Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Arfleifð Darwins

Stefnumót skilvirkni og breytileika - snertiflötur þroskunar og þróunar

Í aldanna rás hafa náttúruunnendur og fræðimenn heillast af margbreytilegum formum, atferli og lífsháttum ólíkra tegunda. Árið 1858 færðu Charles Darwin og Alfred Wallace rök fyrir mikilvægi náttúrulegs vals í mótun og viðhaldi fjölbreytileika lífvera. Kenningin um þróun vegna náttúrulegs
vals útskýrir samt ekki efnislegar rætur breytileikans; hvernig svartbakar þroskast og krónublöð sólblómanna taka sitt nákvæma form. Eiginleikar lífvera mótast af erfðum, umhverfi og tilviljun. Arfgerð einstaklings í viðeigandi umhverfi leiðir af sér svipgerð í gegnum flókið og fjölþætt ferli sem kallast þroskun. Hér verður fjallað um grundvallaratriði þroskunar og hvernig þau tengjast þróun lífvera. Greinin er þannig uppbyggð að fyrst eru svipfar og erfðir skilgreind, og samspil þeirra og umhverfisins rædd. Síðan verða lögmál þróunar útlistuð. Þroskun er kynnt sérstaklega, og samspil hennar við þróun, t.d. út frá vexti og sérhæfingu fruma. Einnig verður fjallað sérstaklega um örlagakort þroskunar og varðveislu þroskunarferla sem afhjúpa skyldleika lífvera. Að endingu verður rætt um hvernig þróun getur notað breytileika í þroskun, þrátt fyrir að þroskunin sé mjög stöðug.

------------------

ArfleifdDarwins kapa3Þetta er upphaf greinar sem ég skrifaði fyrir Náttúrufræðinginn, sem kom út nú í vikunni. Reyndar hófust skrifin árið 2009 þegar við nokkrir líffræðingar stóðum fyrir fyrirlestraröð um Darwin og útgáfu rigerðarsafns honum til heiðurs. Grein þessi var ekki tilbúin í tíma og varð því ekki hluti af Arfleifð Darwins, þ.e.a.s. bókinni sem kom út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi.

Í hefti Náttúrufræðingsins eru fjöldi áhugaverðra greina, og þegar efnisyfirlitið kemur á vefinn munum við endurprenta það hér.


Arfleifð Darwins: ritdómar

Fyrstu tveir ritdómar um Arfleifð Darwins birtust á undangengnum vikum. Annar þeirra ritaði Brynjólfur Þór Guðmundsson á miðjunni (23. des. 2010), og hinn var í Bændablaðinu (1. tbl. 2011, bls. 24) - sem er aðgengilegt á vefnum (höfundur ritdóms er JVJ).

Lokaorð ritdóms bændablaðisins:

Ástæða er til að hvetja allt áhugafólk um þróun liffræðilegs fjölbreytileika til að kynna sér vel efni þessarar bókar. Hún sýnir vel að kenningar Darwins hafa staðist tímans tönn og eru grundvöllur hugmynda í náttúruvísindum. Hér er komið ákaflega vandað verk sem á næstu árum hlýtur að verða grundvallarrit í þessum efnum fyrir íslenska lesendur.

Brynjólfur segir á Miðjunni:

Guðmundur Eggertsson skrifar svo dæmi sé tekið ágæta grein um uppruna lífs og rekur þar ýmsar kenningar sem hafa verið settar fram í þá veru, sumar sem hafa verið slegnar af og aðrar sem mönnum finnst enn koma til greina. Sennilega eru fáir ef nokkrir betur til þess fallnir en Guðmundur sem sendi einmitt fyrir fáeinum árum frá sér þá mjög svo ágætu bók Leitin að uppruna lífs.

Steindór J. Erlingsson skrifar um hvernig þróunarkenningunni var tekið á Íslandi í fyrstu. Þar er meðal annars að finna þennan gullmola í samantekt þar sem hann fjallar um hvernig Þorvaldur Thoroddsen sneri frá stuðningi við þróunarkenninguna: „Þegar horft er til baka á hin snöggu og algeru umskipti í heimspekilegri afstöðu Þorvalds til náttúrunnar, er freistandi að álykta að hann hljóti að hafa orðið geðveikur.“ Steindór lýsir því reyndar yfir strax í næstu setningu að þetta sé að öllum líkindum ekki raunin heldur megi rekja breytinguna til þróana í eðlisfræði, auk þess sem ótímabært andlát dóttur Þorvalds kann þar að hafa haft áhrif. Er þessi ritgerð nokkuð áhugaverð lesning um móttökur þróunarkenningarinnar hérna og af hverju afstaða manna kann að hafa stjórnast.

Fleiri greinar mætti að ósekju nefna þó það verði ekki gert hér að svo stöddu.

All nokkuð er af skýringarmyndum í bókinni og er það gott því á köflum mega lesendur hafa sig við til að fylgja þræði þó bókin sé vissulega ætluð áhugasömum almenningi. Þetta er kannski ekki mjög hentug lesning fyrir sólarströndina en áhugaverð bók fyrir þá sem vilja kynna sér efnið nánar og gott framtak að leggja fram svona greinasafn sem hvort tveggja heldur arfleifð Darwins á lofti og skýrir hana um leið. Greinarnar eru sem fyrr segir fjölbreyttar og þó viðbúið sé að þær geti vakið misjafnlega mikinn áhuga hjá hverjum og einum gefa þær ágætis vísbendingu um fjölbreytileikann í þessum efnum.

Að lokum má svo geta þess að kápuhönnun Bjarna Helgasonar[tengill AP] er afar vel heppnuð.

Áhugasömum er bent á að nokkrir af kaflahöfundum munu taka þátt í námskeiði á vegum Endurmenntunar HÍ, þar sem farið verður í valda kafla í bókinni og rætt um Charles R. Darwin og þróunarkenninguna í víðu samhengi.

Ritdómur Bændablaðsins er einnig aðgengilegur á pdf-formi á vefsíðu Steindórs J. Erlingssonar. Þar misrituðust reyndar nöfn tveggja kaflahöfunda, "Steindór J. Eiríksson" á að vera Steindór J. Erlingsson, "Agnar Pálsson" á að vera Arnar Pálsson.


Arfleifð Darwins: Þróunarkenningin barst fljótt til Íslands

arfleifddarwins_kapa3_1049132.jpgSteindór J. Erlingsson skrifaði kafla í bókina Arfleifð Darwins um landnám þróunarkenningarinnar á Íslandi. Af því tilefni ræddi María Ólafsdóttir blaðamaður við hann um Þorvald Thoroddsen, vísindasögu og togstreituna á milli þróunarkenningarinnar og kristinnar trúar. Viðtalið birtist í sunnudagsmogganum, 19 desember 2010, og er endurprentað á vef Steindórs. Þar segir meðal annars:

Greinin sem þarna birtist er að hluta til byggð á rannsókn sem var hluti af meistaranámi mínu en líka rannsóknum sem ég [Steindór] hef gert síðar, sérstaklega á Þorvaldi Thoroddsen. Hans saga er mjög sérstök því að hann skipti algjörlega um skoðun á mjög stuttum tíma. Á tímabilinu 1906-1910 umbreyttist hann frá því að vera þróunarsinni og hóflegur stuðningsmaður lýðræðis yfir í að hafna þróunarkenningunni og lýðræðinu sem stjórnskipulagi. En eins og segir í greininni hafa rannsóknir mínar sýnt að þetta voru skiljanleg umskipti þegar tekið var tillit til alls þess sem gerðist í lífi hans á þessum árum,“ segir Steindór.

Blaðamaður spyr um togstreituna milli þróunarfræði og trúar.

Aðspurður hvort enn skiptist menn í jafnar fylkingar með og á móti þróunarkenningu Darwins segir Steindór að svo sé ekki. Í dag sé stuðningurinn við þróunarkenninguna mjög almennur í Vestur-Evrópu. Þá sé athyglisvert að í grein sem birtist í Science fyrir nokkrum árum komi fram að Íslendingar voru í efsta sæti yfir þá sem samþykktu það að maðurinn væri afurð þróunar. Næstminnstur var stuðningurinn hins vegar í Bandaríkjunum og minnstur í Tyrklandi.

„Bandaríkjamenn eru svolítið sér á báti hvað þetta varðar og ég held að það séu ekki nema 12 til 14% þeirra sem trúa því að lífið hafi þróast algjörlega á náttúrulegan hátt eins og Darwin heldur fram og þróunarfræðin. Kannski 20% í viðbót trúa að Guð hafi að einhverju leyti stýrt þessu en restin hafnar þessu algjörlega. Hér í Evrópu er þróunarkenningin almennt viðurkennd. Ég held að skýringin felist í því að við erum með mun frjálslegri viðhorf til trúarbragða heldur en í Bandaríkjunum. Ýmsar skýringar hafa verið lagðar fram um af hverju Vestur-Evrópubúar virðast hafa miklu minni tilhneigingu til þess að trúa en kannanir í Svíþjóð sýna að allt að 75% af þjóðinni hafni eða efist um tilvist persónulegs guðs og í Bretlandi um 40-50%. Eitt af því sem við notum til að skýra þetta er hið sterka velferðarkerfi sem rekið er á Vesturlöndum. Þannig að fólk hér hefur ekki sömu þörf fyrir að leita í trúna og í Bandaríkjunum. Nokkrar rannsóknir hafa sýnt skýrt samhengi þarna á mili. Við getum leyft okkur að hafna Guði því við höfum ríkið til að styrkja okkur,“ segir Steindór.
Áður fyrr segir Steindór hafa verið eðlilegt að menn skiptust meira í hópa því trúin var hornsteinn í evrópskri menningu langt fram á 19. öld. En stuðningur við hana fór að dala með upplýsingu 18. aldar þegar menn fóru að narta í trúna bæði úr hug-, raun- og félagsvísindum.

Steindór segir að fyrir utan þá sem hafni þróunarkenningunni alfarið, af þeim sem hann skrifar um, þá hafi flestir hinna ekki endilega talið hugmyndina um Guð í mótsögn við þróunarkenninguna. En þetta sé spurning um hvernig fólk skilgreini Guð. Því flestir þeirra virðast hafa verið það sem kallast dei-isti. Það er að segja aðhyllst þá hugmynd að það sé Guð þarna fyrir utan sem sett hafi allt af stað en síðan ekki skipt sér meira af málunum.

 Steindór segir að í dag sé í raun alveg hægt að vera dei-isti og aðhyllast þróun. 


Arfleifð Darwin: Uppruni lífsins

Það er allt að verða vitlaust í vísindabloggheimum út af tilkynningu NASA um fréttamannafundinn í kvöld, um merka uppgötvun í stjarnlíffræði.

Lykilvísindamaðurinn í hópnum Felisa Wolfe-Simon (einnig kölluð járn Lísa www.ironlisa.com) hefur verið að rannsaka lífverur í umhverfi sem er ríkt af Arseniki. Arsenik og fósfór eru með svipaða byggingareiginleika, og sú tilgáta hefur verið sett fram að arsenik geti verið staðgengill fosfórs í DNA og öðrum stórsameindum frumna. Þær frumur væru þá annað hvort gamall meiður á tré lífsins á jörðinni eða af óskyldum uppruna. 

Ef orðrómurinn er réttur og fundist hefur lífvera sem nýtir sér arsenik í stað fosfórs gerir það okkur kleift að skilgreina betur grundvallareiginleika lífvera. Nota allar lífverur sambærileg kerfi, eða komast þær af með ólík kerfi? Þróast sama erfðatáknmál oft eða er erfðatáknmál lífveru af óskyldum uppruna allt öðru vísi en það sem við þekkjum? (erfðatáknmálið er það sama í öllum ÞEKKTUM lífverum á jörðinni.)

Stjörnufræðivefurinn fylgist með málinu - vaktið færslurnar þeirra eftir fremsta megni.

Ég vildi bara benda fólki á að Guðmundur Eggertsson, prófessor emeritus í erfðafræði við HÍ hefur skrifað heilmikið um uppruna lífs á Íslensku. Hann skrifaði bókina Leitin af uppruna lífs: líf á jörð, líf í alheimi og kafla í bókina Arfleifð Darwins (sjá einnig fésbók). Hann tekur reyndar ekki fyrir hugmyndir Felisu Wolfe-Simon, en ræðir víðtækar kenningar um hvort að efnaskipti eða eftirmyndun hafi verið fyrstu skrefin við uppruna lífsins. Úr kafla hans:

 

Þótt ýmsar snjallar hugmyndir um uppruna lífsins á jörðinni hafi komið fram fer því augljóslega fjarri að gátan hafi verið leyst. Færustu vísindamönnum ber heldur ekki saman um hver af hugsanlegum leiðum til lífs sé líklegust eða við hvaða skilyrði líf hafi kviknað. Vandi upprunans er miklu meiri en menn grunaði meðan þekking á innviðum lifandi frumu var enn takmörkuð. Gjáin milli hins lifandi og hins lífvana er dýpri en menn höfðu getað gert sér í hugarlund.

Þegar upprunans er leitað er eðlilegt að vísindamenn reyni að átta sig sem best á eðli lífsins. Eins og rakið hefur verið hér að framan eru afar sterk rök fyrir því að allt líf jarðar sé af sömu rót og við þekkjum ekkert annað líf til að bera það saman við. Allar líkur verður að telja á því að líf sem kviknað hefði óháð okkar þekkta lífi væri í ýmsum atriðum frábrugðið því. Hugsanlegt er að fleiri og e.t.v. mjög ólíkar tilraunir til lífs hafi „verið reyndar“ í árdaga, en lítil von er til að merki um þær eigi eftir að finnast. Skyldu t.d. hafa verið til lífvísar sem tóku D-amínósýrur fram yfir L-amínósýrur? Leitað hefur verið að örverum sem það gera, en hingað til án árangurs.1 Helsta vonin til að finna annars konar líf er bundin öðrum plánetum eða tunglum þeirra. Fyrst um sinn verða menn að láta sér nægja plánetur sólkerfisins og er langmest von til að líf gæti leynst á Mars. Það væri mikill fengur ef líf fyndist þar, sérstaklega ef það væri ótvírætt af öðrum uppruna en líf jarðar. Slíkur fundur mundi ekki einungis auka skilning á lífinu, heldur mætti af honum álykta að kviknun lífs sé ekki nauðasjaldgæfur atburður, heldur sé líklegt að líf sé til víðs vegar um alheim.

Meðan við höfum hvorki framandi líf í höndum né neinn skilning á því hvernig líf kviknaði á jörðinni hlýtur að ríkja alger óvissa um það hversu líklegur atburður kviknun lífs er eða hefur verið í árdaga. 

1 Davies og Lineweaver 2005.


mbl.is Tengist arsenik uppruna lífsins?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Arfleifð Darwins: Þróun atferlis

Hið íslenska bókmenntafélag gefur út bókina Arfleifð Darwins, sem við höfum kynnt með pistlum á þessari síðu. Valdir kaflar úr bókinni eru aðgengilegir á darwin.hi.is og Facebook síða helguð bókinni hefur verið sett í loftið. Hrefna Sigurjónsdóttir og Sigurður S. Snorrason skrifuðu kafla um þróun atferlis, sem þau kynntu í fyrirlestri á Darwin dögunum fyrir ári síðan. Hér eru brot úr kafla þeirra (pdf af fyrstu þremur síðum kaflans má sjá á Darwin.hi.is).
Atferli einstaklings, dýrs eða manns, er í raun allt það sem hann gerir, hvernig hann hegðar sér. Atferlisfræðingar leitast við að greina og flokka atferli og svara spurningum er lúta að lífeðlisfræði þess og þróun. feður dýraatferlisfræðinnar eða eþólógíunnar (ethology), eins og fræðigreinin var gjarnan nefnd, eru oftast taldir vera þrír, Konrad Lorenz (1903–1989),
Karl von Fritz (1886–1982) og Niko Tinbergen (1907–1988). Þeir gerðu garðinn frægan um miðbik síðustu aldar og hlutu nóbelsverðlaunin fyrir rannsóknir sínar árið 1973. Mun það vera í eina skiptið sem dýrafræðingar hafa fengið þau verðlaun. Þó er óhætt að segja að Charles Darwin sé hinn eini og sanni frumkvöðull á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum. Hann lýsti hegðun dýra og túlkaði hana í ljósi aðlögunargildis í sínum þekktustu ritum, Uppruna tegundanna (On the Origin of Species), The Descent of Man, and Selection in Relation to Sex og The Expression of the Emotions in Man and Animals...
Árið 1975 kom út stór og merkileg bók eftir Edward O. Wilson, skordýrafræðing við Harvard-háskóla, sem ber heitið Sociobiology (félagslíffræði). Bókin markaði upphafið að uppgangi hinnar nýju dýraatferlisfræði þar sem hegðun dýra, einkum félagshegðun, er skoðuð í ljósi vist fræði og þróunarfræði og áhersla lögð á að atferli sé að einhverju leyti arfbundið. Wilson tók fyrir alla helstu dýrahópa og í síðasta kaflanum fjallaði hann um hegðun manna á sama hátt. Ári seinna kom út bókin The Selfish Gene eftir breska þróunarlíffræðinginn richard Dawkins. Dawkins lagði áherslu á að það væru í raun genin sem náttúrulegt val snerist um. Genin „lifðu“ áfram en ekki einstaklingarnir, hvað þá hóparnir. Óhætt er að segja að þessi mikla áhersla á aðlögunargildi hegðunar, hafi valdið miklum úlfaþyt í vísindasamfélaginu. 

Arfleifð Darwins: Ljósmyndir í pressunni

Hafdís Hanna Ægisdóttir, einn ritstjóra bókarinnar Arfleifð Darwins og  fór til Galapagoseyja fyrir nokkrum árum til að stunda rannsóknir. Hún heldur nú ljósmyndasýningu: á slóðum Darwins í Te og Kaffi Eymundsson Austurstræti. Hún tók ógrynni ljósmynda, úrval má sjá í Te og Kaffi og fleiri að auki á myndasíðu hennar - http://www.flickr.com/photos/hafdishanna. Fréttablaðið birti um helgina stutta umfjöllun um ljósmyndasýninguna, og á Ferðapressunni var rætt við Hafdísi. Greinin heitir Galapagoseyjar - draumur allra náttúruunnenda.

Þar segir:

Að komast til Galapagoseyja er fjarlægur draumur hjá mörgum enda ferðalag þangað dýrt. Æ fleiri láta þó drauminn rætast og fljúga þá frá Ekvador til eyjunnar Baltra í Galapagoseyjaklasanum og fara þaðan í um vikubátsferð um eyjarnar. Þá er gist um borð í bátnum, siglt á milli eyjanna á næturnar og lífríkið skoðað á daginn...

Hafdís Hanna segir að það sé mjög þægilegt að vera ferðamaður á Galapagoseyjum. Gistingu og mat er hægt að fá á sanngjörnu verði í bænum Puerto Ayora á eyjunni Santa Cruz en hún mælir reyndar með því að fólk kaupi sér  pakkaferð með einhverjum að þeim fjölmörgu leiðsögubátum sem sigla um svæðið. Það sé langbesta og oft eina leiðin til þess að sjá lífríki eyjanna. Slíkar ferðir eru þó dýrar. Eins mælir hún með heimsókn í Charles Darwin rannsóknarstöðina og fyrir þá sem hafa áhuga á því að kafa við eyjarnar þá er viðurkennd köfunarmiðstöð með PADI réttindi í Puerto Ayora.

5105735819_8f438d150cMynd tekin af Hafdísi á Galapagoseyjum, öll réttindi áskilin - copyright.

Sjá einnig fésbókarsíðu Arfleifðar Darwins


Arfleifð Darwins:Flokkun lífvera

Sumir flokka frímerki, aðrir fótboltaspil, enn aðrir kærustur og Hemúllinn plöntur. Börn raða hlutum upp, bílum í röð eftir stærð, kúlum eftir lit og dúkkum eftir innri verðleika. Þörfin fyrir að flokka og skipa hlutunum í kerfi virðist vera okkur ásköpuð - og í sumum tilfellum öðrum þörfum sterkari. Náttúrufræðingar byrjuðu snemma að flokka steina og lífverur. Stigi náttúrunnar (scala naturae - lífsstiginn) var ein fyrsta hugmyndin, þar sem efni og lífverum er raðað í einfalda röð (frá eter, vatni...upp í manninn). Áður en Darwin kom til sögunnar var flokkun lífvera í algerri óreiðu. Hann setti fram hugmyndina um þróunartré og útskýrði hvers vegna sumir eiginleikar geta breyst hratt í einum hópi lífvera en verið eins í öðrum hópi. Guðmundur Guðmundsson  skrifar um flokkun í bókinn Arfleifð Darwins (kaflinn heitir Áhrif darwins á flokkunarfræði 19. aldar og nútímans) og hefur mál sitt á þessum orðum:

Flokkunarfræðin er ein af elstu sérgreinum líffræðinnar og sennilega er hún jafngömul mannlegri rökhugsun og siðmenningu. Eflaust hefur hörð lífsbaráttan kennt áum mannkyns að flokka dýr og plöntur eftir einhvers konar reglu við leit að nýjum nytjategundum eða til að forðast þær eitruðu eða varasömu. Meginviðfangsefni flokkunarfræðinnar hefur ávallt síðan verið að leita að kerfi til að kortleggja og skýra fjölbreytni bæði steingerðra og núlifandi tegunda. Þegar aldirnar liðu urðu flokkunarkerfin samofin allskyns hugmyndum um eðli, uppruna, skipulag, sköpun, tilgang eða hvaðeina annað sem menn töldu hluta af gangverki lífheimsins.
Á öndverðri 19. öld var það almennt viðtekin skoðun að flokkunarkerfin ættu að endurspegla náttúruleg tegundavensl, í þeim skilningi að þau væru raunsönn fremur en að flokka tegundir eftir hentugleikum hverju sinni. Þó var nokkuð á reiki hvað nákvæmlega átt var við með náttúrulegum venslum. Eina þekkta leiðin til að uppgötva náttúrulega tegundahópa var að kortleggja á ýmsa vegu það sem var líkt og ólíkt með tegundum. En hlutlægar aðferðir til að sannreyna hvaða einkenni það væru sem afhjúpuðu hin raunverulegu tegundavensl hvíldu á veikum grunni. Flokkunarfræðingar litu gjarnan svo á að viðfangsefni þeirra væri að lýsa tegundum. Fyrst beindist athyglin að ytri einkennum og innri líffærum, en þegar tækninni fleygði fram bættust við sífellt nákvæmari upplýsingar um mismunandi vefi og frumugerðir. Á 19. öld lá þegar fyrir mikið safn upplýsinga um allskyns sértæk og sameiginleg tegundaeinkenni. En upplýsingar einar og sér hrökkva skammt til að flokka lífverur, vegna þess að hvorki flokkunarkerfið né úrvinnsla upplýsinga eru sjálfgefin. Tiltæk gögn um tegundir hafa aukist gríðarlega síðan á dögum Charles Darwin, einkum með nákvæmri þekkingu á byggingu stórsameinda og erfðaefnis. Meginviðfangsefni flokkunarfræðinnar er þó enn óbreytt – að þróa aðferðir til að leiða líkur að náttúrulegum venslum tegunda og skipa í kerfi samkvæmt því.

Guðmundur þýddi uppruna tegundanna sem einnig kom út hjá HIB.


Arfleifð Darwins: af hverju stunda ekki fleiri kynæxlun?

Fyrir rúmum áratug sótti ég samdrykkju háskólanema í líffræði heimspeki og guðfræði. Fjallað var um hvort réttlætanlegt væri að klóna lífverur eða ekki. Auvitað man ég ekki orðaskipti og atburðarásina í smáatriðum, en fékk fína tusku í andlitið fyrir athugasemd mína um notagildi kynæxlunar (ég var með lista af punktum um ágæti kynæxlunar, og hélt því fram að klónun væri ónauðsynleg). Ég man ekki hver það var, en viðkomandi benti mér góðlátlega á að kynæxlun væri ekki það sama og kynlíf. Vissulega fer þetta stundum saman hjá mannfólki, en undantekningar eru þekktar. Kynlíf bleikjunnar er t.d. merkilega platóskt. Hængurinn og hrygnan dansa í vatninu, en snertast ekkert, og að endingu dæla þau kynfrumum sínum á botn vatnsins eða læksins og vona að allt fari vel. Það þarf sjúklega snertifælið mannfólk væri til í að stunda svoleiðis "kynlíf".

Kynæxlun er reyndar ráðgáta. Hvers vegna í ósköpunum ættu lífverur að eltast við það að finna maka, eyða púðri í að ná athygli hans, leggja orku í kynfrumur en fá síðan bara að setja HELMING af genunum sínum í hvert afkvæmi? Það væri miklu skynsamlegra að búa bara til einfalt ljósrit af sjálfum sér, það væri bæði ódýrara, fljótlega og tryggt að hver einstaklingur væri með afrit af ÖLLUM genum foreldrisins.

SnaebjornPalsson_ArfleifdDarwins_kynaexlun.jpgSamt sem áður er kynæxlun ríkjandi æxlunarform meðal fjölfrumunga. Það er einnig forvitnilegt að tegundir sem hafa lagt kynæxlun á hilluna og nota eingöngu kynlausa æxlun, þær virðast ekki endast. Ef þú stundar kynlausa æxlun, þá eru meiri líkur á að tegundin þín deyji út. Þetta hljómar smá eins og áfellisdómur predikarans - sjálfsfróun er ekki guði þóknanleg!

Snæbjörn Pálsson skrifaði kafla í bókina Arfleifð Darwins um þetta efni. Hann fjallar um ráðgátuna um kynæxlun og tíundar þær skýringar sem settar hafa verið fram á þessu furðulega fyrirbæri sem kynæxlun er.

kapaarfleifddarwins.jpg

Snæbjörn var einnig í viðtali hjá Birni og Sævari í Vísindaþættinum á útvarpi sögu nú í vikunni. Hann fjallaði þar meðal annars um þróun kynæxlunar, og líffræðilega fjölbreytni.

Kápan á Arfleifð Darwins var hönnuð af Bjarna Helgasyni listamanni. Hann býr í Bjadddnalandi (www.bjadddni.com) og hefur verið að hanna boli byggða á teikningum sínum fyrir kápuna á Arfleifð Darwins. Ég hef séð prufur og fullyrði að myndirnar eru það fegursta sem fest hefur verið á tau hérlendis á öldinni.

Leiðrétting: Vendetta benti mér á ritvillu, í setningunni "Ef þú stundar kynlausa æxlun, þá eru meiri líkur á að tegundin þín deyji út" stóð kynæxlun, sem kollvarpar merkingunni.


Arfleifð Darwins: týndi kaflinn

ArfleifdDarwins kapa3Þegar við Steindór og Hafdís settum saman lista af köflum og viðfangsefnum fyrir Arfleifð Darwins, var hugmyndin að ég myndi fjalla um tengsl þroskunar og þróunar. Síðan gekk einn höfundur úr skaftinu og enginn eftir til að fjalla um þróun mannsins. Þar sem ég hef kennt þróun mannsins í námskeiðum í mannerfðafræði og þróunarfræði við HÍ varð úr að ég tæki það efni að mér. Sá kafli óx og dafnaði, og varð hinn bærilegasti (að mér sjálfum finnst). Sýnishorn úr kaflanum er aðgengilegt á darwin.hi.is (sem pdf skrá), og honum lýkur á þessum orðum:

Darwin var mikil mannvinur og hafa Adrian Desmond og James Moore fært rök fyrir því að andúð hans á þrælahaldi hafi orðið uppsprettan að hugleiðingum hans um þróun tegundanna. Kafli í nýlegri bók þeirra um Darwin heitir einmitt „sameiginlegur skyldleiki, frá forföður allra manna til forföður allra spendýra“. Darwin var tregur til að ræða líffræði og þróun mannsins, en með kenningu sinni og Wallace, bókum sínum og fádæma innsæi og nærgætni opnaði hann okkur leið til að rannsaka eðli og eiginleika mannskepnunnar. Hann gerði sér fyllilega grein fyrir „dýrslegum“ uppruna mannsins. engu að síður var honum samfélagsleg ábyrgð hugleikin, en það er fátíður eiginleiki meðal dýra merkurinnar. Darwin
hvetur okkur til þess að bæta líf meðbræðra okkar, því „ef eymd og fátækt meðbræðra okkar er ekki orsökuð af lögmálum náttúrunnar heldur stofnunum og gerðum mannsins, er synd vor mikil“.

Darwin 1839: 500. „if the misery of our poor be caused not by the laws of nature, but by the institutes of man, great is our sin.“

Mér var ekki unnt að klára kaflann um tengsl þróunar og þroskunar, en blessunarlega bauð Vísindafélag íslendinga mér að halda erindi á þessum nótum. Í kvöld mun ég halda fyrirlestur sem kallast "Fjölbreytileika lífvera: samspil þroskunar og þróunar"Ég verð að viðurkenna örlítinn taugatitring. Líklega til vegna þess að fyrir tæpu ári flutti ég versta erindi sem ég hef nokkurn tímann flutt, á 150 útgáfuafmæli Uppruna tegundanna, sem haldið var af Háskóla Akureyrar og Háskólanum á Hólum. Búið er gert,  og betur verður gert í kvöld. Fyrirlesturinn er kl 20:00 í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu, aðgangur ókeypis og öllum heimill.

Ég mun ræða um það hvernig náttúrulegt val leiðir til breytinga á útliti og eiginleikum lífvera og hvernig það getur leitt til breytinga í genunum sem nauðsynleg eru fyrir þroskun viðkomandi eiginleika. Einnig mun ég fjalla um lögmál genastjórnunar, sem ákvarða hvar og hvenær kveikt er á hverju geni, og hvernig þau lögmál tengjast þróun tegundanna. 

Veigamesta hugmyndin er sú að jafnvel þótt að náttúrulegt val viðhaldi einhverjum eiginleika, eins og t.d. hryggjasúlu eða skotti, þá getur genavirkið sem liggur að baki eiginleikanum tekið breytingum. Þannig að jafnvel þótt útlitið breytist ekki getur innhaldið breyst. Það getur m.a. útskýrt hvers vegna tegundir sem eru mjög áþekkar í útliti geta ekki eignast lifandi eða frjó afkvæmi.

Ritnefndin er félaginu sérstaklega þakklát fyrir að styrkja útgáfu bókarinnar. 


Arfleifð Darwins: Myndir frá Galapagoseyjum

Hafdís Hanna Ægisdóttir opnaði á laugardaginn ljósmyndasýningu: á slóðum Darwins í Te og Kaffi Eymundsson Austurstræti. Hafdís Hanna er einn ritstjóra bókarinnar Arfleifð Darwins og  fór til Galapagoseyja fyrir nokkrum árum til að stunda rannsóknir. Hún tók ógrynni ljósmynda, úrval má sjá í Te og Kaffi og fleiri að auki á myndasíðu hennar - http://www.flickr.com/photos/hafdishanna. Ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir því að myndirnar séu falar.

hhae_mynd3.jpg Mynd Hafdís H. Ægisdóttir - copyright.

Sýningin stendur yfir frá 23. október - 23. nóvember 2010.

ArfleifdDarwins kapa3Bókin Arfleifð Darwins, þróunarfræði, náttúra og menning er gefin út í tilefni þess að í fyrra voru 150 ár liðin frá útgáfu Uppruna tegundanna og 200 ár frá fæðingu Charles R. Darwin. Markmið bókarinnar er að kynna íslendingum þróunarkenninguna, sem varpar ljósi á flest líffræðileg fyrirbæri og hefur vægi í læknisfræði, jarðfræði og jafnvel tölvunarfræði.

Hið íslenska bókmenntafélag gefur bókina út og býður í samstarfi við Bóksölu stúdenta upp á tilboðsverð á bókinni allan októbermánuð.

Sjá einnig fésbókarsíðu Arfleifðar Darwins.

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband