Leita í fréttum mbl.is

Athugasemd til Alþingis

Nokkir erfðafræðingar tóku sig saman og sendu eftirfarandi athugasemd til Alþingis:

Nefndasvið Alþingis

Alþingi
150 Reykjavík
10. febrúar 2011
Um tillögu til þingsályktunar um útiræktun á erfðabreyttum lífverum, Þskj. 737 – 450. mál.

Tillaga til þingsályktunar um útiræktun á erfðabreyttum lífverum, Þskj. 737 – 450. mál, gerir ráð fyrir að skipaður verði starfshópur sem vinni að breytingum á lögum og reglugerðum með það að markmiði að banna útiræktun á erfðabreyttum lífverum. Við teljum að tillaga þessi sé með öllu óþörf enda gilda þegar ströng lög og reglur um erfðabreyttar lífverur á Íslandi. Meðal annars starfar sérstök nefnd sem fer yfir hverja erfðabreytingu fyrir sig og metur hana og áhættuna af henni í hverju tilviki á vísindalegum forsendum. Engin ástæða er til að banna útiræktun erfðabreyttra lífvera þegar engin hætta er talin stafa af slíkri ræktun. Þær áhyggjur sem lýst er í tillögunni eru byggðar að verulegu leyti á misskilningi, vanþekkingu, fordómum eða hagsmunum þeirra sem telja erfðabreyttar lífverur ógna sér eða sinni starfsemi. Við mælum því eindregið gegn því að tillaga þessi verði samþykkt af Alþingi Íslendinga.

Það er áhyggjuefni að greinargerðin með tillögunni virðist bæði vera illa unnin og að mestu leyti röng. Höfundar hennar virðast hafa mjög takmarkaðan skilning á líffræði, þróunarfræði, erfðafræði eða eðli erfðabreyttra lífvera. Í þingsályktunartillögunni er hugtökum ruglað saman auk þess sem hún styðst við álit einstaklinga sem ekki verður séð að hafi neina faglega þekkingu á því sviði sem tillagan fjallar um. Undanfarin tvö ár hafa margir, þ.á.m. sumir af höfundum þingsályktunartillögunnar, kallað eftir faglegri vinnubrögðum Alþingis. Því miður er þessi þingályktunartillaga skref í þveröfuga átt hvað það varðar. Við hvetjum því höfunda þingsályktunartillögunnar til að leita til þeirra mörgu fræðimanna sem eru vel að sér um málefnið til að afla sér áreiðanlegra upplýsinga um það.

Til að fyrirbyggja misskilning viljum við taka fram að við undirrituð störfum flest við rannsóknir. Mörg okkar nota erfðabreyttar lífverur í rannsóknum sínum. Enginn okkar vinnur hins vegar við rannsóknir sem miða að því að sleppa erfðabreyttum lífverum út í umhverfið/náttúruna og enginn okkar er hluthafi, starfsmaður eða ráðgjafi ORF líftækni eða á beinna persónulegra hagsmuna að gæta í málinu.

Sérstakar athugasemdir okkar við tillöguna eru raktar hér að neðan.

Virðingarfyllst,
Eirikur Steingrímsson, prófessor, Læknadeild, HÍ. eirikurs@hi.is, sími 820 3607.
Magnús K. Magnússon prófessor, Læknadeild, HÍ.
Már Másson, prófessor, Lyfjafræðideild, HÍ.
Ólafur S. Andrésson, prófessor, Líf- og umhverfisvísindadeild, HÍ.
Ástríður Pálsdóttir, sérfræðingur, Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum.
Guðmundur Hrafn Guðmundsson, prófessor, Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ.
Stefán Þ. Sigurðsson, dósent, Læknadeild, HÍ.
Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir, sérfræðingur, Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, og
aðjúnkt, Læknadeild HÍ.
Unnur Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri erfðarannsókna, Íslenskri erfðagreiningu og
rannsóknar dósent, Læknadeild, HÍ.
Þórunn Rafnar, framkvæmdastjóri krabbameinsrannsókna, Íslenskri erfðagreiningu.
Pétur Henrý Petersen, lektor, Læknadeild HÍ.
Áslaug Helgadóttir, prófessor í jarðrækt og plöntukynbótum, Landbúnaðarháskóla Íslands.
Emma Eyþórsdóttir, dósent í búfjárerfðafræði, Landbúnaðarháskóla Íslands.
Bjarni Jónasson, verkefnisstjóri, Biopol sjávarlíftæknisetur
Guðmundur Óli Hreggviðsson, fagstjóri, Matís.
Arnar Pálsson, dósent, Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ.
Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, sérfræðingur, Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum.
Edda B. Ármannsdóttir, sérfræðingur, Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum.
Bergljót Magnadóttir, sérfræðingur, Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum.
Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun
Karl Ægir Karlsson, dósent, Tækni- og verkfræðideild, HR
Jón Hallsteinn Hallsson, lektor, Auðlindadeild Landbúnaðarháskóla Íslands
Jóhannes Sveinbjörnsson, dósent í fóðurfræði, Landbúnaðarháskóla Íslands
Jórunn E. Eyfjörð, prófessor, Læknadeild HÍ.
Jón Jóhannes Jónsson, dósent, Læknadeild HÍ.
Þórarinn Guðjónsson, dósent, Læknadeild HÍ.
Anna Kristín Daníelsdóttir, sviðsstjóri, Matís.
Helga M. Ögmundsdóttir, prófessor, Læknadeild HÍ.
Oddur Vilhelmsson, dósent, Auðlindadeild HA.
Ólafur I. Sigurgeirsson, lektor, Fiskeldisdeild Hólaskóla.
Snæbjörn Pálsson, dósent, Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ.
Kristinn P. Magnússon, dósent, Auðlindadeild HA.
Ágúst Sigurðsson, rektor og búfjárerfðafræðingur Landbúnaðarháskóla Íslands.
Guðmundur Þorgeirsson, prófessor og deildarforseti Læknadeildar, HÍ.
Sigurður Guðmundsson, forseti Heilbrigðisvísindasviðs HÍ.
Guðmundur Eggertsson, prófessor emerítus, Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. greiningar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnar

Og vöktu með því mikla lukku hjá Þráin Bertelsyni (eða hvað sem hann heitir).

Arnar, 11.2.2011 kl. 14:16

2 Smámynd: Arnar

Hvað er annars vítt hugtakið hjá þeim, 'erfðabreyttum lífverum'.

Eru td. íslenskar kindur og kýr sem hafa með mjög ákveðnum og skipulögðum hætti verið ræktaðar með erfðafræðilegum kostum til hliðsjónar erfðabreyttar?

Eða er bara átt við lífverur þar sem búið er að velja þessa erfðafræðilegu kosti saman í tilraunastofu?

Arnar, 11.2.2011 kl. 14:19

3 Smámynd: Arnar Pálsson

Arnar dreki

Hreinræktaðar kindur teljast ekki til erfðabreyttra lífvera, allavega ekki samkvæmt almennri skilgreiningu. En það sem ég hef lagt áherslu á í mínum skrifum er að það sé ekki grundvallarmunur á venjulegri ræktun og ræktun með erfðatækni.

Fyrir aðra lesendur, svar Þráins var á þessa leið:

Sæll Eiríkur og aðrir bréfritarar.

Þakka ykkur innilega fyrir að leyfa okkur flutningsmönnum að njóta leiðsagnar ykkar og yfirburða vísindaþekkingar. Það fegursta við vísindin er þekking laus við hroka.

Bestu kveðjur,

Þráinn Bertelsson

Eitt af lykilatriðum rannsóknarskýrslu Alþingis um bankahrunið var að fræðasamfélagið axlaði ekki ábyrgð, tók ekki þátt í umræðu eða var ekki spurt álits.

Ég veit ekki hvers vegna fræðimenn á íslandi ættu tregðast við að ræða við stjórnmálamenn og stjórnvöld, faglegt álit erfðafræðinga vekur greinilega mikla hrifningu.

Arnar Pálsson, 11.2.2011 kl. 15:09

4 Smámynd: Arnar

Ég geri greinilega ekki greinarmun á erfðabætt og erfðabreytt.  Ef vísindamaður getur gert eitthvað (og jafnvel betur) í tilraunastofu sem annars tæki margarkynslóðir af bændum að ná fram með stýrðu undaneldi.. og það gagnast mannkyni og eykur fæðuframboð.  Þá er ég fylgjandi því.

Annars eiga fræðimenn og fagaðilar greinilega ekkert að vera að skipta sér af og leyfa þingmönnum að taka óupplýstar ákvarðanir í friði.

Arnar, 11.2.2011 kl. 15:51

5 Smámynd: Arnar Pálsson

Ólína Þorvarðardóttir þingmaður svara einnig áliti erfðafræðinganna, fyrst skriflega og svo með tilsnyrtum pistli á Eyjunni. Deilt um erfðabreyttar lífverur.

Pistillinn hefst svona:

Hópur vísindamanna hefur nú sent alþingismönnum harðort bréf vegna nýlegrar  þingsályktunartillögu nokkurra þingmanna um útiræktun á erfðabreyttum lífverum. Tillagan gengur út á að ríkisstjórnin skipi starfshóp um breytingar á lögum og reglugerðum í þeim tilgangi að tálma útiræktun á erfðabreyttum lífverum.

Nú hafa 37 fræði- og vísindamenn (sem taka það sérstaklega fram að þeir hafi engin „bein tengsl“ við ORF-líftækni, eins og það er orðað) sent inn umsögn um tillöguna. Þar eru ekki spöruð stóryrðin. Niðurstöðum nafngreindra vísindamanna sem vísað er til í greinargerð með tillögunni er hafnað og fjölyrt um þekkingarleysi flutningsmanna. Ekki er látið þar við sitja, heldur eru 37-menningarnir komnir í fjölmiðla með málflutning sinn og fara mikinn.

Svarbréf hennar til Eiríks Steingrímssonar hófst á þessum orðum:

Um leið og ég þakka fyrir þetta viskuþrungna tilskrif - vil ég láta í ljósi ákveðna undrun yfir því hversu hátt er reitt til höggs hér af litlu tilefni, þ.e. þingsályktunartillögu sem felur það í sér að skipaður verði starfshópur til að leggja grunn að lagabreytingu til tálmunar á útiræktun erfðabreyttra lífvera. Ekki ætla ég að leggja persónulegt mat á þá vísindamenn sem vitnað er til í greinargerðinni og umsagnaraðilarnir 35 dæma kinnroðalaust óhæfa til þess að tjá sig um þetta mál. Ég tel að, verði þessi þingsályktunartillaga samþykkt muni starfshópur um málið kalla til vísindamenn ýmsa til þess að undirbyggja lagabreytinguna, verði hún að veruleika á annað borð.
Þetta vekur mér vonir, fyrst verða sett lög sem "g[anga] út á að ríkisstjórnin skipi starfshóp um breytingar á lögum og reglugerðum í þeim tilgangi að tálma útiræktun á erfðabreyttum lífverum."[skáletrun AP]Síðan verða kallaðir til einhverjir vísindamenn til að tala við starfshóp, þá líklega um það hvernig eigi  að útfæra tálmana (en ekki ræða hvort þeir séu nauðsynlegir?). 

Arnar Pálsson, 11.2.2011 kl. 17:28

6 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Pólitíkusar tala gjarna um "faglegt álit" "vísindamanna" í hæðnistón, eins og hér að ofan.

Síðan kemur ræðan um að vísindamenn séu nú ekki sammála. Þá tekur við gamalkunn taktík, hafa skal það sem betur hljómar (og hentar þeim hagsmunum sem ég ætlað að verja)...

Við þessu er bara eitt að gera. Demba á þá faglegu áliti við hvert tækifæri.

Haraldur Rafn Ingvason, 15.2.2011 kl. 18:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband