Leita í fréttum mbl.is

Örorka og geðraskanir

Steindór J. Erlingsson birti eftirfarandi grein í Fréttablaðinu fyrir nokkru. Hann er m.a. að bjóða fólki að sjá fyrirlestur Robert Whitaker hjá Hugarafli þann 19. febrúar 2011 (kl 15:00).

Frá árinu 1990 hefur tíðni örorku vegna geð- og atferlisraskana nánast tvöfaldast hér á landi, án þess að tíðni þessara raskana hafi aukist að ráði. Þetta kemur fram í grein eftir Sigurð Thorlacius, Sigurjón B. Sigurðsson, Stefán Ólafsson og Kristinn Tómasson sem birtist á síðasta ári í Journal of Mental Health. Sem hlutfall af heildarfjölda öryrkja á tímabilinu 1990-2007, þá óx tíðni kvenna með örorku vegna geð- og atferlisraskana úr 14% í 29%, meðan karlar fóru úr 20% í 35%. Höfundarnir velta fyrir sér ýmsum skýringum á þessari aukingu en eftir lestur greinarinnar stendur eftir mikilvæg spurning: Hvað með geðlyfin?

Eins og mikið hefur verið rætt um á undaförnum árum er ávísun geðlyfja hér á landi með því mesta sem þekkist í heiminum. Þegar þetta er haft í huga vaknar eftirfarandi spurning: Af hverju hafa geðlyfin ekki dregið úr aukningu örorku vegna geðraskana? Árið 2004 veltu Tómas Helgason, Helgi Tómasson og Tómas Zoega þessari spurningu fyrir sér í grein sem birtist í British Journal of Psychiatry, en þar er fjallað um áhrif þunglyndislyfja á heilsufar Íslendinga. Niðurstaða greinarinnar er að ekkert bendi til að hröð auking á ávísun þunglyndislyfja hafi minnkað þann mikla vanda sem þunglyndi veldur. Greinarhöfundar benda enn fremur á að ekki muni draga úr þessum vanda fyrr en með tilkomu betri meðferða.

Þegar þessi niðurstaða er höfð í huga er eðlilegt að spyrja hvort að langvarandi neysla geðlyfja geti mögulega aukið vanda þeirra sem kljást við geðraskanir. Bandaríski rannsóknablaðamaðurinn Robert Whitaker svarar þessari spurningu játandi í bókinni Anatomy of an Epidemic sem út kom á síðasta ári. Það er ekki að ástæðulausu því á undanförnum tuttugu árum hefur örorka vegna geðraskana þrefaldast í Bandaríkjunum á sama tíma og ávísun geðlyfja hefur aukist gríðarlega. Bók Whitakers, sem er vel rökstudd, hefur komið af stað hörðum deilum í Bandaríkjunum enda finnst mörgum geðlæknum hann vega að starfsheiðri þeirra. Íslendingum mun gefast færi á að hlýða á Whitaker 19. febrúar næstkomandi. Hann verður aðalfyrirlesari á málþingi sem Hugarafl, félag notenda geðheilbrigðisþjónustunnar og fagaðila, stendur fyrir milli 14 og 17 í salnum Skriðu í húsnæði Kennaraháskólans. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn meðan húsrúm leyfir.
Frekari upplýsingar um Robert Whitaker.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband