1.11.2010 | 16:39
Niðurstaðan ER mikilvæg - líffræðilegur fjölbreytileiki skiptir máli
Sameinuðu þjóðirnar tileinkuðu árið 2010 líffræðilegri fjölbreytni (biodiversity). Vefsíða verkefnisins er The International Year of Biodiversity. Markmið hins alþjóðlega árs líffræðilegar fjölbreytni er að benda á:
- Mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni fyrir líf okkar, og hvernig fjölbreytnin er að minnka.
- Hvað fólk er að gera til að verjast tapi á líffræðilegri fjölbreytni.
- Hvernig fólk er að fagna hinu alþjóðlega ári líffræðilegrar fjölbreytni.
Samt þori ég að veðja að fæstir landsmenn viti hvað líffræðileg fjölbreytni er og hví hún skiptir máli. Ekki bara á heimsvísu, heldur einnig hérlendis.
Líffræðileg fjölbreytni er ekki bara mæld í fjölda tegunda. Fjölbreytnin getur birst á allavega fjórum sviðum:Fjölda tegunda
Mismunur á milli tegunda - hversu ólíkar eru tegundirnar
Breytileiki innan tegunda og stofna - stofnar eru mismunandi, t.d. er breytileiki inna górilla margfallt meiri en finna má milli manna.
Breytileiki í vistkerfum og búsvæðum lífvera
Hérlendis eru fáar tegundir og flestar finnast þær erlendis. Sérstaða Íslands liggur í lítt röskuðum vistkerfum, einstakri samsetningu tegunda og fjölbreytileika innan vissra hópa, eins í bleikjustofnum og laxi. Það hefur bæði fagurfræðilegt gildi og hagnýtt. Erfðaauðlindir eru eitt af mikilvægustu auðlindum framtíðarinnar, sem eru í umtalsverðri hættu. Þetta á ekki síst við um náttúrulega nytjastofna, þar með þorsk, ýsu, rækju og síld. Það eru auðlindir sem íslendingar ættu að kunna að meta.
Að auki: Orðalag fyrirsagnar fréttar MBL.is af fundinum um líffræðilega fjölbreytni gefur til kynna að ráðherra (e.t.v. í sinni sérvisku) álykti sem svo að niðurstaða fundarins hafi verið merkileg (Umhverfisráðherra segir niðurstöðuna mikilvæga).
Líffræðifélag Íslands og Vistfræðifélag Íslands standa fyrir ráðstefnu um rannsóknir á líffræðilegum fjölbreytileika (sjá tilkynningu). Áhugasamir eru beðnir um að senda erindi á lifbr.fundur2010@gmail.com.
Umhverfisráðherra segir niðurstöðuna mikilvæga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Sæll Arnar.
Ég óska eftir því að þú skýrir betur staðhæfingar þínar um „sérstöðu“ Íslands í samhengi líffræðilegrar fjölbreytni (sbr.: „Sérstaða Íslands liggur í lítt röskuðum vistkerfum, einstakri samsetningu tegunda og fjölbreytileika innan vissra hópa“).
Sérstaklega leikur mér forvitni á að vita hvernig þú kemst að þeirri niðurstöðu að land sem hefur af mannavöldum tapað 95% af skógarþekju sinni, stærstum hluta annarrar gróðurþekju og um helmingi af jarðvegi teljist „lítt raskað“. Ég hallast fremur að því að telja slíkt land „afar laskað“ en „lítt raskað“. Sé fótur fyrir því að halda því fram að íslensk vistkerfi séu á einhvern hátt einstaklega „lítt röskuð“, vil ég vita við hvaða land (lönd) þú miðar við.
Í annan stað leikur mér forvitni á að vita hvaða viðmiðum þú beitir til að komast að þeirri niðurstöðu að samsetning tegunda á Íslandi sé einstök. Einstök samsetning tegunda miðað við hvaða land (lönd)?
Í þriðja lagi talar þú um „einstakan fjölbreytileika innan vissra hópa“ og vísar til laxfiska í því samhengi. Ég efast um að laxfiskar né aðrir hópar lífvera á Íslandi séu einstaklega erfðafræðilega fjölbreytilegir í hnattrænum samanburði, þótt finna megi vel rannsökuð hérlend dæmi um að slíkar lífverur hafi greinst svipfarslega milli staða og vista, með náttúruvali og tilviljanakenndu erfðaflökti (e. random genetic drift). En ámóta erfðavistfræðileg dæmi eru líka þekkt víða erlendis.
Aðalsteinn Sigurgeirsson, 1.11.2010 kl. 20:32
Takk fyrir innlitið Aðalsteinn
Ég vil byrja á að biðjast afsökunar. Ég gaf mér aldrei tíma í sumarlok til að halda áfram umræðu okkar um lúpínu og líffræðilegan fjölbreytileika (Lúpínur og líffræðilegur fjölbreytileiki).
Mér var samt hugsað til þín þegar ég notaði orðið "lítið" fyrir framan röskuð. Það að beit og skógarhögg hafi útrýmt skógi á íslensku láglendi er vissulega röskun. En það er samt lítil röskun miðað við hvernig landið liti út ef við værum með uppbyggðan veg í hvern dal og upp á hvern hól, með stórfellda skógrækt í hverri einustu mýri, holti og hlíð, raflínur fram og til baka, stíflur, veitingahús á fjallstoppum, göng í gengum fjallsrætur, verksmiðjur við hverja á og varnargarða með flestum ströndum. Miðað við Evrópu er lífríki Íslands lítið raskað. Og það er opin spurning um það hvernig og HVORT eigi að grípa inní og reyna að endurheimta "náttúruna". Náttúruna mun endurheimta jörðina þegar mannfólkið er farið (sjá Mannlausa Veröld - the world without us).
Það sem ég átti við með samsetningu tegunda, er sú staðreynd að á Íslandi og fleiri heimskautasvæðum finnast almennt færri tegundir á flatarmálseiningu. Vistkerfin eru ekki jafn fjölbreytt, fáar tegundir einkenna vistkerfið. Við höfum tilhneygingu til að sjá fjölbreytni sem fjölda tegunda, en ég var að leggja áherslu á að fáleitni er eitt form fjölbreytni. Ábendingin þín er ágæt, ég átti frekar að segja vistkerfi heimskautasvæða væri sérstök (einstök) miðað við vistkerfi tempraðra belta, að þessu leyti!
Ég er sjálfur að fikra mig inn í rannsóknir á bleikju, og hef lesið aðeins um fjölbreytileika í ferskvatnsfiskum á norðurslóð. Vistfræðingar hafa sýnt að þrátt fyrir að um fáar tegundir sé að ræða, hornsíli, bleikju, urriða og lax, er umtalsverður breytileiki í útliti, vistfræði og eftir því sem fyrstu niðurstöður sýna erfðamengjum. Sterkustu gögnin eru úr hornsíli og bleikju, en minni vísbendingar eru um breytileika í laxi og urriða. Vistfræðingarnir hafa bent á að um alla norður álfu hafi ferskvatnsfiskar ruðst inn í auðar vistir í kjölfar ísaldarloka. Þetta sést í norður-ameríku og Noregi, eins og hér. Það sem gerir Íslensku vatnakerfin einstök - og þar með vistirnar - er jarðfræði landsins. Hún býður fiskunum upp á mjög fjölbreytt vistkerfi, sem þeir virðast hafa aðlagast að hluta, og einnig einangrun á milli vatnakerfa sem (eins og þú bendir réttilega á) stuðlar að aðskilnaði stofna vegna genaflöks (genetic drift).
Arnar Pálsson, 1.11.2010 kl. 22:02
Sæll,
Mér er spurn hvað bæði þú og Mbl.is eigið við þegar þið segið erfðaauðlind. Og annað, ef erfðaauðlind er það sem ég held það sé (það gagn sem maðurinn hefur af erfðamengum) er þá réttmætt að tala um þau með þessum hætti? Þ.e. er þetta ekki gróf tegundahyggja að álykta að vernda beri líffræðilega fjölbreytni mannsins vegna en ekki náttúrunnar vegna. Allavega, ef að ég ber réttan skylning á þessu nýyrði þá er ég á móti því að það sé notað þar sem mér finnst nóg um tegundahyggju fyrir í almennri orðræðu.
Rúnar Berg (IP-tala skráð) 1.11.2010 kl. 22:54
Takk Rúnar Berg
Sólin er auðlind, en það útilokar ekki að við njótum hennar á tilfinningalegum nótum. Ber að vernda sólina, hennar sjálfrar vegna? Eða vegna þess að hún er okkur notadrjúg?
Ég veit ekki alveg hvað hugtakið "tegundahyggja" merkir. Er það þýðing á utilitarianisma - það er að notin ein réttlæti tilveru hlutarins?
Ég er reyndar ekki fylgjandi slíkri heimsýn, það er margt í veröldinni sem mér þykir rétt að viðhalda, þótt það hafi ekki beint brúklegt gildi. Engu að síður skaðar það ekki að átta sig á því að margir hlutir og fyrirbæri hafa notagildi.
Erfðabreytileiki er auðlind sem er á undanhaldi. Kynbótamenn vita að breytileiki er forsenda framfara í ræktun, bæði breytileiki innan tegundar og einnig í skyldum tegundum og afbrigðum. Ein afleiðing verksmiðjubúskapar er tap á erfðabreytileika, og það eru margir áhugamenn og fræðimenn sem tala fyrir því að varðveita sjaldgæf kyn húsdýra, fræ fágætari afbrigða og jafnvel jarðvegsörverur og frjóbera sem eru nauðsynlegir nytjaplöntum.
Arnar Pálsson, 1.11.2010 kl. 23:47
Alveg óþarfi að afsaka, Arnar. Deilur um lúpínu blossa alltaf upp á sama árstíma ár hvert, einatt þegar lúpínan er í fullum blóma. Það var því viðeigandi hjá okkur að hætta rökræðum í fyrrasumar um leið og síðustu bláu blóm lúpínnar mynduðu fræbelgi.
„ég var að leggja áherslu á að fáleitni er eitt form fjölbreytni“ (apalsson)
Ef fáleitni er eitt form fjölbreytni, því þá ekki að ganga skrefið til fulls í fullkomnun merkingarleysunnar og segja að einsleitni sé eitt form fjölbreytni? Væri Ísland vaxið aðeins einni arfgerð einnar plöntutegundar, bæri þá ekki að vernda hina flokkunarfræðilegu og erfðafræðilega einsleitu flóru gegn aukinni fjölbreytni (lesist: ágengni innfluttra) tegunda og arfgerða sömu tegundar, í nafni þess að vernda líffræðilega einsleitni/fáleitni/fjölbreytni?
Mér finnst örla mjög á humpty-dumptyisma í svörum þínum, Arnar. Eða eins og Lewis Carroll lagði í munn sögupersónu sinnar hans Humpty Dumpty: „Þegar ég nota orð merkir það nákvæmlega það sem ég kýs að það merki – hvorki meira né minna“ ("When I use a word it means just what I choose it to mean — neither more nor less.")
Miðað við Evrópu er lífríki Íslands lítið raskað. Og það er opin spurning um það hvernig og HVORT eigi að grípa inní og reyna að endurheimta ‘náttúruna (apalsson)Það er sígilt álitaefni hvert beri að stefna, en á hinn bóginn „er svo bágt að standa í stað/ og mönnunum munar / annaðhvort aftur á bak / ellegar nokkuð á leið,“ eins og skáldið Jónas kvað forðum. Vel má vera að einhverjir vel metnir fræðimenn við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands hallist að þeirri lífsskoðun að „hin eina, sanna, ósnortna íslenska náttúra“ felist í nauðbitnu, uppblásnu, einsleitu og tötrum klæddu landi (sem orðið hefur til vegna samspils landfræðilegrar einangrunar og aldalangrar rányrkju) og vilja bera það á borð fyrir almenning að verndun lífríkis og náttúru beri að felast í verndun þessa sköpunarverks gegn ræktun og aukinni grósku.
En mér sýnist hér vera á ferðinni enn ein útgáfa þess skrums og þeirrar lífseigu bábylju sem Halldór Kiljan Laxness gerði tilraun til að kveða í kútinn með frægri grein sinni fyrir réttum 40 árum, að „Ísland sé svo landa að þar gefi á að líta óspilta náttúru“:
„Af öfugmælanáttúru sem íslendíngum er lagin kappkosta sumir okkar nú að boða þá kenníngu innan lands og utan, einkum og sérílagi þó í ferðaauglýsingum og öðrum fróðleik handa útlendíngum, að Ísland sé svo landa að þar gefi á að líta óspilta náttúru. Margur reynir að svæfa minnimáttarkend með skrumi og má vera að okkur sé nokkur vorkunn í þessum pósti. Hið sanna í málinu vita þó allir sem vita vilja, að Ísland er eina landið í Evrópu sem er gerspilt af mannavöldum. Því hefur verið spilt á umliðnum þúsund árum samtímis því að Evrópa hefur verið ræktuð upp. Nokkur svæði í miðjarðarhafslöndum Evrópu, einkum Grikkland, komast því næst að þola samanburð við Ísland að því er snertir spillingu lands af mannavöldum.“
Halldór Laxness (1970): Hernaðurinn gegn landinu.
Nagoyabókunin við samning Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (sjá stutta samantekt HÉR) setur fram áætlun í 20 liðum um hvernig vernda skuli og efla líffræðilega fjölbreytni á heimsvísu. Í 15. liðnum eru sett fram markmið um að auka þanþol og kolefnisbindingu vistkerfa og draga úr auðnamyndun, m.a. með því að endurheimta a.m.k. 15% þeirra vistkerfa sem laskast hafa af mannavöldum. Þetta markmið skal nást fyrir árið 2020. Hvað þýðir þetta fyrir Ísland? Tökum dæmi af skógum og skógleysi Íslands. Ef 40% landsins (40 þús. km2) var vaxið skógi eða kjarri við landnám, þurfum við Íslendingar að græða 6 þús. km2 (6% landsins) skógi eða kjarri fyrir lok komandi áratugar til þess að standa við okkar hlut í samningnum. Á ári hverju fram til 2020 þurfum við sem sagt að rækta skóg á 600 ferkílómetrum. Þetta er sextíufalt það sem unnist hefur árlega s.l. tvo áratugi. Það er eins og gott að skógræktarfólk haldi vel á spöðunum næstu árin!
Aðalsteinn Sigurgeirsson, 2.11.2010 kl. 00:36
Sæll,
Tegundahyggja er íslenskun á orðinu speciesism -sá hugsunarháttur að sá eina dýrategund æðri annarri- Biblían er tildæmis stútfull af tegundahyggju svo og margar vísindagreinar framanaf (sálfræði, líffræði). Langalgengasta form tegundahyggju í vestrænu samfélagi er sá hugsunarháttur að maðurinn sé æðri og eigi sér meiri tilverurétt en ómenskar lífverur. Það að orðið auðlind skuli vera til yfirhöfuð er merki um rótgróna tegundahyggju þar sem auðlind vísar til þess hvað sé gagnlegt fyrir manninn óháð öðrum lífverum. Til dæmis er olía auðlind þrátt fyrir að eiga sök á hnattrænni hlýnun og fjölda mengunarslysa sem hefur orðið stórskaðlegt fyrir ómenskar lífverur.
Það er full ástæða til að hafa varann á og gagnrýna tilskipun frá sameinuðuþjóðunum sem gerir sig seka um tegundahyggju. Því að þegar farið er að líta á erfðabreytileika sem auðlind eins og fiskistofna og fangelsi, þá er kominn grundvöllur fyrir markað og sýsl með umrædda auðlind. Þessi tilskipun sameinuðu þjóðanna lyktar einmitt af slíkri markaðsvæðingu náttúrunnar. Eða eins og segir í fréttinni:
Taktu sérstaklega eftir því að frumbyggjar eiga rétt á hlutdeild í hagnaði sem verður af auðlindinni. Það er semsagt bannað að hyrða allan hagnaðinn af auðlindunum þeirra. Taktu líka eftir því fyrirtæki eiga að leika stórt hlutverki í verndun erfðaauðlinda. Og annað sem má gagnrýna er hvað með þau erfðamengi og þann hluta líffræðilegs fjölbreytileika sem hagnast ekki manninum. Til dæmis viltum plöntutegundum (illgresi) og hvölum (sem borða fiskinn okkar)? Er allt í lagi að halda þessum tegundum í líffræðilegri fábreytni þar sem þetta eru ekki erfðaauðlindir?
Þess vegna er full ástæða til að gagnrýna þessa tilskipun á grundvelli tegundahyggju. En þar að auki er markaðsvæðing náttúrunnar alltaf gagnrýnisverð. En í fljótu bragði þá lítur þessi tilskipun út eins og það sé verið að reyna að rýma fyrir erfðaauðlindum innan kapítalismans.
Rúnar Berg (IP-tala skráð) 2.11.2010 kl. 09:22
Sæll Aðalsteinn
Ég ætla að reyna að svara þér í sem skýrustu og vonandi ekki of löngu máli.
Ég sagði „ég var að leggja áherslu á að fáleitni er eitt form fjölbreytni“ og þú svaraðir
Ég var bara að segja að einn af fjórum megin þáttum líffræðilegrar fjölbreytni er tegundasamsetning. Hinar eru, fjöldi tegunda, munur á mili tegunda og breytileiki innan tegunda. Ég notaði orðið fáleitni til að segja að íslensk (og önnur heimskauta) vistkerfi eru oft samansett úr færri tegundum en vistkerfi nær miðbaug, og að samsetning vistkerfa væri líka eitthvað sem vernda bæri!
Hvað ef íslensk flóra væri algerlega einsleit, ef hér yxu bara geldingahnappar, - ættum við að vernda þá náttúru eða kynna til leiks nýjar tegundir? Við vitum báðir að í fyllingu tímans myndu fræ annara tegunda koma til landsins og einhverskonar "framvinda" eiga sér stað. Þú er - að ég tel - hallur undir þá hugmynd að stýra framvindunni - helst í átt að þéttu skóglendi (kannsi að skandinavískri fyrirmynd). Mér finnst ekkert að því að stunda skógrækt, til yndisauka og til nytja. Mér finnst einnig að við ættum að gæta þess að eyða ekki íslenskri flóru því samfara.
Arnar sagði:
Aðalsteinn svara (ítarlegar hér að ofan):
Hér eru a.m.k. tveir þættir í spilinu. Halldór var að tala um áhrif sauðfjárbeitar (og kannski líka skógarhöggs) á flóru Íslands. Hinn þátturinn er hvort við eigum að nota erlendar tegundir (t.d. lúpínu, smára og skógartré) til að þess að bæta hér landsgæði og nytjar. Þetta eru vissulega tengdir, en samt sundurgreinanlegir þættir.
Landinu má skipta í nokkra flokka, gróf og einföld skipting væri nytjaland og þjóðgarðar. Mér finnst eðlilegt að rækta skóg á nytjalandi og endurheimta gróður á örfoka melum í byggð (t.d. með lúpínu). En mér þykir jafn eðlilegt að sleppa skógrækt í þjóðgörðum, og að hreinsa burt lúpínu úr þeim. Ef sauðkindur eru fjarlægðar úr þjóðgörðum og við stöndumst þá freistingu að sá þar trjám og ágengum innfluttum tegundum, þá mun t.t.l. náttúruleg framvinda eiga sér stað.
Þú segir varðandi endurheimt vistkerfa:
Skógrækt mun auka kolefnisbindingu íslenskra vistkerfa. En það þýðir ekki að við þurfum að rækta skóg í þjóðgörðum, eða í hverri einustu fjallshlíð. Endurheimt vistkerfa getur farið fram á nokkra vegu, t.d. með því að fylla upp í skurði í framræstum mýrum. Ef mig minnir rétt er kolefnisbinding mýra dálagleg, sérstaklega ef þær eru friðaðar fyrir beit og fara á kaf í kjarr. Ætli friðun fyrir sauðfé sé ekki heppilegasta leiðin til að endurheimta vistkerfi hérlendis, sama hvernig land er verið að ræða um.
Arnar Pálsson, 4.11.2010 kl. 11:21
Rúnar
TAkk fyrir góða skýringu. Ég held að við getum aldrei komist frá tegundahyggju. Allar aðrar lífverur á jörðinni hugsa fyrst um sig, og líklega aldrei um aðrar lífverur. Við erum einstök að því leyti að við finnum til með fótbrotnum hesti, fiski sem spriklar í eitruðu vatni og flugu þegar vængurinn er slitinn af henni. Ég tel það ómögulegt að taka þessa hluttekningu alla leið, af því að þá gætum við aldrei nært okkur. Við gætum drepið dýr okkur til matar, borðað plöntur, borðað örverur sem nærast á sjálfdauðum dýrum, neytt plantna sem gætu verið með lifandi veirur inni í sér.
Vissulega erum við hluti af náttúrunni og það er ekki til nein guðleg tilskipun um að við séum yfir hana hafinn. En það er staðreynd að við notum náttúruna, okkur til viðurværis. Ég held að það sé betra að skilja hvað í náttúrunni nýtist okkur og hvernig en ekki. Einnig tel ég mikilvægt að við gætum að náttúrunni, ekki bara út frá nýtingu heldur einnig á grundvelli þess að við erum mjög áhrifarík tegund. Gjörðir okkar hafa afleiðingar fyrir aðrar lífverur - oftast slæmar. Það skiptir máli hvort við fljúgum 5 sinnum til útlanda á ári eða aldrei, skiptir máli hvort við keyrum alla ofna og ljósaperur á fullu gasi alla daga alltaf, hvort við fleygjum helmingi alls matar sem við kaupum og þar fram eftir götunum.
Eins og ég sagði áður finnst mér ekki eins og rök um not af erfða"auðlindum" eigi að koma í stað röksemda um innra gildi náttúrunnar. Mér finnst frekar eins og þau eigi að bætast við, og e.t.v. virkja aðilla sem annars myndu ekki reyna að vernda líffræðilega fjölbreytni. Ef þú hefur rétt fyrir þér erum við kiðlingar að hleypa refnum inn í húsið. Vonandi er svo ekki.
Arnar Pálsson, 4.11.2010 kl. 11:35
Þið eruð svakalega langorðir...
Aðlsteinn: "Hið sanna í málinu vita þó allir sem vita vilja, að Ísland er eina landið í Evrópu sem er gerspilt af mannavöldum. Því hefur verið spilt á umliðnum þúsund árum samtímis því að Evrópa hefur verið ræktuð upp. "
Ég fór eitt sinn með dönsku innanlandsflugi. Þá áttaði ég mig á því að nær ekkert náttúrulegt gróðurfar er eftir í Danmörku. Ef skoðaðar eru myndir af N-Þýskalandi - t.d. í grennd við Kílarskurðinn svo dæmi sé tekið (mæli með heimsreisu í google earth) sést hið sama, samfellt þaulræktað land. Á stöku stað eru svo settjarnir þar sem mengunar- og áburðarefni eru felld út áður en vatninu er beint á næsta akur.
Svona er þetta á stórum svæður um alla Evrópu.
Þetta málefni er ekki svart/hvítt.
Haraldur Rafn Ingvason, 4.11.2010 kl. 19:01
Sæll Haraldur
Annað hvort er maður gagnorður eða langorður...og langhundarnir mínir gelta sínu máli.
Arnar Pálsson, 5.11.2010 kl. 12:12
Sæll Arnar,
Mér langar bara að hrósa þér fyrir góð svör. Takk kærlega, ég fékk allt út úr þessum svörum sem ég gat.
Rúnar Berg (IP-tala skráð) 7.11.2010 kl. 00:54
Sæll Rúnar
Takk sömuleiðis fyrir, ég lærði heilmikið á spurningunni þinni.
Arnar Pálsson, 8.11.2010 kl. 18:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.