Leita í fréttum mbl.is

Arfleifð Darwins á leið í prentun

Eftir nokkura ára meðgöngu lítur út fyrir að bókin um Arfleifð Darwins sé á leið í prentun. Hér munum við birta hluta úr verkinu, meðan á prentun verksins stendur og eitthvað fram eftir hausti. Fyrst nokkur orð úr formála:

Þróunarkenningin tengist nafni enska náttúrufræðingsins Charles Darwin órjúfanlegum böndum. Þar ber hæst útgáfu bókar hans Uppruni tegundanna árið 1859. Þann 24. nóvember 2009 voru 150 ár liðin frá útgáfu hennar. Það sama ár voru einnig liðin 200 ár frá fæðingu Darwins, en hann fæddist 12. febrúar 1809 í Shrewsbury á Englandi og lést árið 1882. Þessi tvöföldu tímamót urðu kveikjan að bók þessari og nokkrum viðburðum sem ritstjórn hennar stóð fyrir og nefndust Darwin-dagar 2009. Að þeim dögum komu einnig nokkrir samstarfsaðilar: samtök líffræðikennara, líffræðifélag Íslands, líffræðistofnun Háskóla Íslands, siðmennt, Hið íslenska náttúrufræðifélag og Hið íslenska bókmenntafélag.
Frekar lítið hefur verið skrifað um þróun lífvera á íslensku, en af því efni eru þrjár greinar eftir Þorvald Thoroddsen einna merkastar. Þær birtust í Tímariti Hins íslenska bókmenntafélags á árunum 1887–1889, en tvær síðustu greinarnar eru útdráttur úr 6. útgáfu Uppruna tegundanna. Þær voru endurútgefnar árið 1998 í lærdómsritinu Um uppruna dýrategunda og jurta með skýringum og ítarlegum inngangi eftir Steindór J. Erlingsson. Árið 2004 kom Uppruni tegundanna loks út á íslensku í röð lærdómsrita Hins íslenska bókmennta félags í þýðingu Guðmundar Guðmundssonar. Þeirri bók sem hér er fylgt úr hlaði er ætlað að fylla upp í þetta tómarúm, en markhópur hennar er fólk með áhuga á lífinu, þróun þess og fjölbreytileika, sögu hugmyndanna og stórum spurningum um líffræði mannsins og stöðu hans í náttúrunni. Bókin nýtist einnig nemum í framhaldsskólum og háskólum sem inngangur og ítarefni um þróun lífvera.

Reykjavík í ágúst 2010.

Arnar Pálsson, Bjarni Kristófer Kristjánsson, Hafdís Hanna Ægisdóttir, Snæbjörn Pálsson, Steindór J. Erlingsson.

Leiðrétting 23 ágúst 2010: Í fyrri útgáfu voru Shrewsbury og England með litlum staf. Takk Villi!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ætli að bók sem styður sköpun, fái að vera kennd í framhaldsskólum ?

enok (IP-tala skráð) 20.8.2010 kl. 15:30

2 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Til hamingju með að sjá fyrir endannn á þessu verki. Hlakka til að lesa hana.

Og svona til að skemmta skrattanum!  Enok, það er engin hætta á því að íslenskir skólar leggist gegn þróunarkenningunni. Hér á landi eru mjög fáir sem berja hausum í steina fulla af steingervingum og neita því að þróun hafi átt sér stað.

Hólmfríður Pétursdóttir, 21.8.2010 kl. 15:45

3 Smámynd: Arnar Pálsson

Enok

Ég tel ólíklegt að slík bók yrði kennd í raungreinakúrsi, en kannski lesin í heimspeki eða guðfræðinámskeiði. 

Sköpun er ekki vísindaleg tilgáta, m.a. vegna þess að hana er ekki hægt að afsanna. Það nægir til þess að slíkum hugmyndum sé úthýst úr raungreinakennslu. Annars gætu við leyft alls konar þjóðsögur og  hindurvitni í læknavísindum eða raungreinum.

Hólmfríður

Takk fyrir innlitið og stuðninginn.

Arnar Pálsson, 23.8.2010 kl. 12:24

4 identicon

Til hamingju með þetta stórbrotna verk - hlakka til að glugga í það. Var alin upp við fuss og svei þegar minnst var á þróunarkenninguna.  

En er þessi nokkuð á leiðinni í þýðingu?

The Formation of Vegetable Mould Through the Action of Worms

Kveðja,

Elínborg

Elínborg Birna Sturlaugsdóttir (IP-tala skráð) 2.9.2010 kl. 21:07

5 Smámynd: Dingli

Mér fyndist alveg upplagt að skylt verði að skrifa england á Íslensku.

Dingli, 2.9.2010 kl. 22:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband