25.8.2010 | 16:52
Tengsl en ekki orsök
Því miður er algengt að tengsl séu túlkuð sem orsakasamband.
Fréttatilkynning Hjartaverndar byrjar svona:
Niðurstaða rannsóknar ...[]... sýnir fram á að fólk á miðjum aldri sem þjáist af mígreni höfuðverkjum ásamt áru (þ.e. sjóntruflunum, svima og dofa sem eru undanfari mígrenikasts) deyr frekar vegna hjarta- og æðasjúkdóma en þeir sem ekki þjást af slíkum höfuðverk.
Og síðan er rætt um TENGSL, en ekki endilega orsakir. Það er meira að segja lögð áhersla á að ...
Enn á eftir að rannsaka hvort meðferð sem leiðir til fækkunar mígrenikasta muni einnig leiða til minni áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum hjá einstaklingum með mígreni með áru.
En mbl.is birtir fréttina undir fyrirsögninni "mígreni eykur líkur á hjartasjúkdómum".
Vissulega er möguleiki að mígreni auki líkurnar á hjartaáföllum og því að deyja eftir hjartakast. En mér þykir líklegra að mígreni og hjartaáföll séu hvorutveggja afleiðingar, og að orsakaþátturinn sé enn óþekktur. Tökum einfalt dæmi. Vitað er að reykingar auka líkurnar á lungnakrabbameini og getuleysi. Rökvilla í anda blaðamanns mbl.is væri að álykta að getuleysi auki líkurnar á lungnakrabba!
Ítarefni:
Larus S Gudmundsson o.fl. Migraine with aura and risk of cardiovascular and all cause mortality in men and women: prospective cohort study BMJ 2010;341:c3966
Viðbót. Seinustu málsgreininni var bætt við eftir að færslan var birt.
Mígreni eykur líkur á hjartasjúkdómum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:58 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Var ekki sýnt fram á það fyrir einhverjum árum að mígreni væri afleiðing hjartagalla? Þ.e. á þeim mígrenisjúklingum sem rannsakaðir voru kom í ljós örsmátt gat á hjartavegg sem varð til þess að óhreinsað blóð fór aftur út í blóðrásina og olli því að viðkomandi fékk mígrenikast?
Hjá þeim sem létu laga þetta, hvarf mígrenið alveg.
Ingibjörg Axelma Axelsdóttir, 25.8.2010 kl. 19:46
Sæl Ingibjörg
Þetta er mjög forvitnileg ábending.
Ég leitaði á pubmed (leitar í líf og læknisfræðilegum tímaritum - opið öllum) og fann nokkrar greinar sem fjalla um þetta. Það virðist sem ákveðnar skurðaðgerðir, til að loka götum á milli hólfa hjartans hafi læknað mígreni.
Hér að neðan setti ég inn nokkrar af þessum heimildum.
Gianluca Rigatelli sagði í bréfi Headache (2007 - Headache and Heart Defects: Closing a Hole to Free the Mind?):
Ég hef ekki alveg tíma til að leggjast yfir þessar heimildir, og einnig skortir mig þekkingu í anatomíu hjartans til að vita nákvæmlega hvað er um að ræða. Það virðist sem þessi aðgerð sé hættuleg í sjálfu sér, skurðaðgerð á hjarta er ekkert grín.
Rigatelli nefnir þann möguleika að skurðaðgerðin dragi úr líkunum á heilablóðfalli, þannig að ávinningurinn kann að vera umtalsverður.
Einnig eru efasemdir um hvort þetta sé orsakasamband - þá erum við komin heilan hring.
Rigatelli G, Braggion G, Aggio S, Chinaglia M, Cardaioli
P. Primary patent foramen ovale closure to relieve severe
migraine. Ann Intern Med. 2006;44:458-489.
Reisman M, Christofferson RD, Jesurum J, et al. Migraine
headache relief after transcatheter closure of patent foramen
ovale. J Am Coll Cardiol. 2005;45:493-498.
Primary Transcatheter Patent Foramen Ova le Closure Is Effective in Improving Migraine in Patients With High-Risk Anatomic and Functional Characteristics for Paradoxical Embolism
Rigatelli G, Dell'Avvocata F, Ronco F, et al. JACC-CARDIOVASCULAR INTERVENTIONS Volume: 3 Issue: 3 Pages: 282-287 Published: MAR 2010
Patent foramen ovale and ischemic stroke in young people: Statistical association or causal relation?
Negrao EM, Brandi IV, Nunes SV, et al. ARQUIVOS BRASILEIROS DE CARDIOLOGIA Volume: 88 Issue: 5 Pages: 514-520 Published: MAY 2007
Arnar Pálsson, 26.8.2010 kl. 09:44
Hah.. var akkurat að 'þrasa' um þetta við konuna yfir morgunmatnum í morgun, endaði á "þeir vita örugglega meira um þetta en þú" og boðskapur minn um orsök/afleiðingu komst engan vegin til skila.
Ég er algerlega vanmetinn snillingur á mínu heimili.
Og þar sem ég er líka 'migreni-sjúklingur' og hef tekið eftir mjög sterku/virku orsakasamhengi milli hásblóðþrýstings og mígreniskasta. Þarf að benda lækninum mínum á að kíkja í pubmed næst þegar ég tala við hann og skoða þetta með hjarta vesenið. Engin 'saga' um hjartasjúkdóma í minni fjölskyldu þótt þar séu þó nokkrir migrenis 'sjúklingar'.
Arnar, 26.8.2010 kl. 11:41
Greinin hans Lárusar (í BMJ) er skýr, og tengslin eru tölfræðilega marktæk. En það er ofsögum sagt að þau séu sterk.
Hins vegar virðast vera sem starfsemi hjartans, (mögulega blóðþrýstingur), heilablóðföll og mígreni sé tvinnuð saman, þótt það sé ekki ljóst á þessu stigi hvað séu frumorsakir og hvað afleiðingar.
Arnar Pálsson, 26.8.2010 kl. 13:08
"orsakasamhengi" er kannski full sterkt til orða tekið hjá mér þar sem það hefur náttúrulega ekki verið staðfest. En hinsvegar er trendið þannig að ég fæ mjög slæman hausverk ef blóðþrýstingurinn hækkar.
Arnar, 26.8.2010 kl. 13:41
Sennilega mjög fáir sem taka ekki lyf við mígreni, en gæti verið að lyfin sem fólk tekur væntanlega spili þarna inn í og veikji hjartað?
Erna Hákonardóttir Pomrenke, 26.8.2010 kl. 15:55
Arnar
Þetta er fín tilgáta. Ég las mér ekki ítarlega til á Pubmed.com en fann þetta þó.
Erna
Ég veit ekki hvernig mígrenilyf virka, en það kann að vera að þau virk á blóðrásina eða hjartað. Ég skora á þig að lesar þér til á viðurkenndum læknisfræðisíðum! t.d. pubmed.org eða Fréttasíðu NHS.
Arnar Pálsson, 29.8.2010 kl. 15:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.