Leita í fréttum mbl.is

Athugasemdir Arnþórs

Fyrir nokkru birtist skýrsla frá nokkrum starfsmönnum Hagfræðistofnunar HÍ (Gunnar Haraldsson, Kristófer Gunnlaugsson, Daða Má Kristófersson, Ragnar Árnason og Svein Agnarsson) um hagfræðileg áhrif hvalveiða. Niðurstaða hennar var sú að hvalveiðar væru hagkvæmar, en nokkrir agnúar voru á skýrslunni sem gefa tilefni til að draga þá niðurstöðu í efa.

Við ræddum áður gagnrýni Hilmars Malmquist á þau stofnalíkön sem liggja til grundvallar niðurstöðu hagfræðinganna (Efnisleg gagnrýni).

9. apríl 2010 birtist grein eftir Arnþór Garðarsson Athugasemdir við skýrslu Hagfræðistofnunar á vísir.is.

Þar gagnrýnir hann skýrslu hagfræðinganna, fyrst með vistfræðilegum rökum:

Hér er byggt á afránslíkani sem kynnt var fyrir alllöngu (Gunnar Stefánsson, Jóhann Sigurjónsson og Gísli A. Víkingsson, J. Northw. Atl. Fish. Sci., 22 (1997), 357-370). Líkanið er ofureinföldun sem hefur ekki hlotið stuðning og virðist óþarfi að nudda höfundum upp úr því eftir mörg ár, en skrýtið er að sjá það nú afturgengið og endurselt stjórnvöldum í hagfræðilegum umbúðum. ...

Hann bendir einnig á það sem hann kallar "pólitíska dulúð"

Nokkurrar pólitískrar dulúðar gætir í skýrslu Hagfræðistofnunar þegar rætt er um rétt Íslendinga til að stunda hvalveiðar. Til dæmis segir (bls. 11) „ ... snerta hvalveiðar almennt grundvallarrétt þjóðarinnar til að nýta á sjálfbæran hátt auðlindir sínar. Þær hafi jafnframt menningarlegt gildi á grundvelli aldalangrar sögu sinnar..." Hér er látið í það skína að viðkomandi hvalategundir séu auðlind okkar en ekki fjölþjóðleg auðlind, farstofnar sem margar þjóðir eiga hlutdeild í. Menningarlegt gildi byggt á aldalangri sögu er líka óútskýrt. Er kannski átt við súrsað rengi? Sömu óljósu staðhæfingar virðast koma aftur fyrir í skýrslulok (bls. 53): „ ... Bent hefur verið ... fyrr í skýrslunni á þær stóru átakalínur sem hér er verið að verja ...". - Hverjar eru þessar stóru átakalínur og í hverju felast varnirnar?

Síðan bendir Arnþór á að "keyptar" skýrslur eru vandamál fyrir háskólasamfélagið í heild. Mér finnst að "keyptar" álitsgerðir séu blettur á Háskóla Íslands.

Skýrsla Hagfræðistofnunar er sýnilega afleiðing margvíslegra kerfisgalla sem Íslendingar hafa komið sér upp á undanförnum áratugum í sjálfumglaðri einangrun. Kerfisgallarnir eru mjög lífseigir þrátt fyrir nýleg áföll. Því mætti í lokin benda á fáein atriði sem betur þurfa að fara ef við ætlum að nýta vísindaþekkingu í þágu betra mannlífs:

1) Nýleg lög um háskóla hafa ekki bætt rannsóknir á Íslandi. Þau þarf að endurskoða með það að markmiði að draga úr áhrifum svokallaðs atvinnulífs en auka þátttöku vísindamanna.

2) Þegar starfsmenn við rannsóknastofnanir Háskóla Íslands hyggjast gera fræðilegar skýrslur um efni sem eru utan við faglega þekkingu þeirra ber þeim að afla viðeigandi sérfræðiþekkingar.

3) Ekki er við hæfi að gefin séu út fræðileg rit og skýrslur án þess að fyrir liggi gagnrýni ótengdra sérfræðinga (sjálfstætt jafningjamat). Kaupendum slíkra verka, hvort sem eru ráðuneyti, stofnanir eða fyrirtæki, ber að afla slíks mats áður en til þess kemur að nýta niðurstöðurnar.
Hvernig getum við gefið fræðilegt álit með einni hönd ef við þiggjum fúlgur með hinni? Markmið siðareglna er að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra. Miðað við þá gagnrýni sem fram kom í skýrslu rannsóknanefndar þurfum við einnig að hafa kerfi sem refsar fólki sem "selur" sitt álit (sérstaklega ef það gerir það í nafni háskólasamfélagsins).

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband