Leita í fréttum mbl.is

Erindi: Tengsl mígrenis, blóðþrýstings og bólgusvars við hjarta- og æðasjúkdóma

Fyrir nokkrum mánuðum ræddum við um nýlega rannsókn Lárusar Guðmundssonar á Hjartavernd sem fann tengsl á milli einnar gerðar mígrenis og hjartaáfalla.  Í pistlinum Tengsl en ekki orsök

og skyldum pistli Litla sæta genið lagði ég áherslu á að tölfræðileg tengsl sanna ekki að um orsakasamband sé að ræða. Það er mögulegt að mígreni og hjartaáfall séu tvær birtingarmyndir sama fyrirbæris. Það er mjög spennandi að vita hvað liggur til grundvallar þessum tengslum, vonandi mun sú þekking nýtast við að meðhöndla þessa sjúkdóma.

Lárus og félagar birtu grein um þessar rannsóknir í sumar (Larus S Gudmundsson o.fl. Migraine with aura and risk of cardiovascular and all cause mortality in men and women: prospective cohort study BMJ 2010;341:c3966) en nú er komið að því að hann verji doktorsritgerð sína. Vörnin verður 12 nóvember 2010, kl 10:00 í hátíðarsal HÍ. Úr ágripi:

Helstu niðurstöður doktorsverkefnisins voru þær að fólk á miðjum aldri sem þjáist af mígreni höfuðverkjum ásamt áru (þ.e. sjóntruflunum, svima eða dofa sem eru undanfari mígrenikasts) deyr frekar vegna hjarta- og æðasjúkdóma en þeir sem ekki þjást af slíkum höfuðverk. Einstaklingar með mígreni án áru reyndust hins vegar ekki vera í aukinni áhættu.

Niðurstöðurnar byggja á gögnum úr hóprannsókn Hjartaverndar þar sem þátttakendum, 18725 körlum og konum, var fylgt eftir að meðaltali í 26 ár eftir að þeir höfðu svarað spurningum um ýmsa þætti tengda hjarta- og æðasjúkdómum. Í hóprannsókninni voru einnig gerðar ýmsar klínískar mælingar svo sem blóðþrýstings- og blóðfitumælingar. Með úrvinnsluaðferðum í faraldsfræði var hægt að meta dánarlíkur tengdar mígreni með og án áru á eftirfylgnitímanum og leiðrétta jafnframt fyrir áhrifum annarra áhættuþátta hjarta- og æðasjúkdóma. Þrátt fyrir ofangreindar niðurstöður kom einnig í ljós að mígreni með áru er mun vægari áhættuþáttur en þekktir áhættuþættir eins og reykingar, sykursýki og háþrýstingur.

Aðrar helsu niðurstöður voru þær að ekki fannst samband milli mígrenis og háþrýstings. Blóðgildi CRP (sem er vísbending um bólgusvar líkamans) voru ekki hærri meðal einstaklinga með mígreni samanborið við þá sem voru án mígrenis.

Sú langsniðsrannsókn sem hér var framkvæmd bendir til þess að konur með mígreni með áru á miðjum aldri séu í aukinni hættu á heiladrepi á efri árum. Tengsl voru enn til staðar eftir að leiðrétt var fyrir áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma, sem bendir til þess að heiladrepstengslin við mígreni með áru séu óháð þessum hefðbundnum áhættuþáttum.

Verkefnið var unnið á Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði og í Hjartavernd í samstarfi við Uniformed Services University of the Health Sciences og National Institute on Aging í Bandaríkjunum. Verkefnið var styrkt af Rannís og vísindasjóði Háskóla Íslands.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband