14.7.2010 | 13:58
Niðurstaðan fyrirfram
Það eru hundruðir leiða til að klúðra vísindalegum rannsóknum. Ein þeirra er að vita fyrirfram hvaða niðurstöðu þú vilt fá. Ég býst við að starfsfólk SÁÁ og erlendir samstarfsaðillar þeirra gæti þess að framkvæma rannsóknina bærilega en umfjöllun mbl.is slær þoku á málið í heild sinni. Í fyrsta lagi er fyrirsögnin mjög furðuleg:
Rannsaka lyf sem dregur úr amfetamínfíkn
Fyrirsögnin gefur til kynna að niðurstaðan sé augljós - fyrirfram. Hið rétta er að sænskir vísindamenn framkvæmdu áþekka tilraun á 80 amfetamínfíklum (55 þeirra kláruðu kúrinn), og þeir vilja endurtaka tilraunina og sjá hvort að niðurstöður hennar haldi. Hér er semsagt um að ræða tilraun til að sannreynda niðurstöður fyrri rannsókna. Grein svíanna er alveg ágætlega skýr (sjá tengil hér að neðan) og tilraunauppsetning og tölfræði til fyrirmyndar, en sýnastærðin er lítil og því ákaflega mikilvægt að kanna ítarlegar þann möguleika að Naltrexone dragi úr amfetamínfíkn.
Skemmtilegasta sumarlesningin mín hingað til hefur verið Bad Science, bók Ben Goldacre um brellur nýaldarsölumanna, svik sjálfskipaðra næringarfræðinga, undirferli lyfjarisa og því sem best verður lýst sem hernaði ritstjóra og fréttamanna gegn vísindalegri þekkingu. Ég fékk heilmikið út úr því að lesa Harðskafa og Myrká á 56 klst og the Day of the Triffids (John Wyndam) í rólegheitunum en Bad Science er tvímælalaust sú bók sem mest skilur eftir sig.
Ef þið eru þreytt á að láta fréttamenn mata ykkur á vitlausum fréttum um vísindi, þvaðri um heilsuspillandi bóluefni og lofi um snákaolíur 21 aldar, þá er þetta bókin. Ef ykkur er umhugað um framtíð fréttamennsku, heilbrigðiskerfisins og upplýstrar umræðu, þá er þetta bókin. Á köflum verður manni hreinlega óglatt yfir því hversu óforskammað og illgjarnt fólk er (t.d. er rætt um Mathias Rath sem predikar að vítamín (sem hann selur) séu betri lækning við HIV en AZT og önnur lyf sem staðist hafa lyfjapróf (kaflinn er aðgengilegur á netinu - Matthias Rath steal this chapter).
Ef þið lesið bara eina bók um vísindi á ævinni, þá verður það að vera þessi bók!
Ítarefni:
Nitya Jayaram-Lindström, Ph.D., Anders Hammarberg, B.Sc., Olof Beck, Ph.D., and Johan Franck, M.D., Ph.D. Naltrexone for the Treatment of Amphetamine Dependence: A Randomized, Placebo-Controlled Trial Am J Psychiatry 2008; 165:1442-1448 [Ath, ég er ekki fylgjandi titladýrkun en klippti og límdi upplýsingar um greinina og höfunda bara af vefsíðu AJP].
Leiðrétting, í frétt mbl.is segir:SÁÁ tekur nú þátt í rannsókn á lyfi, sem takið er geta dregið úr amfetamínfíkn og þannig hindrað að amfetamínfíklar leiðist á ný í neyslu. [skáletrun AP]
Leiðrétting: Í fyrri pistli stóð Sortuloft (Svörtuloft), en bókin var víst Myrká.
Rannsaka lyf sem dregur úr amfetamínfíkn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 10.8.2010 kl. 18:05 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Sæll Arnar,
rétt hjá þér þegar þú bendir á villandi fyrirsagnir dagblaðanna, hér Mbl. En varast skal að blanda saman "vísindauppgötvunum" dagblaðanna og t.d. þeirrar rannsóknar sem Mbl vísar hér til í frétt sinni. Dablöðin hafa nánast komið með fréttir af lækningu á kvefi síðustu áratugina, sem flestir vita sem til þekkja er bull og rangfærslur. Slæm "vísindi" það er rétt.
Jafn slæm vísindi getur maður einnig kallað það þegar blandað er saman svokölluðum bullrannsóknum saman við "alvöru"rannsóknir í umfjöllun eins og fram kemur hjá þér, einfaldlega ekki sanngjarnt/rétt gagnvart fyrirhugaðri rannsókn SÁÁ læknanna. Gerir full lítið úr og/eða lítillækkar gildi rannsóknarinnar með slíkri umfjöllun, sem er reyndar jafn slæmt eins og bull rannsóknirngar sem þú minnist á.
Kanski ertu bara full mikið undir áhrifum skemmtilestrar bullrannsóknanna og við hinir sem lesum bloggið þitt ættum því að taka umfjöllun þinni í ljósi þess.
með kveðju frá Svíþjóð
Guðmundur Karl Snæbjörnsson, 15.7.2010 kl. 10:30
Sæll Guðmundur og kveðjur til Svíþjóðar.
Þú orðar þetta mjög vel:
"En varast skal að blanda saman "vísindauppgötvunum" dagblaðanna og t.d. þeirrar rannsóknar sem Mbl vísar hér til í frétt sinni."
Ég tel að aðalvandamálið sé einmitt umfjöllun fjölmiðla, þeir virðast tæplega greina muninn á forniðurstöðum, traustum vísindalegum niðurstöðum og föstudagstilgátu sem á sér enga stoð í raunveruleikanum.
Ég hef fyrirfram engar efasemdir um rannsókn SÁÁ og sænskra samstarfsmanna þeirra, sérstaklega ekki eftir að hafa flett grein þeirra síðarnefndu. Takk fyrir að gefa mér færi á að skerpa á þeim punkti.
Eftir að hafa lesið Bad science sýður í mér blóðið, og maður áttar sig á að vandamálin sem við sjáum í íslenskum fréttamiðlum finnast um hinn vestræna heim.
Fólk lýtur til vísinda eftir framförum og lausnum á vandamálum heimsins. Þetta nota sölumenn sér, og selja vörur með "áru" vísindalegheita. Allt er þeim vopn í markaðsetningunni, doktorstitlar, sloppar, gröf og slagorð á borð við blóðsykur, kólesteról, stofnfrumur og örtækni.
Arnar Pálsson, 15.7.2010 kl. 13:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.