvarpað grunnrannsóknum í læknisfræði og líffræði. Ég mun vonandi setja saman alvöru pistil um þær framfarir bráðlega, en nú læt duga hér að auglýsa nokkra fyrirlestra og fundi á þessum nótum sem haldnir verða strax eftir páska.

Fyrst bera að nefna ráðstefnu um erfðatækni (Rannsóknir og atvinnusköpun í erfðatækni) sem samtök íslenskra líftæknifyrirtækja og Samtök iðnaðarins standa fyrir. Viðfangsefnið er erfðatækni, notagildi og möguleika til atvinnusköpunar á Grand Hótel Reykjavík, 27. apríl kl. 9.00 – 12.00

Dagskrá:

    * Upphaf erfðatækninnar, Guðmundur Eggertsson, Háskóla Íslands
    * Plöntukynbætur í forstíð, nútíð og framtíð, Áslaug Helgadóttir, Landbúnaðarháskóla Íslands
    * Erfðatækni í matvælaframleiðslu, Helga M. Pálsdóttir, Matvælastofnun
    * Erfðatækni í lyfjaframleiðslu, Einar Mäntylä, ORF Líftækni
    * Erfðatækni sem rannsóknatæki, Ólafur S. Andrésson, Háskóla Íslands
    * Erfðatækni og umhverfi, Arnar Pálsson, Háskóla Íslands
    * Pallborð fyrirlesara

Fundarstjóri: Þorsteinn G. Gunnarsson, KOM almannatengsl. Fundurinn er opinn og aðgangur ókeypis.  Skrá sig á fundinn.

Daginn eftir (28. apríl 2011) heldur Vilmundur Guðnason prófessor og forstöðulæknir Hjartaverndar yfirlitsfyrirlestur um vísindastarf Hjartaverndar í 40 ár. Erindið er hluti af Lýðheilsa – fyrr og nú - Fyrirlestrarröð Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og Þjóðminjasafnsins í tilefni af 100 ára afmæli Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:00 í þjóðminjasafninu. Úr tilkynningu:

Landsamtökin Hjartavernd voru stofnuð árið 1964. Rannsóknarstöð Hjartaverndar hóf starfsemi sína þremur árum síðar með mjög viðtækri faraldsfræðilegri rannsókn, Hóprannsókn Hjartaverndar, þar sem áhersla var lögð á að finna helstu áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma meðal Íslendinga. Rannsóknin hefur staðið yfir í meira en 40 ár og hefur náð til rúmlega þrjátíu þúsund Íslendinga. Margar nýjar rannsóknir hafa tengst henni. Þessar rannsóknir hafa orðið grundvöllur þekkingar hérlendis á helstu áhættuþáttum kransæðasjúkdóma.

Síðdegis sama dag 28. apríl 2011 verður síðan ráðstefna um ofurtölvur á vegum Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands. Dagskráin stendur frá 13:00 til 18:00, í húsakynnum endurmenntunar HÍ. Úr tilkynningu (þar má sjá fulla dagskrá):

Ráðstefnan fjallar um hvernig vísindamenn í raunvísindum og verkfræði nota ofurtölvur eða tölvuþyrpingar í reiknifrekum verkefnum. Vísindamenn hafa keyrt samhliða forrit í nokkra áratugi sem hafa nýst vel greinum eins og eðlisfræði, efnafræði, veðurfræði og loftslagsfræði.  Greinar eins og jarðvísindi og lífvísindi fylgja nú fast á eftir og sjá í auknum mæli notagildi slíkrar forritunar. Í raun eru mjög margar greinar sem nýta sér ofurtölvur, þ.m.t. félagsvísindi (hagfræði) og hugvísindi (máltækni).  Á sama tíma hefur átt sér stað þó nokkur þróun aðferða í tölvunarfræði og reiknifræði til að nýta sem best ofurtölvur. Þar sem eftirspurn eftir ofurtölvum er nær óþrjótandi og keyrsla þeirra er jafnan orkufrek, hefur í þriðja lagi orðið allnokkur breyting á vélbúnaði samhliða tölva, orkunotkun þeirra og í auknum mæli litið til hagkvæms rekstrar þeirra.


Lífríki Íslands og leyndardómar frumunar

Í tilefni aldarafmæli HÍ stendur líf og umhverfisvísindadeild skólans fyrir nokkrum uppákomum. Í dag (12. apríl 2011) munu framhaldsnemar kynna rannsóknir sínar ásamt nemendum í jarðvísindum. Boðið verður upp á stutta fyrirlestra, nemendur koma með viðfangsefni sín, krabba, frumur, gen, kort, öskusýni, grjót, setlagakjarna og tölvuforrit og ræða við gesti og gangandi um rannsóknir í líffræði, landfræði, ferðamálafræði og jarðfræði. Dagskráin stendur frá 16:00 til 19:00 í Öskju, náttúrufræðahúsii HÍ. Sjá nánar á vef HÍ.

kl 16-17 fyrirlestrar í jarðfræði:
Rannsóknir við Múlajökul, bergfræði og jarðfræðikortlagning á Melrakkasléttu

kl 17-18 fyrirlestrar í líffræði:
Stofnfrumur, "elstu Íslendingarnir" - grunnvatnsmarflærnar, svif í Breiðafirði og þroskun bleikjuafbrigða.

kl 18-19 fyrirlestrar í land-  og ferðamálafræði:
Umferðarmenning, íslenska landslagshugtakið, greining landslags í skipulagsvinnu á Íslandi og sjálfbær þróun.

Á morgun verða síðan fyrirlestrar um rannsóknir á lífríki Íslands (frá kl 16:30 og 18:00, í Öskju). Þá munu Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Jörundur Svavarsson og Arnþór Garðarsson fjalla um hina mismunandi þætti lífríkis lands og sjávar. Fyrirlestrarnir eru stílaðir á almenning og verða ríkulega myndskreyttir.

Jörundur Svavarsson greinir frá lífríki sjávar, en hann hefur stundað rannsóknir á lífríki sjávar um árabil og m.a. unnið við og skipulagt hið alþjóðlega BIOICE verkefni sem kortlagði tegundir botndýra og útbreiðslu þeirra á Íslandsmiðum.

Þóra Ellen Þórhallsdóttir fjallar um gróðurfar en hún hefur unnið að rannsóknum í grasa- og umhverfisfræðum og nýlega rannsakað gróðurframvindu á Skeiðarársandi.

Í fyrirlestri sínum mun Arnþór Garðarsson, prófessor emeritus, fjalla um sjófuglastofna, tilvist þeirra og aðferðir til að rannsaka þá og tryggja framtíð þeirra, en um fjórðungur allra sjófugla í Norðaustur-Atlantshafi á heima á Íslandi og hér eru nokkrar stærstu sjófuglabyggðir heims, sérstaklega á Hornströndum, í Látrabjargi og Vestmannaeyjum.

Guðmundur Hrafn Guðmundsson, prófessor við líf- og umhverfisvísindadeild heldur fyrirlestur í hádeginu 13. apríl, (kl. 12:30) um það hvernig hægt er að virkja náttúrulegt ónæmi gegn sýklum.

Eðlilegt jafnvægi milli hýsils og örveruflóru er nauðsynlegt fyrir heilsu manna og dýra. Örverudrepandi peptíð frá þekjufrumum hýsilsins eru lykilþættir í þessu jafnvægi. Peptíðin eru hluti af okkar náttúrulegu vörnum og í raun fyrstu virku varnirnar sem örverur mæta. Í fyrirlestrinum verður fjallað um þetta einstaka varnarkerfi og mikilvægi þess. Einnig verður bent á leiðir um hvernig nýta má þetta varnarkerfi til að verjast sýkingum.

Einnig mun Ólafur S. Andrésson, prófessor í erfðafræði halda fyrirlestur á föstudaginn í Málstofu í efnafræði og lífefnafræði (kl 12:30, stofa 158, VR-II, Háskóli Íslands). Hann fjallar um rannsóknir á erfðamengi fléttu, sem er forvitnileg frá vistfræðilegu sjónarmiði, gæti reynst hagnýt fyrir lyfjaiðnað og er mjög athyglisverð fyrir sameindaerfðafræðina. Úr tölvupósti:

Fléttur af ættkvíslinni Peltigera eru útbreiddar á íslandi og víðar og hafa verið rannsakaðar á ýmsavegu. Við höfum nú raðgreint erfðaefni fléttanna P. membranacea (himnuskóf) og P. malacea (mattaskóf) beint úr náttúrunni. Með þessar upplýsingar í hendi er hægt að leita svara við margvíslegum spurningum varðandi aðlögun að samlífi, sérhæfingu, þróun og breytileika o.s.frv. Viðbótargögn fengin með raðgreiningu á mRNAi og greiningu á metýleringu erfðaefnisins veita enn frekari möguleika.


Erindi: Stofnfrumur og þroskun lungna

Föstudagsfyrirlestur Líffræðistofnunar háskólans þessa vikuna (8. apríl 2011) er Sigríður Rut Franzdóttir nýdoktor við Læknadeild HÍ. Hún lauk nýverið doktorsprófi frá Háskólanum í Münster, þar sem hún rannsakaði ferðalög fruma í þroskun augna ávaxtaflugunar. Hún hlaut viðurkenningu semungur vísindamaður á ráðstefnu um rannsóknir í Líf og heilbrigðisvísindum síðastliðinn janúar. Nú starfar Sigríður við rannsóknir á stofnfrumum lungna og hefur ásamt samstarfsmönnum sínum þróað frumulíkan til þeirra rannsókna.
 
Hið flókna berkjutré lungans myndast með greinavexti þekjufruma. Nær öll þekking á þroskun og vexti lungna er úr músum og mikill skortur hefur verið á hentugum kerfum til rannsókna á ferlinu í mönnum. Hér verður kynnt frumulíkan fyrir lungu. Örva má mannafrumur í rækt til herma eftir greinavexti lungna og nota þær til rannsókna á stjórn greinamyndunar og líffræði mannslungans. Sigríður mun fjalla um þessar rannsóknir í fyrirlestri sínum.
Föstudagfyrirlestrar Líffræðistofnunar eru öllum opnir með húsrúm leyfir og eru fluttir á íslensku (nema annað sé tekið fram). Þeir eru haldnir í stofu 131 í Öskju, náttúrufræðahúsi HÍ (kl 12:30-13:10).

Næstu fyrirlestrar.

13. apríl 2011  Bakteríudrepandi prótín - Guðmundur Hrafn Guðmundsson
(Athugið fyrirlestur Guðmundar er á miðvikudegi ekki föstudegi - hluti af afmælisdagskrá HÍ)
29. apríl 2011  DNA polýmerasar og viðgerð - Stefán Þ. Sigurðsson
6. maí 2011   Selarannsóknir við Selasetur Íslands  - Sandra Granquist
13. maí 2011  Galapagoseyjar: lífríki og hættur - Hafdís H. Ægisdóttir

Einnig er fólki bent á 3 fyrirlestra miðvikudaginn 13. apríl (frá 16:30-18:00) um ""Rannsóknir á lífríki Íslands".

Jörundur Svavarsson greinir frá lífríki sjávar, en hann hefur stundað rannsóknir á lífríki sjávar um árabil og m.a. unnið við og skipulagt hið alþjóðlega BIOICE verkefni sem kortlagði tegundir botndýra og útbreiðslu þeirra á Íslandsmiðum.

Þóra Ellen Þórhallsdóttir fjallar um gróðurfar en hún hefur unnið að rannsóknum í grasa- og umhverfisfræðum og nýlega rannsakað gróðurframvindu á Skeiðarársandi.

Í fyrirlestri sínum mun Arnþór Garðarsson, prófessor emeritus, fjalla um sjófuglastofna, tilvist þeirra og aðferðir til að rannsaka þá og tryggja framtíð þeirra, en um fjórðungur allra sjófugla í Norðaustur-Atlantshafi á heima á Íslandi og hér eru nokkrar stærstu sjófuglabyggðir heims, sérstaklega á Hornströndum, í Látrabjargi og Vestmannaeyjum.

Fyrirlestrarnir er hluti af dagkrá Verkfræði- og náttúruvísindasviðs í aprílmánuði í tilefni af aldarafmæli Háskóla Íslands.

Fyrirlestur meistara David Suzuki í dag

Margt stórkostlegt stendur fyrir dyrum í tilefni 100 ára afmæli Háskóla Íslands. Apríl er helgaður verkfræði og náttúruvísindum, og að því tilefni verður boðið til fyrirlesturs David Suzuki síðdegis í dag (4. apríl 2011, kl 17:00 í stofu 132 í Öskju Náttúrufræðihúsi HÍ). Úr tilkynningu:

Dr. David T. Suzuki er prófessor emeritus í líffræði við Háskóla Bresku Kólumbíu sem hefur fengið fjölda alþjóðlegra viðurkenninga fyrir störf sín. Margir líffræðingar kannast við nafn hans sem meðhöfundar vinsællar kennslubókar í erfðafræði sem hefur verið kennd í mörg ár í líffræðiskor HÍ. Hann er virkur náttúruverndarsinni,sem hefur m.a. unnið ötullega við að vekja athygli á áhrifum loftslagsbreytinga. Meðal almennings er David Suzuki best þekktur sem sjónvarpsmaður en hann er þekktur fyrir að útskýra náttúruvísindin á einfaldan og heillandi hátt. Sjónvarpsþættir hans "The Nature of Things",  hafa verið sýndir á mörgum helstu sjónvarpsstöðvum heims. Þættir hans voru sýndir í ríkisjónvarpinu á níunda áratug síðustu aldar.

Kesara Jónsson prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild kynnir fyrirlestur David Suzuki. Fyrirlesturinn sem fer fram á ensku er fluttur með fjarfundarbúnaði og öllum opinn meðan húsrúm leyfir.

Fólk á mínum aldri kannast vel við Suzuki úr sjónvarpsþáttunum sem sýndir voru á níunda áratugnum. Hann er einstaklega góður fræðari og miðlaði bæði áhuga og virðingu fyrir náttúrunni. Líffræðingar kannast einnig við hann sem höfund bókarinnar An introduction to genetic analysis (nú erum við að kenna útgáfu 9. en sjöunda útgáfan er aðgengileg í heild sinni á vef Bandarísku heilbrigðismálastofnunarinnar). 

Dr. Suzuki er erfðafræðingur að upplagi, lauk doktorsprófi í dýrafræði frá Chicago háskóla. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að vinna sem nýdoktor við þann háskóla milli 2003 og 2006, í þróunarfræði og vistfræðideildinni og vann einmitt með ávaxtaflugur eins og David Suzuki. Hann notaði ávaxtaflugur til að rannsaka endurröðun erfðaefnis, áhrif efna á þau ferli og einnig hitanæmar stökkbreytingar. Hann greindi einnig stökkbreytingar sem eru kuldanæmar, það þýðir að einstaklingar eru einkennalausir, nema þeir þroskist við lágan hita. 

Áhugi Suzuki á umhverfismálum varð til þess að hann stofnaði sérstakan sjóð (David Suzuki foundation) til að berjast fyrir friðun dýra og landsvæða, til að sporna gegn loftslagsbreytingum, ýta undir sjálfbærari efnahag og vekja vitund og áhuga fólks á náttúrunni. Sjóðurinn og starfsmenn þess hafa beitt sér í mörgum málum, loftslagsmálum, heilbrigðismálum, verndun vatnakerfa, hafsins og villtrar náttúru. Á síðunni að dæma þá virðast áherslurnar vera ágætar, en dálítið örlar á granólahippa réttrúnaði (þar sem staðhæfingar um hreinleika og vistvináttu ýmissa úrræða virðast byggðar á litlum gögnum). En í það heila er áherslan sannarlega lofsverð og mörgum þörfum verkefnum er sinnt.

Í þessum anda verður fyrirlesturinn fluttur með fjarfundarbúnaði, sem er umhverfisvænt að því leyti að Dr. Suzuki þarf þá ekki að þyngja breiðþotu sem flýgur yfir Atlanshafið með tilheyrandi útblæstri koltvíildis.

Upplýsingar um lífshlaup David Suzuki má finna á vef samtaka hans.

Hlýðið endilega á mjög forvitnilegt viðtal við David Suzuki í speglinum (1. apríl 2011). Hann talar meðal annars um stríðið gegn þekkingu og vísindum, sem tóbaksframleiðendur og olíufélögin hafa stundað með hræðilega góðum árangri.


Erindi: Fæða minks

Föstudagsfyrirlestrar Líffræðistofnunar eru komnir á skrið eftir nokkura ára hlé.

Í þessari viku mun Rannveig Magnúsdóttir fjalla um fæðuvistfræði minksins, sem er doktorsverkefni hennar við Háskóla Íslands. Af vef Náttúrstofu Vesturlands:

Í verkefninu notast hún við efnivið sem Náttúrustofa Vesturlands hefur aflað á undanförnum árum. Verkefnið snýst um að skoða fæðuval minks á Snæfellsnesi frá aldamótum og mögulegar breytingar sem gætu hafa orðið á því samfara breytingum sem virðast hafa orðið í lífríki sjávar á tímabilinu og endurspeglast m.a. í slökum varpárangri sjófugla síðustu ár.

Rannveig er doktorsnemi við Líf og umhverfisvísindadeild HÍ. Verkefnið er samvinnuverkefni HÍ (aðalleiðbeinandi Páll Hersteinsson), Náttúrustofu Vesturlands og Oxford háskóla (sjá http://www.wildcru.org/).

Föstudagfyrirlestrar Líffræðistofnunar eru öllum opnir með húsrúm leyfir og eru fluttir á íslensku (nema annað sé tekið fram). Þeir eru haldnir í stofu 131 í Öskju, náttúrufræðahúsi HÍ (kl 12:30-13:10).

Dagskrá í heild sinni með tenglum má nálgast á vef Líf og umhverfisvísindadeildar HÍ.

3/11/11 Fæða minks -  Rannveig magnúsdóttir
3/18/11 Súrnun sjávar - Hrönn Egilsdóttir
3/25/11 Stofnvistfræði minks - Róbert A. Stefánsson
4/1/11   Tengsl búsvæða og svipgerðar í stækkandi fuglstofni - Tómas G. Gunnarsson
4/8/11   Stofnfrumur og þroskun lungna - Sigríður Rut Franzdóttir
4/15/11  DNA polýmerasar og viðgerð - Stefán Þ. Sigurðsson
4/29/11  Bakteríudrepandi prótín - Guðmundur Hrafn Guðmundsson
5/6/11   Selarannsóknir við Selasetur Íslands  - Sandra Granquist
13/6/11  Galapagoseyjar: lífríki og hættur - Hafdís H. Ægisdóttir


Allir í húsdýragarðinn

Þar sem Ísland vantar almennilegt náttúrugripa og vísindasafn taka aðrir upp kyndilinn. Náttúruminjasafn Kópavogs er hreinasta gersemi og Húsdýragarðurinn hefur gert stórkostlega hluti með fiskatjaldinu og núna skriðdýrasýningunni. Ég hvet alla til að kíkja í garðinn og berja eðlurnar augum.

Að auki vill ég minnast á nokkra forvitnileg náttúruvísindaleg atriði, afsakið hversu sundurlaust þetta er.

Í gær tilkynnti náttúrustofa Suðurlands að fjörtíu ára fýll hefði fundist í neti. Sjá umfjöllun mbl.is og viðtal í morgunútvarpi Rásar 2 við Sigurð S. Snorrason um hvað dýr verða gömul.

7 og 14. mars mun RÚV sýna þætti um uppruna lífsins.

Í þessari bresku heimildamynd, sem er í tveimur hlutum, veltir David Attenborough því fyrir sér hvernig fyrstu dýrin á jörðinni urðu til.

Á glæsilegum ferli sínum, sem spannar orðið meira en hálfa öld og fjölmargar glæsilegar þáttaraðir, er David Attenborough orðinn einn virtasti fræðimaður heims um lífið á jörðinni. Og nú fjallar hann í þessum tveimur þáttum um þau dýr sem eðlilega er hvað minnst vitað um, fyrstu lífverurnar á plánetunni. Þetta er mikil saga sem nær yfir milljónir ára, frá dögun lífsins í „djúpum vítis“ til fyrstu fótanna sem stigu á land.

Taugalíffræði og erfðabreyttar lífverur Vísindaþátturinn 22. febrúar 2011

Pétur Henry Petersen, líffræðingur við Háskóla Íslands, sagði okkur frá rannsóknum sínum í taugalíffræði, fjármögnun vísindarannsókna. Einnig var fjallað um glórulausa þingsályktunartillögu um erfðabreyttar lífverur.

Fyrir harða líffræðinga og aðra öfgamenn bendi ég að síðustu á fyrirlestur á vegum liffræðistofnunar HÍ, sem fram fer föstudaginn 4. mars 2011 (kl 12:30 í stofu 131 í Öskju - náttúrufræðahúsi HÍ). Tilkynning:

Í þessari viku mun Ubaldo Benitez Hernandez  halda erindi sem kallast Pan I genið í íslenskum þorski: rannsókn á þróunarfræðilegum og landfræðilegum þáttum. (The Pantophysin I (Pan I) Locus in Atlantic Cod (Gadus morhua) in Iceland: An Exploration of Evolutionary and Spatial Relations. - erindið verður flytt á ensku).

Ubaldo Benitez Hernandez er doktorsnemi við Líf og umhverfisvísindadeild HÍ. Hann stundar rannsóknir á þorski, sérstaklega á Pan I geninu sem sýnir mjög sterka fylgni við dýpi. Þorskar með ákveðna arfgerð hafast aðallega við í djúpsjó, á meðan önnur arfgerð er í hærri tíðni á grunnslóð (sjá mynd úr grein Ubaldos í Plos One) Genið er sérstakt að því leiti að gerðirnar tvær eru mjög ólíkar, og ljóst er að genið hefur verið undir sterku náttúrulegu vali. Rannsókn Ubaldos miðar að því að rannsaka frekar áhrif náttúrulegs vals á genið, með því að bera saman tíðni arfgerða hringinn í kringum landið (af mismunandi dýpi) nokkur ár í röð, skoða DNA breytileika innan gensins í nokkrum einstaklingum og greina gögn um landfræðilega dreifingu, dýpi og þróunarsögu stofnsins.

Föstudagfyrirlestrar Líffræðistofnunar eru öllum opnir með húsrúm leyfir og eru fluttir á íslensku (nema í þessu tilfelli).

Dagskrá í heild sinni má nálgast á vef Líf og umhverfisvísindadeildar HÍ.

mbl.is Skriðdýrasýningin slær í gegn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erindi: Erfðamengi melgresis

Föstudagsfyrirlestrar Líffræðistofnunar hafa hafið göngu sína á ný eftir nokkura ára hlé.

11. febrúar 2011 mun Kesara Margrét Jónsson fjalla um rannsóknir sínar á erfðamengi melgresis (Leymus arenarius). Meðal plantna eru mörg dæmi um tvöfaldanir erfðamengja og einnig samruna tegunda - þar sem oftast nærskyldar tegundir mynda kynblendinga. Kesara ræðir um rannsóknir í plöntuerfðafræði melgresis, um skyldleika melgresis og annara grastegunda, og breytingar á samsetningu erfðamengja þeirra.

bm_Surtsey2010_fjoruarfi_melgresiMynd af melgresi í Surtsey - af vef Náttúrufræðistofnunar (úr leiðangri NÍ og samstarfsmanna).

Kesara er prófessor í grasafræði og plöntuerfðafræði við Líf og umhverfisvísindadeild HÍ, og er ákaflega duglegur vísindamaður. Hún hlaut viðurkenningu Háskóla Íslands fyrir lofsvert framlag til rannsókna við Háskólann árið 2002.

Föstudagfyrirlestrar Líffræðistofnunar fara fram í Öskju Náttúrufræðihúsi HÍ (stofu 131) og eru öllum opnir með húsrúm leyfir. Þeir eru fluttir á íslensku (nema annað sé tekið fram). Dagskrá í heild má nálgast á vef Líf og umhverfisvísindadeildar HÍ.


Erindi: Ester Rut og hagamýsnar

Föstudagsfyrirlestrar Líffræðistofnunar hefja göngu sína á ný eftir nokkura ára hlé.

Í fyrsta erindinu mun Ester Rut Unnsteinsdóttir fjalla um rannsóknir sínar á hagamúsum á Kjalarnesi. Ester vinnur að rannsóknum á samsetningu músastofnsins, nýliðun og öðrum þáttum. Af vefsíðu hennar - sem lýsir daglegu amstri rannsóknanna ágætlega:

Meginmarkmið rannsóknarinnar er tvíþætt: Annars vegar að varpa ljósi á vistfræði og árstíðasveiflur hagamúsastofns á blönduðu búsvæði (strandlengja, óræktaður mói, tún með skurðum) á Suðvesturlandi. Hins vegar að bera saman vistfræði og árstíðarsveiflur hagamúsastofna í tveimur ólíkum ræktunarlöndum. Annað svæðið er blandaður skógur og hitt er tún með skurðum og fjöruvist. Leitað verður svara við ýmsum vistfræðilegum spurningum varðandi lífssögu og afkomu hagamúsanna, svo sem:
  • Að kanna þéttleika í hagamúsastofnunum og hvort munur sé á stofnstærð eftir árstímum og búsvæðum.

  • Að athuga lífslíkur í hagamúsastofninum og hvort munur sé á lifun kynjanna eftir árstímum.

  • Að fylgjast með vexti, kynþroska og tímgun hagamúsa á hvoru búsvæði fyrir sig.

Ester stundar doktorsnám við Líf og umhverfisvísindadeild HÍ, og er einnig forstöðumaður Melrakkaseturs Íslands á Súðavík.

Föstudagfyrirlestrar Líffræðistofnunar eru öllum opnir meðan húsrúm leyfir og eru fluttir á íslensku (nema annað sé tekið fram). Dagskrá í heild sinni má nálgast á vef Líf og umhverfisvísindadeildar HÍ.


Fyrirlestrar: Ussuriland - hin rússneska Amazon

Ég vil vekja athygli ykkar á opnum fyrirlestrum, annars vegar á vegum Náttúrufræðifélags Íslands og hins vegar á vegum líffræðistofnunar HÍ. Næstkomandi mánudag mun líffræðingurinn Jón Már Halldórsson, (hjá Fiskistofu) flytja erindið

Ussuriland - hin rússneska Amazon.

Erindið verður flutt mánudaginn 31. janúar kl. 17:15 í stofu 132 í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.  Aðgangur er öllum heimill og ókeypis. Úr tilkynningu:

Ussuriland, hin rússneska Amazon, eins og landkönnuðurinn Nikolai Przemwalski (1839-1888) kallaði svæðið sunnan Amur-fljóts og austan Ussuri-fljóts. Nafngift svæðisins er nú óðum að hverfa úr landafræðibókum en er þekkt í eldri bókum á sviði náttúrufræði og meðal rússneskra náttúrufræðinga. Á tímum kalda stríðsins var Ussuriland harðlokað umheiminum vegna nálægðar við hernaðarmannvirki rauða hersins en eftir hrun Sovétríkjanna hefur svæðið ásamt öðrum náttúruperlum þessa víðlenda ríkis opnast umheiminum. Vísindamenn, ferðamenn og því miður veiðiþjófar hafa fengið tækifæri á að komast inn á þessi svæði. Í Ussurilandi má sjá einstakan samruna fánu og flóru barrskóga Síberíu og laufskóga suður-Asíu og er svæðið tegundaauðugasta svæði Rússlands. Ussuriland er aðeins 0,9% af flatarmáli landsins en 24% spendýrategunda og 61% fuglategunda eiga heimkynni eða dveljast þar í skamman tíma við votlendi, sjávarströndina og í þéttum frumskógum Ussurilands. Á svæðinu er að finna mörg af fágætustu hryggdýrum Asíu t.d. Amur-hlébarða og Ussuri-tígrisdýrið, en Ussuriland er síðasta vígi þessara stærstu núlifandi kattardýra. Auk þess er mikill þéttleiki annarra tegunda sem eru fágætar annars staðar.
Föstudagsfyrirlestrar líffræðistofnunar háskólans eru einnig að fara í gang aftur eftir nokkura ára hlé. Þeir verða haldnir kl 12:30 í stofu 131 í Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ. Þeir eru öllum opnir. Fyrstu fyrirlesararnir eru:
Ester Rut Unnsteinsdóttir sem fjallar um svæðisnotkun hagamúsa á Kjalarnesi (4. feb.)
Kesara A. Jónsson sem fjallar um erfðamengi melgresis og skyldra tegunda (11. feb.)
Valgerður Andrésdóttir sem fjallar um mæði og visnu veiruna (18. feb.)
Þessir fyrirlestrar verða nánar auglýstir síðar.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband