1.2.2011 | 16:13
Góður pistill um bílastæði við Háskóla
Árni Davíðsson ritaði öndvegis pistil á bloggsíðu sinni í síðasta mánuði um kostnað vegna bílastæða (Jafnræði til náms eða jafnræði til bílastæða?). Hann segir meðal annars:
Ríkisháskólarnir hafa farið fram á 20.000 kr. hækkun innritunargjalda úr 45.000 í 65.000 en ekki fengið heimild til þess frá menntamálaráðherra og í kjölfarið boða þeir niðurskurð á skólastarfi....
Ýmislegt bendir þó til að skólana vanti ekki peninga. Þeir veita til dæmis allir nemendum og kennurum ókeypis bílastæði. Þó getur engin haldið því fram að þessi stæði séu ókeypis né landið sem fer undir þau. Þau hafa öll verið borguð af skólunum eða af fasteignapeningum þeirra og leggja þar með fjárhagslegar byrðar á rekstur skólanna. Undantekningin er kannski HR en þar kostaði Reykjavíkurborg gerð bílastæðanna á lóð HR. Þar liggja bestu upplýsingarnar fyrir um kostnaðinn sem af bílastæðum hlýst. Þau munu hafa kostað um 300 milljónir króna skv. áætlun. Til viðbótar var reistur heill vegur fyrir um 500 milljónir króna til að koma umferð í skólann. Lífsstíll þeirra sem mæta á bíl í HR var niðurgreiddur um 300 milljónir fyrir stæðin og er það skattlaus og gjaldfrí niðurgreiðsla á einum ákveðnum samgöngumáta umfram aðra samgöngumáta. Þá mætti telja Nauthólsveg með í dæminu og nemur þá niðurgreiðslan allt að 800 milljónum króna.
Hvernig væri að hætta að niðurgreiða þennan lífsstíl, að mæta á bíl í skólann? Það er einfaldlega hægt að taka 15.000 kr. gjald á hverri önn fyrir bílastæði og þar með gætu skólarnir fengið sömu upphæð og þeir fengju með hækkun innritunargjalda. Sennilega er sanngjarnt gjald fyrir einfalt bílastæði til að standa undir landverði, gerð og rekstri í langtímaleigu í kringum 30.000 kr. á ári. Í miðborginni er dæmi um að starfsmenn fái 68.000 kr. á ári í skattlaus hlunnindi til að þeir geti greitt fyrir bílastæði.
Ég er sammála Árna um að bílalífstíllinn kostar peninga og hann kostar nemendur einnig í gæðum náms.
Ef nemendur mættu velja, hvort veldu þeir betra nám eða ókeypis bílastæði?
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Þetta bílastæðagjald virkar nokkuð vel þarna sunnan heiða, veit ekki hvort að það sé málið á Hólum, en mætti sjálfsagt skoða það.
Bjarni Kristófer (IP-tala skráð) 3.2.2011 kl. 21:05
Sæll Bjarni
Hver er kostnaður Hólaskóla við bílastæði, hreinsun og viðhald?
Veit ekki hversu vel það virkar hér, þeir sýndu þó lit og rukka í skeifunni fyrir framan aðalbyggingu HÍ. Auðvitað eiga bílastæðagjöld að vera eðlilegur hluti af kostnaði nemenda OG starfsmanna.
Eins mætti spyrja starfsmenn - hvort þeir vilji betri háskóla (t.d. meiri styrki til rannsókna) eða ókeypis bílastæði?
Arnar Pálsson, 4.2.2011 kl. 10:50
Ég hef enga trú á íslenskum stúdentum. Af þessu myndu eflaust flestir velja bílastæðin (ómeðvitað, án þess að spá í nokkuð annað). Mér finnst tíðarandi íslenskra stúdenta sýna sig sem mest þegar ég býð erlendum bakpokalingum inn í stúdentaíbúðina mína á Eggertsgötu. Allir þeirra minnast á hversu ótrúlega stór íbúðin mín er. „Og það fyndna er,“ segi ég „að þetta var minnsta íbúðin sem ég fékk.“ Ég fékk ekki inn á gamla garði á sínum tíma og þá var mér gefin næsti lúxus-standard fyrir ofan. Þ.e. 36 m². stúdíóíbúð. Ég þarf í mesta lagi 5 m² og sameiginlega eldunaraðstöðu sem þýðir að 30 m² fara til spillis. Bílarnir sem eru svo lagðir hérna fyrri utan er dæmi um það að stúdentar hafa það allt annað en skítt. Og skortur á sumurstörfum á sama tíma og útgerðarmenn og bændur kvarta undan skorti á starfsfólki segir hve snobbuð við stúdentar eru.
Ég held að stór hluti af peningum Háskólans fari í að viðhalda háu snobbstigi okkar stúdenta (og kennara líka). Og ég er ekki að fara að sjá það breytast fyrr en að við verðum skömmuð all rækilega og ekki leift að halda þessari vitleysu áfram.
Rúnar (IP-tala skráð) 4.2.2011 kl. 11:53
Takk Rúnar fyrir innleggið.
Við íslendingar eru skelfilega þurftarfrekir, örugglega amerískastir allra evrópubúa. Þjóðfélagið hefur mótað þessa nemendur, en spurningin er hvernig er hægt að snúa þróuninni við? Ég veit ekki alveg hver ætti að skamma okkur, herraþjóðin? Það var ágætis lexía að þjóðin skyldi fara á hausinn, en samt sér maður ekki miklar breytingar á almennum viðhorfum til neyslu og lífsgæðakapphlaupsins.
Ein leið er að rukka fyrir hlutina á raunvirði, þar á meðal fyrir bílastæði og vegi.
Arnar Pálsson, 11.2.2011 kl. 17:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.