Leita í fréttum mbl.is

Sviptur doktorsnafnbót

Karl-Theodor zu Guttenberg var sviptur doktorsnafnbót af háskólanum í Bayreuth, en hann varði ritgerð þar árið 2006. Það er ekki nákvæmt að segja (sbr. frétt mbl.is) að hann hafi "sagt af sér í kjölfar ásakana um að stór hluti doktorsritgerðar hans hefði verið fenginn úr öðrum ritum án þess að heimilda hefði verið getið".

Hann stundaði RITSTULD - gögnin eru óumdeilanleg (http://www.sueddeutsche.de/app/subchannel/politik/guttenberg/). Ritstuldur er e.t.v. ekki glæpur í augum ritstjórnar mbl.is en litið mjög alvarlegum augum í Þýskalandi. Um 23000 þýskir vísindamenn sendu Angelu Merkel bréf, vegna þess að hún hafði lýst yfir stuðningi við Karl-Theodor, og kröfðust afsagnar hans.

zu Guttenberg, nú kallaður Googleberg í Þýskalandi, virðist samt ekki vera tilbúinn að játa glæp sinn. Hann sagði (í enskri þýðingu) "I did not deliberately cheat, but made serious errors,"  Hann sagði ítrekað síðustu vikur að gallar í heimildavinnu hefðu komið til vegna álags og skorts á vandvirkni. Hvernig í ösköpunum er hægt að klippa og líma heilu málsgreinarnar inn í ritgerðina sína og segja að það hafi ekki verið af ásetningi? Maður glutrar ekki textabrotum inn í rafræn skjöl, eins og sultu á morgunblaðið.* Það sem hann gerði rétt var að biðja skólann um að afturkalla doktorsprófið sitt og segja af sér.

zu Guttenberg er bara toppurinn á ísjakanum.

Það er öruggt að hellingur af fólki hafi útskrifast með doktorspróf og meistarapróf á síðustu árum, og að ritgerðir þeirra séu stolnar að meira eða minna leyti. Vandamálið er margþætt og viðbrögðin, hingað til a.m.k. frekar aumingjaleg. Ég vil bara bæta við tvennu í þessu samhengi. Fyrir áramót las ég pistil um leigupenna, sem skrifar lokaritgerðir fyrir ameríska nemendur gegn vægu gjaldi. Það sem var skelfilegast við þetta voru bréfin sem kúnnanir sendu leigupennanum, þau afhjúpuðu letina, siðleysið, vankunnáttuna og skeytingarleysið.

Í öðru lagi þá skiptir prófið sjálft ekki öllu máli, heldur það hvað fólk gerir við sína þjálfun. Þú getur fengið vinnu út á virðulegt próf og fallega ferilskrá, en þú þarft að sanna þig til að halda þeirri vinnu. Einhverjir myndu telja það ásættanlega áhættu að "fegra" ferilskránna sína með uppdikteruðu prófi eða "fita" meistarariterðina sína með efni frá traustari heimild til þess að fá góða vinnu, en ég myndi reka svoleiðis manneskju á stundinni.

Ítarefni

Charles Hawley The Downfall of Defense Minister Guttenberg Der Spiegel - international version. 03/01/2011

Helen Pidd German defence minister resigns over plagiarism row The guardian 03/01/2011

*Ég gæti skilið þetta ef hann væri ásakaður um að hafa misst hindberjasultu en ekki bláberjasultu á Fréttatímann sinn.

Leiðrétting: setti "til þess að fá góða vinnu" inn í siðustu setninguna.


mbl.is Guttenberg segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vendetta

Nýjasta málið í Danmörku fjallar um konu, Milena Penkowa að nafni, sem einhvern veginn tókst að glepja alla með kvenlegum töfrum sínum og ósvífni. Hún fékk doktorsnafnbót frá Kaupmannahafnarháskóla á grundvelli ritgerðar sem var svo léleg, að matsnefnd hafði hafnað henni, þangað til Milenu tókst að fá tvo erlenda sérfræðinga til að hrósa ritgerðinni á meðan hún sjarmeraði rektor háskólans. Síðar notaði hún bæði rektorinn og ráðherra til að útvega sé prófessorsstöðu við skólann. Henni hlotnaðist hver heiðurinn á fætur öðrum aðdáun fyrir að vera bæði lagleg, fluggáfuð og framagjörn. Konur fá verðlaun fyrir þannig hluti. Fyrir utan óverðskuldaða nafnbót og stöðu, fékk hún líka milljónastyrk til rannsókna, en stór hluti styrksins fór í einkaneyzlu. Þegar allt svindlið komst upp, var hún rekin, en doktorsnafnbótina fær hún víst að halda.

Fyrir utan Penkowa og Googleberg, sem skreyta sig með stolnum fjöðrum, þ.á.m. doktorsnafnbót, eru margir aðrir siðblindingjar sem fá góðar forstjórastöður út á uppskáldaða ferilskrá, sem stundum kemst upp, stundum ekki. Eins og þú segir, þá kemur oft mjög fljótt í ljós, hvort fólk sé hæft (competent) eða ekki. Þegar mikið vantar upp á er oft rýnt í ferilskrána og staðhæfingar um fyrri störf, menntun o.fl. tékkað í fyrsta skipti. Það þarf ekki nema eina persónu sem þekkir sannleikann, þá er spilið úti.

Hins vegar geta þingmenn og ráðherrar komizt upp með svona hluti, því að það er ekki krafizt að ráðherrar séu neinir sérfræðingar í málefnum ráðuneytis síns, ólíkt þegar menntað fólk er ráðið í alvöru vinnu út frá menntun og reynslu. Svo er líka bagalegt, að nánast enginn á Alþingi hefur alvöru menntun og reynslu, heldur aðeins próf úr félags"vísinda"deild eða bara stúdentspróf og hafa einfaldlega flotið upp gegnum flokksapparatið án þess að hafa nokkurn tíma migið í saltan sjó. Það er því óhætt að segja, að þeir 63, sem eiga að vera fulltrúar þjóðarinnar eru bæði síður menntaðir og reynsluminni en obbinn af þjóðinni.

Vendetta, 1.3.2011 kl. 19:48

2 identicon

Mér þykir það hæpinn málflutningur hjá Vendetta að setja félagsvísindin á einhvern lægri stall en raunvísindi. Höfum það á bakvið eyrað að þessi litli munur á erfðaefni manns og apa hefur gefið okkur Shakespear jafnt sem Einstein og Laxnes jafnt sem Oppenheimer og erfitt er að ímynda sér heiminn án nokkurra þessara fjögurra (og eru þá mýmörg dæmi ónefnd). Fegurð hins gífurlega fjölbreytileika mannlífsins felst m.a. í hæfni hans til að skapa, jafnt sem greina, og gildir þar einu hvort um er að ræða hluti eða hugmyndir.

Menntahroki fer engum vel og er síst til þess fallinn að fleyta okkur lengra á þróunarbrautinni.

 Arnari vil ég svo þakka fyrir einstaklega fræðandi og skemmtilegt blogg.

Sindri (IP-tala skráð) 2.3.2011 kl. 01:12

3 Smámynd: Vendetta

Ég var aðallega að hugsa um stjórnmálfræðinga.

Vendetta, 2.3.2011 kl. 01:26

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk fyrir Vendetta að fræða okkur um Penkowu-málið. Það er sannarlega nóg af fólki sem er tilbúið að skreyta sig með stolnum fjöðrum, og það mun komast upp með það meðan slíkt viðgengst og viðurlögin eru væg.

Stjórnmálamenn virðast komast upp með ótrúlegustu hluti, eða láta á það reyna hvort þeir komist upp með misjafnt, og reyna þá að þrauka mótbárur gagnrýnenda og treysta á gullfiskaminni kjósenda. Ég veit ekki hvort það sé galli í menntun, í flokkskerfinu eða mannlegu eðli.

Takk Sindri fyrir athugasemdina.

Ég held að rökhugsun, gagnrýni og vísindaleg vinnubrögð eigi að kenna í öllum vísindum. Ég er ekkert viss um að raunvísindin séu æðri vísindi en félagsvísindi, þótt mér þyki stundum erfitt að greina tilgáturnar og fræðilega gildið í pappírum á því sviði.

Úr því að þú minntist á sköpunarhæfni, þá vil ég árétta að vísindi eru einmitt mjög skapandi iðja. Rannsóknir byggjast á góðum hugmyndum, tilgátum og tengslum þeirra við þekktar staðreyndir eða lögmál. Það þarf skapandi huga til að setja fram byltingakennda tilgátu, og oft mikla sköpunargáfu til að finna út hvernig megi prófa hana. Á þann hátt eru vísindi, sama hvaða fagi sem þau tilheyra, áþekk hinum skapandi listum.

Arnar Pálsson, 2.3.2011 kl. 10:20

5 Smámynd: Vendetta

Sindri, það er ýmislegt við sk. Félagsvísindasvið Háskóla Íslands sem mér finnst ekki vera upp á marga fiska. Og það hefur ekkert með menntahroka að gera, en sem etv. er hægt að segja að sé mín persónulega skoðun á ekki aðeins gildi eða mikilvægi sumra fræða, heldur líka sú heilastarfsemi sem tengist bæði náminu og eftirfylgjandi starfi. Skoðanir mínar, sem þú munt eflaust kalla fordóma, eru sem sagt ekki tengt því, hvort fagsviðið snerti raunvísindi á einhvern hátt.

En bloggsíðan hans Arnars er ekki rétti vettvangurinn fyrir þannig umræðu. Ég mun hugsanlega skrifa um þessar skoðanir mínar á minni eigin bloggsíðu, þegar ég hef lífgað hana við. Hvenær það verður fer eftir því hvenær ég ákveða að troða félagsfræðingum, félagsráðgjöfum og stjórnmálafræðingum um tær. Ég á eftir að fara í saumana á síðustu skipulagsbreytingum H.Í. því að ég tek eftir því núna, að femínista"deildin", sem áður hét Kvenna-og kynjafræðaskor í Félagsvíndaseild sem var áður virðist vera komin eitthvað annað. Vonandi alveg burt úr háskólanum.

Vendetta, 2.3.2011 kl. 13:49

6 identicon

Vendetta, Ég skal ekki rengja það að einhverstaðar sé pottur brotinn innan félagsvísindasviðs Háskóla Íslands enda hef ég enga reynslu af því og þ.a.l. engar forsendur fyrir andmælum. Hitt er annað mál að gagnrýni á félagsvísindi sem slík, annars vegar og félagsvísindadeild Háskóla Íslands hins vegar er tvennt ólíkt. Vinnubrögð HÍ, séu þau slæm eins og þú vilt meina, segja ekkert um vísindin í heild, enda þykir mér óvægið að dæma vísindin á frammistöðu háskóla sem ekki hefur meira vægi á alþjóðavettvangi en raun ber vitni. Börð félagsvísindahattsins ná langt og mun lengra en hér hefur verið talað um og á þeim vettvangi hafa starfað virtir fræðimenn. Að sjálfsögðu geri ég þá kröfu til vísindamanna, sama á hvaða sviði þeir starfa, að þeir tileinki sér og aðhyllist akademísk og vísindaleg vinnubrögð og ef þeir gera slíkt þá þykir mér erfitt að kasta mælistiku á það hversu miklir vísindamenn þeir eru með því að líta til fræðigreinarinnar sem þeir stunda. T.d. eru kynjafræðin sem slík heillandi viðfangsefni sem vissulega má nálgast á vísindalegan máta en ég viðurkenni að hafa heyrt ljótar sögur af því hvernig HÍ nálgast þennan málaflokk og séu þær sögur á rökum reistar er þar að eiga sér stað starf sem á ekkert skylt við vísindi

Sem dæmi um samspil og samlíf vísindanna má nefna fræði sem ég hef lagt töluverða stund á og snúa að því hvernig fyrirtæki geta haft áhrif á og náð sem mestu úr sínum starfsmönnum. Á því "vandamáli" eru tvær lausnir, ef málið er einfaldað mjög: Annars vegar er hægt að fara þá leið að hafa bein áhrif (raunvísindi) á starfsmennina. Undir þessa leið falla aðgerðir eins og að gefa þeim lyf eða, ef tæknin væri til staðar, græða í þá einhverskonar nema eða tölvu sem gerði þá stjórnanlegri. Hin leiðin er óbein (félagsvísindi) og felur í sér að búa til hvetjandi umhverfi eða beita einhverskonar umbunum/refsingum. Mönnum er svo frjálst að velja hvora leiðina þeir aðhyllast.

Inn í þessa umræðu má svo draga mjög athyglisverðar hugmyndir um hugtakið "Greind" og hvað teljist til greindar. Hin ráðandi sýn virðist vera að í greind felist einhverskonar yfirburðar geta til náms og fræða en getur verið að með því sé horft fram hjá öðrum "hæfileikum" sem, eðli sínu samkvæmt, hljóta að kalla á einhverskonar getu heila viðkomandi en falla ekki undir þennan hefðbundna skilning. Gamall kunningi minn er læknir og má segja að hann sé gangandi alfræðiorðabók þegar kemur að læknisvísindunum. Hann útskrifaðist með láði og var iðulega hæstur í þeim greinum sem hann nam. Hann er sumsé greindur í þessum hefðbundna skilningi orðsins. Ef, hins vegar kafað er dýpra þá koma önnur persónueinkenni í ljós. Hann á t.d. mjög erfitt með að skilja tilfinningar annars fólks sem og að setja sig í spor annarra. Hann býr þannig ekki yfir þeim hæfileika sem felst í samkenndinni. Annað sem snýr að honum er að hann skilur ekki list og finnst hún eiginlega hálf kjánaleg. Hann á sér ekki uppáhalds hljómsveit né skilur hann hvernig hægt sé að ræða tónlist á annað borð því "í raun" sé þar verið að bera einn hávaða saman við annan. Þennan kunningja minn er svo gaman að bera saman við ágæta vinkonu mína sem er ekki greind í þessum hefðbundna skilningi, þ.e.a.s. hún hefur aldrei verið mikið fyrir bókina. Hins vegar býr hún yfir hreint einstökum hæfileika til að setja sig í spor annarra, finna það sem þeir finna og jafnvel hjálpa þeim að vinna úr tilfinningum sínum. Ef litið er á þetta með augum raunvísindanna mætti leiða að því líkum að hér hafi heili hans og heili hennar yfir að búa mjög ólíkum hæfileikum sem koma fram á þennan hátt. Einstaklingarnir hafa s.s. báðir kosti og galla en það er síðan virðismat samfélagsins sem setur hæfileika hans á hærri stall en hennar. Þrátt fyrir það held ég að flestir geti séð að til eru margar stöður í samfélaginu þar sem hennar hæfileikar koma (mun)betur að gagni en hans, alveg eins og því er öfugt farið.

Að lokum bið ég ykkur að afsaka þessa langloku mína :)

Sindri (IP-tala skráð) 2.3.2011 kl. 23:43

7 Smámynd: Vendetta

Þakka þér fyrir þessar ýtarlegu skýringar, Sindri.

Ég er alls ekki að hvetja til að fræðimenn verði "takmarkaðir" eins og vinur þinn læknirinn, en að sem flestir hafi sem víðast áhugasvið. Ég geri ráð fyrir að hann sé eitthvað álíka og læknarnir í brezku þáttunum, Dr. Martin og House, sem voru snillingar í lækningum, en ófyrirleitnir í samskiptum við aðra. Kannski er því þannig varið með mikla snillinga að snilligáfan er á kostnað annarra persónueiginleika. Bæði Chaplin og Edison voru einnig þekktir fyrir að vera gífurlega kröfuharðir við undirmenn í þeim tilgangi að ná markmiðum sínum. Myndu þeir geta það í dag, með 37 stunda vinnuviku? Sennilega ekki.

Persóna sem er menntuð innan raunvísinda (eða annars fagsviðs) væri leiðinleg ef hún gæti ekki talað um neitt annað en sitt eigið þrönga svið. Hins vegar getur enginn verið sérfræðingur í öllu. Eða, fyrst þú nefnir það, vera gæddur öllum átta "greindum" Garners í jafnmiklum mæli. Allt fólk er mismunandi frá blautu barnsbeini og það er röng aðferðarfræði að steypa öll börn í sama form eins og gert er hér á landi. En sumir halda því lika fram að félagsfræði og sálfræði á Íslandi sé ca. 50 - 100 árum á eftir öðrum þjóðum, og ég er ekki frá því að það sé satt.

Áður en ég held lengra, þá vil ég geta þess að þótt ég hafi masterspróf í raunvísindum, þá hef ég einnig gífurlegan áhuga á bæði hugvísindum (aðallega tungumálum) og listum (myndlist, tónlist). Ég hef stundum velt fyrir mér hvort ekki væri hægt að leggja ískalt mat á hversu flókin og erfið viðureignar einhver fræði eru (og þar með umfang nauðsynlegrar heilastarfsemi er) út frá því hversu auðvelt er að vinna doktorsritgerð innan þess sviðs, nánar tiltekið hversu auðvelt er að finna viðfangsefni sem hægt er að gera góð skil í doktorsritgerð og verja hana án of mikillar áreynslu. Í stuttu máli, hversu auðvelt það er að fá doktorsnafnbót. Þá vil ég halda því fram, að það sé erfiðast innan raunvísindanna auk læknisfræði, en auðveldast innan félagsvísinda. Hugvísindin eru þar svo einhvers staðar á milli, allt eftir sviðum. Þegar maður les lýsingar á doktorsritgerðum þegar auglýst eru varnir, þá sér maður gífurlegan mun á umfangi og erfiðleikagráðu/flækjustigi, ef svo má að orði komast. Samt fá allir (sem tekst vel upp) sömu nafnbótina, Dr., en ekki Dr+ og Dr-.

Eruð þið á sömu skoðun og ég, að það séu sjálfkrafa gerðar meiri kröfur til doktorskandidata úr raunvísindadeild en úr félagsvísindadeild? Og að auðveldara sé að verja ritgerð gerða á félagsvísindasviði en raunvísindasviði? Og að þessi munur endurspegli hversu gjörsamlega ólík þessi svið eru séð frá vísindalegum sjónarhóli?

Vendetta, 3.3.2011 kl. 00:59

8 identicon

Nú eru eflaust þrjár (hugsanlega fleiri) leiðir að líta á það mál. Sú fyrsta er að til félagsvísinda séu gerðar minni kröfur og þess vegna eigi kandídatar á því sviði auðveldara með að sækja sína gráðu. Í öðru lagi að þeim sem þangað sækja reynist það auðveldara en öðrum á þeim forsendum að þetta er þeirra sérsvið. Í þriðja lagi að félagsvísindin virki auðveldari í augum þeirra sem vanir eru annars konar vinnubrögðum og ber þá hæst sú almenna regla raunvísindanna að finna megi rétt(asta) svarið á meðan félagsvísindin eiga auðveldara með að samþykkja mörg rétt svör við sömu spurningunni.

Hvað af þessu er rétt skal ég ekki dæma um en hugsanlega erum við aftur komnir að hugmyndinni um misunandi hæfileika og klisjunni um hægra og vinstra heilahvels-fólk. Hins vegar, ef þetta er eingöngu spurning um akademískar kröfur þá þykir mér það miður ef félagsvísindin (eða hvaða vísindi önnur sem er) fá einhvern afslátt þar.

Síðan má kasta fram þeirri hugleiðingu hvort erfiðleikastig, eða eins og Vendetta orðar það: umfang nauðsynlegrar heilastarfsemi, sé góður mælikvarði á stöðu eða gæði vísinda. Til samanburðar má nefna að það fer meiri heilastarfsemi í að stýra augunum en eyrunum, en út frá þeim forsendum einum skal ég ekki segja að sjónin sé heyrninni æðri. Hér gef ég mér ekkert svar heldur finnst þetta aðeins verðug hugleiðing.

Sindri (IP-tala skráð) 3.3.2011 kl. 01:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband