14.1.2011 | 11:19
Nýju fötin háskólans
Í tilefni hundrað ára afmælis Háskóla Íslands verður mikið um dýrðir á þessu ári. Heilmikil dagskrá var sett saman, nóbelsverðlaunahafar og heimsfrægir gestir koma og halda fyrirlestra, opnir dagar verða á öllum sviðum, fuglaskoðunarferðir, sýningar, ráðstefnur, fundir, fyrirlestrar, sprengingar og blóðþrýstingsmælingar svo einhver dæmi séu tekin.
Meðal annars mun Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar Erfðagreiningar (útgáfu 2) halda fyrirlestur um mannerfðafræði (laugardaginn 15.janúar 2011 kl 15:00), sjónvarpsmaðurinn kunni David Suzuki heldur fyrirlestur 4. apríl um öfl náttúrunnar og Elizabeth Blackburn, sem fékk nóbelsverðlaun ásamt samstarfsmönnum sínum Carol Greider og Jack Szostak fyrir að uppgötva ensím-RNA-flóka sem verndar litningaenda, heldur fyrirlesturinn Telomerar og Telomerasar: Hvernig hafa þeir áhrif á heilsu manna og sjúkdóma? 21. maí.
Titill erindis Kára er hönnun manns hvernig maðurinn skapast af samspili erfða og umhverfis. Mér finnst seinnihluti nafns fyrirlestursins betri en sá fyrri, vegna þess að samspil erfða, umhverfis og tilviljunar skipta mestu um eiginleika og afdrif lífvera. Sumir eiginleikar eru með hátt arfgengi en aðrir lágt, aðrir ráðast af umhverfi eða hreinni tilviljun. Ungt fólk skilgreinir sig gjarnan út frá tónlist, það er líklegra að ungur nútíma piltur hallist að rímum Erps eða Eminems en jafnaldri hans frá miðri síðustu öld varð líklega að skilgreina sig sem Elvismann eða Ólafs Gauks. Í öðrum tilfellum er það alger tilviljun hvað fólk hlustar á, heyrir í the Triffids í kvikmynd eða Grieg hjá rakaranum.
Vissulega hafa erfðaþættir áhrif, en byltingin í mannerfðafræði á síðasta áratug staðfestir það sem þróunarfræðin og erfðafræðingar vissu, að flestar stökkbreytingar hafa væg áhrif. Bróðurpartur þeirra gena sem fundist hefur á þessari gullöld mannerfðafræðinnar hefur lítil áhrif, eykur líkurnar um sjúkdóm kannski um nokkra tugi prósenta. ÍE, ásamt Broad Institute og Wellcome Trust hafa leitt þessa byltingu í mannerfðafræði, og saman hafa þessir aðillar fundið flest af þeim mannagenum sem skilgreind hafa verið á síðustu 5 árum.
Helsta framlag Decode (geymum umræðuna um kostnað) er samt ekki í fjölda gena, heldur í genakortinu og í byltingakenndri aðferð til að ráða í uppruna stökkbreytinga. Það er, þeir þróuðu aðferð til að finna út hvort að tiltekin stökkbreyting sem situr á ákveðnum litningabúti kom frá föður eða móður, án þess að skoða arfgerð foreldranna. Þetta nýtist meðal annars til þess að kortleggja erfðaþætti sem hafa mismunandi áhrif, eftir því hvort þeir koma frá móður eða föður. Foreldramörkun er þekkt í nokkrum tilfellum og tilraunalífverum en Augustine Kong og félagar hjá ÍE fundu leið til að skima fyrir slíkum áhrifum í öllu erfðamenginu.
Nú er ÍE að raðgreina erfðamengi nokkur þúsund íslendinga og stefnir á að samþætt þær upplýsingar gögnum um erfðasamsetningu 40000 einstaklinga og ættatré þeirra. Þetta er hluti af næsta skrefi í erfðafræði, þegar heil erfðamengi verða raðgreind og rannsökuð (e.t.v. á nokkrum dögum). Þá er mjög, mjög mikilvægt að átta sig á því að genin hafa lítil áhrif og að enginn er "dæmdur til hjartaáfalls" við það að vera arfhreinn um einn ákveðinn basa á litningi 9.
Nýju fötin háskólans
Þegar drög að afmælisárinu voru kynnt starfsfólki HÍ var lögð áhersla á tvennt. Alla venjulega starfsemi sem fram fer innan skólans skal klæða í afmælisföt. Venjulegur föstudagsfyrirlestur Líffræðistofnunar verður fyrirlestur í tilefni afmælisárs HÍ. Háskólinn hefur undanfarin ár lagt auka fé í sjóð, til að geta staðið fyrir afmælisdagskrá - vegna þess að ríkið gefur ekkert til skólans að þessu tilefni. Í staðinn er fjárveiting til HÍ (eins og annara háskóla) skorin niður, um 15-25% á næstu þremur árum. Háskólarektor kynnir nýja stefnu, með glæsilegum markmiðum og glansandi yfirsýn - fjársjóð til framtíðar. Talað er um það langtímamarkmið að koma HÍ á lista yfir 100 bestu háskóla heims, sem er svona álíka raunhæft og plan ísfirskra heimsvaldasinna að ná völdum í Bandaríkjunum og leggja undir sig sólina. Þessi nýja stefna er ekkert nema glansmynd, svipuð því úttektum menntamálaráðaneytisins á fjármagni til rannsókn og þróunarstarfs hérlendis.
Það var rætt á kaffistofunni í gær að menntamálaráðaneytið hafi tvítalið fjármagn til rannsókna í samantektum um nýsköpun og rannsóknir á Íslandi. Þeir telja krónur sem Rannís útdeilir í rannsóknaverkefni og síðan aftur þær krónur sem HÍ, Matís eða HR fá til rannsókna (frá Rannís). Að auki hafa þeir til margra ára talið Hafrannsóknarstofnun með og allan fjáraustur ÍE (sem íslenskir tómstundafjárfestar borguðu glöðu geði).
Útlit en ekki innihald var uppskrift af hruni bankanna. Kannski erum við íslendingar eða mannfólk yfir höfuð svo grunnhyggin að glepjast af skrumi og skýjaborgum en látu hjá líðast að meta efnislegt innihald. Þessi pistill þróaðist öðruvísi en upp var lagt með. Nú er ég kominn í þunglyndi yfir íslenskum sýndarveruleika og sný mér að skemmtilegri hlutum, breytileika í stjórnröðum.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:52 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Það er fullt tilefni til að gagnrýna háskólann. Ég held það sé ekki hægt að kenna nemendum, starfsfólki, íslendingum eða mannfólkinu yfir höfuð um þessa viðleitni háskólans til ímyndar yfir gæði. Þessari viðleitni er bara hægt að kenna yfirvöldum um. Yfirvöldum háskólans, ríkis o.s.frv. Það er keyrð áfram stefna um að allt skuli líta glæsilega út. Við sem erum neðar í stigveldinu höfum ekkert um þessa stefnu að segja. Stefnan er sett á 100 bestu háskóla heims. Og hvað eigum við að gera í því??? Hvað erum við látin gera? Hvað er okkur leyft að gera? Það er eins og góður háskóli sé háskóli með sterkri stigskiptningu og mjög lóðréttu valdfyrirkomulagi, myndvarpa í hverri stofu, lítilli þjónustu við nemendur og engum möguleikum að stjórna sínu námi sjálfur. Frekar en að góður háskóli sé háskóli þar sem nemendur og starfsfólk hefur möguleika á að auka gæðin á af sínu frumkvæði. Manni er gefið plagg í byrjun náms sem heitir „skipulagning námsins“ og segir fyrsta árs nema nákvæmlega hvaða kúrsa hann á að taka á þriðja ári. Meira að segja kennarar kvarta yfir því að kúrs a sé kenndur á þriðja ári en kúrs b sé kenndur á öðru. Hvað segir það um valdafyrirkomulagið þegar allir aðillar sem raunverulega koma að náminu eru ósáttir við skipulagninguna???
Rúnar Berg (IP-tala skráð) 15.1.2011 kl. 21:05
Sæll Rúnar
Gagnrýni mín er aðallega beint að yfirstjórn HÍ, menntamálaráðaneytinu og þingi sem hefur engan sans fyrir gildi framhaldsmenntunar.
Við kennarar og starfsfólk erum ekki saklaus, því við kyngjum og þegjum þegar stórstígar breytingar eru gerðar á skólanum. Þetta á að vera miðstöð sem kennir gagnrýna hugsun og opin skoðannaskipti.
Skipulagsbreytingin á HÍ, tilurð sviða og skipun sviðastjóra (fimmmenningaklíka sem stjórnar skólanum!) var ekki til bóta að mínu mati (og margra kennara!). Yfirbyggingin blés út, og síðan á niðurskurðurinn að fara fram í kennslu og rannsóknum. Kolröng áhersla. Það á að vernda grunnþjónustu, kennslu og rannsóknir. Þar þurfum við starfsmenn að standa okkur betur - en erum þá í þeirri óþægilegu aðstöðu að gagnrýna ákvarðanir yfirboðara okkar...
Nemendur bera líka ábyrgð, því þeir virðast hafa meiri áhuga á að berjast gegn MJÖG hóflegri hækkun á innritunargjöldum en að sporna við rýrnun gæða náms. Því niðurskurður MUN rýra gæði námsins. Það ætti að vera nemendum í hag að fá sem besta menntun, en nei formenn stúdentaráðs virðast aðallega leggja áherslu á að verja ókeypis bílastæði, og sporna gegn hækkun innritunargjalda og hugmyndum um aðgangstakmarkanir. Allt atriði sem myndu bæta fjárhag HÍ og þar með tryggja þeim betra nám!
Arnar Pálsson, 17.1.2011 kl. 09:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.