Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vistfræði, dýrafræði, grasafræði

Bryngeddan og þróun fiska

Mánudaginn 18. ágúst mun Dr. John Postlethwait halda hádegiserindi á vegum Líf- og umhverfisvísindastofnunar.

Í fyrirlestrinum mun Dr. Postlethwait prófessor við Institute of Neuroscience, University of Oregon, Eugene, fjalla um rannsóknir sínar og samstarfsmanna sinna á erfðamengi s.k. bryngeddu (Lepisosteus aculatus), sem er ein 7 frumstæðra tegunda beinfiska frá öðru blómaskeiði beinfiska á miðlífsöld sem enn eru uppi. Greint verður frá því hvernig rannsóknir á erfðamengi þessara „lifandi steingervinga“ geta nýst við að varpa ljósi á  þróun genamengja, gena og genastarfsemi nútíma beinfiska og spendýra.

Titill erindisins er: Linking Teleost Fish Genomes to Human Biology
Ingo Braasch, Peter Batzel, Ryan Loker, Angel Amores, Yi-lin Yan, and John H. Postlethwait


Fyrirlesturinn verður haldinn kl. 13:30-14:30 mánudaginn 18. Ágúst í stofu N-131 í Öskju og er opinn öllum.
 
Ágrip erindisins á ensku.
Spotted gar (Lepisosteus oculatus), a holostean rayfin fish and one of Darwin’s defining examples of ‘living fossils’, informs the ancestry of vertebrate gene functions and connects vertebrate genomes. The gar and teleost lineages diverged shortly before the teleost genome duplication (TGD), an event with major impacts on the evolution of teleost genomes and gene functions. Evolution after the earlier two vertebrate genome duplication events (VGD1 & VGD2) also complicates the analysis of vertebrate gene family history and the evolution of gene function because lineage-specific genome reshuffling and loss of gene duplicates (ohnologs) can obscure the distinction of orthologs and paralogs across lineages and leads to false conclusions about the origin of vertebrate genes and their functions. We developed a ‘chromonome’ (a chromosome-level genome assembly) for spotted gar. Analysis shows that gar retained many paralogs from VGD1 & VGD2 that were differentially lost in teleosts and lobefins (coelacanth, tetrapods). We further show that spotted gar can be reared as a laboratory model enabling the functional testing of hypotheses about the origin of rayfin and lobefin gene activities without the confounding effects of the TGD. The spotted gar genome sequence also helps identify cis-regulatory elements conserved between teleosts and tetrapods, thereby revealing hidden orthology among regulatory elements that cannot be established by direct teleost-tetrapod comparisons. Using whole genome alignments of teleosts, spotted gar, coelacanth, and tetrapods, we identify conserved non-coding elements (CNEs) that were gained and lost after various key nodes of vertebrate evolution. This information enables us to study on a genome-wide scale the role of regulatory sub- and neofunctionalization after the TGD and helps infer targets of cis-regulatory elements that we test in vivo using transgenic reporter assays. This living fossil links teleost genomes to human biology in health and disease.


Formmyndun og tjáning miRNA tengd breytilegu útliti höfuðs bleikjuafbrigða

Þriðjudaginn 19. ágúst ver Kalina H. Kapralova doktorsritgerð sína í líffræði við Háskóla Íslands. Heiti rigerðarinnar er Formmyndun og tjáning miRNA tengd breytilegu útliti höfuðs bleikjuafbrigða (Salvelinus alpinus)/Study of morphogenesis and miRNA expression associated with craniofacial diversity in Arctic charr (Salvelinus alpinus) morphs.

Ágrip

Frá lokum síðustu ísaldar hafa þróast fjögur afbrigði bleikju (Salvelinus alpinus, Linn. 1758) innan Þingvallavatns. Afbrigðin eru erfðafræðilega aðgreind og eru ólík hvað snertir lífsferla, atferli og útlit, og á það sérstaklega við um líkamshluta er tengjast fæðuöflun. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna erfðafræðilegar og þroskunarfræðilegar orsakir þessa fjölbreytileika og öðlast þannig innsýn í þróun og varðveislu bleikjuafbrigðanna í Þingvallavatni. Stofnerfðafræðilegri leit að genum tengdum ónæmiskerfinu sem sýna mismun milli afbrigða er lýst í fyrsta kafla ritgerðarinnar. Þar á meðal eru Cath2 og MHCII alpha sem sýna breytileika sem getur ekki talist hlutlaus og líklegast er að áhrif náttúrulegs vals á ónæmiskerfið hafi leitt til aðgreiningar á þessum erfðasetum. Annar kafli lýsir þroskun brjósks og beina í höfði fóstra og seiða stuttu eftir klak. Sá munur sem fram kemur milli afbrigða í þroskunarfræðilegum brautum útlits og stærðar þessara stoðeininga bendir til þess að orsakanna sé að leita í breytingum á tímasetningu atburða í þroskun. Í þriðja kafla segir frá litlum en marktækum mun í útliti höfuðbeina á fyrstu stigum eftir klak seiða þriggja afbrigða bleikju. Þá sýna blendingar tveggja ólíkra afbrigða svipgerð sem fellur að verulegu leyti fyrir utan útlitsmengi beggja foreldra-afbrigðanna. Það bendir til þess að aðskilnað afbrigðanna í vatninu megi rekja til minni hæfni blendinga. Fjórði kafli fjallar um þroskunarfræðileg tengsl valinna stoðeininga í höfði, þ.e. hversu sjálfstæðar eða samþættar þær eru, og hvernig þessum tengslum er háttað hjá kynblendingum ólíkra afbrigða Í fimmta kafla er miRNA sameindum bleikjunnar og tjáningu þeirrra í þroskun lýst í mismunandi afbrigðum. Athyglin beindist að miRNA-genum sem sýndu mismunandi tjáningarmynstur í afbrigðunum en slík gen kunna að leika mikilvægt hlutverk í formþroskun höfuðbeina og verið undirstaða útlitsmunar milli afbrigða.

Um doktorsefnið
Kalina fæddist í Sofíu í Búlgaríu árið1980. Foreldrar hennar eru Hrosto P. Kapralov, verkfræðingur, og Nedka K. Kapralova, hagfræðingur. Hún á eina systur, Petya, sem er listamaður. Kalina útskrifaðist frá Franska framhaldsskólanum í Sófíu árið 1999. Hún lauk fyrstu tveim árum BS náms við Paris Descartes University og síðasta árinu frá LILLE 1 University - Science and Technology árið 2004. Hún lauk meistaragráðu frá HÍ í samstarfi við University of Guelph í Kanada árið 2008 undir leiðsögn Sigurðar S. Snorrasonar (HÍ) og Moira Ferguson (UoG). Ritgerð hennar fjallaði uppruna smárrar botnbleikju (Salvelinus alpinus) á mismunandi stórum lanfræðilegum skölum á Íslandi. Kalina er gift Fredrik Holm sem er jarðfræðingur og ljósmyndari.

Leiðbeinandi
Sigurður S. Snorrason, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands

Andmælendur
John H. Postlethwait, prófessor við Háskólann í Oregon, Bandaríkjunum
Eiríkur Steingrímsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands


Verjum afkvæmin fyrir ásókn mannfólks

Við mennirnir erum orðnir fleiri en 7 milljarðar. 7.000.000.000 einstaklinga, sem hver um sig þarf fæðu og húsnæði, klæði og eldsneyti, skraut og lyf, lífsfyllingu og minningar.

Áður en frumbyggjar Ameríku námu þar land, bjuggu mörg stór dýr bæði norðan og sunnan Mið Ameríku. En á nokkur þúsund árum voru þau öll veidd upp til agna. Tugir tegunda stórra dýra dóu út. Bein og aðrar leifar þessara dýra voru svo fersk að hvítu mennirnir sem stofnuðu Bandaríkin gerðu út leiðangra til að leita þeirra, vitanlega með það að markmiði að veiða þau og hengja hausana upp á veggi.

lffraedi_orn.jpgÞví hefur verið haldið fram að stóru dýrin í Afríku hafi lifað af, vegna þess að þau hafi þróast í sambýli við mennina. Stóru dýrin í Ameríku voru ekki, "þróunarlega" viðbúin atlögu frumbyggjanna og hafi þess vegna dáið út.

En undanfarin árhundruð hefur hallað undan fótum, loppum, hófum og klaufum stóru dýranna í Afríku. Vinnufélagar mínir voru í Afríku í hitteðfyrra og sögðu að stóru þjóðgarðarnir væru í mikilli hættu vegna veiðiþjófnaðar og minni garðar einnig vegna annarra landnytja.  Þeirra heimildamenn sögðu að ef færi sem horfði yrðu innan fárra áratuga væru engin villt dýr eftir í þjóðgörðunum, vegna ásóknar og taps á búsvæði. Í framtíðinni þyrfti að læsa þau inni á víggirtum búgörðum til að þau gætu lifað af.

Það eru stórkostleg forréttindi að fá að sjá villt dýr og njóta óspilltrar náttúru. Við getum styrkt samtök sem vernda stóru dýrin í Afríku en ættum líka að vernda íslenska náttúru, hið viðkvæma litla blóm sem sekkur í uppistöðulón, treðst undir fjórhjóli eða sviðnar í brennisteinsgufu. 

Myndina tók Róbert Arnar Stefánsson (copyright), Náttúrustofu Vesturlands í Stykkishólmi. Á vef stofunnar má finna fleiri myndir af örnum og náttúru Breiðafjarðar.


mbl.is Varði afkvæmið fyrir hungruðum ljónum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljónafiskur og Kudzu leggja undir sig suðrið

Á námsárunum í Norður karólínu lærði ég um Kudzu, japanska klifurplöntu sem var flutt til Bandaríkjanna til græða vegkannta og hefta uppblástur. Kudzu vex mjög hratt og þekur vel. Reyndar svo vel að hún varð að illgresi og var fljótlega skilgreind sem ágeng tegund í suðurríkjum bandaríkjanna.

Í Norður karólínu þakti hún árbakka og símalínur, tré og yfirgefin hús.

1189715136_31bc46ad06_b-640x480

Mynd af Kudzu frá BNA, úr safni mynda á flickr.

Nýlegar fréttir bárust af því að Kudzu hafi einnig slæm áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda. Rannsókn í New Phytologist, sem fjallað er um í Ars Technica, sýnir að Kudzu stuðlar að losun kolvetnis.

Það gerist á þrjá vegu. Kudzu dregur úr vexti furutrjáa, sem venjulega binda kolvetni. Kudzu hefur jákvæð áhrif á vöxt jarðvegsörvera, sem brjóta niður lífrænt efni og losa kolvetni. Að síðustu brotnar Kudzu sjálf mjög hratt niður, miðað við aðrar plöntur. 

Allt þetta eykur umhverfisáhrif plönturnar, og meta höfundar greinarinnar þau á pari við 1.000.000 manna stórborg.

Eins og í tilfelli margra ágengra tegunda, er hreinsun á Kudzu meiriháttar verkefni. Neðst í pistlinum er tengill á síðu á vef Clemson háskóla sem útlistar hvernig fara skal að. Þar segir einnig að Kudzu svæði séu aðeins nýtileg til eins, þ.e.a.s. að rækta Kudzu. Með öðrum orðum, Kudzu land er tapað land. 

En ágengar tegundir halda sig ekki eingöngu við land, heldur einnig vatn og haf.

Í Norður Karólínu og nálægum fylkjum er ljónafiskur orðinn ágengur. Hér er mynd af einum slíkum, tekin í sædýrasafni Pine Knoll Shores (AP).

 img_1177.jpg

 

 

Ítarefni

Malcolm Campbell  2014 júlí Invasive kudzu drives carbon out of the soil, into the atmosphere

Clemson háskóli Kudzu Eradication Guidelines

Katie Linendoll 2012 CNN Lionfish infestation in Atlantic Ocean a growing epidemic


Gróður í Viðey í Þjórsá: áhrif beitarfriðunar og mögulegar ógnir

Gróður í Viðey í Þjórsá: áhrif beitarfriðunar og mögulegar ógnir

Anna Sigríður Valdimarsdóttir og Sigurður H. Magnússon flytja erindi á vegum Hins íslenska náttúrufræðifélags.  Erindið verður flutt Í DAG mánudaginn 28. apríl kl. 17:15 í stofu 132 í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.  Aðgangur er öllum heimill og ókeypis.

Tilkynning frá Hinu íslenska náttúrufræðifélagi.

Ágrip af erindi:

„Viðey í Þjórsá er stök ey suðaustan við bæinn Minna­Núp í Gnúpverjahreppi. Áin er þar djúp og straumþung og hefur eyin því notið nokkurrar verndar fyrir ágangi manna og búfjár. Í Viðey er gróskulegur birkiskógur sem ekki er að finna á bökkum árinnar. Lítið var vitað um annan gróður í eynni. Áform eru um að stífla Þjórsá ofan Viðeyjar vegna fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar. Rennsli Þjórsár meðfram Viðey myndi minnka mjög mikið við virkjun og jafnframt sú vernd sem áin veitir eynni. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að kanna gróður í Viðey í Þjórsá og bera hann saman við gróður á svipuðu landi beggja vegna árinnar. Áhersla var lögð á að svara eftirfarandi spurningum: Hvaða gerðir gróðurs er að finna í eynni? Hver er þekja og tegundasamsetning plantna í mismunandi gróður­ og landgerðum í eynni og á svipuðu landi beggja vegna árinnar? Finnast í eynni sjaldgæfar plöntutegundir? Í rannsókninni voru lagðir út 13 reitir sumarið 2009; fjórir í Viðey, þrír á norðurbakka og sex á suðurbakka Þjórsár. Í Viðey finnast fjórar megingerðir gróðurs; birkiskógur, graslendi, strandgróður og mólendi. Í eynni fundust 74 tegundir háplantna, þ.á.m. tvær sem teljast sjaldgæfar á landsvísu, grænlilja og kjarrhveiti. Þekja og tegundasamsetning plantna í Viðey er mjög ólík þeirri á bökkum árinnar en í samræmi við það sem komið hefur fram í öðrum rannsóknum á beittum og beitarfriðuðum svæðum. Viðey var friðlýst árið 2011 til verndunar lítt snortins og gróskumikils birkiskógar og því lífríki sem honum fylgir. Auk verndunar erfðaeiginleika og erfðafjölbreytileika birkisins og annars gróðurs, þá er sérstaklega treyst vísinda­ og fræðslugildi eyjarinnar.“


Anna Sigríður Valdimarsdóttir lauk B.S-prófi í náttúru- og umhverfisfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands vorið 2010 og hóf M.S-nám haustið 2011 við sama skóla. Sigurður H. Magnússon lauk B.S-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1975 og Ph.D-prófi í plöntuvistfræði frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð árið 1994. Sigurður hefur starfað hjá Náttúrufræðistofnun Íslands frá 1997.
 
Sjá nánar á vef HÍN (http://www.hin.is/)

Vertu félagi HÍN á Facebook (www.facebook.com/hid.islenska.natturufraedifelag)


Raunverulegt vandamál, ekki tækifæri

Þriðja loftslagsskýrsla Sameinuðu þjóðanna fjallar um leiðir til að berjast gegn lofgslagsvánni.

Hún virðist fá takmarkaðan hljómgrunn hérlendis. Til dæmis hefur ekki einn einasti bloggari tekið sig til og sett inn athugasemdir eða hugsanir um þessi efni, hér á Moggablogginu.

Mig grunar að þetta sé bara of alvarleg frétt, og að náttúrulegt viðbragð fólks sé að stinga hausnum í sandinn. Eða hrista hausinn bara og segja, þetta drepur mig ekki í bráð, og halda áfram með líf sitt.

15letters-art-master495

Meðfylgjandi mynd er af vef NY Times.

Málið er bara það að líf okkar mun taka stakkaskiptum ef okkur ber ekki gæfu til að spyrna á móti þessari þróun. Loftslag.is hefur sem betur fer tekið á málinu, og fjalla t.d. um yfirlýsingar Bandarísku vísindaakademíunar.

AAAS, The American Association for the Advancement of Science eru alþjóðleg samtök vísindamanna sem, eins og nafnið gefur til kynna, stuðlar að framgangi vísinda, en samtökin gefa meðal annars út hið virta tímarit Science. Í mars opnuðu samtökin heimasíðu og gáfu út bækling sem heitir Það sem við vitum (e. What We Know). Helstu punktarnir eru þessir:

  1. Vísindamenn eru sammála: loftslagsbreytingar eru hér og nú. Á grunni vel ígrundaðra gagna, hafa um 97% loftslagsvísindamanna komist að þeirri niðurstöðu að loftslagsbreytingar séu í gangi, hér og nú. Þessi samhljómur byggist ekki á einni rannsókn, heldur á stöðugum straumi gagna síðastliðna tvo áratugi..
  2. Við eigum á hættu að keyra loftslagskerfi jarðar í átt að óvæntum, ófyrirsjáanlegum og hugsanlega óafturkræfum breytingum með mjög skaðvænlegum áhrifum. Loftslag jarðar er á braut til hitastigs sem er hærra en jarðarbúar hafa upplifað í milljónir ára. Innan vikmarka þess hitastigs sem núverandi losun við bruna jarðefnaeldsneytis munu valda, eru hitar sem taldir eru geta eyðilegt í stórum stíl samfélög og vistkerfi..
  3. Því  fyrr sem við bregðumst við því minni verður áhættan og kostnaðurinn og það er margt hægt að gera. Að bíða með aðgerðir mun auka kostnað, margfalda áhættu og loka á ýmsa möguleika til að takast á við vandann. Það koldíoxíð sem við framleiðum nú, safnast fyrir í lofthjúp jarðar og er þar í áratugi, aldir og lengur.

Yfirlýsingar hæstvirts forsætisráðherra fyrir nokkru, um að loftslagsbreytingar sé sérstakt tækifæri fyrir Ísland er bæði röng og ber vankunnáttu merki.

Stöð tvö ræddi við Hrönn Egilsdóttur doktorsnema og Jón Ólafsson haffræðing. Í fréttinni sagði:

„Ísland er á versta mögulega stað þegar súrnun sjávar er annars vegar.“ Þetta segir doktorsnemi í jarðvísindum. Hún bendir á að ummæli forsætisráherra um sóknarfæri í kjölfar hnattrænna loftslagsbreytinga séu ekki merkilegt faranesti. Hafrannsóknarstofnun getur ekki sinnt grunnrannsóknum á súrnun sjávar vegna niðurskurðar í fjárframlögum. Ásamt því að benda á hættur sem steðja að matvælaöryggi heimsbyggðarinnar ítrekuðu vísindamenn Milliríkjanefndar Sameinuðu Þjóðann á loftslagsráðstefnunni í Japan í vikunni að brýn þörf sé á frekari rannsóknum á súrnun sjávar á norðurslóðum.

Spurð um ummæli Sigmundar D. Gunnlaugssonar, um að loftslagsbreytingar gefi Íslandi tækifæri, svaraði Hrönn

Varðandi ummæli Sigmundar Davíðs þá sér maður það að þekking á vandanum er kannski ekki til staðar hjá ráðamönnum og það er auðvitað ekki séríslenskt fyrirbæri,

http://www.visir.is/surnun-sjavar–island-a-versta-mogulega-stad/article/2014140…


mbl.is Jarðgas hluti af tímabundinni lausn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fiskeldi, áhrif af sjókvíaeldi og lausnir Málstofa 2

Á árinu verða haldnar málstofur um fiskeldi í kvíum í sjó og á landi, á vegum NASF, Verndarsjóðs villtra laxastofna, Stofnunar Sæmundar fróða við Háskóla Íslands og Líffræðifélags Íslands. Fyrsta málstofan var haldin 17. janúar 2014 og önnur málstofan verður haldin 14. mars næstkomandi.

thingvallavatndwarfeggs2010.jpgÁ næstu málstofu flytja erindi erlendir sérfræðingar sem hafa rannsakað áhrif sjókvíaeldis á nálæg vistkerfi og þekkja reynslu annarra þjóða af laxeldi. Þeir eru dr. Trygve Poppe prófessor við norska dýralæknaháskólann, dr. Paddy Gargan hjá Central Fisheries Board of Ireland, og dr. Bengt Finstad hjá norsku náttúrufræðastofnuninni NINA. Einnig flytja erindi þeir Jón Örn Pálsson MSc fyrir hönd  Landssambands fiskeldisstöðva og dr. Erik Sterud fyrir hönd Landssambands veiðifélaga.

Fjallað verður um sjávarlús í fiskeldi, lyfjagjafir, sjúkdóma og útbreiðslu smits frá fiskeldi í sjó, en allir frummælendur hafa tekið þátt í fjölda rannsókna á þessum sviðum. Að lokum verður opnað fyrir umræður og taka fyrirlesarar og fulltrúar Landssambands fiskeldisstöðva og Landssambands veiðifélaga þátt í pallborðinu.

Málstofan, sem fer fram á ensku, verður haldin á Café Sólon í Reykjavík kl. 13:30 – 16:30 föstudaginn 14. mars 2014.

Nánari upplýsingar Fiskeldi, áhrif af sjókvíaeldi og lausnir Málstofa 2.
 
Fyrsta málstofan Líffræði og umhverfisfræði fiskeldis var vel sótt.
 
Mynd af bleikjuhrognum, Arnar Pálsson 2010.

Frá Kalahari út á sléttuna miklu

Þessar vikurnar erum við blessuð með náttúrulífsþáttum BBC á mánudagskvöldum. RÚV hefur alltaf sett fræðandi efni á oddinn, og þessi sería um Afríku er hreinasta yndi.

Í síðustu viku kynntumst við undrum Kalahari eyðimarkarinnar. Mér fannst alveg magnað upphafsatriðið, þegar flogið er inn yfir hrjóstrugt landið, sem er stráð merkilega reglulegum sandhringjum. Mynstrið minnir reyndar smá á feld blettatígurs eða hýenu, en orsakirnar eru enn á huldu.

Ekki síður stórbrotin voru myndskeið af Spitzkoppe fjallinu eða átökum gíraffatarfanna.

Í uppáhaldi hjá mér var athugunin á lífríki geysistórs neðanjarðarvatns sem fannst undir eyðimörkinni. Þetta minnti dálítið á vísindaskáldskap frá miðbiki síðustu aldar, þar sem Tarzan og félagar lentu kannski í týndum dal fullum af furðuverum og mannskrímslum. Líklega hefði Tarzan haft í fullu tré við Gullgrana í neðanjarðarhellinum, en skáldskapurinn veitir þessari ævintýraveröld enga keppni.

Í kvöld verður þáttur um Afrísku slétturnar, líklega Serengeti að einhverju leyti. Þar sem stórar hjarðir villidýra ferðast um gríðarstórt svæði í leit að fæðu og vatni. Jarðfræði svæðisins er einnig mögnuð, en lífríkið er í mikilli hættu vegna veiðiþjófa og ágangs mannsins.

http://www.bbc.co.uk/programmes/p010jc6p/episodes/guide


Líf á aðeins einni jörð

Líffræðiráðstefnan 2013 var haldin 8. og 9. nóvember síðastliðinn. Á ráðstefnunni voru kynntar margskonar rannsóknir á líffræði en umhverfismál voru einnig í sérstökum í brennidepli.

Ómar Ragnarsson, fjölmiðlamaður og náttúruverndasinni, setti ráðstefnuna í með stuttu ávarpi og lestri á ljóðinu Aðeins ein jörð (Aðeins ein jörð).

Aðeins ein jörð.

Það er ekki´um fleiri´að ræða.

Takmörkuð er á alla lund

uppspretta lífsins gæða.

...

Að auki flutti Þóra Ellen Þórhallsdóttir yfirlitserindi sem kallaðist Afturábak eða nokkuð á leið: Staða náttúruverndar á Íslandi og Þorvarður Árnason erindið Er þörf á sérstöku ráðuneyti umhverfismála á Íslandi?

Leifur Hauksson tók viðtal við Þóru af þessu tilefni og var það flutt í útvarpsþættinum Sjónmál 13. nóvember 2013. Hægt er að hlýða á viðtalið á vef RÚV,  Náttúrufegurðin verður í askana látin.

Að síðustu má benda á ályktun stjórnar Líffræðifélags Íslands um meðferð stjórnvalda á umhverfismálum


Ákall vegna Náttúruminjasafns Íslands

Stjórnir nokkurra félaga og fræðisamtök á sviði náttúrufræða og náttúruverndar, til Mennta- og menningarmálaráðherra Illuga Gunnarssonar, vegna Náttúruminjasafni  í Perlunni. Bréfið er hér prentað í heild sinni.

Undirrituð samtök hvetja menntamálaráðherra eindregið til að þess að sýna djörfung og þor við uppbyggingu Náttúruminjasafns Íslands í Perlunni. Náttúruminjasafn Íslands er lögum samkvæmt eitt þriggja höfuðsafna þjóðarinnar og á að gegna lykilhlutverki í kynningu og fræðslu um náttúru Íslands. Safnið hefur verið á hrakhólum og búið við óviðunandi aðstæður svo áratugum skiptir. Náttúruminjasafn í Perlunni veitir ótal tækifæri og mat fagaðila, m.a.
Framkvæmdasýslu ríkisins, bendir til að aðgangseyrir muni standa undir leiguverðinu (80 milljónir á ári fyrir 3.200 m2, og gott betur). Jafnframt yrði safnið mikilvægur þáttur í uppbyggingu ferðaþjónustunnar. Veglegt höfuðsafn í náttúrufræðum er stolt hverrar velstæðrar þjóðar og dýrmætur fróðleiksbrunnur fyrir þegna og gesti viðkomandi lands. Í ljósi þess að Íslendingar byggja atvinnu sína og líf á náttúru landsins í mjög ríkum mæli, auk þess sem langflestir erlendir ferðamenn sækja landið heim vegna náttúrunnar, skiptir öllu máli að bjóða upp á vandað höfuðsafn um náttúru landsins sem vel er í sveit sett og sómi er að.
Samtökin minna á að Náttúruminjasafn Íslands hefur mikla þýðingu fyrir upplýsingamiðlun og fræðslu gagnvart öllum skólastigum landsins og almenningi.
Slík fræðsla er óformleg í þeim skilningi að hún er ekki beint innan skólakerfisins og í því liggur styrkur hennar.

Félag náttúrufræðikennara á grunnskólastigi, Sigurður Halldór Jesson
Félag raungreinakennara – Valgerður Þ.E. Guðjónsdóttir
Fuglavernd, Jóhann Óli Hilmarsson
Hið íslenska náttúrufræðifélag, Árni Hjartarson
Jarðfræðafélag Íslands, Sigurlaug María Hreinsdóttir
Landvernd, Guðmundur Hörður Guðmundsson
Líffræðifélag Íslands, Arnar Pálsson
Náttúruverndarsamtök Íslands, Árni Finnsson
Samlíf – Samtök líffræðikennara, Ester Ýr Jónsdóttir

Aukreitis:

Grein eftir forstöðumann Náttúruminjasafnsins, Hilmar Malmquist, birtist í fréttablaði dagsins í dag (16. september 2013). Náttúruminjasafn Íslands – gæluverkefni eða þjóðþrifamál?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband