Leita í fréttum mbl.is

Milliform eða týndir hlekkir

Charles Darwin sýndi fram á hvernig náttúrulegt val getur útskýrt aðskilnað og uppruna tegunda. Hann kenndi okkur að flokkun lífvera í hópa, fjölskyldur og fylkingar, er eðlileg afleiðing þess að allar lífverur á jörðinni mynda eitt risastórt þróunartré.

Kirkjunarmenn nítjándu aldar áttu erfitt með að sætta sig við það að uppruni tegundanna (og þar með mannsins) væri ekki lengur á ábyrgð guðlegrar veru. Æ síðan hafa svoleiðis þenkjandi fólk haldið uppi veikburða gagnrýni á þróunarkenninguna, og oft vísað til þess að einhverjir hlekki vanti í keðju lífsins.

Þau rök eru léleg, því þannig er því óþekkta leyft að trompa þekkinguna. Samkvæmt þessum rökum eru menn ekki allir af sömu tegund, fyrst við vitum ekki um eiginleika og afdrif allra forfeðra núlifandi manna. Þetta er auðvitað firra.

Það er augljóst að menn eru ein tegund, og af öllum þeim tegundum sem finnast í jörðinni eru simpansar okkur náskyldastir. Þetta er staðfest bæði með samanburði á beinum og erfðaefni tegundanna.

Uppruni hvítabjarna hefur verið á huldu og sumir hafa álitið að þeir hafi aðskilist fyrir um 400 þús árum. Fundur gamals kjálkabeins úr ísbirni á Svalbarða gaf tækifæri á að leysa þessa gátu (við höfum áður fjallað um þennan fund - Ísbirnir og pöndur að fornu og nýju).

Ísbirnir (Ursus maritimus) eru tilheyra ættkvísl bjarndýra. Þeir eru sannarlega sérstakir að mörgu leyti, aðlagaðir heimskautalífi. Flestar aðrar bjarnartegundir lifa svipuðu lífi, nema kannski pandabirnir sem lifa eingöngu á bambus.

IsbjarnarKjalki_OlafurIngolfsson Ólafur Ingólfsson jarðfræðingur fann 110-130 þúsund ára gamalt kjálkabein (sjá mynd) af ísbirni á Svalbarða. Miðað við lífshætti ísbjarna er álitið frekar fátítt að bein þeirra varðveitist. Flestir bera beinin á ís eða sundi, og þá eru minni líkur á að leifar þeirra leggist í set/sand sem varðveitir beinin.

Greinin sem lýsti beininu og aldursgreiningunni kom út á síðasta ári (Late Pleistocene fossil find in Svalbard: the oldest remains of a polar bear (Ursus maritimus Phipps, 1744) ever discovered - Ingólfsson og Wiig - Polar research 2009).

Nýbirt rannsókn Ólafs Ingólfssonar og samstarfsmanna (í PNAS) miðaði að því að skoða uppruna ísbjarna. Beinið er mjög áþekkt þeim sem finnast í núlifandi ísbjörnum. Hópurinn raðgreindi erfðaefni úr beininu frá Poolepynten á Svalbarða og bar saman við birni frá Alaska og Asíu. Skoðað var allt erfðamengi hvatbera úr beininu frá Svalbarða og til viðmiðunar erfðaefni 6 annara einstaklinga (3 ísbjarna og 3 bjarna frá Alaska og nálægum svæðum).poolepynten_polar.jpg

Niðurstöðurnar eru afgerandi, ísbjörninn frá Poolepynten er náskyldastur brúnbjörnum frá ABC eyjunum í Alaska(mynd úr greininni í PNAS). Það er augljóst að ísbirnir hafi orðið til t.t.l. nýlega, og einnig að höfuðkúpa þeirra hafi þróast mjög hratt (þar sem beinið frá Poolepynten er mjög áþekkt þeim sem finnast í núlifandi ísbjörnum, og isótópagreining bendir til þess að Poolepynten björnin hafi neyt svipaðrar fæðu og ísbirnir nútímans).

Ísbjörninn frá Svalbarða er því dæmigert milliform, sem staðfestir (í kannski milljónasta skipti) þróunarkenningu Darwins.

Ítarefni:

Lindqvist, C. Schuster, S.C. Sun, Y. Talbot, S.L. Qi, J. Ratan,A. Tomsho, L.P.
Kasson, L. Zeyl, E. Aars, J. Miller,W. Ingólfsson,Ó. Bachmann,L. and Wiig, Ø. Complete mitochondrial genome of a Pleistocene jawbone unveils the origin of polar bear PNAS doi:10.1073/pnas.0914266107

Polar bear is a ‘new’ species Times February 28, 2010


mbl.is Ísbirnir ung dýrategund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnar

Nú koma sköpunarsinnar og heimta milliform frá brún björnum yfir í Poolepynten-björnin og svo aftur frá honum yfir í 'nútíma' ísbirni :)

Arnar, 2.3.2010 kl. 15:32

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Heyrðu, þetta er rétt. Þarna eru týndir hlekkir, sem hlýtur að afsanna "allt heila klabbið".

Ímyndum okkur að við myndum vita um alla einstaklinga allra tegunda, í öllu þróunartrénu...þannig að það væru engir týndir hlekkir!

Hvað myndu sköpunarsinnarnir þá segja?

Ætli þeir myndu ekki tala um týndu sáðfrumurnar, fyrst að við sáum ekki allar sáðfrumurnar og eggin sem mynduðu einstaklingana...þá væri búið að afsanna "allt heila klabbið".

Arnar Pálsson, 3.3.2010 kl. 10:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband