17.8.2010 | 14:18
Byggingareiningar besta vinar mannsins
Charles Darwin heillaðist af fjölbreytileika hunda, form þeirra, litur og skapgerð eru ótrúlega fjölbreytt. Sérstaklega með hliðsjón af því að þeir tilheyra allir sömu tegund.
Á síðustu árum hefur erfðarannsóknum á útlitseinkennum hunda fleygt fram. Í ljós kom að gervigen FGF4 vaxtarþáttarins stuðlar að stuttum fótum í t.d. Dachsund og Basset-hound (afsakið, ég kann ekki íslensk nöfn á hundakynum!).
Nýverið birtist grein í PLoS Biology sem sýnir að erfðir útlits og litar hunda eru miklu einfaldari en erfðir sjúkdóma sem þjá manninn. Á meðan rúmlega hundruð svæði í erfðamengi mannsins útskýra bara hluta af breytileika í hæð okkar, þá hafa 3-10 gen áhrif á bróðurpartinn af breytileika í stærð, leggjalengd, höfuðkúpu lögun, trýnislengd o.s.frv.
Ástæðan er vitanlega sú að kynbótaval fyrir ýktum eiginleikum hefur verið mjög sterkt, og aukið tíðni stökkbreytinga með sterkustu áhrifin. Stofnerfðafræðilegar greiningar sýna að genin sem tengjast útliti hundanna hafa verið undir suddalega sterku vali. Hjá manninum hefur á hinn boginn ekki verið ámóta einstrengingslegt val fyrir hæð eða öðrum eiginleikum, og þar af leiðir finnast aðallega stökkbreytingar með veik áhrif (á þessa eiginleika) í stofninum.Sérkennilegasta niðurstaðan er sú að sömu genin eru bendluð við breytileika í mjög mörgum hundakynjum. Ef við leyfum okkur orðalag tilgangshyggjunar, þá stjórnast mikill hluti mismunarins á 80 hundakynum af frekar fáum genum (kannski einungis 7 mismunandi genum). Svipaðar niðurstöður fengust úr rannsóknum á litarerfðum fiðrilda.
Nú á dögum er mikið talað um hversu flókin og ófyrirsjáanleg líffræðin er. Þessi rannsókn minnir okkur á að margt í náttúrunni lútir einföldum lögmálum og reglum.
SINDYA N. BHANOO í New York Times - 17 ágúst 2010 Wide Variety of Breeds Born of Few Genes
Adam R. Boyko o.fl. A Simple Genetic Architecture Underlies Morphological Variation in Dogs PLoS Biology 2010.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Ég átti nú anzi erfitt með að lesa þessar greinar, sérstaklega þessa "A Simple Genetic Architecture ...", enda þekki ég engar af þessum breytum. Það gæti þess vegna verið skrifað á hebresku. Má ég spyrja þig nokkurrar spurninga:
Fyrst hundar hafa þróazt frá úlfum, hvernig stendur á því að það eru svo mörg hundakyn (fleiri tugir), en aðeins mjög fá afbrigði af úlfum? Varla eru mörg "hrein" hundakyn fram komin vegna kynbóta af mannavöldum.
Ég vil taka það fram, að ég veit mjög lítið um hunda.
Vendetta, 17.8.2010 kl. 19:42
Hrein hundakyn eru einmitt komin fram vegna kynbóta okkar. Munurinn á hundum og úlfum liggur í mismunandi valþrýstingi. Forfeður okkar heimaöldu úlfa, (sjá meira neðar), en að því loknu fór fólk að velja fyrir öðrum eiginleikum.
Síðan þá hefur fólk valið fyrir mjög mismunandi eiginleikum í hundastofnum sínum, t.d. fjárhundum, varðhundum, sleðahundum, veðhlaupahundum. Þessi sérhæfði og sterki valþrýstingur leiðir til mjög rótækra breytinga á eiginleikum dýrsins, oft í fleiri eiginleikum en valið er fyrir. Valið getur því leitt til óæskilegra "aukaverkana" - t.d. eru Schaefferhundar með mjaðmagrindavandamál.
Oft kom það fyrir að einn sérkennilegur eiginleiki birtist í hundastofni (t.d. dvergvöxtur eins og í Chihuahua), og þá var afkvæmum viðkomandi hunds æxlað saman og genið að baki eiginleikanum fest í sessi (ný tilbrigðið gerðt arfhreint um viðkomandi stökkbreytingu).
Úlfar á hinn bóginn búa við náttúrulegar[ri] aðstæður, og verða fyrir valþrýsting á marga mismunandi eiginleika sem kemur í veg fyrir róttæka þróunarlega breytingu.
Villi sendi mjög forvitnilega athugasemd um tilraun sem ég vissi ekki um:
BBC Horizon: the secret life of dogs
Arnar Pálsson, 18.8.2010 kl. 10:34
Varðandi kynbótavandamál, þá er sagt, að langt trýni Collie-hundsins sé vegna valþrýstings, langt trýni þótti fegurra. En með lengra trýni minnkaði rými fyrir heilann í hauskúpunni, þannig að þetta hundakyn varð heimskara. Er eitthvað rétt í þessu? Persónulega held ég, að þetta sé ekki annað en flökkusaga.
Vendetta, 18.8.2010 kl. 11:42
Vendetta
Ég hef ekki heyrt þessa sögu, en fyndin er hún.
Var Lassie ekki Collie hundur, hún var allt annað en heimsk.
Nema sögurnar hafi verið uppspuni?
Arnar Pálsson, 18.8.2010 kl. 15:49
Þú veizt, að dýr í kvikmyndum gera það sem þeim er sagt af dýraþjálfurum. Allavega eftir nokkrar tilraunir.
Vendetta, 18.8.2010 kl. 19:45
Annars sá ég í sjónvarpsþætti um gæludýr, að hundar hefðu ekkert tímaskyn. Þannig að þegar hundurinn væri búinn að bíða allan daginn eftir húsbónda sínum, þá væri það fyrir hundinn eins og 5 mínútur hefðu liðið. Alveg eins og lítil börn hafa ekki hugmynd um hvað orðin "bráðum" og "hálftími" þýðir. Tímaskyn hjá börnum hlýtur að koma samhliða þroska þeirra heilastöðva sem hafa með abstrakt hugsun að gera og þetta er oft það fyrsta sem hverfur hjá fólki með ellikölkun. Og fyrst dýr önnur en prímatar hugsa ekki abstrakt, hafa þau hugsanlega ekki hæfni til að meta hluti sem eru ekki sýnilegir eða áþreifanlegir, eins og tími og orsakasamhengi.
Vendetta, 18.8.2010 kl. 20:01
Vendetta
Ég er ekki mjög öflugur í atferlisfræðinni eða taugalíffræðinni.
Það væri mjög forvitnilegt ef hundar hafi ekki tímaskyn.
Ég veit samt ekki alveg hvernig maður svona lagað er rannsakað?
Arnar Pálsson, 20.8.2010 kl. 10:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.