Leita í fréttum mbl.is

Arfleifð Darwins: af hverju stunda ekki fleiri kynæxlun?

Fyrir rúmum áratug sótti ég samdrykkju háskólanema í líffræði heimspeki og guðfræði. Fjallað var um hvort réttlætanlegt væri að klóna lífverur eða ekki. Auvitað man ég ekki orðaskipti og atburðarásina í smáatriðum, en fékk fína tusku í andlitið fyrir athugasemd mína um notagildi kynæxlunar (ég var með lista af punktum um ágæti kynæxlunar, og hélt því fram að klónun væri ónauðsynleg). Ég man ekki hver það var, en viðkomandi benti mér góðlátlega á að kynæxlun væri ekki það sama og kynlíf. Vissulega fer þetta stundum saman hjá mannfólki, en undantekningar eru þekktar. Kynlíf bleikjunnar er t.d. merkilega platóskt. Hængurinn og hrygnan dansa í vatninu, en snertast ekkert, og að endingu dæla þau kynfrumum sínum á botn vatnsins eða læksins og vona að allt fari vel. Það þarf sjúklega snertifælið mannfólk væri til í að stunda svoleiðis "kynlíf".

Kynæxlun er reyndar ráðgáta. Hvers vegna í ósköpunum ættu lífverur að eltast við það að finna maka, eyða púðri í að ná athygli hans, leggja orku í kynfrumur en fá síðan bara að setja HELMING af genunum sínum í hvert afkvæmi? Það væri miklu skynsamlegra að búa bara til einfalt ljósrit af sjálfum sér, það væri bæði ódýrara, fljótlega og tryggt að hver einstaklingur væri með afrit af ÖLLUM genum foreldrisins.

SnaebjornPalsson_ArfleifdDarwins_kynaexlun.jpgSamt sem áður er kynæxlun ríkjandi æxlunarform meðal fjölfrumunga. Það er einnig forvitnilegt að tegundir sem hafa lagt kynæxlun á hilluna og nota eingöngu kynlausa æxlun, þær virðast ekki endast. Ef þú stundar kynlausa æxlun, þá eru meiri líkur á að tegundin þín deyji út. Þetta hljómar smá eins og áfellisdómur predikarans - sjálfsfróun er ekki guði þóknanleg!

Snæbjörn Pálsson skrifaði kafla í bókina Arfleifð Darwins um þetta efni. Hann fjallar um ráðgátuna um kynæxlun og tíundar þær skýringar sem settar hafa verið fram á þessu furðulega fyrirbæri sem kynæxlun er.

kapaarfleifddarwins.jpg

Snæbjörn var einnig í viðtali hjá Birni og Sævari í Vísindaþættinum á útvarpi sögu nú í vikunni. Hann fjallaði þar meðal annars um þróun kynæxlunar, og líffræðilega fjölbreytni.

Kápan á Arfleifð Darwins var hönnuð af Bjarna Helgasyni listamanni. Hann býr í Bjadddnalandi (www.bjadddni.com) og hefur verið að hanna boli byggða á teikningum sínum fyrir kápuna á Arfleifð Darwins. Ég hef séð prufur og fullyrði að myndirnar eru það fegursta sem fest hefur verið á tau hérlendis á öldinni.

Leiðrétting: Vendetta benti mér á ritvillu, í setningunni "Ef þú stundar kynlausa æxlun, þá eru meiri líkur á að tegundin þín deyji út" stóð kynæxlun, sem kollvarpar merkingunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vendetta

"Það er einnig forvitnilegt að tegundir sem hafa lagt kynæxlun á hilluna og nota eingöngu kynlausa æxlun, þær virðast ekki endast. Ef þú stundar kynæxlun, þá eru meiri líkur á að tegundin þín deyji út."

Er þessar setningar ekki í mótsögn hvor við aðra?

Vendetta, 31.10.2010 kl. 18:47

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Vendetta, þetta misritaðist. Leiðrétti með hraði.

Arnar Pálsson, 1.11.2010 kl. 10:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband