Leita í fréttum mbl.is

Hinn einstaki Pétur M. Jónasson

Í gær (9. mars 2011) var haldin samkoma í salnum í Kópavogi, til heiðurs Pétri Mikkel Jónassyni níræðum og að því tilefni að Þingvallavatnsbókin er komin út á ensku. 

Pétur M. Jónasson er einn ötulasti vatnalíffræðingur Íslands. Hann dvaldist sem drengur hjá afa sínum og ömmu á Miðfelli við Þingvallavatn, og fyrir honum lá að rannsaka lífríki vatnsins. Pétur starfaði lengstum við Kaupmannahafnarháskóla og var einnig forseti Alþjóðasamtaka vatnalíffræðinga, sem telur um 3000 manns. Hann er nú prófessor emeritus við Kaupmannahafnarskóla og heiðursprófessor við Líf og umhverfisvísindadeild HÍ.

Thingvallavatn-book

Hann stundaði miklar rannsóknir hérlendis, fyrst á Mývatni og Laxá, einnig síðar á lífríki Þingvallavatns. Pétur ritstýrði bók um grunnrannsóknir á lífríki Þingvallavatns, sem út kom árið 1992. Árið 2002 kom síðan út á Þingvallavatn - undraheimur í mótun, í ritstjórn Péturs og Páls Hersteinssonar (prófessors í spendýrum við HÍ). Bókin er einstaklega vel heppnuð og hlaut verðskuldað Íslensku bókmenntaverðlaunin. Nú er bókin komin út á ensku, bætt og aukin, undir heitinu Thingvallavatn – a unique world evolving. Af tilefni útgáfunar flutti Bror Jonsson vatnalíffræðingur hjá Norsk Institutt for Naturforskning erindi í Salnum í gær, en hann stundaði einmitt rannsóknir í Þingvallavatni á níunda áratugnum.

Egill Helgason tók stórskemmtilegt viðtal við Pétur, sem sýnt var í Kiljunni í gærkveldi (byrjar rétt eftir miðbik þáttarins). Einnig var rætt við Pétur í spegli gærdagsins (viðtalið hefst um miðjan þátt).

Hann færði sterk rök fyrir verndun vatnsins, og tiltók bæði hættur frá umferð, rotþróm og barrtrjám. Fyrir tilstuðlan Péturs og fleiri framsýnna manna var Þingvallavatn í heild sinni, ekki bara ósinn við Öxará, sett á heimsminjaskrá UNESCO. Það er mikilvægt að standa vörð um þá gersemi sem Þingvallavatn er.

Ítarefni:

Grein Guðrúnar Arndísar Tryggvadóttur á náttúra.is (2006) Pétur M. Jónasson - Lífríki Þingvallavatns stefnt í voða með fyrirhuguðum Gjábakkavegi.

Mesti auður Íslands grein í  Morgunblaðin frá 5. júní 1994 - höfundur ekki tiltekinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hefði viljað að gerður yrði samtalsþáttur eða þættir við þennan mann. Ég sá viðtalið við hann í gær hjá Agli í Kiljunni,og mikið var gaman að hlusta á hann ,ég er sannfærður um það að hann hefur frá miklu að segja.

Númi (IP-tala skráð) 10.3.2011 kl. 11:23

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Ég er sammála Númi.

Áhuginn og ástríðan skein í gegn, Pétur er greinilega mjög forvitnilegur og skemmtilegur náungi. Vonandi finnur einhver upplýstur kvikmyndagerðarmaður upp á því að taka viðtöl við hann.

Arnar Pálsson, 10.3.2011 kl. 11:34

3 Smámynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

Enn um barrtrén á Þingvöllum

http://www.skogur.is/um-skograekt-rikisins/frettir/nr/1515

Aðalsteinn Sigurgeirsson, 11.3.2011 kl. 00:17

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Aðalsteinn

Gaman að sjá þig aftur, ég er með spurningu til þín í framhaldi af fyrri samskiptum okkar. Þú máttir líklega ekki vera að því að svara henni þá en getur það vonandi núna. Því endurtek ég hana hér: (öðrum lesendum er bent á að skoða tengil hér að ofan til að kynnast upphafi skoðanaskiptanna).

Aðalsteinn

Þú klippir og límir lista frá Ágústi um 11 einkenni hjarðhugsunar.

Síðan setur þú inn lista af greinum vistfræðinga sem telja nauðsynlegt að setja strangari ákvæði inn í náttúruverndarlög um innflutning framandi tegunda.

Ég gerði ráð fyrir að það væri ákveðið samhengi í þessu, að þú fyndir í  skrifum vistfræðinganna dæmi um hjarðhugsun. Þú tilgreindir ekki nákvæmlega, hvaða einkenni um væri að ræða, en það er kannski óþarfi þar sem þú vilt e.t.v. frekar standa í blammeringum en að tala um fagleg atriði.

Ég spurði þig um eitt af þessum einkennum hjarðhugsunar (8):

  • Ad hominem eða persónuníði beitt þegar rök þrýtur.

Fyrst þú hefur lesið allar þessar greinar vistfræðinganna (???), þá ættir þú að geta nefnt dæmi um persónuníð í þeim.

Þetta er frekar einföld spurning. Ef þú finnur ekki þessi dæmi um persónuníð í greinum vistfræðinganna, þá geri ég ráð fyrir að þú, í nafni grandvarar og heiðarlegrar umræðu dragir allavega þennan hluta athugasemdar þinnar til baka.

Og ég í sakleysi mínu bað þig um meta, sanngirninnar og hlutlægninar vegna, hvort þú fyndir einhver dæmi um persónuníð í skrifum skógræktarfólksins sem gagnrýnir afstöðu vistfræðinganna.

Arnar Pálsson, 11.3.2011 kl. 10:03

5 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Þetta rit er þokkalega ritað með mörgum fallegum myndum enda komu ýmsir fræðimenn og ljósmyndarar að því. Dr.Pétur er ritstjóri þess en ekki höfundar alls efnis.

Það verður að telja rýra gildi þessa rits vafasamar fullyrðingar um meinta nitureitrun af völdum barrtrjáa. Þær fullyrðingar styðjast ekki við neinar rannsóknir en hið gagnstæða hefur dr.Bjarni Diðrik Soigurðsson préfessor við Landbúnaðarháskólann sýnt fram á og styður niðurstöður sínar við endurteknar rannsóknir: íslenskur jarðvegur verður ekki fyrir áhrifum nitureitrunar frá barrtrjám. Ástæða þess er gerð og uppruni íslensks jarðvegar en einkenni hans er eldfjallaaska sem gerir efnasamsetningu íslensks jarðvegs allt öðru vísi en í nágrannalöndum okkar.

Þingvallavatn er tært og fagurt, lífríki þess er auðugt, gróskumikill Þingvallaskógur með fjölbreyttum gróðri sínum eykur enn lífríkið og þar eiga barrtrén ríkan þátt. 

Líffræði er er eins og hver önnur raunvísindi þar sem m.a. er byggt á endurteknum rannsóknum til að sanna niðurstöður.

Því miður hefur margsinnis verið bent á fræðileg umræða virðist ekki vera upp á marga fiska hvað þetta varðar. Er af þeim ástæðum ekki rétt að draga aðeins í land með ofurlofi á eitthvað sem ekki stenst fræðilega?

Gagnrýnislaus persónudýrkun hefur oft leitt góða menn út í ógöngur. Alltaf þykir vera sjálfsagt að efast um sem flesta hluti. Raunvísindamaður rannsakar vel og vandlega áður en settar eru fram fullyrðingar. Í þessu tilfelli um skaðsemi barrtrjáa eru þær sífellt endurteknar, kannski í þeirri von að vitleysan verði hafin upp í efstu hæðir?

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 11.3.2011 kl. 14:26

6 Smámynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

Arnar:

Varðar: „Þú máttir líklega ekki vera að því að svara henni þá en getur það vonandi núna.“

Þú gafst mér aldrei færi á svara síðasta orðhengilshætti þínum um „ad hominem“,  heldur kaust þú að skella síðunni í lás („Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.“).  Samt vil ég taka fram, að ég túlkaði ekki þessa lokun þína þannig að henni væri beint gegn mér persónulega.

Orðið „persónuníð“ er reyndar röng þýðing ÁHB á „ad hominem“.

„Ad hominem“ („vísun til mannsins“; persónuárásarvillan) er hugtak úr rökfræði sem notað er um þá röksemdafærslu sem skírskotar til fordóma eða hagsmuna viðmælandans fremur en skynsemi hans eða dómgreindar (e. appealing to personal considerations rather than to fact or reason; "ad hominem arguments"). Þá er reynt að gera lítið úr fullyrðingu með því að ráðast á persónuleg tengsl við umfjöllunarefnið fremur en það sem viðkomandi heldur fram. Dæmi: Hildur er á móti stríði en það er ekkert hægt að taka mark á henni, hún er bara barn og skilur ekki neitt. Annað dæmi: „Ingibjörg [Svala Jónsdóttir formaður Vistfræðifélags Íslands] segir að hin hörðu viðbrögð við lagafrumvarpinu frá tilteknum félagasamtökum séu vel skiljanleg því frumvarpið muni óhjákvæmilega takmarka frelsi til innflutnings lífvera“( Með öðrum orðum er formaður VistÍs að gera lítið úr röksemdum félagasamtaka skógræktar- og garðyrkjufólks, af því þessum samtökum sé bara umhugað um eigin hag og athafnafrelsi).

Þykir þér hér vera komin orðskýring sem dugi til lúkningar þessa máls frá því janúarmánuði s.l.? Eða langar þig til að halda þessari uppbyggilegu þrætubókarlist áfram fram í hið óendanlega?

Aðalsteinn Sigurgeirsson, 11.3.2011 kl. 16:22

7 Smámynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

 Ég vil benda lesendum sem vilja afla sér fróðeiks um fyrirbærið "niturmengun af barrtrjám" að lesa eftirfarandi samantektargrein Dr. Bjarna Diðriks Sigurðssonar, prófessors við Landbúnaðarháskóla Íslands:

Áhrif gróðurs á vatnasviðum á efnasamsetningu straumvatns og aðra
eðlisþætti: fyrstu niðurstöður SkógVatns

Fyrrgreindur hlekkur virðist hafa farið e-ð út af sporinu á vef Skógræktar ríkisins.

Frekari upplýsingar um verkefnið Skógvatn má finna HÉR.

Mér þykir leitt að þurfa að segja það, en því miður sýnist mér ekki vera heil brú í þessum niturmengunarógnarrökum sem varpað var út til almennings í tvígang s.l. miðvikudag. Mælingar undanfarinna ára og áratuga hafa til þessa ekki sýnt neinar breytingar á styrk niturs í Þingvallavatni né í því regnvatni sem fellur á vatnasvið þess. Og fátt bendir til að Þingvallavatni sé ógnað af ofauðgun niturs af nokkrum völdum. Af hverju stafar þessi ys og þys út af engu? Hvers vegna eru menn að leita dyrum og dyngjum að sökudólgi í umhverfisglæp sem ekki hefur verið framinn og ekki stendur til að fremja? Hér sýnist mér vera veruleg hætta á að varúðarreglu stjórnsýsluréttar verði misbeitt í afar annarlegum, vistfræðipólitískum tilgangi. Varúð getur nefnilega verið öfgafull. Öfgafull og órökrétt varúð er nefnilega sama og fælni (fóbía).

Eða eins og stendur einhversstaðar:

Gagnrýnin hugsun er einnig ein af forsendum framfara og hornsteinn góðs fræðasamfélags. Trúarkennd og villandi samsuða loðinna og þokukenndra hugtaka sem sett er fram af „fræðasamfélagi", að því er virðist í þeim eina tilgangi að valda ruglingi, hafa pólitísk áhrif og láta tilganginn helga meðalið, er ekki líkleg til að auka hróður þess samfélags né bæta orðræðuna í samfélaginu almennt. Við gerum kröfu á hendur þessum félögum okkar í heimi raunvísinda um vísindalega grundaða umræðu og vandaðri vinnubrögð. Vísindaleg niðurstaða verður ekki sönnuð með neinum meirihluta. Til þess að viðunandi sátt náist um niðurstöðu er öllu meira gagn af vönduðum rannsóknum ásamt opinni og hreinskiptinni umræðu meðal fræðimanna og sem víðast í samfélaginu.

Aðalsteinn Sigurgeirsson, 11.3.2011 kl. 16:55

8 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Mosi fyrir athugasemdina.

Ég tiltók þær hættur sem Pétur minntist á, en viðurkenni auðfúslega að ég hef ekki kynnt mér þau gögn sem liggja til grundvallar ályktunum hans. Mér finnst sannarlega ólíklegt að þau fáu grenitré sem standa/stóðu við Þingvöll dugi til að menga vatnið, en líklegra að rotþrær geti seytt umtalsverðu köfnunarefni í það og að vegagerðin/umferð um veginn geti aukið líkur á flæði mengandi efna í vatnið. Ég hef heldur engar sérstakar niðurstöður á bak við þá ályktun, bara 15 ára grunn í umhverfisfræði.

Ég kíkti á rannsókn Bjarna Diðriks og hún var um margt forvitnileg, þó í hana vanti tölfræðipróf. 

Það sem ég held að Pétur hafi verið að vara við er að, ef okkur dytti í hug (og jú það er til fólk sem svo hugsar) að planta greni í hvern einasta fermetra þjóðgarðsins þá væru góðar líkur á því niturflæði inn í vatnið myndi aukast og það myndi líklega breyta lífríkinu.

Hins vegar tek ég undir að hugmyndin um að niturflæði frá 100 grenitrjám við vatnið geti raskað lífríki þess er frekar ólíkleg. Þess verður að gæta að pistill minn var til heiðurs Pétri og hans glæsilega ferli, en ekki fræðileg grein. Lofinu var ekki beint að barrtré-niturtilgátunni heldur að vísindamanninn og náttúruverndarsinnan Pétur. Þú greinir vonandi þar á milli.

Þú segir einnig:

Líffræði er er eins og hver önnur raunvísindi þar sem m.a. er byggt á endurteknum rannsóknum til að sanna niðurstöður.

Sannarlega er líffræði raunvísindi, en niðurstöður verða aldrei sannaðar. Tilgátur verða afsannaðar, og þær sem ekki verða afsannaðar treystast í sessi. Þú gerir kröfu um að ég iðki fræðilega nákvæmni en síðan kemur þú með setningu (svo sannarlega ljóðrænni og yndislegri aflestrar en pistilinn minn) en sem fellur á því prófi.

Þingvallavatn er tært og fagurt, lífríki þess er auðugt, gróskumikill Þingvallaskógur með fjölbreyttum gróðri sínum eykur enn lífríkið og þar eiga barrtrén ríkan þátt.

E.s. Ég tilgreindi bæði Pétur og Pál sem ritstjóra. 

Aðalsteinn athugasemd 2.

Ég svaraði flestum af þeim punktum sem þú tilgreinir í svarinu til Mosa.

Eitt almennt um verndum Þingvallavatns, sem Pétur benti reyndar á í öðru hvoru viðtalinu, er að staða þess á Heimsminjaskrá er háð því að við stöndum vörð um vatnið. Þingvallavatn er fjársjóður og því finnst mér eðlilegt að við séum varkár og e.t.v. pínkulítið ofsóknarbrjáluð, og skilgreinum hættur gætu mögulega steðjað að lífríki vatnsins. 

Ég er ekki að segja að mér þyki líklegt að nokkur grenitré eyðileggi lífríki þess, en að það sé eðlilegt að a.m.k. meta áhrif aukinnar skógræktar, hótels, þyrlupalls í Sandey, virkjunar í Hengli o.s.frv.

Arnar Pálsson, 11.3.2011 kl. 17:40

9 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk fyrir svarið Aðalsteinn

Mér finnst þú teygja þig nokkuð nokkuð í túlkun á ad hominem. Í málsgreininni sem um ræðir þá nafngreinir formaður vistfræðifélagsins ekki neinn einstakling, og getur því ekki vegið að persónu hans/hennar.

Það sem formaðurinn gerir er að benda á mögulega hagsmunaárekstra (conflict of interest). Slíkt er sanngjarnt og í raun nauðsynlegt þegar rætt er um bæði fræðileg og pólitísk mál. Vísindamenn sem eru í samstarfi við lyfjafyrirtæki, verða að geta þess á fræðigreinum sem þeir birta. Forstjóri Decode talaði ekki bara í nafni sinnar persónu, heldur fyrirtækisins og sem hagsmunaaðilli þegar hann mælti fyrir gagngrunni.

Er þetta besta "dæmið" um ad hominem eða persónuníð í skrifum vistfræðinganna?

Ég er þakklátur fyrir svarið, en væri kampakátur ef þú skaffar álíka úttekt "ad hominem" í skrifum skógræktarfólksins, 

Að auki. Ég er með almenna stillingu á athugasemdaglugganum (20 dagar). Pistillinn minn fór í loftið 25. janúar 2011 og síðasta athugasemd mín, endurprentuð hér að ofan 9. febrúar 2011. Það hefðu því átt að vera nokkrir dagar til svars, með öðrum orðum "ég skellti ekki í lás". Mér léttir að þú skyldir ekki upplifa þetta sem persónulega móðgun, því þessi "ekki-aðgerð" var sannarlega ekki þannig hugsuð.

Arnar Pálsson, 11.3.2011 kl. 18:26

10 Smámynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

Þú ert þrautseigur í því að drepa meginmálinu á dreif með þrætubókarlist og smjörklípum, Arnar. Hvað gengur þér annars til með þessu stöðuga þráhyggjutali um "persónuníð"?

Ég hvet þig til að kynna þér betur hinar margbreytilegu birtingarmyndir ad hominem. Persónuárásarvillan getur beinst gegn þjóðfélagshópum, félögum, fyrirtækjum og stofnunum - en líka einstaklingum.

Og sem vopn í baráttunni fyrir auði og völdum er henni víða beitt. Sem dæmi hefur Vísindakirkjan  (Church of Scientology) skilgreint hana og réttlætt sem miðlægan hluta af trúariðkun sinni, undir heitinu "Fair game".

"Applying the principles of Fair Game, Hubbard and his followers targeted many individuals as well as government officials and agencies, including a program of covert and illegal infiltration of the IRS and other U.S. Government agencies during the 1970s.[1][2] They also conducted private investigations, character assassination and legal action against the Church's critics in the media.[1] The policy remains in effect and has been defended by the Church of Scientology as a core religious practice."

Aðalsteinn Sigurgeirsson, 12.3.2011 kl. 00:52

11 Smámynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

Varðar: „Eitt almennt um verndum Þingvallavatns, sem Pétur benti reyndar á í öðru hvoru viðtalinu, er að staða þess á Heimsminjaskrá er háð því að við stöndum vörð um vatnið. Þingvallavatn er fjársjóður og því finnst mér eðlilegt að við séum varkár og e.t.v. pínkulítið ofsóknarbrjáluð, og skilgreinum hættur gætu mögulega steðjað að lífríki vatnsins.“

Fullyrðing Péturs um að UNESCO (Mennta-, vísinda- og menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna) hafi friðað Þingvallavatn stenst enga skoðun. Það er í raun hvorki náttúra Þingvalla, blái litur vatnsins né bleikjuafbrigðin fjögur sem komu svæðinu á heimsminjaskrá UNESCO, heldur minjarnar um hið forna þinghald við Öxará. Eina „áhugaverða“ efnið sem íslensk stjórnvöld gátu fundið sem Ísland  hafði fram að færa í þeim efnum voru hinar sögulegu minjar frá upphafi Alþingis á Þingvöllum, sögulegar minjar sem eru sífellt að síga lengra niður í jarðskorpuna af náttúrulegum og óviðráðanlegum orsökum.

Aðalsteinn Sigurgeirsson, 12.3.2011 kl. 01:30

12 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Við þetta er að bæta að á Þingvelli, í Almannagjá, er unnt að ganga þurum fótum um atlantshafshrygginn sem liggur eftir endilöngu Atlantshafi neðansjávar nema á þessum einstaka stað. Mig minnir að Þjóðverjans Alfred Wegeners sé rækilega á minnst í gögnum Unesco.

Þingvallaskógur hefur verið gjörnýttur gegnum aldirnar, oft orðið skógarbrunar þar og nátturufar breyst mikið eftir landnámið. Um þetta er rætt í grein um Þingvallaskóga í nýjasta tbl. Skógræktarritsins. Þar er koimið einnig inn á landnám barrtrjánna og sú saga rakin sem flestir sem málið láta sig varða mættu kynna sér betur.

Góðar stundir

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 12.3.2011 kl. 07:41

13 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Tekið úr umsókninni til UNESCO:

Lake Þingvallavatn is the only habitat in which four separate morphs of Arctic charr have evolved, which is biologically unique.

Nowhere else in the world have four separate morphs of Artic charr evolved in the same lake in a span of less than 10,000 years. In addition, the lake hosts a distinctive stock of brown trout which is well known for its longevity and large size.

Þingvellir’s unique nature, landscape and cultural remains create a setting for history like the walls of a natural temple.

With its cliff walls, fissures, slopes, lava fields and grassy plains, where the river Öxará still flows and its ruins recall ages gone by, Þingvellir creates a backdrop to all the great historic events that have taken place there. [...]

Mér sýnist nú að þarna (og því hvernig umsóknin er uppbyggð) sé verið að talað um svæðið sem heild, en ekki bara sögulegar minjar, en ég gæti náttúrulega verið að misskilja þetta eitthvað, enda er þetta bara smá partur af umsókninni og ég ætla svo sem ekki að fullyrða um hvernig í þessu máli liggur út frá því, en það gæti komið eitthvað fram í svari frá UNESCO við umsókninni á sínum tíma (sem ég hef ekki kynnt mér enn sem komið er), en hér má sjá finna umsóknina, Umsókn fyrir Þingvelli - Ef einhver hefur betri heimildir þá væri fróðlegt að sjá þær líka. En ætli Þingvellir séu ekki minna virði ef við förum að taka einhverja þætti út og telja þá minna virði en restina, Þingvellir eru í mínum huga heild - hvernig sem túlka má það. Reyndar finnst mér forvitnilegt að sjá barrtrén þarna og ætla svo sem ekki að gera lítið úr sögu þeirra trjáa.

Sveinn Atli Gunnarsson, 12.3.2011 kl. 09:46

14 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Nú vil eg taka fram að eg stundaði nám víð Náttúrufræðideild MH og útskrifaðist þaðan vorið 1972, stundaði nám við Lagadeil HÍ, lauk hlutaprófi þaðan 1975, og aftur við Félagsvísindadeild Hí og lauk þaðan námi 1994, var frá því ári til 2008 forstöðumaður bókasafns Iðnskólans í Reykjavík eða þangat til einkavæðingin gleypti hann. Síðan hefi eg ekki haft neinn starfa á veturna en er starfandi sem leiðsögumaður þýskumælandi ferðamanna á Íslandi síðan 1992.

Mín reynsla af þessu merkilega deilumáli er því fyrst og fremst á forsendum áhugamannsins um náttúru landsins. Mér finnst ýmsir taka nokkuð stórt upp í sig og fullyrða stundum of mikið. Satty best að segja finnst mér allt þetta hjal vera komið út í einkennilega blindgötu. Ofart mættu menn segja „stopp! - mér varð á í messunni og biðst forláts“ - og gildir það bæði við þá hærri sem þá lægri, sr.Jón og hinn venjulega Jón. Þó svo menn skreyti nafn sitt dr. titli þá finnst mér menn mættu af þeim ástæðum gæta sín betur. að fullyrða ekki um of, taka ekki of djúpt í árina. Það finnst mér dr.Pétur hafa gert hvað barrtrén á Þingvelli varðar.

Í síðasta tbl. Skógræktarritsins er ítarleg ritgerð um Þingvallaskóg, sögu hans, skógarnytjar, skógarbruna og sitthvað fleira, annað m.a. um sögu skógræktar þar en af sérstökum ástæðum var ekki minnst aukateknu orði um Furulundinn þar eystra: um hann hefur verið fjölmargt ritað og því ekki ástæða til að lengja ritgerðina um of.

Þessa grein má nálgast á öllum betri bókasöfnum landsins sem og kaupa ritið á skrifstofu Skógræktarfélags Íslands.

Góðar stundir

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 13.3.2011 kl. 00:07

15 Smámynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

Sæll Sveinn Atli!

Ég ætla ekki að mótmæla því að fleira en verndun sögulegra minja hafi ráðið því að íslensk stjornvöld ákváðu að tilnefna Þingvelli inn á lista ÚNESCO. Hinu vil ég mótmæla að UNESCO hafi gert þá kröfu að öll ummerki um ræktun aðflutts gróðurs og aðrar mannlegar athafnir á 20. öld yrðu afmáðar til þess að Þingvellir kæmust inn á þann ágæta lista.

Í skýrslu til UNESCO sem sett var saman af íslenskum stjórnvöldum og íslenskum sérfræðingum vegna umsóknar um Þingvelli (samþykkt á fundi heimsminjaráðsins á fundi í júlí 2004) er vissulega fjallað um þjóðgarðinn í heild, þótt meginmálið fjalli f.o.f. um þinghelgina við Almannagjá. Hins vegar er þar hvergi vikið einu orði að barrtrjám sem mögulegri ógn gagnvart lífríki Þingvallavatns né um nauðsyn þess að eyða skógum sígrænna barrtrjáa til þess að fyrirbyggja hina meintu hættu á „niturmengun“, skv. Pétri M. Jónassyni. Reyndar er heldur ekki minnst einu orði á nitur (köfnunarefni; e. nitrogen) nokkursstaðar í skýrslunni. Sjá: Application for Inclusion in the World Heritage List Þingvellir National Park.

Þar sem minnst er á ræktaða skóga barrtrjáa í skýrslunni, er þvert á móti sagt skýrum stöfum að vernda skuli flesta gróðursetta barrskóga á Þingvallasvæðinu sem „minnisvarða um náttúruvernd“ á liðinni öld. Aðeins verði felld fáein tré innan þinghelginnar, væntanlega til þess að vernda fornminjar, en t.a.m. skógarnir við Hrafnagjárhallinn verði aðeins grisjaðir til að þeir nýtist betur til útivistar („The planting of foreign species was stopped in the 1960s and currently there are plans to cut down some of these conifers within the innermost assembly site. The majority will be left untouched as a testimony to nature protection in the last century.“ - bls. 70).

Á undanförnum áratugum hafa deilur öðru hvoru blossað upp vegna barrtrjáa á Þingvöllum. Á tímabili á síðasta áratug voru deilurnar orðnar svo árvissar um miðbik hvers sumar að Björn Bjarnason, þáv. dómsmálaráðherra og formaður Þingvallanefndar, stakk upp á að menn hættu að tala um „gúrkutíð“í fjölmiðlum en töluðu frekar um „barrtrjáatíð“. Sjá nánar ágæta yfirlitsgrein Gunnars Hersveins um þetta mál frá sumrinu 2007. En þær deilur eru heldur ekkert nýjar af nálinni, eins og fram kemur í þessari lýsingu Hákonar Bjarnasonar frá árinu 1958:

Reikaði ég  þá sem oftar upp í furulundinn, en þar voru þá fyrir nokkrir hópar manna og kvenna í skjólinu af trjánum, og var sumt af fólkinu í sólbaði. Einhver sem kannaðist við mig hafði orð á því að hér væri gott að njóta sólarinnar. Ég tók auðvitað undir það, en sagði að kannski færi nú að sneiðast um skjólin á Þingvöllum, þar sem hópur manna væri tilbúinn að reiða axir að rótum þeirra. Trén tilheyrðu ekki íslenskri náttúru og yrðu því að víkja að dómi náttúruverndarmanna. Maðurinn rak upp stór augu, hváði og spurði svo hvers konar fólk það væri, sem vildi ræna aðra skjóli og hlýju. Ef þetta fólk gerði alvöru úr hótun sinni, þá skyldi hann safna að sér liði til að mæta slíkum ...., sem hann nefndi.

Aðalsteinn Sigurgeirsson, 13.3.2011 kl. 18:04

16 Smámynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

Barrtré felld fyrir heimsminjastimpil: Flórufasismi (Fréttablaðið, 16. júlí 2007)

Þorsteinn Pálsson skrifar

Barrtrén á Þingvöllum eru hluti af Íslandssögunni. Núlifandi Íslendingar þekkja ekki þjóðgarðinn án þeirra. Gróðursetning barrtrjáa á Þingvöllum markar upphaf hugsjónabaráttu um að klæða landið. Hún hefur bæði verið tengd við byggðina í landinu og sjálfstæði fólksins sem hér býr.

Nú er byrjað að höggva sum þessara trjáa. Hugsanlega fá einhver þeirra að standa. Þetta er gert í skiptum fyrir stimpil frá Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna. Sá stimpill gerir ekki

meira úr Þingvöllum en þeir eru. En ugglaust er hann söluvara. Það má nota hann til þess að græða nokkrar krónur á ferðamönnum.

Að sönnu hefur mönnum sýnst sitt hverjum um barrtrén þarna. Sumum finnst þau stinga í stúf við annan gróður. Aðrir líta á þau sem hluta af allt að aldargamalli tilveru. Spurningin um hvort þau fara vel eða illa á þessum stað er spurning um fegurðarskyn. Á það verður ekki brugðið mælikvarða. Það er líka hluti af sögunni hvort rétt var eða rangt að planta þeim á sínum tíma.

Kjarni málsins er sá að Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna samþykkti óskir um að setja Þingvelli á svokallaða heimsminjaskrá árið 2004. Þjóðgarðsvörður hefur upplýst að stofnunin hafi sett það sem skilyrði fyrir þeim gerningi að hluti af þessari menningarfleifð yrðin rifinn upp með rótum.

Vel má vera að Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna styðjist við einhverja alþjóðlega staðla hér að lútandi. Það er gott og blessað að setja staðla um allt það er lýtur að tommustokkum og peningum. En menning og saga hafa einmitt gildi fyrir þá sök að hvorugt verður fellt undir staðla.

Íslenska þjóðin stofnaði lýðveldi í landinu í samveru við barrtré á Þingvöllum. Hún fagnaði þúsund ára afmæli Alþingis með þess konar trjám. Hún minntist ellefuhundruð ára búsetu í landinu í skjóli slíkra trjáa. Hún átti samverustund með barrtrjám þegar þúsund ár voru liðin frá því kristni var lögtekin á Lögbergi.

Í flóru Íslands eru barrtrén löngu orðin að Íslendingum. Þau eru engu minni Íslendingar en sá norski og keltneski kynstofn sem hér hefur lengstum búið. Það er eins kyns flórufasismi að afneita þessum trjám í íslenskri náttúru sökum uppruna þeirra.

Á Alþingishúsi Íslendinga gnæfir erlent konungsmerki. Trúlega er það eina þinghúsið í heiminum sem þannig háttar til um. Engum heilvita manni hefur komið til hugar að brjóta það niður. Það er hluti af íslenskri sögu og menningu. Eins er með barrtrén á Þingvöllum.

Minkurinn er síðustu aldar fyrirbæri í náttúru Þingvalla. Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki sett staðla um útrýmingu minka þar sem hún bregður stimplum sínum á loft. Sennilega er það fyrir gleymsku sakir.

Á Þingvöllum er bæði bær og kirkja. Þær látlausu byggingar eiga ekkert skylt við náttúruna eins og hún var fyrir landnám. Þær eru hins vegar hluti af menningu staðarins. Vonandi leynast þar ekki grenispýtur eða furufjalir. Þá yrðu þær væntanlega að fjúka.

Aðalsteinn Sigurgeirsson, 13.3.2011 kl. 18:29

17 identicon

Þetta eru athyglisverðar umræður, þótt fátt komi á óvart í þeim. Pétur Mikkel Jónasson benti á í viðtali sínu við RÚV, að grenigróðursetningarnar við Hrafnargjárhallið væru 22 ha. Ekki hef ég hug eða vit á að véfengja það. Svo mjög voru þessi tré vanhaldin af niturskorti, þá nokkurra ára gömul, að 1967 eða 1968 var mér og nokkrum öðrum ungmennum falið að bera á hvert tré ígildi tuttugu og tveggja gramma af N. Semsagt 100 g á hverja plöntu af áburðinum 22-11-11 (N-P-K). Eins og fyrr og síðar hefur komið í ljós, er jarðvegur á Íslandi afar snauður af nitri og fosfór. Enda fór það svo, að við þessa áburðargjöf hljóp vöxtur í staðnandi  trjáplöntur, sem fram til þess tíma höfðu verið heldur álappalegar vegna næringarskorts. Því má ætla, að barr- og birkiskógur í þjóðgarðinum sé enn niturvana og vel til þess fallinn að binda nitur, sem af einhverjum ástæðum kynni að falla þar til (t.d. vegna bílaumferðar, sem PMJ nefni sem hættulega uppsprettu niturs). Gróður, sem hefur víðfemt rótarkerfi og skortir nitur, hlýtur að vera viss trygging gegn mengun. Annars held ég að niturmengun af völdum bíla í þjóðgarðinum og í nágrenni hans verði seint í slíkum mæli, að skipt geti sköpum um vöxt og viðgang barrtrjáa þar. En vissulega geta þau hreinsað slíka mengun (ef einhver er) úr lofti og jörðu, áður en hún berst í vatnið. Alkunna er, hve mikilvirk tré eru sem sía á mengunarefni í öðrum löndum. Þess vegna hafa Evrópuþjóðir flestar nýtt sér gróðursetta skóga lauf- og barrtrjáa til að binda mengunarefni, sem ella gætu skolast úr jarðvegi. Þessar þjóðir kappkosta að koma skógi á vatnsverndarsvæði hjá sér. Það er kannski hálfgert guðlast að reyna að hafa vit fyrir manni, sem ber hið stórbrotna virðingarheiti "professor emeritus", en ég ákvað að láta þetta flakka af virðingu við sannleikann.

Þeir sem sýndu þá framsýni að kosta gróðursetningu barrskógarlunda við Hrafnargjárhallið voru m.a. Vestur-Íslendingar og Landsbankinn (sem þá var hornsteinn í héraði). Barrskógurinn þarna er fagurt vitni um velvild Vestur-Íslendinga í garð gamla landsins. Sum ljóð Stephans G Stephanssonar vitna t.d. um það, hve mjög honum rann til rifja fátækleg flóra gamla landsins.

Sigvaldi Ásgeirsson (IP-tala skráð) 14.3.2011 kl. 09:21

18 Smámynd: Arnar Pálsson

Aðalsteinn

Við vorum að ræða tvö mál. Ég er ekki að reyna að drepa einu á dreif, með því að fylgja öðru eftir.

Í fyrsta lagi, varðandi þá fullyrðingu Péturs M. Jónassonar að þau grenitré sem séu í kringum vatnið valdi niturmengum í Þingvallavatni. Ég er ekki sammála henni, og tel að þar hafi Pétur tekið of djúpt í árinni. Það má hins vegar vera að önnur rök, t.d. vistfræðileg, fagurfræðileg eða lögfræðileg séu fyrir því að fjarlægja grenitrén úr Þjóðgarðinum. Ég mun ekki rekja þau hér.

Í öðru lagi var ég að biðja þig um nánar skýringar - í framhaldi af viðræðu okkar um málflutning vistfræðinga, sem þér finnst bera keim hjarðhugsunar, sbr grein Ágústar. Þar tilgreinir hann 11 einkenni hjarðhugsunar, og eitt þeirra er persónuníð, sem ku vera ónákvæm þýðing á ad  hominem (ég gæti líka vel beðið þig um að rökstyðja hvernig hin 10 einkenni hjarðhugsunar eiga við vistfræðingana, - en látum það bíða). Ég hafði lesið nokkra af pistlum vistfræðinganna og ekki tekið eftir slíku, og bað þig því að tilgreina dæmi um slíkt (og sanngirninar vegna að athuga hvort skógfræðingarnir stunduðu slíkt einnig).

Mér finnst fyllilega eðlilegt að biðja fólk um að tilgreina mögulegra hagsmunaárekstra, sbr. dæmi að ofan. Því skil ég athugasemd formanns vistfræðifélagsins sem þú vitnar í. Skógfræðingarnir og aðrir fræðimenn settu fram sín rök, og kvittuðu flestir undir sem skógfræðingar, líklega til að leggja áherslu á sinn fræðilega grunn.

Það sem sker úr um hvort að ábending um "conflict of interest" sé "ad hominem" eða ekki (afsakið slettur), er hvort skrifin eigi að teljast hlutlaust mat eða rökstuðningur ákveðins hóps (sjá Doug Walton bls 327). Sem sagt hvaða hatti fólk kemur fram undir. Skógfræðingar hafa stundum verið með hatt fagmannsins og stundum með hatt hagsmunaaðillans (skógræktarfélags, sveitarfélags...). Til dæmis í greininni Hvaða framandi lífverur eru umhverfisvandamál á Íslandi? koma flestir fram sem fagaðillar, en sumir geta einnig mögulegra hagsmuna með titli sínum.

En annars þykir þú mér fara nokkuð langt með litla setningu í fréttagrein, sem er ekki einu sinni bein tilvitnun í formann vistfræðifélagsins. Ertu ekki með betri dæmi um "ad hominem" í skrifum vistfræðinganna?

Sem fyrr, og ekki til þess að drepa öðrum málum á dreif heldur til að fá botn í þetta einstaka mál, bið ég þig líka um að kíkja á skrif skógfræðinganna og athuga hvort þú finnir dæmi um ad "hominem" í skrifum þeirra. Eða gengur þér betur að finna galla í málflutningi andstæðinga þinna en þíns eigin fólks?

Þakka þér kærlega fyrir fyrirlesturinn um vísindakirkjuna. Ertu viljandi að setja upp "guilt by association" eða fór fræðarinn bara í gang?

Arnar Pálsson, 14.3.2011 kl. 10:27

19 Smámynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

Sæll Arnar,

Afsakaðu síðbúin svör, sem stafar aðallega af heldur dræmum áhuga á þessari ófrjóu umræðu. Ég var reyndar búinn að svara þessum athugasemdum þínum fyrir margt löngu (þ. 8. feb. sl.) hjá Ágústi H. Bjarnason, um „hjarðhugsun“ og „persónuníð“. Þá svaraði ég þeim fyrir hönd ÁHB, þangað sem þú beindir þínum athugasemdum.

Því hefur aldrei verið haldið fram af minni hálfu að hjarðhugsun, ad hominem, persónuníð eða önnur vanþroskuð rökræðuhefð sé bundin við vistfræðasamfélagið né hefi ég nokkru sinni haldið því fram að skógræktarfólk sé laust við þann sam-mannlega eiginleika, fremur en annað fólk. Ég myndi heldur ekki vilja útiloka (og geri raunar fastlega ráð fyrir) að í flokki vistfræðinga sé að finna einsama varga (e. lone wolf) líkt og í flokki skógræktarfólks sé að finna villuráfandi sauði sem fylgja hjörðinni. Alhæfingar eiga sjaldnast við, því veröldin er ekki svart-hvít. Ég vil því taka undir með því sem Ágúst H. Bjarnason og Halldór Sverrisson sögðu í fyrri umræðu, að  „maður sér einkennin oft betur hjá öðrum en hjá sjálfum sér og sínum skoðanabræðrum“.

Ég mun ekki ráðast í það stórvirki að gera ítarlega samanburðarrannsókn á alvarleika hjarðhugsunar eða ad hominem í orðræðunni meðal skógræktarfólks annarsvegar og vistfræðingum hinsvegar (sem vel að merkja er að hluta sniðmengi). Slíkt mat væri áreiðanlega áhugavert fyrir einhvern ungstúdent í leit að ritgerðarefni í félagsvísindum, en liggur utan við minn reynsluheim og nennu.

En viljir þú finna dæmi um bæði ad hominem (og jafnvel dylgjur sem jaðra við „persónuníð“) hjá virtum vistfræðingi, skalt þú endilega lesa eftirfarandi grein eftir Borgþór Magnússon, forstöðumann vistfræðideildar Náttúrufræðistofnunar Íslands. Greinilegt er af lestri þessarar greinar, að þar á bæ þykir ad hominem „góð latína“.

Óræktin á Mógilsá

Eftir Borgþór Magnússon (Mbl., 24. júní 2010)

Í liðinni viku ók ég nokkrum íþróttastelpum upp að Mógilsá í Kollafirði. Á meðan þær skokkuðu í áheitahlaupi upp og niður Esjuhlíðar rölti ég um með hundinn og litaðist um. Á Mógilsá hefur Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins, sem kunnugt er, rekið starfsemi sína um áratuga skeið og má sjá þess glögg merki. Þar hefur vaxið upp mikill og fjölbreyttur skógur.

Skriður og tún eru þakin breiðum af alaskalúpínu og skógarkerfli. Skörtuðu þær sínu fegursta í kvöldsólinni. Að Mógilsá er greinilega unnið ötullega að „endurreisn líffræðilegrar framleiðslu“ á Íslandi með vísindin að leiðarljósi. Við seppi héldum austur yfir lækjargilið eftir stíg sem leiddi okkur um gömul tún og engi í átt til skógar. Þar mættum við eldri hjónum sem létu sér nægja lághlíðarnar eins og við félagarnir. „Óskapaórækt er hlaupin hér í gömlu túnin,“ sagði sá gamli þegar við mættumst. „Hér er allt að verða ófært af kerfli.“ Ég tók undir það með honum. „Ja, ekki hefðu hann afi gamli í Dýrafirði eða hann Dóri minn í Króktúni verið ánægðir með að sjá túnin sín fara svona, en hér er nú ekki búið við sauðfé lengur og nýir tímar teknir við.“ Síðan skildi leiðir, ég gekk áfram, nokkuð hugsi yfir þessu samtali okkar.

Seppi lét sér hins vegar vel líka skógarkerfilinn. Af nefi hans og lappalyftingum mátti ráða að hundar höfðu verið hér á ferð á undan honum. Ekki gátum við þó gert þarna langan stans. Fyrr en varði grillti í léttstígar stelpurnar koma hlaupandi með hlátrasköllum niður að bílastæðinu undir Esjuhlíðum. Við seppi héldum til baka og glöddumst með þeim yfir góðum degi.

Enn eina ferðina hafa á þessu vori risið upp snarpar deildur um lúpínu. Skógarkerfill hefur þar einnig komið við sögu. Rót þessara deilna má rekja til þess að Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hefur boðað að hafnar skuli aðgerðir til að stemma stigu við útbreiðslu alaskalúpínu og skógarkerfils í landinu. Til grundvallar er lögð skýrsla Náttúrufræðistofnunar Íslands og Landgræðslu ríkisins sem unnin var fyrir umhverfisráðherra og kynnt í apríl sl.

Alaskalúpína og skógarkerfill eru skilgreind sem framandi, ágengar plöntutegundir sem ógnað geta líffræðilegri fjölbreytni og vistkerfum á landi sem þær breiðast yfir. Meðal tillagna er að hætt verði að dreifa lúpínu óheft um landið. Þess í stað verði dreifing hennar og notkun bundin við stór, samfelld ógróin svæði þar sem sjálfgræðsla er lítil og uppgræðsla eða skógrækt með öðrum aðferðum erfiðleikum bundin. Landgræðslu ríkisins, sem er aðalframleiðandi og dreifandi á lúpínufræi hér á landi, verði falið að marka þessi svæði. Þau er einkum að finna á gosbeltinu í Árnessýslu, Rangárvallasýslu, Skaftafellssýslu, Norður-Múlasýslu og í Þingeyjarsýslum.

Hörðust gagnrýni á þessar tillögur hefur komið úr herbúðum Skógræktar ríkisins og Skógræktarfélags Íslands. Forsvarsmenn þeirra skiluðu til umhverfisráðherra skriflegum athugasemdum um ofangreinda skýrslu Náttúrufræðistofnunar og Landgræðslunnar. Einnig hafa sumir þeirra farið mikinn í Fréttablaðinu og í bloggheimum. Ekki skal þvertekið fyrir að þeir hafi eitthvað til síns máls. Sá er þessar línur ritar er vistfræðingur og hefur unnið að rannsóknum á alaskalúpínu um árabil. Hann er jafnframt einn af þeim er lögðu á ráðin og unnu að gerð skýrslunnar sem fór svo mjög fyrir brjóstið á yfirmönnum skógræktarmála.

Viðbrögð þeirra eru ekki ný af nálinni. Þau voru mjög fyrirsjáanleg. Undanfarna áratugi hafa forsvarsmenn skógræktarstofnana gagnrýnt mjög og verið allt að því illskeyttir í garð þeirra sem uppi hafa haft raddir um að fara skuli varlega við innflutning, ræktun og dreifingu erlendra plöntutegunda hér á landi. Sífellt er hafinn upp sami söngurinn í herbúðum þeirra: íslenska flóran er fábreytt og lítilfjörleg, gróðurlendi hér á landi er í tötrum og ekki á vetur setjandi, verstur af öllu er lyngmórinn sem er hástig niðurlægingarinnar, bjargráðið er óheftur innflutningur og stórfelld ræktun nýrra tegunda í landgræðslu og skógrækt, ágengar tegundir finnast hvorki hér á landi né erlendis, rannsóknir er fást við framandi lífverur eru hjávísindi, frásagnir og niðurstöður er sýna fram á skaða af þeirra völdum eru að mestu ýkjur, flestir misskilja Ríó-samninginn um líffræðilega fjölbreytni (8. grein h) nema forsvarsmenn skógræktar á Íslandi, varið ykkur á vistfræðingum og þeirra skrifum, vistfræðina má rekja til Ernst Häckel sem hafði einnig áhrif á mótun hugmyndafræði nasismans, vistfræðingar og þeir sem setja vilja skorður við notkun innfluttra tegunda eru haldnir þjóðernishyggju, þeir eru einhliða í málflutningi sínum og gefa sér fyrirfram að „allt útlent sé af hinu illa“.

Það vekur furðu að málflutningur af þessu tagi skuli stöðugt hljóma frá forsvarsmönnum skógræktar hér á landi. Mönnum sem fara fyrir opinberum stofnunum og félagasamtökum sem að mestu eru rekin af almannafé. Er þetta hin opinbera stefna í landgræðslu og skógrækt sem rekin er og studd af umhverfisráðuneytinu og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu? Að mínu viti á hún meira skylt við málflutning sértrúarsöfnuða en almenna stefnu og reglur í umhverfismálum sem ríkja og eru virtar á Vesturlöndum.

Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður Rannsóknastöðvar Skógræktar á Mógilsá, skrifaði mikla grein í Skógræktarritið árið 2005 um framandi og ágengar tegundir í íslenskum skógum og velti upp þeirri spurningu hvort um raunverulega, aðsteðjandi eða ímyndaða ógn væri að ræða. Þeir sem lesa greinina velkjast ekki í vafa um að hvaða niðurstöðu Aðalsteinn kemst.

Inntak greinarinnar og ályktanir eru mjög í ætt við sönginn sem vísað var til hér að ofan. Samstarfsmenn og lærisveinar Aðalsteins hafa margir farið um greinina mjög lofsamlegum orðum og hvatt aðra sem illa eru að sér í þessum fræðum til að kynna sér efni hennar. Þeirra á meðal má nefna Sigvalda Ásgeirsson, framkvæmdastjóra Vesturlandsskóga og skógarbónda í Borgarfirði, sem greinilega hefur hrifist af röksemdafærslu Aðalsteins. Sigvaldi leggur til að greinin verði skyldulesning í náttúrufræðum við Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands. Lestur greinarinnar verki eins og ónæmisaðgerð gagnvart hégiljum og gervivísindum er lifa góðu lífi í báðum skólum, að sögn Sigvalda.

Undirritaður er einn þeirra sem fóru að ráðum Sigvalda og las því aftur grein Aðalsteins. Þeim sem fást við rannsóknir er hollt að kynna sér málin ofan í kjölinn. Þannig bægja þeir frá sér hégiljunum og ástunda síður gervivísindi. Eitt af því sem ég rak augun í við lestur greinar Aðalsteins eru miklar og tíðar tilvitnanir í bók Davids I. Theodoropoulus: „Invasion Biology: Critique of a Pseudoscience“ sem út kom árið 2003 hjá Avvar Books-útgáfunni í Bandaríkjunum. Hugmyndafræði og röksemdir Theodoropoulus falla einstaklega vel að boðskap Aðalsteins og annarra forsvarsmanna Skógræktararinnar sem hljómar þessi misserin.

Ég vil hvetja skógræktarmenn, vistfræðinga og aðra er láta sig þessi mál varða til að kynna sér fræði Theodoropoulus. Einnig hvaða viðtökur og gagnrýni bók hans fékk á sínum tíma í fræðaheiminum.

Að mati undirritaðs eru forsvarsmenn Skógræktar ríkisins komnir í blindgötu í stefnu sinni og málflutningi um innflutning plantna og notkun þeirra í landgræðslu og skógrækt. Engu er líkara en órækt sé hlaupin í hugsun og gerðir. Það eru ráðþrota menn sem bera þjóðernishyggju upp á þá sem ekki eru þeim sammála í einu og öllu. Mál er að linni.

Höfundur er forstöðumaður vistfræðideildar Náttúrufræðistofnunar Íslands. Hann er félagi í Náttúrufræðifélagi Íslands. Jafnframt er hann félagi í Skógræktarfélagi Íslands frá árinu 1984 og hefur lagt hönd á plóg við skógrækt á óðali feðranna undir Eyjafjöllum um 30 ára skeið

Aðalsteinn Sigurgeirsson, 19.3.2011 kl. 16:05

20 Smámynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

HÉR (á bloggi Tryggva Felixsonar) er að finna meiri umræðu og skoðanaskipti um fyrirbærið „Niturmengun af völdum barrtrjáa“.

Aðalsteinn Sigurgeirsson, 20.3.2011 kl. 14:07

21 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk kærlega Aðalsteinn fyrir svarið

Aðalsteinn: Afsakaðu síðbúin svör, sem stafar aðallega af heldur dræmum áhuga á þessari ófrjóu umræðu

Ég hélt að samræður okkar væru þér jafn kærar og hugvekjandi og mér. En við látum hvorki tilfinningar og persónur flækjast fyrir umræðunni.

Þú segist ekki hafa haldið því fram að "hjarðhugsun" og persónuníð mætti eingöngu finna hjá vistfræðingunum. En samt fannst þér við hæfi að líma einungis inn greinar frá vistfræðingunum sem dæmi um hjarðhugsun í athugasemdum við grein Ágústar. Ég hef ítrekað beðið þig um dæmi um "ad hominem" (stundum kallað persónuníð) í skrifum þeirra en fátt hefur verið um svör (þú mátt alveg benda mér á hvað í grein Borgþórs flokkast sem árás á manninn (ad hominem)). Ég hef einnig beðið þig um gæta sannmælis og athuga hvort skógræktarfólk hafi gerst sekt um að beita "ad hominem" rökum. Því svarar þú:

Ég mun ekki ráðast í það stórvirki að gera ítarlega samanburðarrannsókn á alvarleika hjarðhugsunar eða ad hominem í orðræðunni meðal skógræktarfólks annarsvegar og vistfræðingum hinsvegar (sem vel að merkja er að hluta sniðmengi). Slíkt mat væri áreiðanlega áhugavert fyrir einhvern ungstúdent í leit að ritgerðarefni í félagsvísindum, en liggur utan við minn reynsluheim og nennu. 

Það sem fyrir mér vakti var að vekja athygli þína á því að þú (með því að líma BARA inn tengla á greinar vistfræðinganna) stundaðir sömu sleggjudómana og þú ásakaðir vistfræðingana um að stunda. Það er ekki nóg að vita að maður sjái bara flís í auga annara en ekki bjálkann í sínu eigin. Maður verður að geta horfst í augu við galla í sínum eigin málflutningi. Ég er tilbúinn að viðurkenna mistök í mínum málflutningi (sbr. Nitur og barrtré að ofan), en ég hef aldrei séð þig viðurkenna neitt slíkt.

Ég tel mig hvorki til vistfræðinga né skógfræðinga.

Arnar Pálsson, 20.3.2011 kl. 16:21

22 Smámynd: Sigvaldi Ásgeirsson

Er ekki mergurinn málsins sá, að hinn hógværi vísindamaður, Pétur Jónasson fer með staðlausa stafi? Sé það rétt hjá honum, að marflær í Þingvallavatni hafi einangrast í vatninu fyrir 19 milljónum ára, þá hefur Þingvallavatn lengst af starfsæfi sinnar búið við vatnasvið, sem var skógivaxið að mestu leyti. Um þetta má sækja sér fróðleik í grein, sem þeir Friðgeir Grímsson og Leifur A. Símonarson rituðu í Skógræktarritið, 2. tbl. 2008. Þeir félagar vitna í meira en 50 heimildir og hafa rannsakað málið sjálfir, þ.e. surtarbrandslög, önnur setlög og steingervinga á Íslandi. Menn hafa komist að því, að fyrir um 15 milljónum ára voru hérlendis lauf- og barrviðarskógar, sem uxu á efri hluta láglendis og upp í mun hálendari svæði. Tegundir, sem þá uxu hér eru nú útdauðar, en nánir ættingjar þeirra vaxa í dag í heittempruðum og tempruðum lauf- og barrskógum á austur og vesturströnd N-Ameríku, í A-Evrópu og V-Asíu, við norðan og austanvert Svartahaf, sunnanvert Kaspíahaf og í Austur-Asíu allt suður til S-Víetnams. Smám saman kólnaði veðurfar á landinu og fyrir 6-9 milljónum ára voru barrtré orðin meira ríkjandi en áður, án þess að það hafi orðið marflóm í Þingvallavatni að aldurtila. Þar sem kuldaskeið ísaldar tóku ekki að gera sig gildandi fyrr en fyrir liðlega tveimur milljónum ára, má ljóst vera, að marflærnar í Þingvallavatni lifðu það af, að barrskógur væri ríkjandi á vatnasviði Þingvallavatns (eða forvera þess) um milljónir ára. Þegar við bætast nýlegar rannsóknir, sem sýna að súrnun jarðvatns eða losun niturs er síst meiri í barrskógi á Íslandi en í lyngmóa, sbr. Bjarni Diðrik Sigurðsson o.fl., má ljóst vera, að kenning Péturs M Jónassonar stenst ekki nánari skoðn.

Það ætti að vera keppikefli vísindamanna að hafa jafnan það er sannara reynist. Í drögum að siðareglum fyrir félaga í FÍN er beinlínis ætlast til þess, að félagar taki virkan þátt í samfélagsumræðunni, þegar hún snertir þeirra svið og leiðrétti rangfærslur. Ekki er ólíklegt að fleiri félög raunvísindamanna geti skrifað uppá siðareglur af þessu tagi. Hafa ber í huga, að fjöldi fólks, sem lítt þekkir til náttúrufræða, trúir orðum Péturs Jónassonar, af því að hann er/var prófessor og virtur vísindamaður á sínu sviði. Þeim mun nauðsynlegra er að rangar fullyrðingar hans, sem hann hefur þrástagast á um árabil, verði leiðréttar - ekki einungis af skógræktarmönnum, heldur líka af öðrum aðilum vísindasamfélagsins. Pétri er enginn greiði gerður með því að láta hjá líða að benda honum á villu síns vegar. Ef hann skynjar ekki sinn vitjunartíma, má kannski fyrirgefa honum, vegna þess hve aldurhniginn hann er. En vissulega kastar háttsemi hans rýrð á æfistarf hans. Ef menn eru vinir hans, eiga þeir að sýna honum virðingu og benda honum á að hann gengur villur vegar. Gamalt fólk á fulla virðingu skilið, en þarf stundum á aðstoð að halda.

Með bestu kveðju, Sigvaldi Ásgeirsson

Sigvaldi Ásgeirsson, 21.3.2011 kl. 16:14

23 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Varðandi rannsóknir á náttúru landsins eru samanburðarrannsóknir ætíð mjög mikilvægar. Í Borgarfirði í einum fegursta dal landsins er gríðarlega mikill skógur, meira að segja barrskógur að miklu leyti! Þar er einnig hávöxnustu birkiskógaleifar á Vesturlandi eða það sem lifir af gamla Klausturskóginum sem mun hafa tilheyrt Viðeyjarklaustri forðum daga.

Skorradalsvatn hefur orðið fyrir miklum áhrifum vegna mannsins á liðinni öld og eru þær afdrifaríkar mjög fyrir allt lífríki Skorradalsvatns. Freysteinn Sigurðsson heitinn mikill sérfræðingur í vatnafræðum og jarðfræðingur ritaði afarvæna Árbók Ferðafélag Íslands fyrir 2004. Freysteinn var einstakur náttúruverndarmaður en ætíð mjög hógvær og forðaðist að taka of djúpt í árina í allri umræðu. Í þessari árbók FÍ um Borgarfjarðardali kemst hann svo nærgætnilega að orði að lífríki vatnsins sé allt í rugli.

Nú er það ekki niturmengun frá barrtrjánum ef marka mætti fullyrðingar sumra fræðimanna heldur stíflugerð vegna virkjunar Andakílsár. Stíflan var hækkuð fyrir nálægt 40 árum og sveiflast yfirborð vatnsins um 2 - 3 metra sem veldur mikillri truflun á viðgangi vatnalífsins.

Fyrir tæpum áratug var Skorradalsvatn rannsakað á vegum Náttúrufræðistofnunar Kópavogs og var birt niðurstaða þeirrar rannsóknar: Áhrif vatnsmiðlunar á vatnalífríki Skorradalsvatns og má sækja skýrsluna á slóðinni: http://www.natkop.is/utgefid/page.asp?ID=350

Í skýrslunni eru auðvitað eðlilegir fyrirvarar að sitthvað þarfnist nánari athugana enda þarf að skoða sitthvað fleira og endurtaka rannsóknir til að prófa áræðanleika niðurstaða. Þá er skýrsla þessi fyrst og fremst forkönnun. Ekki er minnst aukateknu orði á mengun af neinu tagi, hvorki af völdum niturs eða annara efna.

Varðandi Þingvallavatn hefur Náttfr.st. Kópavogs látið frá sér fara a.m.k. 3 skýrslur: „Vöktun á lífríki og vatnsgæðum Þingvallavatns“ fyrir árin 2007, 2008 og 2009 og sækja má á slóðina:

http://www.natkop.is/utgefid/page.asp?ID=470 

Í síðustu skýrslunni segir m.a.:

Vatnshiti mældist 4,3–10,9ºC yfir allt tímabilið. Vísbendingar voru um mjög veik hitaskil í vatninu í júlí á 12–17 m dýpi (2°C fall á 5 m dýptarkafla). Sýrustig mældist 7,17–8,97 pH og uppleyst súrefni 11,5–15,1 mgO2/l og að meðaltali 12,3 mgO2/l (± 0,08 st.sk.). Súrefnismettun var mikil, 99–132% og að meðaltali 107% (± 0,7). Rafleiðni mældist 70–78 ?S/cm og 75 ?S/cm (± 0,2) að meðaltali yfir allt tímabilið.

Ekki er heldur minnst aukateknu orði á mengun af neinu tagi í þessari skýrslu, hvorki af völdum niturs eða annara efna.

Spurning er hvort einhvern tíma megi tengja barrtrén í Þingvallaskógi við niturmengun en það má sjálfsagt lengi bíða eftir slíkum niðurstöðum fyrst þær koma ekki fram núna.

Góðar stundir

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 21.3.2011 kl. 21:55

24 Smámynd: Aðalsteinn Sigurgeirsson

Viltu [Þingvalla]vatn? Vernda þú þá skóga!

(Want water? save forests)

„[Skógar] draga úr áhrifum flóða, hindra jarðvegsrof, tempra vatnsborð og tryggja gæði neysluvatns fyrir fólk, iðnað og landbúnað,“ sagði Eduardo Rojas-Briales hjá Matvæla-og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO). „Skógar eru hluti af eðlilegum innviðum hvers lands og eru nauðsynlegir fyrir vatnshringrásina“.

auki draga skógar úr áhrifum þurrka, um leið og þeir koma í veg fyrir gróðureyðingu og saltmengun jarðvegs. Einnig hefur verið sýnt fram á að eyðing í regnskóga í hitabeltinu dregur staðbundið úr úrkomu. auki benda nýjustu rannsóknir til þess að samhengi sé á milli skógarþekju og vinda sem bera með sér úrkomu á land.

„Vatnsskortur er að verða æ ógnvænlegra vandamál eftir því sem fleiri uppsprettur neysluvatns mengast, vatnsneysla eykst og loftslagsbreytingar draga úr framboði á vatni, vegna bráðnunar jökla og eyðimerkurmyndunar. Samkvæmt SÞ, þjást 1,8 milljarðar manna af „algjörum vatnsskorti“ og innan 15 ára er áætlað að tveir þriðju hlutar jarðarbúa gætu búið við verulegan vatnsskort. Eins og staðan er í daga, hefur 20% fólks í þróunarlöndunum ekki aðgang að hreinu vatni.

Stjórnun vatnsauðlinda og meðferð skóga eru nátengd fyrirbæri og krefjast nýstárlegar, lausnamiðaðrar stefnumótunar sem tekur tillit til þverfaglegs eðlis þessara mikilvægu auðlinda“, sagði Jan McAlpine, framkvæmdastjóri Skógavettvangs Sameinuðu þjóðanna (UN Forum on Forests).

Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst árinu 2011 sem alþjóðlegu ári skóga.

Aðalsteinn Sigurgeirsson, 21.3.2011 kl. 22:15

25 Smámynd: Sigvaldi Ásgeirsson

Í framhaldi af því sem að ofan greinir, er rétt að benda á það, að skógar eru notaðir til að hreinsa vatn, bæði grunnvatn og þau vötn sem grunnvatnið skilar sér út í. Þetta er gert út um alla Evrópu, þar sem mengun af völdum þaulræktunar landsins er orðin mikil, bæði áburðarmengun (þar sem fosfór en ekki nitur stuðlar hvað mest að þörungablóma, enda væntalega nóg af nitri í jarðvatni víðast í Evrópu, bæði vegna áburðarmengunar og loftmengunar). Reyndar er það álitaefni, hvort nitur eitt og sér nægir til að mynda þörungablóma, ef á sama tíma skortir fosfór. Í Danmörku þekja skógar nú meira en 15% lands og ætlunin að auka það hlutfall í 25% á næstu áratugum. Það er einkum hreinsun grunnvatns, auk tekna af timbrinu, sem veldur því, að Danir vilja breyta akurlendi í skóg - aftur.

Sigvaldi Ásgeirsson, 22.3.2011 kl. 10:18

27 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Sigvaldi

Pétur sagði reyndar að í vatninu byggju elstu lífverur landsins, ekki að þær hafi búið þar í 19 milljón ár. Þú hlýtur að vita að Þingvallavatn er yngra en svo.

Ég get alveg samþykkt að Pétur hafi, að öllum líkindum, farið með rangindi þegar hann hélt því fram að barrtrjáalundir menguðu Þingvallavatn. Hins vegar fjallaði pistill minn ekki um barrtré, nema að mjög litlu leyti og í framhjá hlaupi. Pistill minn fjallaði um merkilegan vísindamann, og við vitum öll að vísindamenn eru mannlegir og gera sínar skyssur. Þú ert að hvetja mig til þess að gagnrýna staðhæfingar Péturs um barrtrén opinberlega, sem ég mun ekki gera. Hins vegar mun ég í framtíðinni svo sannarlega vera gagnrýnni á staðhæfingar mikilla manna, sama hvort þeir séu vistfræðingar, skógfræðingar eða listfræðingar.

Mosi

Takk fyrir fræðsluna.

Aðalsteinn og Sigvaldi um trjárækt og vatn.

Ég veit vel að skógar veita mikla vistfræðilega þjónustu, sérstaklega hvað varðar hreinsun vatns, miðlun þess og baráttu gegn þurrkum. Ef við viljum vernda Þingvallavatn, þá tel ég óþarfi að rækta þar meiri barrskóg.

Aðalsteinn
Ég ítreka fyrri athugasemd (leyfi mér að klippa og líma eins og þú)

Þú segist ekki hafa haldið því fram að "hjarðhugsun" og persónuníð mætti eingöngu finna hjá vistfræðingunum. En samt fannst þér við hæfi að líma einungis inn greinar frá vistfræðingunum sem dæmi um hjarðhugsun í athugasemdum við grein Ágústar. Ég hef ítrekað beðið þig um dæmi um "ad hominem" (stundum kallað persónuníð) í skrifum þeirra en fátt hefur verið um svör (þú mátt alveg benda mér á hvað í grein Borgþórs flokkast sem árás á manninn (ad hominem)). Ég hef einnig beðið þig um gæta sannmælis og athuga hvort skógræktarfólk hafi gerst sekt um að beita "ad hominem" rökum. Því svarar þú:

Ég mun ekki ráðast í það stórvirki að gera ítarlega samanburðarrannsókn á alvarleika hjarðhugsunar eða ad hominem í orðræðunni meðal skógræktarfólks annarsvegar og vistfræðingum hinsvegar (sem vel að merkja er að hluta sniðmengi). Slíkt mat væri áreiðanlega áhugavert fyrir einhvern ungstúdent í leit að ritgerðarefni í félagsvísindum, en liggur utan við minn reynsluheim og nennu. 

Það sem fyrir mér vakti var að vekja athygli þína á því að þú (með því að líma BARA inn tengla á greinar vistfræðinganna) stundaðir sömu sleggjudómana og þú ásakaðir vistfræðingana um að stunda. Það er ekki nóg að vita að maður sjái bara flís í auga annara en ekki bjálkann í sínu eigin. Maður verður að geta horfst í augu við galla í sínum eigin málflutningi. Ég er tilbúinn að viðurkenna mistök í mínum málflutningi (sbr. Nitur og barrtré að ofan), en ég hef aldrei séð þig viðurkenna neitt slíkt.

Arnar Pálsson, 22.3.2011 kl. 11:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband