Leita í fréttum mbl.is

Smitandi krabbamein

Tilfellið sem lýst er í frétt mbl.is um manninn sem fékk krabbameinsfrumur við líffæraígræðslu er að því best ég veit einstakt. Krabbamein eru ekki smitandi. Frumur úr einum einstaklingi eiga mjög erfitt með að lifa og fjölga sér í líkömum annara einstaklinga, vegna þess að ónæmiskerfið verndar okkur fyrir framandi frumum. Það er einmitt þess vegna sem nauðsynlegt er að bæla ónæmiskerfið þegar líffæraígræðslur eru framkvæmdar.

Þekktasta dæmið um smitandi krabbamein finnst í Tasmaníu skollanum (Sarcophilus harrisii). Um er að ræða rándýr af ætt pokadýra (Marsupials) sem er bundið við eyjuna Tasamaníu, sunnan Ástralíu. Á skollann herjar smitandi krabbamein, sem berst dýra á milli í gegnum skurði og sár í andliti þeirra. Hegðun þeirra og samskipti ýta undir þessa farsótt, því skollarnir eru sífellt að slást, rífa og bíta hvorn annan í andlitið. Það leiðir til þess að frumur flytjast á milli, og þar á meðal frumur sem leiða til myndunar æxla í andliti skollanna.

tasmaniuskolli_mai2010.jpgMynd af Tasmaníu skolla tók Arnar Pálsson, í dýragarði Kaupmannahafnar 2010 - copyright.

Erfðagreining á æxlunum sýnir að þau eru af annarri arfgerð en hýslarnir, og með því að reikna þróunartré sést að þau eru öll af sama meiði. Gögnin benda til þess að smitandi krabbameinsfrumur hafi orðið til einu sinni. Á námskeiði framhaldsnema í sameindalíffræði var í vetur rætt um rannsókn sem sýnir að krabbameinsfrumurnar eru ættaðar úr taugavef (nánar tiltekið taugaslíðurfrumum úttaugakerfisins). Alvarlegast er að krabbameinið dregur dýrin til dauða og það breiðist mjög hratt út. Fyrsta tilfellið fannst árið 1996 og ef ekkert verður að gert mun þetta smitandi krabbamein útrýma Tasmaníu skollanum.

Hitt dæmið um smitandi krabbamein sem vitað er um finnst í hundum. Því var lýst fyrir um 200 árum, og vitað er að það smitast með samförum, en er ekki banvænt. Fyrst eftir sýkingu skipta frumurnar sér hratt, uns ónæmiskerfi hundsins nær yfirhöndinn og eyðir því.  Hundar sem einu sinni hafa sýkst eru ónæmir fyrir frekari smiti af þessu krabbameini, sem staðfestir mikilvægi ónæmiskerfisins í baráttu líkamans gegn krabbameini.

Ítarefni: Mörg andlit krabbameina

Grein Oliviu Judson í New York Times, Cancer of the Devil 14 okt. 2008.


mbl.is Karl lést úr legkrabbameini
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mig minnir að þetta sé ekki einstakt. Það var skurðlæknir sem smitaðist í hendina úr sjúklingi.

Hér er greinin um það.

http://content.nejm.org/cgi/content/full/335/20/1494

Jóhannes (IP-tala skráð) 30.5.2010 kl. 01:26

2 identicon

Sæll Arnar.

Fyrir tugum ára vaknaði sá grunur að í einstökum tilfellum
ylli vírus krabbameini í mönnum.
Vírussýking af þessu tagi liggur þegar fyrir.

Margan grunar að í náinni framtíð verði það í ljós leitt
að ef ekki vírus að þá einhver fjöld enn smærri
eigi hér hlut.

Húsari. (IP-tala skráð) 30.5.2010 kl. 11:44

3 Smámynd: Arnar Pálsson

Jóhannes

Takk kærlega fyrir heimildina. Þetta er greinilega leið sem frumur geta farið, en ætli ónæmiskerfið verndi okkur ekki í flestum tilfellum. Það er samt ástæða til þess að varast það að rjóða sig í krabbameinsfrumum, ef hjá því verður komist.

Húsari

Human Papilloma veiran (HPV) veldur einmitt leghálskrabbameini. Það er hægt að bólusetja gegn henni, en því miður hafa heilbrigðisyfirvöld ákveðið að fresta þeirri bólusetningu af sparnaðarástæðum.

Arnar Pálsson, 30.5.2010 kl. 14:54

4 identicon

Sæll Arnar.

Bestu þökk fyrir svarið.

Fyrir alþingi liggur skv. dagskrá í dag 9. 6. umræða um
bólusetningu gegn leghálskrabbameini.
Þessi "nýja tækni" sem svo var nefnd Anno Domino 2008
var þegar komin fram árið 1980.

Annars áttu skrif mín í heild sinni við allt annað.

Bestu þökk fyrir þennan áhugaverða vef,
þykist vita að hann muni mörgum uppsprettulind
og svo sakar ekki saltið, þ.e. kímni höfundar!

Húsari. (IP-tala skráð) 9.6.2010 kl. 09:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband