29.9.2010 | 13:52
Erindi: ensím og stjórnþættir
Tvö framhaldsverkefni í lífvísindum verða kynnt í vikunni.
Manuela Magnúsdóttir ræðir um verkefni sitt, Áhrif lykkjusvæða á kuldaaðlögun alkalísks fosfatasa úr Vibrio örveru Erindið er föstudaginn 1. október í stofu 158. VR-II. Kl. 12:30. Úr tilkynningu:
Lífverur finnast á mjög harðbýlum svæðum jarðar, svo sem við mjög há eða lág hitastig, háa seltu sjávar, eða öfgafullt sýrustig. Mörg prótein þurfa að aðlagast slíkum aðstæðum með breytingum í innri gerð. Samanburður á því sem breyst hefur í amínósýruröð með skyldum próteinum gefur upplýsingar um þætti sem ráða mestu um virkni þeirra. Kuldakær ensím hafa oftast meiri sveigjanleika innan heildarbyggingar sinnar miðað við hitaþolin ensím, sem kemur í veg fyrir að nauðsynlegar hreyfingar frjósi. Nokkrir þættir stuðla að auknum sveigjanleika þeirra. Sem dæmi hafa kuldaaðlöguð ensím gjarnan færri vetnistengi, færri saltbrýr, og fleiri yfirborðshleðslur. Kuldakær ensím hafa einnig oft stærri yfirborðslykkjur samanborið við samsvarandi ensím úr miðlungs- og hitakærum lífverum.
Benedikta Steinunn Hafliðadóttir ver doktorsritgerð sína Varðveisla Mitf-gensins, hlutverk í ávaxtaflugunni og áhrif micro-RNA sameinda (Conservation of the Mift gene, its role in Drosophila and the effect of microRNAs). Úr tilkynningu:
Verkefnið beindist að byggingu og starfsemi Mitf gensins en það gegnir lykilhlutverki í litfrumum og þeim krabbameinsæxlum sem þær geta myndað, svonefndum sortuæxlum. Rannsóknirnar sýndu að Mitf genið er vel varðveitt milli fjarskyldra dýrategunda og gegnir svipuðu hlutverki í þessum ólíku lífverum. Athyglisvert var að sá hluti gensins sem ekki tjáir fyrir próteini var óvenju vel varðveittur. Þegar þessi hluti gensins var skoðaður betur kom í ljós að hann geymir bindiset fyrir svonefndar microRNA sameindir, litlar sameindir sem geta haft áhrif á starfsemi gena með því að bindast þeim og draga úr framleiðslu viðkomandi próteinafurða. microRNA sem þessi geta því haft mikil áhrif á framleiðslu tiltekinna próteina og hafa mörg þeirra verið tengd við myndun krabbameins. Sýnt var fram á að nokkrar microRNA sameindir, nánar tiltekið miR-148, miR-137 og miR-124 hafa áhrif á framleiðslu MITF próteinsins í sortuæxlisfrumum. Niðurstöðurnar sýna fram á tengsl ákveðinna microRNA sameinda og Mitf gensins og þar sem það gegnir mikilvægu hlutverki við myndun þessara æxla er hugsanlegt að nota megi þessi microRNA til meðferðar á þessu illvíga æxli.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Erindi og ráðstefnur | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.