Leita í fréttum mbl.is

Saga vísinda og nýsköpunar

Í sumarlok sat ég á fyrirlestur hjá Júlíusi G. Kristinssyni líffræðingi, sem er einn stofnenda ORF líftækni og nú fjármálastjóri fyrirtækisins. Ástæðan var verkefni á vegum vinnumálastofnunar og samtaka iðnaðarins sem leið til að koma fólki af atvinnuleysisskrá í nám eða starfsþjálfun.

Júlíus lagði mikla áherslu á að nemendur í grunnnámi væru opnir fyrir viðskiptatækifærum og nýsköpunarmöguleikum. Nám í háskólum er oft mjög fræðilegt - eðli málsins samkvæmt - og frekar lítil áhersla á að finna möguleika á hagnýtingu eða nýsköpun. Hann sagði að það myndi opna möguleika ef fólk kæmi í grunnnám í raungreinum með opin augu fyrir nýjum lausnum á vandamálum samfélagsins. Þannig mætti leysa hagnýt vandamál og einnig búa til viðskiptaleg tækifæri. Flestir nemendur okkar í líffræðinni koma beint úr menntaskóla, og það eru því miður fáir sem hugsa á þessum nótum. Verkfræði- og raunvísindasvið Háskóla Íslands og Innovit standa fyrir röð hádegisfyrirlestra í tilefni Alþjóðlegrar athafnaviku á Íslandi. Júlíus heldur fyrirlestur fimmtudaginn 18. nóvember - kl 12:30 í stofu 132 Öskju. Hann er mjög drífandi og skemmtilegur fyrirlesari.

Hver er besta leiðin til nýsköpunar?

Við höfum mörg þá sýn á frumkvöðla að þeir sitji mörg ár í kjallara sínum eða bílskúr og birtist síðan einn daginn með frumgerð að fótanuddtæki eða rúðuþurrkum. Í raunveruleikanum eru nýjar hugmyndir og nýsköpun sjaldnast afurð einstaklinga, heldur miklu frekar afrakstur margra samspilandi þátta. Frjótt umhverfis, traust fræði og hugvit virðast skipta meira máli en framlag einstaklinga. Og hugmyndir fæðast hægt, ekki með látum á nokkrum sekúndum. Nýsköpunarfrömuðurinn Steven Johnson tekur dæmi um það hvernig Charles Darwin setti fyrst fram tilgátu sína um kóralrif og fór síðan að velta fyrir sér breytingum á lífverum í tímans rás (þ.e. hvernig náttúrulegt val veldur því að lífverur breytast - þróast). Þættirnir um sögu vísindanna sem RÚV sýnir á mánudagskvöldum lýsa ágætlega samspili tíðaranda, vísindalegrar hugsunar og samfélagslegra þátta sem leiddu til framfara. Einstein er oft teiknaður sem vísindalega þenkjandi náungi sem fékk ekki fræðimannsstöðu og vann fyrir sér á einkaleyfastofu í Sviss. Hann birti fimm greinar árið 1905 - eina um afstæð tengsl tíma og rúms. Það sem oft gleymist er að árið 1905 var ekki búið að finna leið til að samræma klukkur á milli bæjarhluta, hvað þá landa. Á einkaleyfastofunni meðhöndlaði Einstein nokkrar umsóknir um tæki sem áttu að gera fólki kleift að samstilla klukkur - jafnvel á milli landa. Það þurfti samhengi og snilligáfu til að leysa vandamálið um tímann og rúmið.

Að skilgreina spurningu eða vandamál

Vísindi og nýsköpun eru hliðstæð að því leyti að hvorutveggja krefst skapandi hugsunar. Í tilfelli vísinda er mikilvægast að fá góða hugmynd. Ef vísindamaður er ekki með góða rannsóknarspurningu, eða snjalla leið til að prófa spurninguna getur hann alteins farið að telja litríkar skeljar. Frumkvöðlastarf gengur út að það sama, það verður að skilgreina vandamál sem nauðsynlegt er að leysa. Hvernig er hægt að koma í veg fyrir flóð í Hollandi eða vefjaskemmdir við hjartabilun? Lausnir á slíkum vandamálum fæðast venjulega hægt og rólega. Augljóslega er brýnt að skilgreina vandamál sem vert er að leysa - það að finna leið til að mála Júpiter bláann er tæplega þarfasta verkefni mannkyns.

Steve Johnsen leggur áherslu á að fyrirtæki gefi starfsfólki sínu tækifæri til að vera skapandi - sem er ekki það sama og að liggja á netinu og blogga. Úps.

The business of innovation: Steven Johnson

Saga vísindanna í kvöld:

5. Hvert er leyndarmál lífsins? Sýnt: mánudagur 15. nóv. 2010 kl. 20.05.

Hér er sögð sagan af því hvernig leyndarmál lífsins hefur verið skoðað með hliðsjón af flóknustu lífveru sem þekkist, mannslíkamanum. Sagt er frá tilraunum til að bjarga lífi skylmingaþræla í Róm hinni fornu, skuggalegu starfi og nær fullkomnum teikningum Leonardos á endurreisnartímanum, hugmyndinni um lífskraftinn í rafmagni og örheimi frumunnar. Eins er sagt frá því hvernig siðferðiskreppan í kjölfar kjarnorkusprengjunnar átti sinn þátt í því að tímamótaskref var stigið á sviði líffræðirannsókna, þegar menn áttuðu sig á byggingu og virkni kjarnsýra, DNA.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband