Leita í fréttum mbl.is

Arfleifð Darwins: Þáttur plöntukynbóta í fæðuöryggi heimsins

Í lok septembermánaðar kemur út ritgerðasafnið Arfleifð Darwins. Kveikjan að bókinn var afmæli Charles Darwin, en í fyrra voru 200 ár liðin frá fæðingu hans, og það að 150 ár voru í fyrra liðin frá því að Uppruni tegundanna var gefinn út.

Við helgum nokkra pistla næstu vikur þessari bók, og birtum hluta úr af köflum hennar. Tólfti kafli bókarinn heitir Þáttur plöntukynbóta í fæðuöryggi heimsins. Sókn eftir nýjum breytileika

Áslaug Helgadóttir prófessor og aðstoðarrektor Landbúnaðarháskóla Íslands rekur þar sögu kynbóta, erfðafræði og mikilvægi lögmála Gregors Mendel og kenninga Charles Darwin og stofnerfðafræðinga síðustu aldar (R.A. Fisher, S. Wright og fleiri) fyrir framfarir í kynbótum. Hún fjallar einnig um aðferðir sem byggjast á samruna fruma mismunandi plöntutegunda og markvissar erfðabreytingar á plöntum sem hafa verið að ryðja sér til rúms. Kaflinn hefst á þessum orðum:

Ein af frumþörfum mannsins er að hafa í sig og á. Í árdaga var hver sjálfum sér nógur, en nú þegar um helmingur mannkyns býr í borgum er það hlutverk landbúnaðarins að framleiða mat og sjá um matvælaöryggi jarðarbúa. Flest kaupum við það sem við borðum úti í búð eða á veitingahúsi og sífellt fleiri virðast ekki gera sér grein fyrir því hvaðan maturinn kemur. Síðustu tvær aldir hefur fólki fjölgað hratt í heiminum og enn virðist vera nægur matur á jörðinni til þess að fæða alla íbúa hennar, þó svo að gæðunum sé vissulega misskipt. Framleiðni í landbúnaði hefur vaxið hröðum skrefum og hefur hún einkum verið drifin áfram af vísindum og tækni við vélvæðingu, framleiðslu áburðar og plöntukynbótum. Hér er ætlunin að huga sérstaklega að því hvernig maðurinn hefur lagað nytjaplöntur að þörfum sínum frá upphafi vega og hvaða þátt Charles Darwin átti í að fleyta þeirri þróun fram.

Árið 1798 samdi enski klerkurinn og hagfræðingurinn, Thomas Robert Malthus (1766–1864), ritgerð um lögmál fólksfjölda.1 Kenning hans var sú að fæða væri nauðsynleg fyrir tilvist mannsins og hann setti jafnframt fram þá tilgátu að mannfjöldinn tvöfaldist sífellt á meðan framleiðsla á mat vaxi línulega. Hann spáði því að eftir tvær aldir, þ.e. nú á dögum, yrði 512 sinnum fleira fólk en einungis 10 sinnum meiri matur en á hans dögum og ályktaði að þó svo að hverri skák á Bretlandseyjum yrði breytt í bújörð gæti landið ekki fætt þegna sína að 50 árum liðnum. Kenningar Malthusar höfðu mikil áhrif, en eins og við vitum rættust spádómar hans ekki. Vissulega hefur fólki fjölgað frá dögum Malthusar þegar jarðarbúar voru taldir tæpur milljarður. Þeir voru um hálfur annar milljarður í upphafi 20. aldar, eru nú rúmlega sex milljarðar og því hefur verið spáð að þeir geti orðið um níu milljarðar um miðja öldina. Þrátt fyrir þetta hefur framboð á mat aukist enn hraðar, og vert er að benda á að síðustu hálfa öld hefur stærð ræktaðs lands í heiminum haldist óbreytt en matvælaframleiðsla þrefaldast.2

1 Malthus 1798/1826.

2 Borlaug 2002.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dingli

Sæll Arnar.

Verð á tánum. Kaupi mér eintak sem fyrst!

Dingli, 21.9.2010 kl. 10:38

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Dingli og takk fyriri stuðninginn.

Það er gott að vera á tánum, fín vörn gegn plattfót og hlébörðum.

Arnar Pálsson, 21.9.2010 kl. 10:45

3 Smámynd: Dingli

Segðu! Fyllum borgirnar af hlébörðum, og eftir 10.000ár verður heimsmetið í 100m komið í 4,9. Flatfæturnir verða og útdauðir.

Dingli, 21.9.2010 kl. 11:41

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Frábært.

Og við myndum losna við alla minni villiketti og hundar yrðu líklega undir. Þar með væru voffalellarnir úr sögunni, en spurningin er hvernig hlébarðasaur lyktar?

Arnar Pálsson, 21.9.2010 kl. 12:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband