Færsluflokkur: Arfleifð Darwins
22.10.2010 | 13:17
Arfleifð Darwins: Ljósmyndasýning og tilboð í bóksölu
Hafdís Hanna einn ritstjóra bókarinnar Arfleifð Darwins fór til Galapagoseyja fyrir nokkrum árum til að stunda rannsóknir. Hún tók ógrynni ljósmynda og ætlar að sýna nokkrar þeirra í Te og Kaffi í Eymundsson:
Ljósmyndasýningin "Á slóðum Darwins" verður opnuð laugardaginn 23. október kl. 16 í Te & Kaffi í Eymundsson, Austurstræti.
Á sýningunni ber að líta myndir af lífríki og landslagi Galapagoseyja sem líffræðingurinn Hafdís Hanna Ægisdóttir tók á fimm vikna rannsóknarferð um eyjarnar.
Sýningin er haldin í tilefni af útgáfu bókarinnar "Arfleifð Darwins - þróunarfræði, náttúra og menning" sem nýverið kom út á vegum Hins íslenska bókmenntafélags.
Sýningin mun hanga uppi frá 23. október - 23. nóvember 2010.
Fyrir nokkrum vikum var haldin útgáfuhátíð bókarinnar Arfleifð Darwins, þróunarfræði, náttúra og menning. Bókin er gefin út í tilefni þess að í fyrra voru 150 ár liðin frá útgáfu Uppruna tegundanna og 200 ár frá fæðingu Charles R. Darwin. Markmið bókarinnar er að kynna íslendingum þróunarkenninguna, sem varpar ljósi á flest líffræðileg fyrirbæri og hefur vægi í læknisfræði, jarðfræði og jafnvel tölvunarfræði.
Hið íslenska bókmenntafélag gefur bókina út og býður í samstarfi við Bóksölu stúdenta upp á tilboðsverð á bókinni allan októbermánuð.
Sjá einnig fésbókarsíðu Arfleifðar Darwins.
Arfleifð Darwins | Breytt 19.1.2011 kl. 12:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2010 | 17:33
Arfleifð Darwins: Ljósmyndasýningin á slóðum Darwins
Hafdís Hanna einn ritstjóra bókarinnar Arfleifð Darwins fór til Galapagoseyja fyrir nokkrum árum til að stunda rannsóknir. Hún tók ógrynni ljósmynda og ætlar að sýna nokkrar þeirra í Te og Kaffi í Eymundsson (sjá tilkynningu og mynddæmi):
Ljósmyndasýningin "Á slóðum Darwins" verður opnuð laugardaginn 23. október kl. 16 í Te & Kaffi í Eymundsson, Austurstræti.
Á sýningunni ber að líta myndir af lífríki og landslagi Galapagoseyja sem líffræðingurinn Hafdís Hanna Ægisdóttir tók á fimm vikna rannsóknarferð um eyjarnar.
Sýningin er haldin í tilefni af útgáfu bókarinnar "Arfleifð Darwins - þróunarfræði, náttúra og menning" sem nýverið kom út á vegum Hins íslenska bókmenntafélags.
Sýningin mun hanga uppi frá 23. október - 23. nóvember 2010.
Mynd Hafdís H. Ægisdóttir - copyright.
Hafdís er plöntuvistfræðingur sem hefur rannsakað dreifingu plantna í Ölpunum og ritaði kafla um Lífríki eyja: Sérstaða og þróun (Landnám Íslands)
í bókina Arfleifð Darwins. Hún hefur einnig haldið ríkulega myndskreytta fyrirlestra um ferð sína til Galapagos (Erindi: Lífríki og jarðfræði Galapagos) og lífríki á eyjum (Lífríki eyja: sérstaða og þróun).
Hið íslenska bókmenntafélag gefur Arfleifð Darwins út og býður í samstarfi við Bóksölu stúdenta bókina á tilboðsverði allan októbermánuð.
Sjá einnig fésbókarsíðu Arfleifðar Darwins og tilkynningu um ljósmyndarsýningu.
Arfleifð Darwins | Breytt 19.10.2010 kl. 15:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.10.2010 | 10:02
Arfleifð Darwins: á 30% afslætti í Bóksölu stúdenta
Fyrir rúmri viku var haldin útgáfuhátíð bókarinnar Arfleifð Darwins, þróunarfræði, náttúra og menning. Bókin er gefin út í tilefni þess að í fyrra voru 150 ár liðin frá útgáfu Uppruna tegundanna og 200 ár frá fæðingu Charles R. Darwin. Markmið bókarinnar er að kynna íslendingum þróunarkenninguna, sem varpar ljósi á flest líffræðileg fyrirbæri og hefur vægi í læknisfræði, jarðfræði og jafnvel tölvunarfræði. Eins og við segjum í inngangi:
Rannsóknir á þróun eru raunvísindi. Því hefur verið haldið fram að þróunarkenningin sé ekki prófanleg, því að hún staðhæfi að lífið hafi orðið til einu sinni á jörðinni og að slíkar sögulegar staðhæfingar sé ekki hægt að prófa eða afsanna. Þetta er misskilningur. Þróunarkenning Darwins er samsett úr fjölmörgum prófanlegum tilgátum sem fjalla t.d. um byggingu þróunartrésins, náttúrulegt val, tilurð aðlagana og áhrif annarra krafta. Um ástæður þróunar, byggingu þróunartrésins og breytingar, t.d. í steingervingasögu, má setja fram tilgátur sem hægt er bæði að styðja og hafna. Þróunarkenningin hefur staðist öll próf, og því má tala um hana sem staðreynd. [skáletrun AP]
Hið íslenska bókmenntafélag gefur bókina út og býður í samstarfi við Bóksölu stúdenta upp á tilboðsverð á bókinni allan októbermánuð.
Fjallað hefur verið um bókina í Vísindaþætti Útvarps sögu, Víðsjá og Samfélaginu í nærmynd.
Sjá einnig fésbókarsíðu Arfleifðar Darwins.
Arfleifð Darwins | Breytt s.d. kl. 10:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.10.2010 | 14:06
Arfleifð Darwins: í útvarpinu
Í gær (5 október 2010) var haldið upp á útgáfu bókarinnar Arfleifð Darwins, þróunarfræði, náttúra og menning. Hátíðin var vel sótt og tókst ljómandi vel á flesta kanta, það vantaði reyndar meiri ost. (En hvenær er svo sem til nóg af osti, eins og Wallace félagi Gromits segir. Það er annar sálmur.) Af þessu tilefni var fjallað um bókina í Samfélaginu í nærmynd. Þar ræðir Leifur Hauksson við Hafdísi Hönnu Ægisdóttur, um bókina og rannsóknir hennar á plöntum á eyjum. Hún fjallaði einmitt um lífríki á eyjum í kafla sínum í bókinni. Hún segir meðal annars frá ferðalagi Darwins:
Árið 1831 fékk Charles Robert Darwin, þá 22 ára gamall, boð um að taka þátt í nokkurra ára könnunarleiðangri á skipi hans hátignar, H.M.S. Beagle. Aðdragandinn var sá að í Cambridge, þar sem Darwin hafði stund - að guðfræðinám, kynntist hann grasafræðingnum John Henslow (1796 1861) sem kveikti hjá Darwin ástríðu fyrir náttúrunni. Henslow leist vel á þennan unga stúdent og mælti með honum við skipherrann Robert Fitzroy (18051865) sem þá leitaði manns sem gæti verið honum félagi á þeirri löngu siglingu sem fram undan var. Vegna stéttaskiptingar þótti ekki við hæfi að skipherrar blönduðu geði við aðra skipverja og hafði þessi einangrun þeirra á skipum breska flotans áður valdið sárum einmanaleika, sturlun og jafnvel sjálfsvígum. Þar sem Darwin þótti af nógu góðum ættum til að fitzroy skipherra gæti átt við hann samskipti, var hann ráðinn til að veita skipherranum félagsskap í leiðangrinum og sinna jafnframt athugunum á náttúrufari. Skipið sigldi um heimsins höf í um fimm ár (18311836) og nýtti Darwin tímann vel, safnaði sýnum, fræddist um lífríki og jarðfræði og uppgötvaði undur veraldarinnar. Þann 15. september 1835 kom leiðangurinn til Galapagoseyja...
Miðvikudaginn 6. október var Guðmundur Ingi Markússon í viðtali í Víðsjá. Hér verður settur inn tengill á þáttinn þegar hann verður kominn á vef RÚV. Guðmundur segir í grein sinni:
Orðatiltækið hinir hæfustu lifa af (survival of the fittest) er ekki ættað frá Darwin heldur Herbert Spencer (18201903), hinum eiginlega upphafsmanni félagslegs darwinisma. Spencer leit svo á að þróun væri almennt lögmál sem stuðlaði að því að einföld fyrirbæri yrðu flóknari, sérhæfðari og betur samhæfð þróun var m.ö.o. framþróun (progress) og sem almennt lögmál átti það jafnt við um tilurð sólkerfa, lífvera og samfélaga. Hvað framþróun samfélaga varðaði einkenndist hún af því að
frumstæðari og einfaldari samfélagsgerð vék fyrir flókinni verkaskiptingu og iðnvæðingu. samkvæmt Spencer stuðlaði lífsbaráttan að því að hinir hæfustu lifðu af sem síðan leiddi til betra samfélags. Hvað samfélagsmál varðaði talaði Spencer fyrir harðri einstaklingshyggju og gegn hvers kyns ríkisafskiptum og félagslegum umbótum. eina færa leiðin til þess að bæta samfélagið var að leyfa þróunarferlinu að hafa sinn gang og láta þá veiku víkja fyrir hinum sterkari. Með því að skerpa á lífsbaráttunni mætti ýta enn frekar undir framfarir. áhrifa Spencers gætti víða í stjórnmálum,
menntamálum og viðskiptalífinu, en einkum áttu sjónarmið hans hljómgrunn í Bandaríkjunum, enda gáfu þau lausbeisluðum kapítalisma náttúrulegt yfirbragð.
Leiðrétting: í fyrri útgáfu var sagt að viðtalið við Guðmund væri 5 okt. Einnig var bætt inn tengli á upptöku af þættinum á vef RUV. Takk Villi fyrir ábendinguna.
Arfleifð Darwins | Breytt 18.10.2010 kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.10.2010 | 10:46
Arfleifð Darwins: útgáfupartí í dag 5 október 2010
Hið íslenska bókmenntafélag gefur út bókina Arfleifð Darwins, sem við höfum kynnt með pistlum á þessari síðu. Valdir kaflar úr bókinni eru aðgengilegir á darwin.hi.is og Facebook síða helguð bókinni hefur verið sett í loftið.
Útgáfuhátíðin verður í dag (5 október 2010) í Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands (frá 16:30 til 18:00). Um verður að ræða stutta kynningu, tvö 10 mínútna erindi og síðan léttar veitingar.
16:30 Kynning á bókinni Arfleifð Darwins
16:40 16:50 Þáttur plöntukynbóta í fæðuöryggi heimsins - Áslaug Helgadóttir, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands
16:50 17:00 Hvunndagshetjan Darwin Guðmundur Guðmundsson, forstöðumaður Safna- og flokkunarfræðideildar Náttúrufræðistofnunar Íslands
17:00 18:00 Léttar veitingar - bókin verður til sýnis og til sölu.
Útgáfuhátíðin er öllum opin. Fyrirlestrarnir tveir verða fluttir af valinkunnum vísindamönnum, sem bæði eru þekkt fyrir að skemmtilega og lifandi framsögu.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:Arfleifð Darwins | Breytt 18.10.2010 kl. 17:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.10.2010 | 09:51
Arfleifð Darwins á Facebook
Arfleifð Darwins fjallar um þróun lífvera, fjölbreytileika náttúrunnar, sérstöðu mannsins og líffræðilegar undirstöður menningar og trúarbragða.
Bókin er skrifuð fyrir upplýstan (lesist forvitinn) almenning*, framhalds og háskólanema. Hún tekst á við spurningar á borð við:
- Hvers vegna lífverur stunda kynæxlun?
- Hver er uppruni lífsins?
- Hvað eru lifandi steingervingar?
- Hvernig tóku íslendingar þróunarkenningunni?
- Veldur þróun sjúkdómum?
- Hver eru tengsl þróunarfræði og trúabragða?
Hafdís Hanna setti saman Fésbókarsíðu fyrir Arfleifð Darwins - vinsamlegast lítið þar við og deilið með vinum ykkar ef þið teljið verkið þess virði.
Útgáfupartí bókarinnar verður haldið á morgun - þriðjudaginn 5 október (milli kl 16:30 og 18:00 í Öskju náttúrufræðihúsi HÍ). Allir eru velkomnir, mætið þegar þið getið.
*Ég hef aldrei skilið orðið almenningur, það þýðir í raun allir, nema viðkomandi sé með einhverja ranghugmyndir um ágæti sitt eða klíkunnar sem hann tilheyrir (Fjármagnseigindur og almenningur, klerkar og almenningur, fræðimenn og almenningur). Ég vil undirstrika að ég tel ekki að fræðimenn eða vísindamenn séu á einhvern hátt æðri eða betri en meðalborgarinn.
Arfleifð Darwins | Breytt 18.10.2010 kl. 17:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2010 | 16:22
Steindór, Einar og Arfleifð Darwins
Félagi Steindór J. Erlingsson var í viðtali í vísindaþættinum á útvarpi sögu fyrr í vikunni (hlýða má á viðtalið á stjörnufræðivefnum). Hann var að kynna bókina Arfleifð Darwins, þróunarfræði, náttúra og menning, sem gefin er út af Hinu íslenska bókmenntafélagi.
Á þriðjudaginn, 5 október verður útgáfuhátíð bókarinnar haldin, allir eru velkomnir. Hún fer fram kl 16:30 í Ösku, náttúrufræðihúsi HÍ. Höfundar tveggja kafla bókarinnar munu halda erindi.
Guðmundur Guðmundsson (sem þýddi Uppruna tegunanna á íslensku) mun fjalla um Hvunndagshetjuna Darwin.
Áslaug Helgadóttir mun fjalla um mikilvægi plöntukynbóta fyrir fæðuöryggi heimsins.
Sýnishorn úr bókinni eru nú aðgengileg á darwin.hi.is. Til að mynda er um að ræða fyrstu 3 síður úr fyrsta kafla bókarinnar, sem Einar Árnason ritar. Í fyrstu málsgrein segir Einar:
Þróun er staðreynd.
Það er staðreynd að jörðin er meira en 4500 milljón ára gömul og höfin meira en 3600 milljón ára. Það er staðreynd að líf byggt á frumum hefur verið til á jörðinni í að minnsta kosti helming þess tíma. Það er staðreynd að fjölfrumungar voru til á jörðinni fyrir 800 milljón árum. Það er einnig staðreynd að margir hópar núlifandi lífvera voru ekki til í fyrndinni. fyrir 250 milljónum ára voru hvorki til fuglar né spendýr...[]...
Það er staðreynd að erfðaefni allra lífvera er annaðhvort DNA eða RNA. sama táknmál er notað hjá öllum lífverum við þýðingu erfðaefnis yfir í röð amínósýra í prótínum.3 en það er ekki bara táknmál erfða sem er eins hjá öllum lífverum. Grundvallaratriði efnaskiptaferla eru hvarvetna eins.
Arfleifð Darwins | Breytt 18.10.2010 kl. 17:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.9.2010 | 15:20
Arfleifð Darwins: útgáfuhátíð 5 október
Arfleifð Darwins: þróunarfræði, náttúra og menning kemur út nú um mánaðarmótin. Bókin er gefin út til að minnast þess að árið 2009 voru 200 ár frá fæðingu Charles Darwin og 150 ár síðan hann gaf út tímamótarit sitt Uppruni tegundanna.
Í bókinni er þráðurinn tekinn upp þar sem Darwin skildi við hann og raktar ýmsar hugmyndir og niðurstöður úr þróunarfræðirannsóknum síðari tíma á sviði líffræði, jarðfræði, trúarbragðafræði og vísindasagnfræði.
Hið íslenska bókmenntafélag gefur bókina út. Til að kynna hana verða hér ritaðir pistlar, valdir kaflar verða settir inn á vefinn darwin.hi.is og Facebook síða sett í loftið.
Útgáfuhátíðin verður 5 október 2010 í Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands (frá 16:30 til 18:00). Um verður að ræða stutta kynningu, tvö 10 mínútna erindi og síðan léttar veitingar.
16:30 Kynning á bókinni Arfleifð Darwins
16:40 16:50 Þáttur plöntukynbóta í fæðuöryggi heimsins - Áslaug Helgadóttir, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands
16:50 17:00 Hvunndagshetjan Darwin Guðmundur Guðmundsson, forstöðumaður Safna- og flokkunarfræðideildar Náttúrufræðistofnunar Íslands
17:00 18:00 Léttar veitingar - bókin verður til sýnis og til sölu.
Útgáfuhátíðin er öllum opin. Fyrirlestrarnir tveir verða fluttir af valinkunnum vísindamönnum, sem bæði eru þekkt fyrir að skemmtilega og lifandi framsögu.
Við munum á næstu dögum dreifa veggspjöldum og auglýsingum til að auglýsa bókina. Meðfylgjandi er tilkynning frá HIB um útgáfu bókarinnar og auglýsing um útgáfuhátíðina, hvoru tveggja á pdf formi.
Arfleifð Darwins | Breytt 28.9.2010 kl. 17:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2010 | 10:08
Arfleifð Darwins: Þáttur plöntukynbóta í fæðuöryggi heimsins
Í lok septembermánaðar kemur út ritgerðasafnið Arfleifð Darwins. Kveikjan að bókinn var afmæli Charles Darwin, en í fyrra voru 200 ár liðin frá fæðingu hans, og það að 150 ár voru í fyrra liðin frá því að Uppruni tegundanna var gefinn út.
Við helgum nokkra pistla næstu vikur þessari bók, og birtum hluta úr af köflum hennar. Tólfti kafli bókarinn heitir Þáttur plöntukynbóta í fæðuöryggi heimsins. Sókn eftir nýjum breytileika
Áslaug Helgadóttir prófessor og aðstoðarrektor Landbúnaðarháskóla Íslands rekur þar sögu kynbóta, erfðafræði og mikilvægi lögmála Gregors Mendel og kenninga Charles Darwin og stofnerfðafræðinga síðustu aldar (R.A. Fisher, S. Wright og fleiri) fyrir framfarir í kynbótum. Hún fjallar einnig um aðferðir sem byggjast á samruna fruma mismunandi plöntutegunda og markvissar erfðabreytingar á plöntum sem hafa verið að ryðja sér til rúms. Kaflinn hefst á þessum orðum:
Ein af frumþörfum mannsins er að hafa í sig og á. Í árdaga var hver sjálfum sér nógur, en nú þegar um helmingur mannkyns býr í borgum er það hlutverk landbúnaðarins að framleiða mat og sjá um matvælaöryggi jarðarbúa. Flest kaupum við það sem við borðum úti í búð eða á veitingahúsi og sífellt fleiri virðast ekki gera sér grein fyrir því hvaðan maturinn kemur. Síðustu tvær aldir hefur fólki fjölgað hratt í heiminum og enn virðist vera nægur matur á jörðinni til þess að fæða alla íbúa hennar, þó svo að gæðunum sé vissulega misskipt. Framleiðni í landbúnaði hefur vaxið hröðum skrefum og hefur hún einkum verið drifin áfram af vísindum og tækni við vélvæðingu, framleiðslu áburðar og plöntukynbótum. Hér er ætlunin að huga sérstaklega að því hvernig maðurinn hefur lagað nytjaplöntur að þörfum sínum frá upphafi vega og hvaða þátt Charles Darwin átti í að fleyta þeirri þróun fram.
Árið 1798 samdi enski klerkurinn og hagfræðingurinn, Thomas Robert Malthus (17661864), ritgerð um lögmál fólksfjölda.1 Kenning hans var sú að fæða væri nauðsynleg fyrir tilvist mannsins og hann setti jafnframt fram þá tilgátu að mannfjöldinn tvöfaldist sífellt á meðan framleiðsla á mat vaxi línulega. Hann spáði því að eftir tvær aldir, þ.e. nú á dögum, yrði 512 sinnum fleira fólk en einungis 10 sinnum meiri matur en á hans dögum og ályktaði að þó svo að hverri skák á Bretlandseyjum yrði breytt í bújörð gæti landið ekki fætt þegna sína að 50 árum liðnum. Kenningar Malthusar höfðu mikil áhrif, en eins og við vitum rættust spádómar hans ekki. Vissulega hefur fólki fjölgað frá dögum Malthusar þegar jarðarbúar voru taldir tæpur milljarður. Þeir voru um hálfur annar milljarður í upphafi 20. aldar, eru nú rúmlega sex milljarðar og því hefur verið spáð að þeir geti orðið um níu milljarðar um miðja öldina. Þrátt fyrir þetta hefur framboð á mat aukist enn hraðar, og vert er að benda á að síðustu hálfa öld hefur stærð ræktaðs lands í heiminum haldist óbreytt en matvælaframleiðsla þrefaldast.2
1 Malthus 1798/1826.
2 Borlaug 2002.
Arfleifð Darwins | Breytt 22.9.2010 kl. 16:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.9.2010 | 17:40
Arfleifð Darwins: þróun menningar og trúarbragða
Í lok septembermánaðar kemur út ritgerðasafnið Arfleifð Darwins. Kveikjan að bókinn var afmæli Charles Darwin, en í fyrra voru 200 ár liðin frá fæðingu hans, og það að 150 ár voru í fyrra liðin frá því að Uppruni tegundanna var gefinn út.
Við helgum nokkra pistla næstu vikur þessari bók, og birtum hluta úr af köflum hennar. Næst síðasti kafli bókarinn heitir Menning, mím og mannskepnur. Þróunarfræði í hug- og félagsvísindum samtímans. Guðmundur Ingi Markússon trúarbragðafræðingur skrifaði kaflann og rekur hugmyndir fólks um tengsl þróunarfræðinnar, við menningu, félagsvísind og trúarbrögð.
Það samband hefur oft verið strembið, eins og þeir sem lesa moggabloggið eirir ennþá eftir af togstreitunni milli bókstafstrúaðra kristinna einstaklinga og þeirra sem vilja beita aðferð vísinda til að skilja veröldina. Miðað við áhugann sem landinn hefur á Ranghugmyndinni um guð eftir Richard Dawkins, er mögulegt að hann finni eitthvað við sitt hæfi í kafla Guðmundar.
Kaflinn hefst á þessum orðum:
Sá sem gæti skilið bavíana legði meira af mörkum til frumspekinnar en Locke
Charles Darwin1
Haustið 2000 var haldið málþing við Árósaháskóla helgað bannorðum trúarbragðafræðanna religionsvidenskabelige tabuer þ.e. öllu því sem trúarbragðafræðingar áttu að forðast.2 Þróunarhugtakið og spurningar um uppruna trúarbragða voru þar ofarlega á blaði. Eins og þema málþingsins bar með sér hafði Charles Darwin verið úti í kuldanum í heimi trúarbragðafræða og hugtakið þróun aðeins nefnt til aðvörunar svo að stúdentarnir gætu forðast kalbletti fræðasögunnar. En málþingið markaði einnig þáttaskil. Eftir það breyttust áherslur manna til muna og nú er þróunarhugtakið ríkur þáttur í faginu og spurningar um uppruna, eðli og þróun trúarbragða vaktar á nýjum forsendum.3 Þetta er aðeins lítið dæmi um endurkomu Darwins í hug- og félagsvísindum samtímans, endurkomu sem öðrum þræði er viðbrögð við afstæðishyggju póstmódernismans. Eftirfarandi grein er helguð þessum breyttu áherslum.1 Darwin 1987: He who understands baboon would do more towards metaphysics than Locke. (Úr vinnubók M frá 1838). Darwin vísar hér til raunhyggju Johns Locke (16321704). Raunhyggjan byggðist m.a. á því að hugur mannsins væri óskrifað blað við fæðingu og að öll þekking grundvallaðist á því að skynja hinn ytri veruleika (Locke 1689/1947).
2 Fanø o.fl. 2001.
3 Þetta er byggt á reynslu höfundar sem stundaði nám í trúarbragðafræðum við Árósaháskóla á árunum 19982003.
Síðar í kaflanum fjallar Guðmundur um trúarbragðafræðina:
Eins og rakið var í inngangi þessarar greinar hefur þróunarfræði verið að sækja í sig veðrið í trúarbragðafræðum undanfarin ár. Gott dæmi um þetta er stór alþjóðleg ráðstefna um þróunarfræði og trúarbrögð sem haldin var á Hawaii í byrjun árs 2007 og greinasafn sem síðan kom út: The Evolution of Religion: Studies, Theories & Critiques.1 Skilgreina má tvær meginþróunarfræðilegar tilgátur um tilurð trúarbragða. Í fyrsta lagi kenningar um trúarbrögð sem hliðarverkun líffræðilegra þátta (by product) og í annan stað kenningar um trúarbrögð sem sjálfstæða, líffræðilega aðlögun (adaptation). Seinni tilgátan kemur í tveimur tilbrigðum sem gera ráð fyrir þróun trúarbragða sem aðlögun innan hóps einstaklinga eða sem afleiðingu vals á milli hópa.2
Tæpum fyrst á þeirri hugmynd að trúarbrögð séu hliðarverkun líffræðilegra þátta. Þessi grein nefnist hugræn trúarbragðafræði (cognitive science of religion) og byggist í stuttu máli á því að trúarhugsun og trúarhegðun sé hliðarverkun eða aukaafurð eðlilegra þátta mannshugans, þ.e. þátta sem við notum til þess að takast á við okkar nánasta, hversdagslega umhverfi (t.d. hugrænir þættir sem við notum til þess að skilja annað fólk, og ósjálfráðar væntingar til umhverfisins). Þessir þættir sem slíkir eru dæmi um líffræðilega aðlögun fyrir tilstilli náttúrulegs vals, trúarbrögðin eru það hins vegar ekki þau eru hliðarverkun. Hugræn trúarbragðafræði eru undir miklum áhrifum frá þróunarsálfræði.3
1 Bulbulia o.fl. 2008. Helstu samtök fræðimanna á þessu sviði eru International Association for the Cognitive Science of Religion (IACSR) sem stofnuð voru árið 2006 (www.iacsr.com).
2 Í fyrra tilfellinu er átt við að þeir einstaklingar sem hafi haft trúartilhneigingu (t.d. trúað á yfirnáttúrlegar verur) hafi haft betur í lífsbaráttunni en aðrir. Í seinna tilfellinu er átt við að þeir hópar sem hafi haft trúarlegt skipulag hafi staðið sterkar að vígi en þeir hópar sem höfðu það ekki (í stuttu máli því trúarlegir hópar hafi haft meiri samheldni til að bera). ... []...
3 Sjá yfirlitsgrein Guðmundar Inga Markússonar (2006) um hugræn trúarbragðafræði. Sjá einnig Boyer 1994, 2001; Atran 2002; Slone 2006; Pyysiäinen og Anttonen 2002.
Arfleifð Darwins á leið í prentun
Arfleifð Darwins, Efnisyfirlit
Sjá einnig vef helgaðan Arfleifð Darwins.
Arfleifð Darwins | Breytt 16.9.2010 kl. 09:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó