30.6.2010 | 10:14
Lúpínur og líffræðilegur fjölbreytileiki
Sameinuðu þjóðirnar vilja beina athygli heimsins að mikilvægi líffræðilegur fjölbreytileika, og tilkynntu að árið 2010 yrði helgað líffræðilegum fjölbreytileika (The International Year of Biodiversity). Hérlendis hefur ekki mikið verið gert af þessu tilefni, en vonandi verður bót á.
Orðasambandið líffræðilegur fjölbreytileiki (biological diversity) hefur ekki langa hefð í íslenskri tungu og því við hæfi að skilgreina það. Samkvæmt vef helguðum ári líffræðilegs fjölbreytileika, má meta fyrirbærið á nokkra vegu.
1. Fjöldi tegunda
2. Mun á milli tegunda
3. Breytileika innan tegunda og stofna
4. Fjölbreytni vistkerfa og búsvæða lífvera
Það er augljóst að fjöldi tegunda hlýtur að tengjast líffræðilegum fjölbreytileika. Einnig að ef á ákveðnu svæði finnast mjög mismunandi tegundir (plöntur, sveppir og dýr) hlýtur fjölbreytileiki þess að vera meiri en svæðis sem skartar bara mismunandi bakteríutegundum.
Atriði 3 og 4 eru atriði sem fólk hugleiðir sjaldnar. Breytileiki innan stofna er líka líffræðilegur, og getur verið umtalsverður. Til að mynda finnast mörg afbrigði af bleikjum og hornsílum hérlendis, bundin við vötn, ár og lindir.
Ísland er sérstakt að því leyti að hérlendis finnast mjög fáar einlendar tegundir (sem finnast hérlendis og hvergi annars-staðar). Undantekning eru ferskvatnsmarflær sem Bjarni Kr. Kristjánsson fann og sem þraukað hafa nokkrar ísaldir hérlendis. Þrátt fyrir þetta er lífríki Íslands að mörgu leyti sérstakt. Samsetning vistkerfa og samfélaga er mismunandi eftir löndum. Hérlendis dæmi um vistkerfi með einstakar samsetningar tegunda, sem hvergi finnast erlendis. Einhver gæti sagt sem svo: Fyrst hérlendis finnast mjög fáar einlendar tegundir er engin ástæða til að varðveita íslenska náttúru til að varðveita líffræðilegan fjölbreytileika. Það að einblína á fjölda tegunda eru mistök.
Þegar við erum hvött til að varðveita líffræðilegan fjölbreytileika þá eigum við einnig að huga að breytileika innan tegunda og tegundasamsetningu vistkerfa og búsvæða.
Hætturnar að líffræðilegum fjölbreytileika eru nokkrar, og meðal þeirra eru ágengar tegundir (invasive species). Mín tillaga að skilgreiningu á ágeng tegund: "Ágeng innflutt tegund er sú tegund sem hefur eiginleika sem gera henni kleift að auka kyn sitt og útbreiðslu á kostnað tegunda sem fyrir eru á landsvæði."
Ef melur sem upphaflega skartar 100 mismunandi tegundum blóma, grasa og sveppa er undirlagður af lúpínu á skömmum tíma (t.d. 15 árum), þá myndi ég skilgreina lúpínu sem ágenga tegund (það er einmitt það sem sérfræðingar á náttúrufræðistofnun hafa gert). Jafnvel þótt að í kjölfar lúpínunar muni fylgja ertuygla og fuglar sem ekki þrifust á melnum. Sigvaldi Ásgeirsson segir að lúpína muni þannig auka líffræðilega fjölbreytni.
Þetta sýna rannsóknir, sem taka til fleiri lífvera en háplantna. T.d. virðist spóinn hafa fundið sér vist í lúpínubreiðum. Hið sam[a] á við um skógarþresti og hagamýs. Einnig brandugla og væntanlega smyrill, sem nærist m.a. á skógarþröstum. Þessar tegundir græða allar á aukinni framleiðni jarðvegsins, sem fylgir lúpínunni.
Hér er komin upp erfið staða. Hvað gerum við þegar togstreita er á milli mismunandi hliða hins líffræðilega fjölbreytileika. Er mikilvægara að hafa margar og ólíkar tegundir eða ólík búsvæði? Þetta er erfið spurning, sem ég treysti mér ekki til að skera úr um.
Undirliggjandi í málflutningi Sigvalda er framfarahyggja sem stundum einkennir landgræðslu og skógræktarfélög. Fyrir þeim er gróðusnautt land einskis virði, einungis land með hámarks framleiðni hefur gildi. Hann skírskotar til alþjóðasamþykkta:
Íslendingar hafa skyldum að gegna gagnvart alþjóðasamfélaginu. Í anda sjálfbærrar þróunar ber okkur að auka framleiðni landsins með því að græða upp eyðimerkurnar. Það verður best gert í sátt við hugmyndir um sjálfbæra þróun með notkun lúpínu, en alls ekki með notkun tilbúins áburðar, sem yfirleitt er unnin úr olíu og allavega mikil raforka notuð í framleiðsluferlinu.
Hér erum við að horfa á togstreitu milli krafna um að varðveita líffræðilegan fjölbreytileika og sjálfbærni. Að mínu viti þá þurfum við að breyta neyslumynstri frekar en að breyta framleiðni landsins.
Vissulega er vistkerfi Íslands ekki með hámarks framleiðni, eða ber hámarks þéttni fugla og spendýra sem mögulegt er miðað við okkar breiddargráðu, en það þýðir ekki að við þurfum að bæta við tegundum. Og helst ekki tegundum sem eyða þeim tegundum sem fyrir eru, dregur úr erfðabreytileika viðkomandi stofna og fjölbreytileika búsvæða.
Aðstæður okkar eru dálítið sérstakar aðstæður. Við eyddum þeim skógi sem landið byggði á nokkrum öldum. Lífríki Íslands í dag er ekki óskaddað, í þeim skilningi að menn hafi aldrei raskað því. En það þýðir samt ekki að við höfum rétt á að raska því meira!
Reynslan kennir okkur að ágengar tegundir geta valdið miklum óskunda í vistkerfum, rutt út tegundum, raskað tengslum tegunda og þannig breytt samsetningu vistkerfa.
Reyndar efast ég um að hægt verði að stöðva alaskalúpínuna hérlendis. Þekja hennar hefur aukist mjög hratt (17.000 m2 in 1988 to 230.000 m2 in 2000 - tilvitnun í Kristínu Svavarsdóttur úr grein Borgþórs Magnússonar). Dreifingargetan er mjög mikil og fáar náttúrulegar hindranir. Miðað við reynslu mína úr sveitinni af því að reyna að hemja lúpínubletti, þá geri ég mér engar grillur um að hægt verði að útrýma henni á landsvísu. Dreifing hennar innan borgarmarkanna er einnig það hröð og víðfem að það þyrfti tröllaher til að fjarlægja hana. En mér finnst eðlilegt að henni verði settar einhverjar skorður. Það hjómar dálítið sérkennilega en besta leiðin til að hemja lúpínu er með sauðfjárbeit. Upp gæti komið sú staða að við þyrftum að ramma inn þjóðgarða og vernduð svæði með beitarhólfum.
Til útskýringar. Þessi pistill er tilkomin vegna þess að ég hafði látið í ljós þá skoðun mína að lúpína væri óheppileg viðbót við íslenska náttúru. Aðalsteinn Sigurgeirsson og Sigvaldi Ásgeirsson voru mér ósammála (sjá athugasemdir), og gáfu mér tækifæri til að rökstyðja ályktun mína frekar. Hluti af þessum pistli er endurnýttur úr svari mínu við athugasemd Aðalsteins.Ítarefni:
Af vef Náttúrufræðistofnunar Íslands - ágengar tegundir
Samantekt (á ensku) um vistfræði lúpínu af vefsvæði NOBANIS verkefnisins. Höf: Borgþór Magnússon.Fyrsta fréttin um líffræðilega fjölbreytni
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Þetta er fróðleg og skemmtileg grein hjá þér Arnar.
Fyrir nokkrum áratugum var ég einlægur aðdándi Lúpínunnar, enda var okkur sagt að hún væri svo frábær. Hún tæki örfoka mela og gerði þá að hinu besta ræktarlandi og það besta var að þegar hún hafði lokið því starfi átti hún einfaldlega að drepast. Eftir væri næringarríkur jarðvegur sem hægt væri að sá nánast hverju sem væri í. Þetta var náttúrulega allt of gott til að geta verið satt.
Lúpínan drepur ekki aðeins fjölbreyttan lággróður, heldur drepur hún nánast allann gróður sem er lægri en hún sjálf. Þetta má vel sjá t.d. á Hafnarmelum í Hvalfjarðarsveit. Þar voru melar með fjölbreyttum lággróðri inn á milli kjarrgróðurs.
Fyrir ekki svo mörgum árum síðan hafði ég tekið eftir að kjarrgróðurinn var farinn að skríða út af torfunum og farinn að sprota upp úr melnum í kring. Birkið var farið að nema land út fyrir torfurnar sem það hafði verið á. Hlýrra veðurfar ásamt minni beit er líkleg ástæða.
Stuttu seinna var ákveðið að planta Lúpinu á svæðinu, í nafni "gróðurverndar". Nú er svo komið þarna, að hún hefur lagt undir sig allann melinn, drepið allt sem þar var fyrir og kæft niður birkisprotana. Lúpínan er einnig farin að ráðast á torfurnar sem gamla birkið er á og líklegt að eftir nokkur ár verði ekkert þarna að sjá nema Lúpínu.
Það var engin ástæða til að fara út í þessar aðgerðir, það er engin ástæða til að skammast sín fyrir melana okkar, jafnvel þó á þeim sé aðeins gysinn og lágur gróður.
Því miður er þetta aðeins eitt dæmi af fjölmörgum, vitt um landið okkar.
Það getur verið að við einstakar aðstæður eigi Lúpínan rétt á sér, en það þarf að umgangast þessa jurt með mikilli varúð. Hún er ránjurt og stór hættuleg ef ekki er varlega farið!!
Gunnar Heiðarsson, 30.6.2010 kl. 11:01
Góð og þörf grein og athugasemd hér að ofan.
„Lúpínum ekki landið“
Emil Hannes Valgeirsson, 30.6.2010 kl. 11:35
Ég á í svona hate/love sambandi við lúpínuna; ákaflega ljótt að sjá hana breiða úr sér yfir gróið land og kæfa allt sem var fyrir, en það er samt ekki hægt að neita því að hún hefur virkað stórkostlega til að græða upp ógróið land, td. sanda, þar sem aðrar plöntur þrifust ekki.
Arnar, 30.6.2010 kl. 13:46
Gunnar, Emil og Arnar
Á mínum yngri árum var ég mjög fylgjandi notkun alaskalúpínu í endurheimt lands og sem hjálpartæki í skógrækt. Vissulega virkar hún vel sem slík, en hefur því miður ósækilega eiginleika sem gera hana að ágengri tegund.
Eins og áður sagði held ég að hún verði ekki stöðvuð, en við eigum samt möguleika á að stoppa aðrar tegundir eins og skógarkerfil, risahvönn og brenninetlu.
Arnar Pálsson, 30.6.2010 kl. 14:52
Mjög fróðlegar vangaveltur. Þakka fyrir.
Kristinn Theódórsson, 30.6.2010 kl. 21:38
Ég veit ekki betur en að hægt sé að planta trjám meðal lúpínunnar og þegar þau stækka þá hörfi hún eitthvað undan, því hún er ljóselsk. Þetta má t.d. sjá á reit við Skóga (Við Skógá, við brúna við þjóðveginn). Birkiskógur hefur vaxið upp úr lúpínu og virðist vera að ryðja henni til hliðar.
Einnig er hægt að benda á að ef reynt væri að endurheimta hinn glataða birkiskóg þá yrði rutt burt plöntum sem urðu ráðandi eftir að hann hvarf, það yrðu alltaf einhverjir óánægðir með það. Fleiri ánægðir líklega samt.
Mér finnst alltof mikið gert úr þessu máli. Betra væri að skilgreina einhver fá afmörkuð svæði þar sem hún mætti alls ekki vera og halda henni frá þeim frekar en fara í einhvern vonlausan stórhernað.
Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 1.7.2010 kl. 10:03
Takk Kristinn og þér sömuleiðis fyrir góðar greinar.
Takk Þorgeir fyrir góða punkta.
Ég held að það sé ekkert að því að planta birki eða öðrum trjáplöntum í lúpínuna, þegar markmiðið er skógrækt.
Mér fyndist verra ef hinn upprunalegi birkiskógur hyrfi algerlega. Kjarrið er svo sannarlega ekki merkilegur skógur, samanborið við útlönd en samt sérstakur á sinn hátt. Rannsóknir benda til að kynblöndun fjalldrapa og birkis gangi greiðlegar hérlendis en í skandinavíu, og að kjarrskógarnir séu að einhverju tilkomnir vegna genaflæðis á milli þessara tegunda.
Mér finnst rétt að ræða stöðu lúpínunar og annara ágengra tegunda. Ég held að stórhernaður gegn henni sé ómögulegur, því hún berst með göngufólki, skriðum, ár og lækjarfarvegum og fleiri leiðum. Ég er sammála þér, og efast um að hægt væri að stöðva hana, nema með ærnum tilkostnaði.
Arnar Pálsson, 1.7.2010 kl. 11:04
"Lúpínan drepur ekki aðeins fjölbreyttan lággróður, heldur drepur hún nánast allann gróður sem er lægri en hún sjálf.", segir Gunnar Heiðarsson.
Þetta er einfaldlega rangt. Umræðan um lúpínuna er stundum byggð á tilfinningum en lítið um rök.
Skoðið þessa færslu HÉR sem Ágúst H. Bjarnason skrifar. Athugasemdirnar við færsluna eru einnig mjög fróðlegar.
Gunnar Th. Gunnarsson, 1.7.2010 kl. 11:13
Gunnar
Ætli það sé ekki hægt að ræða um merkingu orðsins "nánast". En það fer ekki á milli mála að melagróður víkja fyrir lúpínunni. Það er ekki röksemd byggð á tilfinningu. En það er rétt hjá þér að lúpínan vekur oft tilfinningaríka umræðu (ekki endilega rökræðu), og sýður blóðið í meðlimum beggja fylkinga.
Takk fyrir vísunina á færslu Ágústar. Það er enginn að efast um notagildi hennar fyrir landgræðslu, en Ágúst segir:
Ég er honum að mestu sammála, nema hvað ég held að við höfum fleiri vopn en lúpínuna, t.a.m. birki, melgresi og víðitegundir.
Arnar Pálsson, 1.7.2010 kl. 13:09
Mér finnst rannsóknarskýrslan um dreyfingu lúpínu í Heiðmörk vera merkileg
Gunnar Th. Gunnarsson, 1.7.2010 kl. 15:26
Vegna tillögu Arnars Pálssonar að skilgreiningu á ágengri tegund („Ágeng innflutt tegund er sú tegund sem hefur eiginleika sem gera henni kleift að auka kyn sitt og útbreiðslu á kostnað tegunda sem fyrir eru á landsvæði.“)
Þessi skilgreining er allt of víðtæk og ekki í samræmi við þá áherslu (sem kemur fram í 8. grein, lið h., í sáttmálanum um líffræðilega fjölbreytni) á skaðsemi ágengrar lífveru gagnvart líffræðilegri fjölbreytni (þ.e., að slík lífvera þyrfti að „ógna“ vistkerfum, búsvæðum eða tegundum til þess að teljast ágeng). Það að innflutt tegund breiðist úr og auki kyn sitt „á kostnað“ einhverrar eða einhverra tegunda sem fyrir eru á landsvæði þarf ekki endilega að merkja sama og að innflutt tegund ógni vistkerfum, búsvæðum eða tegundum (og sé þar með „ágeng“). Slík lífvera getur í mörgum tilvikum aukið fjölbreytni vistkerfa (b-breytileika og ?-breytileika) og skapað ný búsvæði fyrir tegundir sem fyrir eru. Ef meina ætti einstökum lífverum að nema lönd „á kostnað annarra“ væri þar með komið í veg fyrir framvindu í vistkerfum. Afleiðingin af slíku yrði stöðnun og skaði á líffræðilegri fjölbreytni - ekki síst á tímum hnattrænna loftslagsbreytinga, þar sem útrýming margra tegunda blasir við, nái þær ekki að færa til útbreiðslusvæði sín í takt við breytingar á umhverfi.
Svona hljóma skilgreiningar sáttmálans um líffræðilega fjölbreytni (CBD COP 5 v/8), sjá einnig hér.
(i) „framandi tegundir”: tegundir sem er að finna utan venjulegs útbreiðslusvæðis sín ("alien" or "alien species" refers to a species occurring outside its normal distribution)
(ii) „ágengar framandi tegundir”: þær framandi tegundir sem ógna vistkerfum, búsvæðum og tegundum ("alien invasive species" refers to those alien species which threaten ecosystems, habitats or species)
Enn vantar því miður skýra, gagnsæa og nothæfa skilgreiningu á hugtakinu „ágeng framandi tegund”. Í hverju felst t.d. „ógn” gagnvart vistkerfum, búsvæðum eða tegundum? SBR.
Skilgreining alþjóðanáttúruverndarsamtakanna; IUCN (2002):
„Ágeng framandi tegund” þýðir framandi tegund sem nær fótfestu í náttúrlegum eða hálfnáttúrlegum vistkerfum eða búsvæðum, veldur þar breytingum og ógnar innlendum líffræðilegum fjölbreytileika ("Alien invasive species" means an alien species which becomes established in natural or semi-natural ecosystems or habitat, is an agent of change, and threatens native biological diversity).
Í umfjöllun Skógræktar ríkisins og Skógræktarfélags Íslands um „andlúpínuskýrslu“ Náttúrufræðistofnunar Íslands og Landgræðslu ríkisins er nokkuð fjallað um óskýra skilgreiningu á því hvað annmarkar þurfi að vera á plöntutegund til þess að hún fái stimpill „innrásargjörn“ eða „ágeng“.
Þar segir m.a. á bls. 4:
Ágengar plöntutegundir
Í innganginum er fullyrt að lúpína og skógarkerfill séu fyrstu dæmin um ágengar plöntutegundir sem taka að breiðast út hér á landi. Þetta er rangt. Krækilyng, sortulyng, beitilyng, þursaskegg og fjalldrapi eru allt dæmi um ágengar plöntutegundir sem náð hafa gríðarlegri útbreiðslu hér á landi vegna skógareyðingar og sauðfjárbeitar, sem voru og eru af mannavöldum. Ef eingöngu er átt við tegundir sem maðurinn flutti til landsins má nefna snarrótarpunt, húsapunt, njóla, baldursbrá, skriðsóley, hálíngresi, vallarsveifgras og skarifífil sem tegundir sem hafa orðið mjög útbreiddar hér á landi og staðbundið náð að útrýma öðrum gróðri með eða án aðstoðar mannsins (Steindór Steindórsson, 1964).
Nýjar plöntutegundir hafa reglulega borist til landsins s.l. 10.000 ár eða svo. Hingað komust þær með ýmsum hætti, og á mismunandi tímaskeiðum hafa þær verið misalgengar (Hafdís Hanna Ægisdóttir og Þóra Ellen Þórhallsdóttir, 2004). Ekki er nokkur vafi á því að landnám mannsins og þróun landnotkunar höfðu og halda áfram að hafa veruleg áhrif á lífríkið. Á því hafa ýmsar plöntutegundir grætt, bæði þær sem bárust hingað með aðstoð mannsins, en ekki síður þær sem voru hér fyrir en nutu breytinganna. Aðrar plöntutegundir töpuðu á breytingunum og má þar t.d. nefna birki, reynivið, hvönn, sigurskúf og blágresi.
Það er fræðilega forvitnilegt fyrir gróðurvistfræðinga að kanna hvernig og hvenær plöntutegundir bárust til Íslands og hvaða þættir stjórna útbreiðslu þeirra. Hins vegar er það misnotkun á þeirri þekkingu að nota hana til að flokka plöntutegundir upp í hópa eftir því hvað þær hafa verið hér lengi og á grundvelli þess að dæma sumar æskilegar en aðrar óæskilegar. Gróðurfar er stöðugt að breytast og það er bæði óeðlilegt og ógerlegt að ætla að festa það í tilteknu horfi. Frá sjónarmiðum sjálfbærrar þróunar er erfitt að réttlæta að ætla að festa ástand lands í rýru og niðurníddu horfi ef aðstæður leyfa ríkulegri og framleiðslumeiri gróður, til ávinnings fyrir þjóð, lífríki og umhverfi.
Ennfremur kemur fram í lokaorðum (bls. 15)
Hvaða kröfur eru gerðar til þess að plöntutegundir teljist ekki ágengar? Mega þær aldrei dreifast inn á svæði þar sem einhverjum finnst þær vera óæskilegar af hvaða ástæðu sem er? Þá eru afskaplega margar plöntutegundir ágengar, því „flest stráin stinga einhvern“. Eða eru sumar ástæður góðar og gildar en aðrar ekki? Hverjar þá? Skiptir framandleikinn meira máli en vistfræðileg hegðun? Þarf ógnin e.t.v. ekki að vera ýkja mikil til þess að réttlæta aðgerðir ef um útlending er að ræða en mun meiri af tegund sem er skilgreind sem innlend? Sannleikurinn er sá, að ekki er til almennt viðurkennd, nothæf skilgreining á því hvenær plöntutegund sé ágeng og hvenær ekki. Þá er óljóst hvað sé átt við með náttúrlegri fjölbreytni og hvernig hún sé mæld á mismunandi skölum.
Lúpína hefur verið ásökuð um að hegða sér ekki eins og frumherji, þ.e. að hún hopi ekki og að hún dreifist inn á algróið land. En hversu algengt er það? Hversu mörg eru þau dæmi þar sem lúpína hefur haldið velli í áratugi versus þau dæmi þar sem hún hopar eftir fá ár? Hversu mörg eru þau dæmi þar sem lúpína hefur borist inn á algróið land á móti þeim dæmum þar sem hún hefur ekki gert það? Er eitthvað í náttúrunni hérlendis í útrýmingarhættu vegna lúpínu eða skógarkerfils? Allt er þetta órannsakað og því er ekki við hæfi að halda fram staðhæfingum á borð við þær í upphafi lokaorðakafla skýrslunnar. Í 10. grein stjórnsýslulaganna (nr. 37/1993) er fjallað um Rannsóknaregluna; „Stjórnvald skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.“ Í ljósi þess sem fram kemur að ofan verður varla annað sagt en að Náttúrufræðistofnun Íslands og Landgræðsla ríkisins hafi brugðist rannsóknaskyldu sinni.
Aðalsteinn Sigurgeirsson, 7.7.2010 kl. 09:18
Sæll Aðalsteinn
Takk fyrir tilskrifin. Ég fellst á það að skilgreining mín á ágengum tegundum er frekar veik, réttara er að nota orðið "ógna" en "á kostnað".
Vissulega þurfum við að meta ítarlega hvað "á kostnað" annara tegunda þýðir.
En ég er ekki sammála því að þótt að skilgreiningin sé á reiki, að þá sé ekki hægt að rannsaka viðkomandi fyrirbæri. Líffræðingar eru alls ekki sammála um mörg lykilhugtök, gen, vist eða hegðun en það þýðir ekki að við getum ekki rannsakað líffræðileg fyrirbæri sem þessi hugtök tengjast.
Í grein minni ræddi ég þá þætti sem skipta máli fyrir líffræðilegan fjölbreytileika. Þetta eru allt mælanlegar stærðir, það er hægt að telja tegundir, meta hversu ólíkar þær eru, skoða breytileika innan stofna og samsetningu tegunda. Vissulega er erfitt að mæla þessar stærðir, en ef þú berð saman 100 svæði (valin af handahófi og einsleit að öðru leyti), þar sem á helmingi þeirra býr tegund sem þig grunar að sé ágeng en á hinum svæðunum vantar viðkomandi tegund, þá er hægt að meta hvort að viðkomandi tegund sé ágeng og ógni "líffræðilegum fjölbreytileika".
Þetta væri praktíst skilgreining, byggð á gögnum.
Vandamálið er að þetta er eftir-á rannsókn. Niðurstöðurnar eru líklega afgerandi, en vandamálið er það að þegar hér væri komið sögu væri lítill möguleiki á að stöðva eða uppræta viðkomandi tegund.
Önnur leið er að reyna að meta eiginleika innfluttra tegunda í nýju umhverfi og skilgreina hvaða eiginleikar eða tegundir gætu orðið ágengar.
Varðandi umsögn skógræktarfélags Íslands og SR, þá tek ég bara nokkur atriði til umræðu.
Það að aðrar tegundir hafi breiðst út af mannavöldum á síðustu 1000 árum, réttlætir það ekki að dreifa nýjum ágengum tegundum. Eldri mistök réttlæta ekki ný mistök.
Ég tek undir að vistkerfi eru ekki stöðug og að gróðurfar mun alltaf taka breytingum. Það er mistúlkun að halda að vistfræðingar náttúrustofnunar séu að mælast til að "festa það [gróðurfar] í tilteknu horfi". Þeir eru að vara við því að flytja inn og breiða út tegundir sem geta eytt líffræðilegum fjölbreytileika.
Strax á eftir setningunni að ofan er rætt um sjálfbæra þróun.
Hér er aftur komin upp togstreita milli náttúruverndar og landnýtingar, og hugmyndin um sjálfbæra þróun er notuð sem lóð á skálar landnýtingar/landbótar fólks. En sjálfbær þróun felur líka í sér varðveislu á náttúrunni, og varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika. Þannig að ég tel að málið sé ekki svona einfalt.
Í lokaorðum andsvarsins er aftur bent á að skilgreiningar séu ekki fullkomnar og að mörgum spurningum sé ósvarað, spurt um mikilvægi framandleika og annara þátta....t.d.
Fyrst vil ég ræða tvær þessara spurninga. Spurt er hversu mörg dæmi eru um að lúpína hörfi ekki? Málið er að ef lúpína "strauar" lífríki mels, þá skiptir ekki máli hvenær eða hvort hún hörfi, plönturnar sem bjuggu á melnum eru farnar!
Einnig er spurt hvort eitthvað í náttúrunni hérlendis sé í útrýmingarhættu vegna lúpínu eða skógarkerfils? Þetta einblínir á einn þátt líffræðilegrar fjölbreytni, þ.e. fjölda tegunda, en lítur framhjá fjölbreytileika stofna og samsetningu vistkerfa (sbr færsluna hér að ofan).
Annars virka þessi lokaorð á mig dálítið eins og vörn tóbaksframleiðenda. Vísað er til ósvaraðra spurninga, vafasamra skilgreininga og nauðsynar þess að stunda fleiri rannsóknir...svo lengi sem lúpínan fær að dreifa sér í friði (eða Altria (nýja nafnið á Philip Morris) fær að selja rettur í rólegheitum).
Arnar Pálsson, 7.7.2010 kl. 11:44
„En ég er ekki sammála því að þótt að skilgreiningin sé á reiki, að þá sé ekki hægt að rannsaka viðkomandi fyrirbæri. Líffræðingar eru alls ekki sammála um mörg lykilhugtök, gen, vist eða hegðun en það þýðir ekki að við getum ekki rannsakað líffræðileg fyrirbæri sem þessi hugtök tengjast.“ (Arnar Pálsson, 7.7., kl 11:44)
Hverju orði sannara, Arnar. Enda höfum við umsagnarskýrsluhöfundar síður en svo lagst gegn því að rannsökuð verði líffræðileg fyrirbæri á borð við það hvort lúpína, kerfill eða aðrar framandi tegundir séu að fremja þau vistfræðileg voðaverk sem sumir vilja eigna þeim. Þvert á móti viljum við að auknum fjármunum verði varið í rannsóknir á vistfræði lúpínu og kerfils, sbr. meginniðurstöður umsagnarinnar, að..
„[í skýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands og Landgræðslu ríkisins sé ekki] búið að sýna fram á þvílíka skaðsemi eða ógn af lúpínu eða skógarkerfli að það réttlæti kostnaðarsamar aðgerðir hins opinbera til útrýmingar þessara plöntutegunda. Hins vegar sé rétt að rannsaka vistfræðilega hegðun og útbreiðslu þeirra nánar til að hægt verði að komast að því hvort slík ógn sé fyrir hendi og þá hvar og í hversu miklum mæli.“
Ennfremur kemur fram í umsögninni:
„Skoða beri bæði jákvæð og neikvæð áhrif lúpínu og skógarkerfils á alla þá þætti líffræðilegrar fjölbreytni sem varpa má ljósi á með rannsóknum áður en ákvarðanir eru teknar um upprætingu“. Með sögninni „að skoða“ eigum við að sjálfsögðu við að fræðilega athugun tiltekins viðfangsefnis, með öðrum orðum vísindalega rannsókn.
Nú er senn liðnir tveir áratugir frá því síðast fór fram þriggja ára löng rannsókn á vistfræði alaskalúpínu með styrk frá Rannís [Borgþór Magnússon, 1995 (ritstjóri). Líffræði alaskalúpínu (Lupinus nootkatensis). Vöxtur, fræmyndun, efnainnihald og áhrif sláttar. Fjölrit RALA nr. 178, 82 bls.]. Frá því þeirri rannsókn lauk, hafa hvorki Borgþór né aðrir hérlendir vísindamenn tekið upp þráðinn og fylgt eftir fyrri rannsóknum né vaktað fyrri athugunarreiti. Rannsóknaniðurstöður úr fyrra verkefninu hafa birst á ýmsum innlendum vettvangi, svo sem í „Fjölriti Rannsóknastofnunar landbúnaðarins“, Lesbók Morgunblaðsins, Náttúrufræðingnum og Árbók Landgræðslu ríkisins. Því miður hafa engar rannsóknaniðurstöður úr þessu verkefni ratað inn í alþjóðleg, ritrýnd fræðatímarit með jafningjamati (e. peer-reviewed). Ekki er mér kunnugt um að neinar rannsóknir hafi farið fram hérlendis á vistfræðilegum áhrifum skógarkerfils. Hér er því djúp þekkingargjá sem hægur vandi hefði verið að bregðast við fyrr hjá þeim rannsóknastofnunum sem eiga hér hlut að máli: Náttúrufræðistofnun Íslands og Landgræðslu ríkisins.
Það er deginum ljósara að dýrt verður að vinna bug á lúpínu eða skógarkerfli skv. forskriftinni sem gefin er upp í skýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands og Landgræðslu ríksins. Auk þess er afar vafasamt að takast muni samfélagsleg sátt um að notkun eiturefna á borð við Glyphosate í hernaði gegn tilvist þessara jurta í íslensku lífríki. Því er ekki óeðlilegt þótt spurt sé hvort ávinningur af slíkri framkvæmd fyrir líffræðilega fjölbreytni sé í samræmi við fyrirhöfn, fórnarkostnað og fjárhagslegan kostnað samfélagsins? Til þess verður að byrja að fá hlutlægt og viðunandi svar við spurningunni: Stendur líffræðilegri fjölbreytni Íslands slík ógn af lúpínu og skógarkerfli að það réttlæti ófyrirsjáanlegan og himinháan kostnað? Þeirri spurningu verður ekki svarað með öðru móti en að efldar verði og vandað til vísindalegra rannsókna á fyrirbærinu.
Aðalsteinn Sigurgeirsson, 7.7.2010 kl. 13:32
Frábær innlegg hjá þér, Aðalsteinn
Gunnar Th. Gunnarsson, 9.7.2010 kl. 01:35
Sæll Aðalsteinn
Takk fyrir tilskrifin, við erum sammála um marga þætti. Lykilspurningin sem við erum að ræða er hvort "líffræðilegri fjölbreytni Íslands [stafi] ... ógn af lúpínu og skógarkerfli".
Vitanlega er mikilvægt að rannsaka "hegðun" lúpínu og kerfils í Íslenskri náttúru. Auðvitað er mikilvægt að birta niðurstöður rannsókna (eins og fyrri rannsókna á lúpínu hérlendis) í ritrýndum tímaritum, en í sumum tilfellum duga rannsóknarskýrslur, ef þær útlista almennilega aðferðafræði, sýnatöku, tölfræðilegar greiningar og niðurstöður á skýran hátt (annars veit ég ekki alveg hvers vegna þessar niðurstöður hafa ekki verið birtar, og sting upp á að þið beinið spurningunni til Borgþórs og krefjið hann um frumgögnin!).
Varðandi lúpínuna, þá er mikilvægt að vita hversu hættuleg hún er vistkerfi landsins:Þetta er mikilvægt, en þú hlýtur að sjá að til að meta til fullnustu áhrif lúpínu á líffræðilegan fjölbreytileika þá þarf mjög ítarlega rannsókn á mjög mörgum svæðum. Þessi "náttúrulega" tilraun er núna í gangi, og án almennilegs eftirlits.
Við getum ekki gert svona "náttúrulegar" tilraunir á öllum þeim tegundum sem við höfum áhuga á að rækta hérlendis (eða sem laumast hingað). Þú hlýtur að vera mér sammála um það?
Engu að síður eru nokkrir þættir sem benda til þess að lúpína sé ágeng tegund (sbr skýrslu NÍ og LR) T.d. sú staðreynd að það flatarmál sem lúpína þekur hérlendis hefur margfaldast á nokkrum áratugum. Við höfum enga (takmarkaða) getu til að stöðva þessa tilraun, ég sé ekki að uppræting á landsvísu sé raunhæfur möguleiki (sbr. röksemdir þínar og fyrri athugasemdir mínar).
Lúpína hefur bæði dreifst náttúrulega hérlendis, og verið sáð af miklu kappi. Skýrsla NÍ og LR setur fram rök fyrir því að lúpína (og kerfill) séu ágengar tegundir sem muni ógna líffræðilegum fjölbreytileika. Er ekki ráðlegt að a.m.k. bíða með frekari dreifingu á lúpínu á meðan við metum áhættuna af henni?
Ég tel að við ættum að hætta frekari dreifingu lúpínu, rannsaka áhrif hennar ítarlega og fara í markvissa hreinsun í þjóðgörðum og e.t.v. öðrum sérstökum svæðum.
Ég tel mikilvægast læra af lúpínundæminu að fara með aðgát þegar mögulega ágengar tegundir eiga í hlut. Við ættum að fara hægt í að dreifa nýjum tegundum í náttúru Íslands (og jafnvel í þéttbýli, því fræ fljúga víða). Vistkerfi eyja eru oft mjög viðkvæm fyrir nýjum landnemum, sbr. lífríki Hawaii, Galapagos og Nýja Sjálands.
Arnar Pálsson, 9.7.2010 kl. 18:36
Þetta eru fínar rökræður. Betra ef þær hefðu farið fram til undirbúnings andlúpínuskýrslu Náttúrufræðistofnunar og Landgræðslunnar. Stærsti gallinn við þá skýrslu var að hún var ekki send út til umsagnar. Eftirá fengu nokkrir skógræktarmenn að skila athugasemdum og nú er búið að afgreiða þær. Þær breyta engu. Við sem sömdum athugasemdirnar gerðum okkur engar vonir um að tekið yrði tillit til allra punkta sem þar komu fram. Hins vegar voru þar nokkrir punktar sem okkur fanst borðleggjandi að taka beri tillit til, svo sem um að setja fundarstaði sjaldgæfra plantna á forgangslista yfir svæði þar sem ætti að vakta og e.t.v. eyða lúpínu. En það verður ekki gert því tillagan kom frá röngum aðila.
Ákvarðanir um forgangsröðun svæða til að eyða lúpínu, sem fram koma í andlúpínuskýrslunni, voru ekki teknar á forsendum líffræðilegrar fjölbreytni, heldur landslags. Það er því miður "lookið" sem ræður för í íslenskri náttúruvernd en ekki innihaldið.
Þröstur Eysteinsson (IP-tala skráð) 10.7.2010 kl. 08:24
Þröstur: Staðfestir þetta ekki að þjóð sú sem land þetta byggir telur umbúðir og mýtur skipta meira máli en innihald og staðreyndir. "All talk and appearance and little or no substance nor truth." Arnar: Varðar: „Auðvitað er mikilvægt að birta niðurstöður rannsókna (eins og fyrri rannsókna á lúpínu hérlendis) í ritrýndum tímaritum, en í sumum tilfellum duga rannsóknarskýrslur.‟Fræðasamfélagið íslenska er fámennt, innræktað og innmúrað. Því skiptir miklu að íslensk vísindaskrif komist í gegnum síu hlutlægrar, alþjóðlega ritrýningar. Það er raunar forsenda fyrir því að aðgreina megi góð, íslensk vísindi frá íslenskum ruslvísindum. Greinar birtar í innlendum „gráum litteratúr‟ (Dæmi: Fjölrit RaLa, Ársbók Landgræðslu ríkisins, Lesbók Morgunblaðsins, o.s.frv.) geta án efa verið haganlega ritaðar og fróðlegar, en slíkar birtingar geta einar og sér aldrei staðist slíkar vísindalegar gæðakröfur - ekki frekar en bloggfærslur okkar hér á þessum vettvangi. Það er ekki síst mikils vert að vísindaleg vinnubrögð og hlutlægni sé hafin yfir allan vafa, ekki síst ef á grundvelli þeirra gagna á að ráðast í kostnaðarsama „detoxmeðferð‟ eða „hundahreinsun‟ á íslensku lífríki á kostnað skattgreiðenda, í því augnamiði að slá skjaldborg um líffræðilega fjölbreytni. Varðar: „Við getum ekki gert svona "náttúrulegar" tilraunir á öllum þeim tegundum sem við höfum áhuga á að rækta hérlendis (eða sem laumast hingað). Þú hlýtur að vera mér sammála um það?‟Frá því lífið kviknaði á jörð hafa slíkar „náttúrlegar tilraunir‟ farið fram um alla jörð og er afurð þessara tilrauna það sem við köllum í dag „líffræðileg fjölbreytni‟. Tegundir hafa þróast á einum stað, en færst annað með ýmsum hætti. Til mótvægis við ýmsar fornar, frumspekilegar, náttúrunauðhyggjulegar tvíhyggjuhugmyndir sem samofnar eru hefðarspekinni um „manninn vs. náttúra‟; að maðurinn sé af allt öðru sauðahúsi en allar aðrar lífverur, vil ég minna á að mannskepnan er bara ein tegund af ótalmörgum milljónum afurða líffræðilegrar þróunar á þessari jörðu. Maðurinn aðgreindist frá öðrum fremdardýrum fyrir 5-6 milljónum ára og dreifðist frá heimkynnum sínum í A-Afríku til fjarlægustu deilda jarðar. Með honum fluttust ýmis framandi dýr (húsdýr og óværur, s.s. rottur, mýr og lýs) og plöntur (jafnt nytjaplöntur sem illgresi) milli landssvæða og meginlanda. Í ljósi þess sé ég engan eðlismun (gott vs. illt) á því hvort fugl ber hingað til lands fræ „framandi plöntu‟ í fóörnum sínum eða maður í ferðatösku/flutningagámi. Þessi spurning er, eins og Nietzche hefði orðað það: „Jenseits von Gut und Böse‟ (handan góðs og ills). Varðar: „Er ekki ráðlegt að a.m.k. bíða með frekari dreifingu á lúpínu á meðan við metum áhættuna af henni?‟ .... „Ég tel mikilvægast læra af lúpínundæminu að fara með aðgát þegar mögulega ágengar tegundir eiga í hlut. Við ættum að fara hægt í að dreifa nýjum tegundum í náttúru Íslands (og jafnvel í þéttbýli, því fræ fljúga víða). Vistkerfi eyja eru oft mjög viðkvæm fyrir nýjum landnemum, sbr. lífríki Hawaii, Galapagos og Nýja Sjálands.‟„Varúðarreglunni‟ verðum við ávallt að beita af mikilli varúð, ef við eigum að forða okkur sjálfum og samfélaginu öllu frá stöðnun, samfélagslegri lömunarveiki og þjóðfélagslegu öngþveiti. Ekki viljum við stöðva straum ferðamanna og innflytjenda til Íslands af ótta við að meðal þeirra finnist einn og einn meðlimur í Al-Kaida? Í því sambandi vil ég minna á þau fornu sannindi sem felast í málshættinum „Vogun vinnur, vogun tapar‟ (sem mér finnst reyndar hljóma betur á færeysku: „Hann, ið einki vágar, hann einki vinnur‟).Ég er heldur ekki tilbúinn að samþykkja heimatilbúna og handahófskennda flokkun lúpínu í sakaflokkinn „ágeng” (invasive) tegund, sbr. IUCN („Ágeng framandi tegund” þýðir framandi tegund sem nær fótfestu í náttúrlegum eða hálfnáttúrlegum vistkerfum eða búsvæðum, veldur þar breytingum og ógnar innlendum líffræðilegri fjölbreytni). Ég veit ekki til þess að lúpína hafi náð fótfestu annars staðar en á rofnu og hálfrofnu landi (sem er rofið eða hálfrofið af mannavöldum) og ég veit ekki til að hún hafi rýrt eða ógnað líffræðilegri fjölbreytni (það að benda á að hún hafi einhvers staðar keppt út krækiberjalyng eða lambagras þýðir ekki sama og að „ógna líffræðilegri fjölbreytni”). Nú skulum við velta fyrir okkur þremur tegundum og skilgreina hver þeirra er „ágengust”: lúpína, skógarkerfill og ætihvönn. Af þessum þremur virðist íslenska ætihvönnin vera „sú ágengasta”, því hún sáir sér inn í breiður hinna tveggja tegundanna og yfirskyggir þær (það er alltént reynslan úr Hrísey). Hver þessara tegunda er þá „óalandi, óferjandi og öllum bjargráðum óráðandi” í íslenskum gróðurvistkerfum? Sú sem er ágengust, eða sú sem er „útlendust”? Skiptir framandleikinn meira máli en vistfræðileg hegðun? Til þess að draga megi réttan lærdóm af reynslu annarra eyþjóða, verðum við að hafa réttar og traustar upplýsingar og forðast að trúa atvikssögum og flökkusögum og munnmælasögum ef við eigum að forðast að hrapa að röngum ályktunum. Þannig er með með reynslu eyþjóða á Kyrrahafi og „viðkvæmu vistkerfi‟ þeirra: þar hefur mörgum tegundum dýra verið útrýmt af eftirfarandi „framandi, ágengum tegundum‟: manninum, rottunni, kettinum, kanínunni, refinum, geitinni og sauðkindinni. Framandi plöntur, hversu „ágengar‟ sem þær kunna að virðast lærðum sem leikum, reynast ekki hafa borið nokkra sök á útrýmingu lífvera á Kyrrahafseyjum, ef eitthvað er að marka nýlegar rannsóknir Sax og Gaines. Þær rannsóknir voru hvorki birtar í Fjölriti RaLa né Ársbók Landgræðslu ríkisins, heldur voru þær birtar í einu víðlesnasta og kröfuharðasta, alþjóðlega, ritrýnda vísindatímariti heims, PNAS (Proc. Natl. Acad. Sci. USA; sjá einnig umfjöllun í New York Times). Ég dreg þá ályktun af niðurstöðum þessarar greinar að við sem byggjum þetta viðkvæma eyland eigum f.o.f. (og af fenginni reynslu í 11 aldir) að forðast innflutning rándýra og grasbítandi spendýra, en „leyfa þúsund blómum að blómstra‟ - jafnvel þeim blómum sem stundum eiga það til að yfirskyggja önnur blóm!
Aðalsteinn Sigurgeirsson, 12.7.2010 kl. 10:31
Sæll Aðalsteinn
Það er ánægjulegt að við deilum þeirri skoðun að vísindalegar niðurstöður eigi að birta í ritrýndum tímaritum. Hins vegar er vitum við báðir að mikilvægar upplýsingar má finna í skýrslum og ritgerðum, jafnvel þótt þær séu ekki ritrýndar, SÉRSTAKLEGA ef höfundar hafa vandað til verksins og hafi hannað rannsókn sína vel og greint gögnin af heiðarleika. Ég hef séð margar ágætar rannsóknir almenns og "praktísks" eðlis í ársriti skógræktarfélagsins, Frey og Náttúrufræðingnum, sem og skýrslum náttúrufræðistofnunar, hafrannsóknarstofnunar og líffræðistofnunar. Sum viðfangsefni eru bara ekki nægilega "sexí" fyrir tímaritin. Gangi hverjum sem er vel að fá birta grein um áhrif lúpínubreiðu á líffræðilegan fjölbreytileika í Esjuhlíðum í Science eða PNAS.
Mér finnst dálítið eins og stangir marksins séu á hreyfingu. Í fyrri athugasemd bentu höfundar "andsvarsins" á að margar aðrar tegundur gætu talist eins ágengar og lúpínan. Núna segir þú að í raun séu engar tegundir ágengar, allt sé þetta náttúrulegt og eðlilegt af því að maðurinn hafi hvort eð er haft svo mikil áhrif á náttúruna og samsetningu hennar. Og dregur þær ályktanir frá yfirlitsgrein Sax og Gaines að við ættum ekki að reyna að sporna við innflutningi plantna (aðal ástæðan er sú niðurstaða Sax og Gaines að samkeppni á milli innflutra plantna og "eyja"plantna virðist ekki leiða til útdauða þeirra síðarnefndu - hafa ekki nema 3 af þeim 20000 plöntutegundum sem byggja Nýja Sjáland dáið út). Hérna sjáum við aftur mun á skilgreiningu á líffræðilegum fjölbreytileika. Sax og Gaines eru að horfa á fjölda tegunda en ekki á breytileika núlifandi stofna eða samsetningu vistkerfa! Mjög góð grein engu að síður, takk fyrir ábendinguna!
Víkjum aftur að náttúrulegu lúpínu tilrauninni. Ég legg áherslu á að VIÐ settum þessa tilraun í gang, viljandi, og síðan spilast úr henni meira eða minna án okkar íhlutunar.
Punkturinn minn var sá að við getum ekki framkvæmt svona tilraun fyrir allar þær plöntur sem okkur langar til að rækta hérlendis eða sem við höldum að geti nýst til "landbætingar". Þú hlýtur að samþykkja það, að við getum ekki tekið aðrar 10-50 tegundur, sáð þeim af sama krafti í mela, skógræktargirðingar, skólasvæði og vegkannta...og síðan ypt öxlum þegar 5 þeirra dreifa úr sér í íslenskri náttúru og sagt: "áhrif þessara tegunda á líffræðilegan fjölbreytileika eru ekki skilgreind, leyfum þeim að eiga sig!"
Það er þetta sem ég legg áherslu á með Varúðarreglunni, ekki einhver fasistastefna eða detoxaðferðir. Á Hawaii eru þeir með einfalda aðferð á flugvellinum, allir farþegar verða að skilja ávextina sína eftir í flugvélinni og sótthreinsa skóna í einfaldri laug þegar þeir fara í gegnum flugstöðfarbygginguna. Þetta mun ekki stöðva öll fræ, en þjónar tvennum tilgangi: i) dregur úr fjölda fræja sem koma til eyjanna - líkur á landnámi eru í réttu hlutfalli við fræregn og ii) bendir (eða getur bent) ferðamönnunum á að lífríki eyjanna er einstakt.
Þú segir:
Ég veit ekki til þess að lúpína hafi náð fótfestu annars staðar en á rofnu og hálfrofnu landi (sem er rofið eða hálfrofið af mannavöldum).
Ég veit ekki alveg hvað þú skilreinir sem órofið land, en grunar að það sé ansi þröngt miðað við staðhæfinguna. Það þarf ekki PNAS greinar til að sjá hvernig lúpínan breiðist út. Ég dvaldi í Norðtunguskógi í júní og þar leikur Lúpína lausum hala innan girðingar sem umlykur gamla birkiskóginn og skógræktina. Svæðið hefur verið afgirt í aratugi, var fallegur birkikjarrskógur áður og núna blandaður skógur með stærðar furu, greni og öðrum skógartrjám. Lúpínan teygir sig inn í skógarbotninn, inní pattarlegar þúfur og glufur í laufþykkninu.
Þú segir einnig:
"ég veit ekki til að hún hafi rýrt eða ógnað líffræðilegri fjölbreytni (það að benda á að hún hafi einhvers staðar keppt út krækiberjalyng eða lambagras þýðir ekki sama og að „ógna líffræðilegri fjölbreytni”)"
Vitanlega þurfum við rannsóknir til að meta þetta hlutlægt, en segðu mér. Ef lúpína mun eftir t.d. 100 ár þekja 3/4 þess lands sem krækilyng og lambagras þekja núna, teluru þá að líffræðilegur fjölbreytileiki hafi aukist eða minnkað (ef við horfum til erfðabreytileika og samsetningu vistkerfa)?
Eitt að lokum, þú segist ekki kvitta undir skilgreiningu skýrslu NI og LR á lúpínu sem ágengri tegund. Eru þá einhverjar tegundir hérlendis, eða erlendis sem þú myndir flokka sem ágenga tegund?
Með þökk fyrir fræðandi tilskrif. Ég verð í leyfi næstu vikur þannig að svör mín kunna að berast hægt, vegna ferðalaga og útiveru ekki andvaraleysis eða virðingarskorts!
Arnar Pálsson, 12.7.2010 kl. 14:57
Sæll og þakka þér sömuleiðis, Arnar. Ég held við deilum flestum skoðunum og grundvallarprinsipum. Ef okkur greinir á um smáatriði málsins, skulum við alls ekki stefna að „consensus”, heldur halda áfram að ræða þau atriði þar til við a.m.k. skiljum sjónarmið hvors annars. Það hlýtur a.m.k. að koma e-ð skapandi og ferskt og laust við hefðarspeki út úr þeim skoðanaskiptum.
Varðar: „muninn á rofnu og órofnu landi”.
Ísland skiptist ekki í algróið og örfoka land (svart og hvítt) heldur er að finna mörg blæbrigði. Almennt er íslenskur jarðvegur snauður af nitri og fosfór í aðgengilegu formi og skortur á þessum næringarefnum í jarðvegi kemur í veg fyrir myndun sterkrar og samfelldrar gróðurhulu sem staðist getur rof. Fyrir vikið er stærstur hluti íslensks þurrlendis á mismunandi stigum „gróðurhnignunar”. Landið er að vísu ekki allt örfoka og gróðurlaust, en á stærstum hlutanum er gróðurhulan mismikið rofin og „dílótt” (t.d. með rofdílum hér og hvar í mólendinu). Vel má vera að ein helsta ástæðan fyrir þeim hnekki sem íslensk þurrlendisvistkerfi biðu af búsetunni hafi einmitt verið sú að í flóruna vantaði lykiltegundir (keystone species) sem gera vistkerfi starfhæf, tegundir á borð við niturbindandi tré og jurtir. Slíkar tegundir hefðu getað styrkt gróðurhuluna og aukið með því þanþol þurrlendisvistkerfa gagnvart „innrás“ mannsins og húsdýra hans inn í vistkerfi landsins. En það er víst þýðingarlaust að tala um söguna í viðtengingarhætti.
Það er hinsvegar öfgafull afbökun á framansagðri staðhæfingu að þeir sem tala fyrir því að framandi, dugmiklar tegundir plantna geti átt hlutverki að gegna við endurreisn lífríkis og landkosta séu haldnir „öfugum rasisma” og vilji ryðja burt öllum þeim þrautbeitta gróðri (Ljósberi, lambagras, skarifífill, holtasóley, dýragras, vallarsveifgras, geldingahnappur, prestapungur, melanóra, tófugras, blástjarna) sem fyrir er í landinu og skipta honum fyrir önnur og betri klæði fjallkonunnar (Dæmi um slíka orðræðu: Guðmundur Andri Thorsson, Fréttablaðið 12/7). Ég á sjálfur gömul og slitin klæði frá blómaskeiði íslensks textíliðnaðar sem ég vil ógjarnan farga, þótt ég klæðist öðru hvoru innfluttum og nýjum fatnaði. Ég hendi heldur ekki gömlum bókum, þótt ég eignist nýjar.
Við gætum eytt löngu máli í skilgreiningar á líffræðilegri fjölbreytni og hinum ýmsu og mismunandi skölum. Ég tek eftir því, þegar þú talar um yfirtöku lúpínu á melagróðri, þá ert þú að ræða um hluta „alfa-breytileika” sem er tegundafjölbreytni innan reita, t.d. á tilteknum 100 x 100 m mel). Hér er þó ekki öll sagan sögð, því bæta verður inn í jöfnuna tegundafjölbreytni annarra tegunda en aðeins plantna (s.s. fugla, smádýralífs í jarðveg, sveppa, o.s.frv.). Sú aukna fjölbreytni er því miður lítið rannsökuð hérlendis í lúpínu- og skógarkerfilsbreiðum en blasir við hverjum sem gengur að sumarlagi gegnum slíkar breiður að vera mikil. Við getum líka talað um Beta-breytileika en í því felst samanburður á tegundafjölbreytni hinna mismunandi vistkerfa eða á e-m umhverfisstiguli. Síðan getum við fært út skalann á landslagsvísu (Gamma-breytileika) sem er heildartegundabreytileikinn á stærri landssvæðum (s.s. innan Íslands). Í ljósi þess, að ekki vaxa sömu tegundir plantna, dýra og örvera á ógrónum mel og lúpínugrónum mel má fullyrða að lúpínan. (a) geti aukið alfa-breytileika (kannski ekki háplantna til skemmri tíma, en allaveganna dýra, sveppa, o.s.frv. og e.t.v. plantna líka þegar til lengri tíma er litið); ((b) auki beta-breytileika (m.þ.a. að auka mun milli vistkerfa frá því sem áður var) og (c) aukið gamma-breytileika (með því að auka tegundafjölbreytni á landsvísu). Um Norðtunguskóg vil ég segja þetta: Þegar það land var friðað fyrir sauðfjárbeit fyrir ríflega hálfri öld, var ekki mikið meira kjarr innan þeirrar girðingar en nú má finna utan griðingarinnar. Utan girðingarinnar má nú finna einstöku birkirunna á stangli, en útbreiðslu kjarrsins er haldið niðri af beit. Stærstur hluti girðingarinnar á 6. áratug síðustu aldar var vaxinn lyngi og innan um lyngið var að finna einstöku kjarrhólma. Innan um lyngivaxið mólendið var svo að finna mela. Á fyrstu árum eftir friðun voru barrtré (einkum stafafura) gróðursett í mólendið og lúpínu sáð í melana. Melarnir voru einnig notaðir sem slóðar fyrir bíla og dráttarvélar. Frá því friðun hófst hefur kjarrið þést og breiðst út, lúpínan hefur grætt melana en ekki „ráðist” inn í samfelldan gróður utan melanna, hvorki kjarrið né móann. Hún hefur einna lengst haldið velli í slóðunum sem verða fyrir árlegri röskun af völdum bíla og dráttarvéla. Ég held reyndar að þú hafi misskilið þær varúðarráðstafanir sem gerðar eru við komuna til Hawaii. Þar er vissulega verið að gera ráðstafanir gegn „framandi, ágengum tegundum” en aðallega þá gegn plöntu- og dýrasjúkdómum sem valdið geta usla og fjárhagstjóni í Hawaískum landbúnaði. Þetta er á hinn bóginn ágætt dæmi um vel ígrundaðar og málefnalegar ástæður fyrir því að fyrirbyggja landnám nýrra tegunda sem valdið geta efnahagslegur tjóni eða heilsutjóni: Öll samfélög vilja forðast efnahagslegt og samfélagslegt tjón af völdum hinna ýmsu skaðvalda (nema kannski hið íslenska, á síðustu árunum fyrir Hrun). Við viljum t.d. ekki að hér nemi land moskítóflugur, enn síður að þær móskítóflugur beri með sér vestur-Nílarveiruna sem valdið getur mönnum og dýrum dauða eða heilsutjóni. Ég tek þennan þráð upp síðar og svara þá eftir bestu getu þeirri spurningu sem þú varpaðir til mín („þú segist ekki kvitta undir skilgreiningu skýrslu NI og LR á lúpínu sem ágengri tegund. Eru þá einhverjar tegundir hérlendis, eða erlendis sem þú myndir flokka sem ágenga tegund?”) Ég vísa að öðru leyti til langrar greinar sem birtist í Skógræktarritinu árið 2005. Þar ræddi ég m.a. þessi mál út í hörgul (og margar aðrar hliðar á málefnum "framandi tegunda plantna").Aðalsteinn Sigurgeirsson, 13.7.2010 kl. 13:40
Ég hef greinilega rekið mig óvart í einhvern takka sem framkallaði óvart miklar leturbreytingar um miðjan kaflann. Það var ekki ætlun mína að stækka og feitletra með rauðu þetta miðbik!
Aðalsteinn Sigurgeirsson, 13.7.2010 kl. 13:42
Aðalsteinn
Varðar: „muninn á rofnu og órofnu landi”.
Ég efa ekki að samsetning íslensku flórunnar hafi e.t.v. verið ástæðan fyrir því að "innrás" sauðfjár með landnámi varð svo afdrífarík sem raun ber vitni. Hins vegar lít ég ekki á melagróður sem rofið land, þótt einhverjar gloppur finnist í gróðurhulunni. Mér finnst friðun (frá beit) mela og móa og sáning birkis eða víðis vera alveg jafn skynsamleg lausn og sáning lúpínu, ef markmiðið er að drafa úr rofi og landeyðingu.
Fyrir mér lítur út fyrir að það sé möguleiki á togstreitu á milli varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika og landgræðslu (eða aðgerðum gegn "gróðurhnignun"). Slíka togstreitu er erfitt að leysa með vísindalegum rannsóknum, og þarf til pólitík.
Takk fyrir fræðsluna um Norðtunguskóg. Svæðin sem ég sá greinilega með gömlu kjarri, reyndar með íplöntuðu greni og furu, og lúpínan óx í þykkum mosa og gróðuþúfum í jaðri þeirra og inn á milli þar sem skógurinn var gisnari. Þetta virkaði ekki eins og rofið land, en auðvitað er þetta ekki vísindaleg rannsókn, bara athugun í göngutúr. Sumt er reyndar augljóst, t.d. að sauðfjárbeitin heldur lúpínunni alveg niðri utan girðingar. Ef við erum að velta fyrir okkur leið til að hefta lúpínu, þá er sauðkindin hið ágætasta verkfæri.
Varðandi áhrif lúpínu á líffræðilegan fjölbreytileika, þá tekur undir þá hugmynd að lúpína sem vex yfir gróin mel eða haga mun leiða til minni líffræðilegs fjölbreytileika (amk meðal plantna).
Þú segir:
"Í ljósi þess, að ekki vaxa sömu tegundir plantna, dýra og örvera á ógrónum mel og lúpínugrónum mel má fullyrða að lúpínan. (a) geti aukið alfa-breytileika (kannski ekki háplantna til skemmri tíma, en allaveganna dýra, sveppa, o.s.frv. og e.t.v. plantna líka þegar til lengri tíma er litið); ((b) auki beta-breytileika (m.þ.a. að auka mun milli vistkerfa frá því sem áður var) og (c) aukið gamma-breytileika (með því að auka tegundafjölbreytni á landsvísu)."
Vissulega bað ég þig um að spá um framvindu mála þegar lúpína tekur völd á mel, og í málsgreininni hér á ofan gerir þú það ágætlega. Vissulega er þetta á grundvelli þekkingar sem er til staðar, það eru ekki neinar birtar greinar um þetta, þar sem rannsóknir á áhrifum lúpínu á dýralíf og síðframvindu hafa ekki verið framkvæmdar.
Samt örlar á misræmi hér. Getum við notað þá þekkingu sem nú er til staðar, til að draga upp jákvæða mynd af áhrifum lúpínu á líffræðilegan fjölbreytileika, en þegar aðrir halda því fram að lúpína sé neikvæð fyrir líffræðilegan fjölbreytileika þá eru ályktanir þeirra grunsamlegar á grundvelli þekkingarskorts (skorti á ritrýndum greinum um áhrif lúpínu á líffræðilegan fjölbreytileika).
Einn punktur í lokinn, gætiru vinsamlegast tekið fyrri athugasemd til umfjöllunar:
"Punkturinn minn var sá að við getum ekki framkvæmt svona tilraun fyrir allar þær plöntur sem okkur langar til að rækta hérlendis eða sem við höldum að geti nýst til "landbætingar". Þú hlýtur að samþykkja það, að við getum ekki tekið aðrar 10-50 tegundur, sáð þeim af sama krafti í mela, skógræktargirðingar, skólasvæði og vegkannta...og síðan ypt öxlum þegar 5 þeirra dreifa úr sér í íslenskri náttúru og sagt: "áhrif þessara tegunda á líffræðilegan fjölbreytileika eru ekki skilgreind, leyfum þeim að eiga sig!""
Lausir endar:
1. Úr fyrri athugasemd þinni:
"Hver þessara tegunda er þá „óalandi, óferjandi og öllum bjargráðum óráðandi” í íslenskum gróðurvistkerfum? Sú sem er ágengust, eða sú sem er „útlendust”?"
Mér láðist að svara síðast. Verið er að ræða "ágengar framandi tegundir". Um er að ræða samsetta skilgreiningu. Í atburðarásinni sem þú lýsir er það lúpínan og kerfillinn sem ryðjast yfir gróið land, og hvönnin kemur í kjölfarið. Ef hvönnin kemur í kjölfar lúpínu, og eyðir hinum tegundunum, þá telst hún vitanlega "ágeng". En hún er ekki framandi. Um er að ræða atburðarás, þar sem lúpínan er "sökudólgurinn", hún er plantan sem ryðst inn á gróin mel eða ás og eyðir þeim tegundum sem fyrir eru. Hitt eru afleiðingar.
Spurning þín:
"Skiptir framandleikinn meira máli en vistfræðileg hegðun?"
er mjög góð. Ég held að það séu minni líkur á að "heimaaldar" tegundir séu ágengar en framandi tegundir, en hef ekki heimild fyrir þeirri tilfinningu. Ástæðan fyrir því að fólk hefur áhyggjur af "ágengum framandi" tegundum eru mörg dæmi þar sem innfluttar plöntu tegundir hafa náð lykilaðstöðu í vistkerfum og afleiðingin verður einsleitt og fábreytt gróðurlendi, t.d. Kudzu - http://en.wikipedia.org/wiki/Kudzu
2. Orðaræða Guðmundar Andra er ekki mín, ég hef reynt að forðast tilfinningaleg rök í þessari umræðu, en það er augljóslega gnægð þeirra í framboði.
3. Varðandi verndaraðgerðir á Hawaii, ég tók þetta sem dæmi um einfalda leið til að hindra flaum fræja (og mögulega sýkla), ég var ekki að hvetja til "útlendinga" hreinsunar!
(afsakið ritillinn er eitthvað slappur, og ég get ekki sett inn tengil og sniðið til textann)
Arnar Pálsson, 15.7.2010 kl. 14:44
Arnar. Þú segir:„Fyrir mér lítur út fyrir að það sé möguleiki á togstreitu á milli varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika og landgræðslu (eða aðgerðum gegn "gróðurhnignun"). Slíka togstreitu er erfitt að leysa með vísindalegum rannsóknum, og þarf til pólitík.”Ég er sammála þér í greiningu þinni – þessi togstreita er til staðar hérlendis, en skapast ekki endilega af því að skógrækt, landgræðsla (eða aðgerðir gegn gróðurhnignun), með eða án framandi tegunda, séu í eðli sínu í andstöðu við varðveislu/eflingu líffræðilegrar fjölbreytni. Ég held að togstreitan stafi f.o.f. af íslenskri rökræðuhefð, en hún mótaðist, svo sem kunnugt er, á tímum skólaspeki miðalda, á blómaskeiði íslenskrar sagnamenningar.Því er við þetta að bæta, að ég tel það liggja utan lögsögu gróðurvistfræðinnar eða plöntuflokkunarfræðinnar eða annarrar grasafræði (hvað þá erfðafræðinnar) að dæma eða skera úr um, á grundvelli þjóðernis eða vistfræðilegrar hegðunar, hvort tiltekin jurt sé góð eða slæm, eða hvort auðgun flóru með innfluttum tegundum eigi að heimila eða banna. Eða eins og segir í „andsvörunum”: „Það er fræðilega forvitnilegt fyrir gróðurvistfræðinga að kanna hvernig og hvenær plöntutegundir bárust til Íslands og hvaða þættir stjórna útbreiðslu þeirra. Hins vegar er það misnotkun á þeirri þekkingu að nota hana til að flokka plöntutegundir upp í hópa eftir því hvað þær hafa verið hér lengi og á grundvelli þess að dæma sumar æskilegar en aðrar óæskilegar.”
En jafnframt er það bjargföst skoðun mín að kostnaður vegna vanþekkingar sé ávallt meiri en andvirði þekkingar. Vísindalegrar þekkingar (sem fæst best með öflun, greiningu og hlutlægri túlkun rannsóknagagna) ber að afla og vera grunnur að stefnumótandi ákvarðanatöku á sem flestum sviðum þjóðlífsins. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að rannsaka vistfræðilega hegðun og vistfræðileg áhrif plöntutetegunda, þótt þær séu margar. Viljinn (og fjármögnun!) er allt sem þarf. Ef vilji stjórnvalda er sá að byggja ákvarðanir á skyndihugmyndum, tilfinningarökum, trúarrökum, geðþótta, þrýstingi háværra afla og annarri óvandaðri og ómálefnalegri málsmeðferð, er það miður, en ekkert við því að gera. Þá er hlutverk fræðimanna ekki lengur að færa út kvíar vísindalegrar þekkingar, heldur einungis að ver álitsgjafar.
Þríhliða togstreita á milli mannlegra athafna (framkvæmda við auðlindanýtingu), gildismats og vísindalegrar þekkingar var umfjöllunarefni Hamish Kimmins vistfræðiprófessors við UBC í Vancouver á ráðstefnu í Reykjavík sumarið 1996. Erindi hans birtist síðar í þýðingu minni í Skógræktarritinu sama ár (J.P. (Hamish) Kimmins. 1996. Virðing fyrir náttúrunni – Hvað merkir þetta í skógarbúskap 21. aldar? Skógræktarritið 1996, bls. 12-20.) Mikið vatn hefur runnið til sjávar á undangengnum 14 árum, en mér þykja sjónarmið hans í þessum efnum sígild og umræðan um líffræðilega fjölbreytni (hérlendis sem erlendis) enn jafn föst í viðjum þrætubókarlistar miðalda.Þar fjallaði Kimmins m.a. um þessa togstreitu með skírskotun til skógræktar:„Til þess að lýsa betur hversu flókin málefni, sem varða mismunandi gildismat, geta verið, má nefna hugtakið „líffræðilegur fjölbreytileiki” (lífbreytileiki). Skógfræðingar eru í seinni tíð oft krafðir um að „viðhalda”, „varðveita”, „vernda” eða „nýta með tilliti til” lífbreytileika innan þeirra skóglenda sem þeir eru ábyrgir fyrir. Hins vegar eru til margir mismunandi mælikvarðar á lífbreytileika: erfðabreytileiki, tegundabreytileiki, breytileiki í formgerð og breytileiki í tíma. Hver þessara mælikvarða felur í sér ítarlegri mælikvarða og hægt er að beita hverjum þeirra með skírskotun til einstakra skógarteiga [innsk.: alfa-breytileiki], stærri skóglenda (innsk.: beta-breytileiki] eða á stærri svæðum [innsk.: gamma-breytileiki]. Allir þeissir mælikvarðar á lífbreytileika breytast síðan með tímanum í skógvistkerfum. Skógfræðingur, sem ætlast er til að miði athafnir sínar við hámörkun lífbreytileika, verður að vita við hvaða mælikvarða beri að styðjast, á hvaða landfræðilega skala og hvernig mælikvarðinn breytist með tímanum ef hann eða hún á að komast að vitrænni niðurstöðu. Ég ráðlegg skógfræðingi sem sagt er að „nýta skóginn með hámörkun lífbreytileika að leiðarljósi” að „skreppa í kaffi” þar til nán ari skýringar hafa fengist á því við hvað viðmælandinn á með orðinu lífbreytileiki.” (bls. 16)Þú segir á allt öðrum stað: „ Aðal vandinn er að vísindin hjálpa okkur ekki mikið við að skilja "rétt og rangt" eða siðferðilegar spurningar. Biblían leggur nokkrar línur í þessum málum, en finna má í henni mótsagnir og skoðanir sem við höfnum nú til dags”Sjónarmiðum þínum um samhengi vísinda, siðferðis og trúarskoðana er ég sammála, en við skulum velta þessari afstöðu fyrir okkur m.t.t. þess máls sem hér er til umfjöllunar (Lúpínur og líffræðilegur fjölbreytileiki):Innflutningur hvítra manna á framandi plöntutegundum til Nýja-Sjálandi og annarra eyja í Kyrrahafi hefur haft það eitt í för með sér að fjöldi plöntutegunda (m.ö.o., tegundafjölbreytni) hefur ríflega tvöfaldast. Ekki eru þekkt dæmi um að innflutningur framandi plantna hafi valdið útrýmingu á nokkurri innlendri plöntutegund. Ekki sjást dæmi um að fjöldi plöntutegunda sem vaxið getur á hverjum stað sé að „mettast” og að tilvist þeirrar flóru sem fyrir var stafi ógn af innfluttum plöntutegundum (Sax & Gaines 2008). Sama niðurstaða kynni að fást ef hliðstæðar rannsóknir færu einhvern tíma fram á okkar afskekktu eyju í Atlantshafi.Samt er þeirri spurningu ósvarað hvort aukin fjölbreytni plöntutegunda vegna innflutnings sé í sjálfu sér góð eða slæm niðurstaða. Svar við slíkri spurningu er reyndar utan lögsögu vísinda (eins og þú bendir réttilega á), en getur að sönnu ráðist af siðferðislegri afstöðu sem aftur byggist á pólitískri eða trúarlegri sannfæringu (sem stundum getur verið erfitt að greina muninn á!). Margir sannkristnir menn eru t.a.m. sannfærðir um að Guð hafi skapað allar lifandi verur og að mannskepnan sé í eðli sínu syndum spillt. Skv. því hafi Guð ákveðið hvernig útbreiðslu tegunda skyldi háttað: að pokadýr skyldu aðeins búa í Ástralíu, ófleygir fuglar (s.s. dodofuglinn eða geirfuglinn) skyldu verpa á afskekktum eyjum og alaskalúpína skyldi aðeins fá að vaxa í Alaska en ekki á Íslandi. Það sé til marks um hroka mannsins gagnvart almættinu að flytja spendýr til Ástralíu eða inn á búsvæði ófleygra fuga á afskekktum eyjum eða aða flytja lúpínu frá Alaska til Íslands.Samkvæmt þessum trúarrökum gætu bókstafstrúaðir, sannkristnir menn, sem trúa sköpunarsögunni (eða „intelligent design”) sem nýju neti, fundið að því að mennirnir séu að spilla sköpunarverkinu (=vinna náttúruspjöll) með því að flytja tegundir milli landa og heimshluta, því þeir séu með því að valda breytingu á náttúru og lífríki sem ekki er víst að sé skaparanum þóknanlegt.
Hliðstæð trúarrök, að almáttug vera hafi í upphafi skapað heilsteypt vistkerfi með tilteknum hópum innlendra, íslenskra tegunda („íslensk gróðursamfélög”) sem athafnir mannsins (s.s. innflutningur, ræktun og slepping framandi tegunda) geti aðeins skemmt, raskað þar jafnvægi og komið í uppnám, kemur oft fram í ræðu og riti ýmsra íslenskra náttúruvísindamanna, án þess að það sé rökstutt með vísindalegum rökum. Þessi afstaða hlýtur því að byggja á undirliggjandi trúarkoðunum, samfara vantrú á líffræðilegri þróun.Ég svara nánar einstökum spurningum og lausum endum síðar. Tölva mín er biluð á verkstæði og þarf ég að sæta færis við að komast í lánstölvur þegar tækifæri gefst, en „ljúfur gerist leiður þá lengi situr annars tölvu við”.Aðalsteinn Sigurgeirsson, 16.7.2010 kl. 12:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.