Leita í fréttum mbl.is

Einbeiting framtíðar

Maður finnur hversu unaðslegt það er fara í gönguferð í fjörunni, fjarri tölvupósti, farsímum og bloggi. Vitanlega er maður orðin háður beinni nettengingu, sístreymi frétta og slúðurs. Ég á stundum erfitt með að halda einbeitingu við lestur á bókum eða greinum, svo vanur er maður orðin sífelldri truflun frá internetinu.

Er ekki eðlilegt að maður óttist um kynslóðina sem nú vex úr grasi, sem finnst eðlilegt að geta sent SMS á kamrinum, lesið blogg í bílnum, og flett fésbókinni í bókabúð? Ég held að ákveðin einsemd sé fólki holl, að vera einn með hugsunum sínum geti hjálpað fólki að skilja langanir sínar og leysa vandamál. Auðvitað eru mennirnir félagsverur sem þarfnast samneytis, örvunar, léttúðar og ertingar (í þessari röð :). En það má á milli sjá.

Ég tek eftir því að fæstir nemendurnir sem lesa fyrir próf í Öskju, eru bara með opna bók eða glósur. Meirihlutinn er með kveikt á tölvunum, og samskiptarás opna.

Maður hlýtur að spyrja hvernig fólki gangi að einbeita sér.

Að því rituðu hlít ég að líta í eigin barm og klippa á streng minn við netið (allavega fram yfir helgi). Góðar stundir.


mbl.is Vonleysi án upplýsingatækni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jahérnahér. Mig langar að spyrja í þessu sambandi hvort þú hafir einhverja stefnu í sambandi við tölvunotkun nemenda í tímum hjá þér. Mín reynsla er að það er ekki nema brot af þeim nemendum sem eru með fartölvur í tímum sem nota þær til að glósa (ég myndi giska á svona 10%), hinir eru í tölvuleikjum, á Facebook, o.s.frv. Það er auðvitað truflandi fyrir þá nemendur sem eru ekki með tölvur heldur eru að reyna að fylgjast með að sjá stöðugt útundan sér á tölvuskjái hjá öðrum. Og það getur líka verið truflandi fyrir kennarann þegar fólk úti í sal er flissandi yfir einhverju sem það sér í tölvunni og jafnvel pískrandi um það við sessunaut sinn. Fyrir utan að þetta er auðvitað argasti dónaskapur (hvernig væri ef kennarinn sæti bara í tölvuleik þegar hann ætti að vera að kenna?) og skilar sér almennt í slakari gæðum kennslu sem a.m.k. ég sem kennari vil gjarnan hafa svolítið gagnvirka en það krefst auðvitað þess að nemendurnir fylgist með og séu á staðnum í huganum.

Mér hefur dottið í hug að setja þá reglu að þeir sem eru með fartölvu eigi að sitja aftast, þá trufla þeir a.m.k. ekki aðra á meðan. Reyndar er ég ekkert að kenna þessa dagana en er svona að velta fyrir mér hvaða stefnu ég eigi að taka næst þegar ég kenni.

Eyja (IP-tala skráð) 1.5.2010 kl. 10:24

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæl Eyja

Ég hef ekki tölur um það hversu margir eru að glósa. Ég set ekki slæðurnar inn fyrr en eftir á, og þær eru í raun bara beinagrind. Oft segi ég það sem mestu máli skipti, en þeir punktar koma ekki fram á slæðunum.

Þær eru númeraðar, þannig að fólk getur skrifað niður athugasemdir, teiknað við hverja síðu.

Í gamla daga voru alltaf einhverjir sem dottuðu eða lögðu fyrir sig dagdrauma í fyrirlestrum, en þeir trufluðu ekki samnemendur sína.

Hugmyndin þín um að láta nemendurna sem eru með tölvu sitja aftast er ágæt. Við höfum einnig velt fyrir okkur róttækari lausnum:

1. Banna tölvur alveg í fyrirlestrasölum.

2. eða slökkva á netinu í kennslustofum (það myndi klippa á vafrara og samskiptarásir, en ekki á tölvuleiki)

3. Hætta að setja slæðurnar inn á vefinn. Að mínu viti hefur fólk gott af því að skrifa og teikna, þetta eru mjög góðar leiðir til að læra/muna hlutina.

4. Setja bara inn algera beinagrind af slæðunum, fyrirsagnir, stærstu punkta, myndir og töflur.

Arnar Pálsson, 3.5.2010 kl. 09:15

3 identicon

Mínar tölur um hlutfall þeirra sem glósa eru svo sem bara ágiskun en a.m.k. hefur mér sýnst í yfirgnæfandi meirihluta tilfella að tölvuvæddu nemendurnir væru að gera eitthvað allt annað en að glósa á tölvurnar. Ég hef líka heyrt frá nemendum úr hinum ýmsu fögum sem hafa setið úti í sal og séð á skjái samnemenda sinna að yfirleitt sé fólk bara í leikjum eða á netinu. Þetta á held ég sérstaklega við í grunnnáminu, masters- og doktorsnemar eru líklegri til að glósa á tölvurnar.

Tillögurnar sem þú telur upp eru allar góðar. Það mætti t.d. banna tölvur en veita undanþágur fyrir nemendur sem tilgreina sérstakar ástæður fyrir því að þeir eigi erfitt með að handskrifa glósur (slíkar ástæður eru til). Og þráðlaust net í kennslustofum er yfirleitt óþarft. Ég hef gert það sama og þú, ekki sett glærurnar inn fyrr en eftir tímann. Ég held að PowerPoint hafi, þegar á heildina er litið, verið til ógagns í kennslu þótt vissulega geti verið þægilegt að nota það. Það er allt of algengt að nemendur fái þá flugu í höfuðið að þeir þurfi ekki að kunna neitt sem ekki stendur á glærunum. Mér hafði ekki dottið í hug að setja glærurnar bara alls ekki inn, kannski ég hugleiði það þegar kemur að því að ég fari aftur að kenna.

Eyja (IP-tala skráð) 3.5.2010 kl. 16:07

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Eyja fyrir góðar athugsemdir

Ég er sammála þér að Powerpoint hefur líklega ekki verið til góðs, þegar á allt er litið.

Það er svo mikilvægt að kunna að glósa, þannig lærir fólk maður að meðtaka lexíur og koma þeim á skipulegt form. 

Það að rissa upp eftir teikninugm á töflu hjálpar fólki að þjálfa sýna myndrænu hugsun og teiknigetu.

Ég er að reyna að mana mig upp í að kenna á powerpoint glæra, eða allavega að einfalda þær umtalsvert.

Arnar Pálsson, 3.5.2010 kl. 18:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband