Leita í fréttum mbl.is

Að pota frumu inn í aðra frumu

Glasafrjóvgun var mikilvægt skref í baráttunni við ófrjósemi. Í dag er tæknifrjóvgun samheiti fyrir nokkrar skyldar aðferðir, sem allar miða að því að koma erfðaefni sáðfrumu inn í egg og virkja það. Ein þessara aðferða er glasafrjóvgun, þar sem blandað er saman sæðisfrumum og eggjum á réttu þroskastigi.

Eggjum er safnað úr konu, eftir að hún hefur verið örvuð með hormónagjöf og karl skaffar sæði. Hvorutveggja er blandað saman í túbu og beðið eftir samruna og frumuskiptingum. Síðan þarf að koma fósturvísinu fyrir í legi móður, og vona að allt fari vel.

 Mynd af vef the Bridge Center. ivf-image

Ein útgáfa tæknifrjóvgunar er sú að taka sáðfrumu og stinga henni inn í eggfrumu, og vona að hún skipti sér og haldi af stað á þroskabrautina.

Slíkur samruni sáðfrumu og eggfrumu er vissulega ónáttúrulegur*, því náttúruleg frjóvgun manna felur í sér samruna á himnum sáðfrumu og eggfrumu og flutning á kjarna þeirrar fyrrnefndu inn í eggið. Halinn á sáðfrumunni verður eftir fyrir utan og líklega aðrir frumuhlutar einnig. James Watson óttaðist að þessar aðferðir myndu þýða mikinn fósturdauða, og jafnvel fordóma gagnvart glasafrjóvgunabörnum. Skv. The Clone Age: adventures in the New World of Reproductive Technology eftir LORI B. ANDREWS.

At a 1971 meeting in Washington, D.C., James Watson, the codiscoverer of DNA, chastised Robert Edwards. "You can only go ahead with your work if you accept the necessity of infanticide. There are going to be a lot of mistakes."

Samfélagið hefur tekið glasafrjóvgunarbörnum og fólki vel. Það er ekki litið á það sem óeðlilegt að tugur eggja sér frjóvgaður, en að einungis nokkur séu sett upp eða leyft að þroskast alla leið. Það er algengt að ef margir fósturvísar koma sér fyrir í legi, að sumum sé fórnað til þess að forðast fjölburafæðingar.

Annars þykir mér frjósemislækningar einn furðulegasti hluti nútíma læknisfræði. Fullkomlega heilbrigt fólk leitar til læknis vegna einhvers sem það getur ekki búið til. Á meðan offjölgun er vandamál í veröldinni, þá verjum við vesturlandabúar töluverðum fjármunum í að búa til fleira fólk. Sumir hafa meira að segja haldið því fram að það að eignast barn séu sjálfsögð réttindi hverrar manneskju.

Sjá einnig frétt Daily Mail frá 2008, um Louis Brown (fyrsta glasabarnið).

Leiðrétting:

Fyrsta útgáfa af pistlinum innihélt staðreyndarvillu (glasafrjóvgun er bara ein gerð tæknifrjóvgunar, og aðferðir sem byggjast á að stinga sæði inn í egg falla ekki undir glasafrjóvgun) - þökk sé Karen fyrir ábendinguna. Einnig var tengil á mynd á síðunni Geneticsandsociety.org, sem sýndi tillögu að klónum með glasafrjóvgun, en í staðinn setti ég inn mynd sem lýsir eðlilegri glasafrjóvgun. Lesendur eru beðnir velvirðingar á þessum mistökum.

*Fólk notar það iðulega sem röksemd að erfðabreytingar á nytjaplöntum eða dýrum séu ónáttúrulegar og þess vegna eigi að banna þær. Slíkar röksemdir gætus sent okkur aftur fyrir steinöld. Það að gefa húsdýrum að borða er ónáttúrulegt - því forfeður okkar gáfu ekki dýrum að borða. Það að sá fræjum er ónáttúrulegt, því engar aðrar lífverur gera það. Það að vafra á netinu er ónáttúrulegt því slíkt gerist ekki í náttúrunni.


mbl.is Nóbelsverðlaun fyrir glasafrjóvgunartækni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Verð aðeins að fá að leiðréttta það sem þú ert að segja. :)

þetta skrifar þú....."Í dag er glasafrjóvgun samheiti fyrir nokkrar skyldar aðferðir, sem allar miða að því að koma erfðaefni sáðfrumu inn í egg og virkja það."
.......Glasafrjóvgun er ekki samheiti yfir nokkrar skyldar aðferð, helstu meðferðir tæknifrjóvgunar eru tæknisæðing, glasafrjóvgun og smásjárfrjóvgun.
Með glasafrjóvgun þá er konan örvuð þannig að það komi nokkur egg, maðurinn skilar inn sæði og svo er sæðinu og eggjunum blandað saman og sáðfrumurnar sjá sjálfar um að fara inn í eggin, stundum frjóvgast mörg egg, stundum engin en ástæður ófrjósemis hjá fólki eru einnig margar og mismunandi.
Smásjárfrjóvgun þá er bestu sæðisfrumunni stingið inn í eggið.
En þessar meðferðir eru bæði tímafrekar, rándýrar og erfiðar og engin manneskja myndi fara í gegnum þennan prósess nema hún virkilega þyrfti þess.

Þetta skrifar þú líka...."Annars þykir mér frjósemislækningar einn furðulegasti hluti nútíma læknisfræði. Fullkomlega heilbrigt fólk leitar til læknis vegna einhvers sem það getur ekki búið til. Á meðan offjölgun er vandamál í veröldinni, þá verjum við vesturlandabúar töluverðum fjármunum í að búa til fleira fólk. Sumir hafa meira að segja haldið því fram að það að eignast barn séu sjálfsögð réttindi hverrar manneskju."
- það hefur sýnt sig að það er langt frá því fullkomlega heilbrigt fólk sem leitar sér aðstoðar við að eignast börn, ófrjósemi háir um 10% para, 50% af vandamálunum liggja hjá mönnunum og 50% hjá konunum, ótrúlegt að fólk skuli halda þessu fram þegar það kostar fleiri hundruð þúsundir að fara í gegnum svona meðferðir og vissurðu það að aðeins 30% glasameðferða takast, fólk sem hefur ekkért betra að gera fer þá bara aftur því það er fullkomlega heilbrigt og á svo mikið af peningum....eða hvað??? Og annað....það eru mjög margir sem virkilega langar að eignast barn sem geta ekki einu sinni farið í tæknifrjóvgunarmeðferð vegna þess að þeir eiga ekki peninga fyrir þeim.

 Minnir mig á ákveðinn stjórnmálarmann sem sagði að það væri "lúxus" að fara í tæknifrjóvgunarmeðferðir, held að fólk ætti að prufa að yfirfæra vandamálin yfir á sjálft sig áður en það skýtur svona út í loftið....átt þú börn....ef já....hugsaðu þér hvað lífið væri tómlegt án þeirra, en því miður getur þú ekki sett þig í spor fólks sem þrá ekkért annað að eiganast börn en geta það ekki...og fá þá komment eins og ættleiða....og ef þú átt börn og það eru svona mikil vandamál í þriðja heiminum....afhverju ættleiddir þú þá ekki börn þaðan í staðinn fyrir að eignast þau sjáfur....fyst það er svona mikil mannfjölgun....

Bara þoli ekki svona fordóma og fáfræði....eigðu góðan dag.

Karen (IP-tala skráð) 4.10.2010 kl. 12:04

2 identicon

Ég er alveg sammála Karen. Ef þú ættlar að hafa einhverja skoðun á málinu viltu þá vera með staðreyndirnar á hreynu, það er hvað glasafrjóvgun er.

 Þú bendir á ættleiðingar sem lausn fyrir fólk sem ekki getur átt börn. Það er bara ekki svo einfalt og margir sem geta átt börn með hjálp glasafrjóvgunar hafa ekki rétt til ættleiðingar og svo er sá ferill líka langur og mjög kostnaðarsamur. 

 Farðu inn á artmedica.is og sjá hver kostnaðurinn er við glasafrjóvgun og þar er ekki meðtalin lyfjakostnaður og álagið á líkama konunar. Fólk fer ekki í svona meðferð bara í gríni. Skammastu þín að halda þessu fram. Þetta er vanvirðing við fullt af fólki sem þráir ekkert heitara en geta gefið barni ást sína.

María (IP-tala skráð) 4.10.2010 kl. 13:03

3 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæl Karen

Takk fyrir leiðréttinguna. Það er rétt að það er ekki nauðsynlegt að pota sæðisfrumunni inn, nema í litlu hlutfalli tilfella. Ég ruglaði saman tæknifrjóvgun og glasafrjóvgun, sbr útskýringu þína.

Glasafrjóvgun er ekki samheiti yfir nokkrar skyldar aðferð, helstu meðferðir tæknifrjóvgunar eru tæknisæðing, glasafrjóvgun og smásjárfrjóvgun. 

Ég veit líka að tæknifrjóvgun er ekkert grín, þær konur sem ég hef rætt þetta við minnast allar á neikvæð áhrif hormónameðferðarinnar, og þeirra stundum harðneskjulegu inngripa sem nauðsynleg eru (það fer örugglega eftir persónuleika og verklagi lækna og fræðinga sem veljast til starfsins í hverju tilfelli!).

Ófrjósemi okkar sem tegundar er merkilega algeng, og auðvitað eru margar ástæður fyrir ófrjósemi, gallar á byggingu eða starfsemi sæðis, ósamrýmanlegar arfgerðir "foreldra", eiginleikar eggja, legs o.s.frv. Hvorutveggja finnst mér sem líffræðingi forvitnilegt, rétt eins og mörgum finnst líffræði krabbameina eða öldrun taugakerfisins forvitnileg.

Ég ræða það úr orðum þínum að þér þyki það mannréttindi að eignast barn. Málið er að barnaeign er mikið tilfinningamál. Ég vil helst ekki ræða mína einkahagi hér, en held ég geti sett mig í spor þeirra sem þrá það að eignast barn.

Það að eignast barn er yfirleitt ákvörðun tveggja einstaklinga, tilvonandi móður og föður. Og jafnvel þótt einhver ákveði á fermingaraldri að eignast í mesta lagi eitt barn, þá kann að vera að viðkomandi skipti um skoðun maka síns vegna. Það þýðir hins vegar ekki að viðkomandi geti ekki tekið þátt í eðlilegum umræðum um gildi tæknifrjóvganna eða haft efasemdir um mikilvægi þeirra, án þess að vera ásakaður um fordóma.

Ég byggi skoðun mína að umtalsverðu leyti á reynslu af amerísku heilbrigðis og tryggingarkerfi, þar sem tekist hefur að sjúkdómsvæða ófrjósemi með miklum árangri. Mér finnst bara dálítið sárt að sjá vellauðugt fólk eyða fleiri hundruð þúsund dollurum í að reyna að eignast barn, en horfa svo í gegnum börn fátækra og umkomulausra samborgara sinna og tuða um ræfla og aumingja.

Virðingarfyllst

Arnar Pálsson, 4.10.2010 kl. 13:29

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæl María

Ég skammast mín fyrir að hafa farið rangt með staðreyndir sem Karen leiðrétti sem betur fer. Ég skammast mín hins vegar ekki fyrir það að hafa efasemdir um mikilvægi glasafrjóvgana fyrir heilbrigðiskerfið í heild.

Ef við sem þjóð ættum í erfiðleikum við að fjölga okkur, þá væri kannski (stórt kannski) spurning um að leggja meiri áherslu á glasafrjóvganir.

Á tímum sparnaðar finnst mér að við ættum frekar að varast skerðingu á ungbarnaeftirliti og lýðheilsu en á glasafrjóvgunardeild. 

Ég hélt því aldrei fram að fólk færi í glasafrjóvgun í gríni, samanber fyrra svar. Grín er ekki sjálfsögð mannréttindi :)

Arnar Pálsson, 4.10.2010 kl. 13:36

5 identicon

Sæll aftur.

þú skrifaðir" . Mér finnst bara dálítið sárt að sjá vellauðugt fólk eyða fleiri hundruð þúsund dollurum í að reyna að eignast barn, en horfa svo í gegnum börn fátækra og umkomulausra samborgara sinna og tuða um ræfla og aumingja."

 Þú mátt auðvitað hafa þínar skoðanir, en bilið á ríkum og fátækum og allir geta ekki hugsað um börnin eins og þeir vildu....þá ertu bara að tala um allt annað vandamál heldur en glasafrjóvganir, skil eiginlega ekki afhverju þú ert að leggja þetta að jöfnu, finnst þetta svo fáránlegt að það er næstum því ekki svaravert, en þú mátt hafa þínar skoðanir eins og ég mínar....svona eins og þú sért að gefa í skyn að fólk eigi bara að hætta að reyna að eignast börn því það eru svo mörg börn sem hafa það ekki nógu gott....hvernig væri þá bara að reyna hvetja fólk sem getur ekki séð fyrir börnum að bíða með barneiginir, heldur en að stoppa af þá sem geta séð um börn og þrá ekkért heitar en að eignast barn að banna þeim það því e-h aðrir geta það ekki.

svo skrifar þú "Það að eignast barn er yfirleitt ákvörðun tveggja einstaklinga, tilvonandi móður og föður. Og jafnvel þótt einhver ákveði á fermingaraldri að eignast í mesta lagi eitt barn, þá kann að vera að viðkomandi skipti um skoðun maka síns vegna. Það þýðir hins vegar ekki að viðkomandi geti ekki tekið þátt í eðlilegum umræðum um gildi tæknifrjóvganna eða haft efasemdir um mikilvægi þeirra, án þess að vera ásakaður um fordóma"

Nú veit ég ekki þína stöðu en segjum svo að þú sért dæmið hérna að ofa, hefur ákveðið að eignast eitt barn sem er auðvitað yndislegt, en segjum sem svo að þið mynduð reyna í hverjum einasta mánuði í 1 ár...svo 2 ár og svo 3 ár...sumir ennþá lengur.....ekkért barn kemur.....það getur enginn sett sig í þessi spor nema prufa það sjálfur....eiga engin börn og bíða og bíða með von í hjarta hvern einasta mánuð um að það gerist eitthvað, finna sorgina með tímanum þegar ekkért gerist og hvað þá gleðina þegar það tekst og svo ef það fer að þurfa upplifa þetta aftur og aftur.....með fullri virðingu fyrir þér þá er bara ekki hægt að ræða þessi málefni af neinum skilningi nema fólk hafi upplifað þetta sjálft eða í gegnum nána sem hafa upplifað sorgina með þeim eða gleðina þegar þetta loksins tekst.
Oftar en ekki fær fólk sem á við ófrjósemi að stríða alls kyns ráðleggingar frá öðrum....eins og hvað það séu mikið til að fátækum börnum í heiminum, munaðarlausum og svo framvegis....en hverjum langar ekki í sitt barn....upplifa meðgöngu, fæðingu, eignast barn sem líkst manni sjálfum eða maka sínum eða báðum, auðvitað er yndislegt að ættleiða barn, ég er alls ekki að gera lítið úr því, en ég er bara að reyna benda á að það er yfirleitt ekki fyrsta val hjá fólki að hugsa um eða taka að sér annarra manna börn.

Vona af öllu mínu hjarta að enginn sem þú þekkir þurfi að glíma við ófrjósemi, þetta er ofsalega erfitt og skilningsleysið í samfélginu er nánast ekkért.....og annað....ekki hafa áhyggjur af því að þetta sé að setja samfélagið á hausinn því þeir sem þurfa því miður á þessum meðferðum að halda þurfa að borga þetta nánast allt úr eigin vasa.

Kv.Karen.

Karen (IP-tala skráð) 4.10.2010 kl. 15:22

6 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Hér er grillfnykur...

Haraldur Rafn Ingvason, 4.10.2010 kl. 23:11

7 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk fyrir athugasemdirnar Karen

Þú veltir upp góðum punktum sem ég er að velta fyrir mér. Ég mun svara þér en get það ekki strax vegna anna, vonandi á morgun eða föstudaginn.

Arnar Pálsson, 6.10.2010 kl. 15:19

8 Smámynd: Arnar Pálsson

Afsakaðu töfina Karen

Ég vil byrja á að láta þig vita að svör þín fengu mig til að endurmeta skoðun mína ítarlega. Mér fannst sem ófrjósemi væri dæmi um sjúkdómsvæðingu einkennis sem ylli ekki miklu sársauka. Það sem ég gerði mér ekki fyllilega grein fyrir er að andlegur sársauki sá sem (aðallega) konur upplifa þegar þær fatta að þær geta ekki eignast barn er mikill.

Líkamlegar þrautir, t.d. vegna krabbameins eða beinbrots eru vissulega alvarlega, en einnig lífshættulegar. Andlegar þrautir vegna fötlunar, skyndilegrar lömunar eða hægfara hörnunar geta líka verið mjög miklar, og sumum sjúkdómum fylgja minnkandi lífslíkur.

Ég veit ekki hvort að sú andlega kvöl sem fylgir því að geta ekki eignast börn dragi úr lífslíkum, a.m.k. hef ég ekki séð rannsókn sem kemst að slíkri ályktun. Það þýðir ekki að þessi staða geti haft neikvæð áhrif, ekki bara á líðan konunar (og jafnvel mannsins) en einnig á heilsu þeirra og lífslíkur til lengri tíma.

Ég held að við séum að horfa á samfelldan skala frá banvænum sjúkdómum (með tilheyrandi andlegu stressi) til vægra einkenna sem ekki draga úr lífslíkum (en með mikinn tilfinningalegan og andlegan sársauka). Ég tel líklegt að ófrjósemi sitji nær þeim sjúkdómum sem ekki dragi úr lífslíkum.

En það er samt vitað að andleg líðan hefur áhrif á líkamlega starfsemi og ástand. Þannig að það er mjög mikilvægt að takast á við líðan sjúklinga, sama hvort þeir þjáist af krabbameini eða ófrjósemi.

Ég vissi ekki um að hérlendis lenti nær allur kostnaður við ófrjósemis aðgerðir á hlutaðeigandi pörum, heldur tók mið af ameríska kerfinu, þar sem læknar á einkastofum leggja snörur fyrir fólk sem hefur kannski reynt í 6-12 mánuði að eignast barn án árangurs. Það finnst mér vera rakið dæmi um sjúkdómsvæðingu og læknayfirgang sem í þessu tilfelli setur konuna í gegnum mjög harkalega meðferð og parið í gegnum mjög stressandi ferli.

Tengsl foreldra við börn sín eru þau sterkustu sem við sjáum í mannlegu samfélagi. Athugasemdin mín um ríka fólkið í USA var öðrum þræði um þann skort á bræðralagi sem gegnsýrir það þjóðfélag og e.t.v. okkar einnig. 

Takk fyrir að virða það að ég vilji ekki ræða málið á of persónulegum nótum. Ég get samt sagt þér að ég þekki þrjár konur vel sem hafa tekist á við ófrjósemi. Þær hafa farið í gegnum mismunandi meðferðir, styttri og lengri, mismunandi aðferðir og tæknilegar lausnir. Ég veit að hormónameðferðirnar eru alls ekkert grín. Sem líffræðingi finnst mér þær vera mjög harkalegt inngrip. Ég leitaði á pubmed.com en fann ekki afgerandi vísbendingar um að þetta væri skaðlegt - sjá samt næstu athugasemd á eftir. Árangurinn hjá þessum pörum var einnig mismunandi - enginn eða góður. Ég get samt ekki alveg vitað hvernig konunum leið, eða mökum þeirra, ekki frekar en ég veit hvernig upplifun það er að hryggbrotna og vera bundinn við hjólastól eða fá að upplifa hraða líkamlega hrörnun sem fylgir sumum sjúkdómum.

Ef upphaflegi pistillinn minn var of hraðsoðin og kaldranalega orðaður, þá biðst ég afsökunar á að hafa móðgað þig.

Arnar Pálsson, 15.10.2010 kl. 16:54

9 Smámynd: Arnar Pálsson

Nýleg rannsókn sænskra vísindamanna bendir ekki til þess að ófrjósemismeðferð auki líkurnar á brjóstakrabbameini. Nema hvað það getur verið að Chlomiphene hafi áhrif, og þá sérstaklega í ákveðnum undirhópi (referred to by nonovulatory causes).

Fleiri rannsóknir hafa tekist á við þessa spurningu, og það eru ekki neinar afgerandi vísbendingar um að ófrjósemismeðferðir auki líkurnar á krabbameinum.

Am J Obstet Gynecol. 2009 Jan;200(1):72.e1-7. Breast cancer incidence after hormonal infertility treatment in Sweden: a cohort study.

Orgéas CC, Sanner K, Hall P, Conner P, Holte J, Nilsson SJ, Sundfeldt K, Persson I, Chia KS, Wedren S, Dickman PW, Czene K.

OBJECTIVE: To assess the impact of infertility treatment with causes of infertility on incidence of breast cancer.

STUDY DESIGN: Historical prospective cohort study of 1135 women attending major university clinics for treatment of infertility in Sweden, 1961-1976. Women were classified as users of clomiphene citrate or gonadotropins, or a combination of both therapies. Standardized incidence ratios were calculated to estimate relative risk of breast cancer.

RESULTS: We observed 54 cases of breast cancer during 1961-2004, which did not significantly exceed those expected. Users of high-dose clomiphene citrate had an almost 2-fold increased risk (standardized incidence ratio, 1.90; 95% confidence interval, 1.08-3.35). This association was more pronounced among women referred for nonovulatory factors, with 3-fold increased risk (standardized incidence ratio, 3.00; 95% confidence interval, 1.35-6.67).

CONCLUSION: No overall increased risk for breast cancer was shown with infertility treatment. Women with nonovulatory causes treated with high-dose clomiphene citrate therapy may have an elevated risk for breast cancer.

Arnar Pálsson, 15.10.2010 kl. 17:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband