15.6.2010 | 10:39
Innrás ertuyglunar
Yglur teljast til fiðrilda, og borða lirfur ertuyglunar aðallega plöntur af ertuætt. Á undanförnum árum hefur þetta fiðrildi verið að sækja í sig veðrið hérlendis, og fer illa með þær plöntur sem hún leggst á.
Hérlendis leggst hún aðallega á lúpínu en skaðar einnig ungar skógarplöntur og getur þannig valdið ómetanlegu tjóni. Mér sárnar alls ekki að hún éti lúpínu, sem er ágeng planta og óþörf í íslenskri náttúru.
Nú er hafin rannsókn á líffræði ertuyglunar, t.d. segir Edda Sigurdís Oddsdóttir frá því á skogur.is að fiðrildið virðist lifa veturinn af sem púpa, en ekki á lirfu stigi eins og áður var talið. Frekari rannsóknir eru fyrirhugaðar:
Á þessu ári verður haldið áfram með rannsóknir á ertuyglunni. Búið er að fara og leita að púpum á tilraunasvæðunum við Gunnarsholt og í haust verða teknar út gróðursetningar síðasta árs þar sem meta á hvort ertuyglan leggist jafn þungt á allar trjátegundir. Einnig verður haldið áfram með rannsóknir á lífsferli og þéttleika. Síðast en ekki síst, verða rannsóknir á hvaða vörnum er hægt að beita gegn ertuyglunni. Reynt verður að eitra með skordýraeitri og árangur þess borinn saman við notkun lífrænna varna. Fyrstu niðurstöður hvað þetta varðar munu liggja fyrir seinnipart ársins 2010.
Fréttastofa RÚV ræddi við Eddu um ertuygluna í kvöldfréttum 14 júní.
Þetta er annasöm vika hjá Eddu, því á föstudaginn (18 júní 2010) mun hún verja Doktorsritgerð sína í líffræði. Það fjallar svepprætur og skordýrabeit á útplöntuðum trjám. Titill verkefnisins er Útbreiðsla og tegundagreining svepprótar- og skordýrasníkjusveppa í jarðvegi og áhrif þeirra á skordýrabeit á trjáplönturótum. Úr ágripi:
Doktorsritgerðin fjallar um útbreiðslu og tegundasamsetningu svepprótar- og skordýrasníkjusveppa í jarðvegi og áhrif sveppanna á lifun ranabjöllulirfa og rótarskemmdir nýgróðursettra trjáplantna af þeirra völdum....
Niðurstöðurnar benda til þess að unnt sé að beita svepprótar- og skordýrasníkjusveppum til að draga úr skaðsemi lirfa sem lifa á trjáplönturótum, en mikilvægt sé að rannsaka vel samspil þeirra sveppategunda, sem smitað er með, við lífverusamfélög í jarðvegi og aðra jarðvegsþætti.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:56 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Ekki er lengur hægt að halda því fram um alaskalúpínu, að hún eigi sér enga náttúrlega óvini í lífríki Íslands. Fiðrildalirfurnar mófeti (Eupithecia satyrata) og ertuygla (Melanchra pisi) eru orðnir skæðir óvinir lúpínu um allt sunnanvert landið og eru að breiðast út til annarra landshluta. Þessi skordýr aflaufga lúpínuplönturnar á miðju sumri og flýta þannig fyrir framvindu í lúpínubreiðum (m.ö.o., eiga þátt í að „hún hopar“ fyrr en áður). Jafnframt eru þessi skordýr eftirsótt fæða mófugla, ásamt ánamöðkunum sem fjölgar mjög við tilkomu lúpínunnar og auka enn frekar frjósemi jarðvegs sem lúpínan hefur komið til leiðar með niturbindingu. Því má færa fyrir því rök, að lúpínan sé orðin nýtur þegn í íslensku lífríki, sem fæðir, nærir og tryggir viðgang innlendra dýrategunda.
En Arnar! Hvað er það nákvæmlega sem átt er við þegar lúpínunni er lýst sem „ágengri“? Vistfræðilega ágengri? Móralskt ágengri? Sjónrænt ágengri? Að mínum dómi krefst notkun hugtaksins „ágengur“ (=framur eða framgjarn, skv. ísl. orðabók) í vistfræðilegu samhengi öllu skýrari, gagnsærri og nothæfari skilgreiningar en ég get lesið út úr texta þínum og ýmsra annarra sem grípa til þessa lýsingarorðs til þess að lýsa vanþóknun sinni á vistfræðilegri hegðun eintakra tegunda lífvera, án skýringa eða gagnrýninnar hugsunar. Eða eins og bandaríski þróunarfræðingurinn Stephen Jay Gould (1941-2002) orðaði það. (1) „A truth that cannot be characterized, or even named, can hardly be conceptualized at all“; (2) The most erroneous stories are those we think we know best - and therefore never scrutinize or question.
Í þessu sambandi er vert að benda á fróðlega grein eftir Stephen Jay Gould („An Evolutionary Perspective on the Concept of Native Plants“) sem birtist í síðustu bók sem hann birti fyrir dauða sinn, „I have landed - The End of a Beginning in Natural History “ (2002, Harmony Books, 432 bls.). Þessa grein má einnig nálgast á netinu, hér:
Aðalsteinn Sigurgeirsson (IP-tala skráð) 17.6.2010 kl. 01:48
Sæll Aðalsteinn
Takk fyrir ágæta ábendingu, ég er að hugsa á vistfræðilegum nótum. Þetta er mín tillaga að skilgreiningu: "Ágeng innflutt tegund er sú tegund sem hefur eiginleika sem gera henni kleift að auka kyn sitt og útbreiðslu á kostnað tegunda sem fyrir eru á landsvæði."
Ef melur sem upphaflega skartar 100 mismunandi tegundum blóma, grasa og sveppa er undirlagður af lúpínu á skömmum tíma (t.d. 15 árum), þá myndi ég skilgreina lúpínu sem ágenga tegund. Jafnvel þótt að í kjölfar lúpínunar muni fylgja ertuygla og fuglar sem ekki þrifust á melnum.
Á Íslandi er við dálítið sérstakar aðstæður að eiga. Við eyddum þeim skógi sem landið byggði á nokkrum öldum. Lífríki Íslands í dag er ekki óskaddað, í þeim skilningi að menn hafi aldrei raskað því. En það þýðir samt ekki að við höfum rétt á að raska því meira!
Vissulega er vistkerfi Íslands ekki með hámarks framleiðni, eða ber hámarks þéttni fugla og spendýra sem mögulegt er miðað við landsskika á okkar breiddargráðu, en það þýðir ekki að við þurfum að bæta við tegundum.
Reynslan kennir okkur að ágengar tegundir geta valdið miklum óskunda í vistkerfum, rutt út tegundum, raskað tengslum tegunda og þannig breytt samsetningu vistkerfa.
Ég er af skógræktarfólki kominn og sjálfum fannst mér lúpína vera hin mesta landbót. En þegar maður sér útbreiðslu hennar, og les sér til um ágengar tegundur varð ég þess fullviss að lúpína og skógarkerfill sé ekki heppileg viðbót við Íslenska náttúru.
Arnar Pálsson, 18.6.2010 kl. 11:28
Sæll Arnar!
Ég leyfi mér að vera ósammála þér. Mér gremst ekki þótt lúpínan útrými staðbundið melagróðri (sem reyndar er gróðursamfélag til komið vegna röskunar af völdum mannvistar á láglendi Íslands). Lúpínan eykur lífbreytileika (biodiversity). Þetta sýna rannsóknir, sem taka til fleiri lífvera en háplantna. T.d. virðist spóinn hafa fundið sér vist í lúpínubreiðum. Hið sam á við um skógarþresti og hagamýs. Einnig brandugla og væntanlega smyrill, sem nærist m.a. á skógarþröstum. Þessar tegundir græða allar á aukinni framleiðni jarðvegsins, sem fylgir lúpínunni. Norskar rannsóknir hafa einnig sýnt, að refurinn tekur minna af fuglseggjum og -ungum, ef mikið er um mýs. Því má leiða líkur að því, að aukin útbreiðsla lúpínu á melum og öðru rýrlendi sé flestu fuglalífi í hag, þ.m.t. rjúpunni. Helst að fækkað gæti í stofni heiðlóu, þótt ekki sé víst, að framboð á hreiðurstæðum á Íslandi sé það sem takmarkar stærð lóustofnsins. Lóan er jú skotin til matar í Evrópu að vetrinum.
Íslendingar hafa skyldum að gegna gagnvart alþjóðasamfélaginu. Í anda sjálfbærrar þróunar ber okkur að auka framleiðni landsins með því að græða upp eyðimerkurnar. Það verður best gert í sátt við hugmyndir um sjálfbæra þróun með notkun lúpínu, en alls ekki með notkun tilbúins áburðar, sem yfirleitt er unnin úr olíu og allavega mikil raforka notuð í framleiðsluferlinu.
Þeir sam aðhyllast Gaiukenninguna (svo sem Green-Peace og margir aðrir ýktir náttúruverndarsinnar) kunna að finna að öllu því sem maðurinn gerir, líka þótt hann telji sig vera að bæta landið með því að auka frjósemi þess, fjölga tegundum á tilteknu svæði og þeim munnum, sem landið getur brauðfætt. Gaiukenningin er hins vegar ekki byggð á vísindum, heldur er um að ræða trúarskoðun. Ég fæ þannig ekki séð, að gæukenningin byggi meira á vísindum en t.d. Sköpunarsaga Gamla testamentisins. Synd ef satt reynist, að háskólar kyndi undir átrúnað á Gæukenninguna. Það er nú samt staðreynd, sem prófessor við Princeton háskólann í Bandaríkjunum hefur leitt í ljós. Hann fann einnig út, að átrúnaður á Jörðina sem eina lífveru, er algengari meðal hámenntaðra kvenna en karla, hvað sem veldur (kannski af því að kenningin byggir á átrúnaði á kvennkenndu goði, Gæju).
Sigvaldi Ásgeirsson (IP-tala skráð) 18.6.2010 kl. 13:12
Hér er Sigvaldi líklega að vitna í Lee Silver ("Professor of molecular biology and public policy in the Woodrow Wilson school of Public & International Affairs at Princeton University"; http://128.112.44.57/challenging/index.htm) í nýbirtri grein úr The Scientist:
Think only the religious right is anti-science? How about the spiritual left?
Read more: A Nasty Mother - The Scientist - Magazine of the Life Sciences http://www.the-scientist.com/article/display/23827/#ixzz0rD7v4Osd
Aðalsteinn Sigurgeirsson (IP-tala skráð) 18.6.2010 kl. 13:28
Takk fyrir tilskrifin Sigvaldi og Aðalsteinn
Ég notaði tækifærið og svaraði flestum athugasemdum ykkar í pistlinum Lúpínur og líffræðilegur fjölbreytileiki.
Undanskilin er punkturinn um Gæju. Ég hef aldrei kvittað undir þann þvætting sem Lovelock og Margulis komu fram með. En það þýðir ekki að ég sé ekki þeirrar skoðunar að við höfum skyldum að gegna gagnvart náttúrunni.
Ástæðurnar eru bæði heimspekilegar og hagnýtar.
Fyrst sú hagnýta. Ég held að farsæld okkar á jörðinni byggist að miklu leiti á því að við röskum ekki um of náttúrulegum ferlum. Ef við skiljum ferla náttúrunar og vinnum með þeim getum við sneitt hjá eða dregið úr áhrifum margra vandamála (flóða, farsótta, sníkjudýra...). Einnig er náttúran uppspretta margra nýjunga, sem hljóta að skerðast ef við göngum of nærri henni.
Heimspekilegi punkturinn er sá að maðurinn er hluti af náttúrunni en ekki yfir hana hafinn. Móðir náttúra getur verið hörkutól (sbr. bók Silvers og ritdóminn - takk kærlega fyrir tilvísanirnar), en það þýðir ekki að við eigum að meðhöndla lífríki jarðar af hörku.
Til að setja hlutina í samhengi þá finnst mér við oft vera of fljót að leita að "verkfræði"lausnum á líffræðilegum vandamálum. Sumt er hreinlega ekki vandamál, gróðurlausir skeiðaraársandar eru jarðfræðilegur og líffræðilegur veruleiki - ekki endilega vandamál. Ekki frekar en gróðurskortur er vandamál á tindi Everestfjalls.
Arnar Pálsson, 30.6.2010 kl. 10:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.