Leita í fréttum mbl.is

Hólategundir

Í síðustu viku minntist ég á ráðstefnu um tegundamyndun sem haldin var á Háskólanum á Hólum. Dagskrá ráðstefnunar var birt á vef Hólaskóla, ásamt einhverjum myndum og stuttri lýsingu.

Margir erlendu gestanna eru þungdarviktarmenn á sínu sviði, t.d. hefur Ulf Dieckmann birt töluleg líkön af myndun tegunda og einnig líkön sem lýsa því hvernig stofnar þróast vegna veiða. Hann hélt einmitt erindi hérlendis í fyrra um þetta efni (Mikilvægi líffræði þorskins fyrir fiskveiðistjórnun).

Andrew Hendry, við McGill háskóla í Kanada hefur lagt áherslu á samspil vistfræðilegra og þróunarfræðilegra þátta. Hann hefur rannsakað breytileika í nokkrum fiskitegundum, en einnig hraða þróun í finkunum á Galapagos.

Thomas B. Smith, við UCLA, hefur stundað rannsóknir á tegundum í hitabeltinu, með áherslu á varðveislu (conservation biology). Rannsóknir hans og félaga hans hafa sýnt að viststigar (ecotones) - svæði þar sem tvö búsvæði mætast (t.d. gresja og frumskógur) - virðast stuðla að myndun líffræðilegs fjölbreytileika. Þetta skiptir máli varðandi varðveislu tegunda og lífríkisins.

Kerstin Johannesson, við Gautaborgarháskóla, rannsakar breytileika og vistfræði nokkura fjörubobbategunda. Það var sláandi að sjá hversu mikill munur er innan tegunda, og hversu sterka fylgni afbrigðin sýndu við mismun í búsvæðum. Í klettóttri fjöru sem brimið brýtur á finnast aðallega litlir bobbar með léttar skeljar, þeir fela sig í glufum og holum í klettunum. Í stórgrýtisfjörunni og þanginu eru bobbarnir stærri og með miklu sterkari skel. Á því svæði er mikið um krabba sem veiða bobbana. Samt sem áður geta bobbarnir í klettafjöru og þangfjöru æxlast og eignast afkvæmi. Það er augljóst að vistfræðilegi þrýstingurinn, brimið og krabbarnir, eru það öflugur að eiginleikar stofnanna þróast mjög hratt.

Þetta var gegnum gangandi þema fundarins, ferlar vistfræði og þróunarfræði tvinnast saman oftar en okkur grunaði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband