Leita í fréttum mbl.is

Arfleifð Darwins: týndi kaflinn

ArfleifdDarwins kapa3Þegar við Steindór og Hafdís settum saman lista af köflum og viðfangsefnum fyrir Arfleifð Darwins, var hugmyndin að ég myndi fjalla um tengsl þroskunar og þróunar. Síðan gekk einn höfundur úr skaftinu og enginn eftir til að fjalla um þróun mannsins. Þar sem ég hef kennt þróun mannsins í námskeiðum í mannerfðafræði og þróunarfræði við HÍ varð úr að ég tæki það efni að mér. Sá kafli óx og dafnaði, og varð hinn bærilegasti (að mér sjálfum finnst). Sýnishorn úr kaflanum er aðgengilegt á darwin.hi.is (sem pdf skrá), og honum lýkur á þessum orðum:

Darwin var mikil mannvinur og hafa Adrian Desmond og James Moore fært rök fyrir því að andúð hans á þrælahaldi hafi orðið uppsprettan að hugleiðingum hans um þróun tegundanna. Kafli í nýlegri bók þeirra um Darwin heitir einmitt „sameiginlegur skyldleiki, frá forföður allra manna til forföður allra spendýra“. Darwin var tregur til að ræða líffræði og þróun mannsins, en með kenningu sinni og Wallace, bókum sínum og fádæma innsæi og nærgætni opnaði hann okkur leið til að rannsaka eðli og eiginleika mannskepnunnar. Hann gerði sér fyllilega grein fyrir „dýrslegum“ uppruna mannsins. engu að síður var honum samfélagsleg ábyrgð hugleikin, en það er fátíður eiginleiki meðal dýra merkurinnar. Darwin
hvetur okkur til þess að bæta líf meðbræðra okkar, því „ef eymd og fátækt meðbræðra okkar er ekki orsökuð af lögmálum náttúrunnar heldur stofnunum og gerðum mannsins, er synd vor mikil“.

Darwin 1839: 500. „if the misery of our poor be caused not by the laws of nature, but by the institutes of man, great is our sin.“

Mér var ekki unnt að klára kaflann um tengsl þróunar og þroskunar, en blessunarlega bauð Vísindafélag íslendinga mér að halda erindi á þessum nótum. Í kvöld mun ég halda fyrirlestur sem kallast "Fjölbreytileika lífvera: samspil þroskunar og þróunar"Ég verð að viðurkenna örlítinn taugatitring. Líklega til vegna þess að fyrir tæpu ári flutti ég versta erindi sem ég hef nokkurn tímann flutt, á 150 útgáfuafmæli Uppruna tegundanna, sem haldið var af Háskóla Akureyrar og Háskólanum á Hólum. Búið er gert,  og betur verður gert í kvöld. Fyrirlesturinn er kl 20:00 í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu, aðgangur ókeypis og öllum heimill.

Ég mun ræða um það hvernig náttúrulegt val leiðir til breytinga á útliti og eiginleikum lífvera og hvernig það getur leitt til breytinga í genunum sem nauðsynleg eru fyrir þroskun viðkomandi eiginleika. Einnig mun ég fjalla um lögmál genastjórnunar, sem ákvarða hvar og hvenær kveikt er á hverju geni, og hvernig þau lögmál tengjast þróun tegundanna. 

Veigamesta hugmyndin er sú að jafnvel þótt að náttúrulegt val viðhaldi einhverjum eiginleika, eins og t.d. hryggjasúlu eða skotti, þá getur genavirkið sem liggur að baki eiginleikanum tekið breytingum. Þannig að jafnvel þótt útlitið breytist ekki getur innhaldið breyst. Það getur m.a. útskýrt hvers vegna tegundir sem eru mjög áþekkar í útliti geta ekki eignast lifandi eða frjó afkvæmi.

Ritnefndin er félaginu sérstaklega þakklát fyrir að styrkja útgáfu bókarinnar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vendetta

Eg hefi tvær spurningar:

Í sambandi við Darwin: Margir sköpunarsinnar (sem af skiljanlegum ástæðum er í nöp við Darwin) fullyrða að hann hafi verið rasisti (gagnvart hörundsdökku fólki). Er eitthvað til í þessu, og hvernig er hægt að samrýma það þeim skoðunum hans sem fram koma í tilvitnun þinni?

Varðandi aðskildar, en áþekkar tegundir: Telur þú að í framtíðinni gæti komið að því að svona afgerandi genamunur muni koma upp meðal mannkynsins, þannig að barneignir milli þannig hópa værir útilokaður? Eða á þetta aðeins við um dýrategundir úr því að mannkynið þróast ekki skv. lögmálum Darwins. 

Vendetta, 27.10.2010 kl. 13:57

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Vendetta fyrir góðar spurningar sem fyrr.

Desmond og Moore halda hinu gagnstæða fram, að Darwin hafi verið mjög umhugað um meðbræður sína. Hann var greinilega stuðaður á Eldlandi, þar sem hann sá klæðalausa villimenn, búa í hreysum og borða eins og dýr, en skráði líka hjá sér í dagbókina lýsingar af hugarangist vegna þess sem svartir þrælar þurftu að þola í Suður Ameríku. Desmond og Moore segja að trúarlegt uppeldi Darwins og barátta margra í fjölskyldu hans gegn þrælahaldi og aðskilnaði hafi mótað skoðanir hans. Vera má að hann hafi samt talið hvíta fólkið þróaðara en svart fólk (sem var viðtekið skoðun á nítjándu öld), en hann virðist hafa verið þess fullviss að allir menn væru af sömu tegund.

Bók Desmond og Moore heitir: Darwin's Sacred Cause: How a Hatred of Slavery Shaped Darwin's Views on Human Evolution, hún er ekki gallalaus, skemmtileg og forvitnileg framan af, en hraðsoðin og rykkjótt í lokin.

Varðandi seinni spurninguna, þá þróast mannkynið skv. lögmálum Darwins og stofnerfðafræðinnar. Nútíma læknisfræði hefur sáralítil áhrif á tíðni arfgerða. Mér finnst ólíklegt, með nútíma flæði á fólki milli landa og heimsálfa að við munum skiptast upp í fleiri tegundir. Far fólks og blöndun er mjög öflugur þróunarkraftur sem dregur mjög úr líkunum á uppskiptingu í undirtegundir og að endingu eiginlegar tegundir.

Aðeins ef við leggjum samgöngur af (aftæknivæðumst) og höldum okkur heima í þorpinu eða dalnum í kannski 500.000 ár værum við komin áleiðis á þá braut.

Arnar Pálsson, 27.10.2010 kl. 14:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband