Leita í fréttum mbl.is

Arfleifð Darwins: í útvarpinu

Í gær (5 október 2010) var haldið upp á útgáfu bókarinnar Arfleifð Darwins, þróunarfræði, náttúra og menning. Hátíðin var vel sótt og tókst ljómandi vel á flesta kanta, það vantaði reyndar meiri ost. (En hvenær er svo sem til nóg af osti, eins og Wallace félagi Gromits segir. Það er annar sálmur.) Af þessu tilefni var fjallað um bókina í Samfélaginu í nærmynd. Þar ræðir Leifur Hauksson við Hafdísi Hönnu Ægisdóttur, um bókina og rannsóknir hennar á plöntum á eyjum. Hún fjallaði einmitt um lífríki á eyjum í kafla sínum í bókinni. Hún segir meðal annars frá ferðalagi Darwins:

Árið 1831 fékk Charles Robert Darwin, þá 22 ára gamall, boð um að taka þátt í nokkurra ára könnunarleiðangri á skipi hans hátignar, H.M.S. Beagle. Aðdragandinn var sá að í Cambridge, þar sem Darwin hafði stund - að guðfræðinám, kynntist hann grasafræðingnum John Henslow (1796– 1861) sem kveikti hjá Darwin ástríðu fyrir náttúrunni. Henslow leist vel á þennan unga stúdent og mælti með honum við skipherrann Robert Fitzroy (1805–1865) sem þá leitaði manns sem gæti verið honum félagi á þeirri löngu siglingu sem fram undan var. Vegna stéttaskiptingar þótti ekki við hæfi að skipherrar blönduðu geði við aðra skipverja og hafði þessi einangrun þeirra á skipum breska flotans áður valdið sárum einmanaleika, sturlun og jafnvel sjálfsvígum. Þar sem Darwin þótti af nógu góðum ættum til að fitzroy skipherra gæti átt við hann samskipti, var hann ráðinn til að veita skipherranum félagsskap í leiðangrinum og sinna jafnframt athugunum á náttúrufari. Skipið sigldi um heimsins höf í um fimm ár (1831–1836) og nýtti Darwin tímann vel, safnaði sýnum, fræddist um lífríki og jarðfræði og uppgötvaði undur veraldarinnar. Þann 15. september 1835 kom leiðangurinn til Galapagoseyja...

Miðvikudaginn 6. október var Guðmundur Ingi Markússon í viðtali í Víðsjá. Hér verður settur inn tengill á þáttinn þegar hann verður kominn á vef RÚV. Guðmundur segir í grein sinni:

Orðatiltækið „hinir hæfustu lifa af“ (survival of the fittest) er ekki ættað frá Darwin heldur Herbert Spencer (1820–1903), hinum eiginlega upphafsmanni félagslegs „darwinisma“. Spencer leit svo á að þróun væri almennt lögmál sem stuðlaði að því að einföld fyrirbæri yrðu flóknari, sérhæfðari og betur samhæfð – þróun var m.ö.o. framþróun (progress) og sem almennt lögmál átti það jafnt við um tilurð sólkerfa, lífvera og samfélaga. Hvað framþróun samfélaga varðaði einkenndist hún af því að
frumstæðari og einfaldari samfélagsgerð vék fyrir flókinni verkaskiptingu og iðnvæðingu. samkvæmt Spencer stuðlaði lífsbaráttan að því að hinir hæfustu lifðu af sem síðan leiddi til betra samfélags. Hvað samfélagsmál varðaði talaði Spencer fyrir harðri einstaklingshyggju og gegn hvers kyns ríkisafskiptum og félagslegum umbótum. eina færa leiðin til þess að bæta samfélagið var að leyfa þróunarferlinu að hafa sinn gang og láta þá veiku víkja fyrir hinum sterkari. Með því að skerpa á lífsbaráttunni mætti ýta enn frekar undir framfarir. áhrifa Spencers gætti víða – í stjórnmálum,
menntamálum og viðskiptalífinu, en einkum áttu sjónarmið hans hljómgrunn í Bandaríkjunum, enda gáfu þau lausbeisluðum kapítalisma „náttúrulegt“ yfirbragð.

Leiðrétting: í fyrri útgáfu var sagt að viðtalið við Guðmund væri 5 okt. Einnig var bætt inn tengli á upptöku af þættinum á vef RUV. Takk Villi fyrir ábendinguna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Benediktsson

Til hamingju með útgáfu bókarinnar, kaupi hana um leið og færi gefst :)

Halldór Benediktsson, 8.10.2010 kl. 13:50

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk fyrir Halldór

Fyrsti skammtur kláraðist í bóksölu stúdenta, þeir áttu að fá fleiri eintök síðdegis í dag.

Arnar Pálsson, 8.10.2010 kl. 18:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband