11.1.2011 | 18:12
RNA skák
Kjarnsýrurnar DNA og RNA eru með ótrúlegustu sameindum veraldar. DNA er örmjór þráður byggður úr tveimur sameindum sem tvinnast saman og parast með efnahópum (bösum). Það er DNA er tvíþátta. Í erfðamengi okkar eru 24 (25 í körlum) mismunandi litningar, 22 A-litningar, kynlitningarnir X og Y og litnisörverpi í frumulíffæri sem kallast hvatberi.
RNA er myndað eftir DNA í ferli sem kallast umritun. RNA sameindir geta ýmist þjónað sem mót fyrir prótínmyndum (það eru mRNA sameindir: m-ið stendur fyrir enska orðið messenger) eða starfað sjálfar.
RNA sameindir eru einþátta og mynda því ekki einfaldan þráð heldur krullast þær um sjálfan sig, á ófyrirsjáanlegan hátt. Þegar sameindir hegða sér á þann hátt komum við að takmörkunum stærðfræði og tölvunarfræði - því möguleikarnir á samsetningum verða stjarnfræðilega margir. Svona dálítið eins og í skák.
EteRNA (eterna.cmu.edu/content/EteRNA) er nýtt forrit sem gerir annars dagfarsprúðu fólki að framkvæma tilraunir á RNA byggingu. Með því að para saman basa, setja saman lykkur og að endingu nýjar sameindir. Forritið er nokkurskonar leikur, þar sem maður lærir á grunnatriði í byggingu RNA sameinda, og fær að byggja sameindir frá grunni (í tölvu auðvitað). Þeir krydda ævintýrið með því að efna til samkeppni, þar sem sá sem bjó til stöðugustu sameindina þá vikuna fær hana framleidda og prófaða á tilraunastofunni.
Mynd af wikimedia commons - tRNA sameind.
Ef einhver með guðlegar tilhneygingar langar til að búa til lífverur, þá er RNA góð byrjun*. Þróunarfræðingar og sameindalíffræðingar færðu í lok síðustu aldar rök fyrir því að snemma í sögu lífsins á jörðinni hafi RNA verið grundvallasameind þar sem RNA getur bæði verið erfðaefni og lífhvati. Það var talað um RNA veröldina sem rann sitt skeið. En í raun fór RNA aldrei neitt, það er grundvöllur í mörgum kerfum frumunnar, tRNA og rRNA eru hluti af prótínmyndunarkerfinu, viðhald litningaenda krefst RNA sameinda og mRNA verkun og styrk er stýrt að miklu leyti af RNA sameindum (snRNA, miRNA, piwiRNA og lincRNA).
Ítarefni:
RNA Game Lets Players Help Find a Biological Prize, John Markow, NY Times 10. janúar 2011.
*Vill taka fram að þetta er grín, það eru engin þörf fyrir að vísa til yfirnáttúrulegra skýringa á tilurð, eiginleikum eða fjölbreytileika lífvera.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
........það eru engin þörf fyrir að vísa til yfirnáttúrulegra skýringa á tilurð, eiginleikum eða fjölbreytileika lífvera.
100% sammála þér. En hvað segja krkjunnar menn og ID-ingar um þetta?
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 11.1.2011 kl. 22:05
Sæll Haukur
Kirkjunarmenn virðast margir vera Deistar - sem trúa á guðlegt upphaf veraldar og lögmála en ekki yfirnáttúruleg inngrip í atburðarás lífsins eða einstaklinga, en auðvitað eru þar á meðal fólk sem hangir í óvísindalegum (lesist óprófanlegum) hugmyndum um guðlega sköpun lífsins.
ID-ingar (vithönnunarsinnar) eru einnig fjölbreyttur flokkur, sumir viðurkenna þróun lífsins, en vilja endilega útskýra sumar aðlaganir sem verk guðs. Ég veit ekki hvers konar guð þeir sætta sig við, veru sem lætur þróun um 99% af eiginleikum lífvera en hannar síðan svipur á bakteríur (sem meðal annars sýkja menn). Kannski eru þeir að færa rök fyrir því að guð hafi skapað bakteríur í sinni mynd? Bara ef bakteríur kynnu að skrifa og settu fram guðspjall.
Arnar Pálsson, 12.1.2011 kl. 09:29
Ég þekki nú amk. einn ID-ista sem á eftir að hugsa: Sko, fyrst það er til forrit til að leika sér með RNA, þá getur það ekki gerst að sjálfu sér á handahófskenndan hátt því það er of ótrúlegt.
Arnar, 12.1.2011 kl. 09:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.