15.9.2010 | 17:40
Arfleifð Darwins: þróun menningar og trúarbragða
Í lok septembermánaðar kemur út ritgerðasafnið Arfleifð Darwins. Kveikjan að bókinn var afmæli Charles Darwin, en í fyrra voru 200 ár liðin frá fæðingu hans, og það að 150 ár voru í fyrra liðin frá því að Uppruni tegundanna var gefinn út.
Við helgum nokkra pistla næstu vikur þessari bók, og birtum hluta úr af köflum hennar. Næst síðasti kafli bókarinn heitir Menning, mím og mannskepnur. Þróunarfræði í hug- og félagsvísindum samtímans. Guðmundur Ingi Markússon trúarbragðafræðingur skrifaði kaflann og rekur hugmyndir fólks um tengsl þróunarfræðinnar, við menningu, félagsvísind og trúarbrögð.
Það samband hefur oft verið strembið, eins og þeir sem lesa moggabloggið eirir ennþá eftir af togstreitunni milli bókstafstrúaðra kristinna einstaklinga og þeirra sem vilja beita aðferð vísinda til að skilja veröldina. Miðað við áhugann sem landinn hefur á Ranghugmyndinni um guð eftir Richard Dawkins, er mögulegt að hann finni eitthvað við sitt hæfi í kafla Guðmundar.
Kaflinn hefst á þessum orðum:
Sá sem gæti skilið bavíana legði meira af mörkum til frumspekinnar en Locke
Charles Darwin1
Haustið 2000 var haldið málþing við Árósaháskóla helgað bannorðum trúarbragðafræðanna religionsvidenskabelige tabuer þ.e. öllu því sem trúarbragðafræðingar áttu að forðast.2 Þróunarhugtakið og spurningar um uppruna trúarbragða voru þar ofarlega á blaði. Eins og þema málþingsins bar með sér hafði Charles Darwin verið úti í kuldanum í heimi trúarbragðafræða og hugtakið þróun aðeins nefnt til aðvörunar svo að stúdentarnir gætu forðast kalbletti fræðasögunnar. En málþingið markaði einnig þáttaskil. Eftir það breyttust áherslur manna til muna og nú er þróunarhugtakið ríkur þáttur í faginu og spurningar um uppruna, eðli og þróun trúarbragða vaktar á nýjum forsendum.3 Þetta er aðeins lítið dæmi um endurkomu Darwins í hug- og félagsvísindum samtímans, endurkomu sem öðrum þræði er viðbrögð við afstæðishyggju póstmódernismans. Eftirfarandi grein er helguð þessum breyttu áherslum.1 Darwin 1987: He who understands baboon would do more towards metaphysics than Locke. (Úr vinnubók M frá 1838). Darwin vísar hér til raunhyggju Johns Locke (16321704). Raunhyggjan byggðist m.a. á því að hugur mannsins væri óskrifað blað við fæðingu og að öll þekking grundvallaðist á því að skynja hinn ytri veruleika (Locke 1689/1947).
2 Fanø o.fl. 2001.
3 Þetta er byggt á reynslu höfundar sem stundaði nám í trúarbragðafræðum við Árósaháskóla á árunum 19982003.
Síðar í kaflanum fjallar Guðmundur um trúarbragðafræðina:
Eins og rakið var í inngangi þessarar greinar hefur þróunarfræði verið að sækja í sig veðrið í trúarbragðafræðum undanfarin ár. Gott dæmi um þetta er stór alþjóðleg ráðstefna um þróunarfræði og trúarbrögð sem haldin var á Hawaii í byrjun árs 2007 og greinasafn sem síðan kom út: The Evolution of Religion: Studies, Theories & Critiques.1 Skilgreina má tvær meginþróunarfræðilegar tilgátur um tilurð trúarbragða. Í fyrsta lagi kenningar um trúarbrögð sem hliðarverkun líffræðilegra þátta (by product) og í annan stað kenningar um trúarbrögð sem sjálfstæða, líffræðilega aðlögun (adaptation). Seinni tilgátan kemur í tveimur tilbrigðum sem gera ráð fyrir þróun trúarbragða sem aðlögun innan hóps einstaklinga eða sem afleiðingu vals á milli hópa.2
Tæpum fyrst á þeirri hugmynd að trúarbrögð séu hliðarverkun líffræðilegra þátta. Þessi grein nefnist hugræn trúarbragðafræði (cognitive science of religion) og byggist í stuttu máli á því að trúarhugsun og trúarhegðun sé hliðarverkun eða aukaafurð eðlilegra þátta mannshugans, þ.e. þátta sem við notum til þess að takast á við okkar nánasta, hversdagslega umhverfi (t.d. hugrænir þættir sem við notum til þess að skilja annað fólk, og ósjálfráðar væntingar til umhverfisins). Þessir þættir sem slíkir eru dæmi um líffræðilega aðlögun fyrir tilstilli náttúrulegs vals, trúarbrögðin eru það hins vegar ekki þau eru hliðarverkun. Hugræn trúarbragðafræði eru undir miklum áhrifum frá þróunarsálfræði.3
1 Bulbulia o.fl. 2008. Helstu samtök fræðimanna á þessu sviði eru International Association for the Cognitive Science of Religion (IACSR) sem stofnuð voru árið 2006 (www.iacsr.com).
2 Í fyrra tilfellinu er átt við að þeir einstaklingar sem hafi haft trúartilhneigingu (t.d. trúað á yfirnáttúrlegar verur) hafi haft betur í lífsbaráttunni en aðrir. Í seinna tilfellinu er átt við að þeir hópar sem hafi haft trúarlegt skipulag hafi staðið sterkar að vígi en þeir hópar sem höfðu það ekki (í stuttu máli því trúarlegir hópar hafi haft meiri samheldni til að bera). ... []...
3 Sjá yfirlitsgrein Guðmundar Inga Markússonar (2006) um hugræn trúarbragðafræði. Sjá einnig Boyer 1994, 2001; Atran 2002; Slone 2006; Pyysiäinen og Anttonen 2002.
Arfleifð Darwins á leið í prentun
Arfleifð Darwins, Efnisyfirlit
Sjá einnig vef helgaðan Arfleifð Darwins.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Arfleifð Darwins, Darwin og þróun | Breytt 16.9.2010 kl. 09:59 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Ég hef miklar mætur á skrifum Guðmundar Inga, hann er sérstaklega varkár og natinn í skrifum sínum. Það sést ágætlega á umræðu á vantru.is sem spannst um málþing sem hann og Steindór J. Erlingsson stóðu fyrir.
http://www.vantru.is/2005/06/07/00.58/
Arnar Pálsson, 16.9.2010 kl. 10:01
Þessi brot úr bókinni vekja enn frekar forvitni mína. Hlakka til að lesa hana.
Hólmfríður Pétursdóttir, 16.9.2010 kl. 16:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.