18.3.2011 | 18:00
Erfðatæknin og vísindin
Í framhaldi af þingsályktunartillögu um skipan nefndar sem á að útfæra bann á útiræktun á erfðabreyttum lífverum á Íslandi ( "Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp er vinni að breytingum á lögum og reglugerðum í þeim tilgangi að banna útiræktun á erfðabreyttum lífverum eigi síðar en 1. janúar 2012."), greinarskrifum 37 líffræðinga, lækna og erfðafræðinga (Athugasemd til Alþingis) skrifaði Gunnar Ágúst Gunnarsson grein í Morgunblaðið (9. mars 2011 - sjá viðhengi með pistli). Grein Gunnars er titluð vísindamenn í fjötrum sérhagsmuna. Slíkum aðdróttunum er ekki hægt að láta ósvarað, og að því tilefni tóku nokkrir af 37 menningunum sig saman og rituðu andsvar sem birtist í morgunblaði gærdagsins (17. mars 2011). Sú grein birtist hér að neðan í heild sinni.
Erfðatæknin og vísindin
Við lítum á það sem mikilvægt hlutverk fræðasamfélagsins að halda á lofti vísindalegum rökum í hverju máli svo að stjórnvöld og almenningur í þessu landi geti tekið upplýstar ákvarðanir.
Gunnar Ágúst Gunnarsson ritar harðorða grein í Morgunblaðið 9. mars s.l. þar sem hann vænir 37 vísindamenn við helstu fræðastofnanir þjóðarinnar um að ganga erinda sérhagsmuna. Það er þó erfitt að átta sig á því í hverju þessir sérhagsmunir eru fólgnir.
Tilefnið eru athugasemdir hópsins við þingsályktunartillögu um útiræktun á erfðabreyttum lífverum sem nú liggur fyrir Alþingi. Við vísum ásökunum Gunnars alfarið á bug. Þær eiga ekki við nein rök að styðjast og eru nánast ærumeiðandi.
Við lítum á það sem mikilvægt hlutverk fræðasamfélagsins að halda á lofti vísindalegum rökum í hverju máli svo að stjórnvöld og almenningur í þessu landi geti tekið upplýstar ákvarðanir. Því miður er greinargerðin með þingsályktunartillögunni að verulegu leyti byggð á misskilningi, vanþekkingu og fordómum og því teljum við það skyldu okkar að bregðast við. Er það bæði í anda þess sem hvatt er til í rannsóknarskýrslu Alþingis, sem gefin var út í kjölfar hrunsins, og laga um opinbera háskóla. Í 3. grein þeirra segir að háskólar skuli miðla fræðslu til almennings og veita þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar. Lög ætti aldrei að innleiða nema á grundvelli allrar þeirrar þekkingar sem til á hverjum tíma. Greinargerðin endurspeglar ekki slíka þekkingarþrá.
Hins vegar er ekki loku fyrir það skotið að sumir lífrænir ræktendur sjái sér hag í að þingsályktunartillagan nái fram að ganga enda er notkun erfðabreyttra lífvera og efna sem eru leidd af erfðabreyttum lífverum bönnuð í lífrænni ræktun, skv. reglugerð nr. 74/2002 um lífræna framleiðslu landbúnaðarafurða og merkingar. Gunnar Ágúst gleymir að geta þess að hann er framkvæmdastjóri Vottunarstofunnar Túns. Hann er sérlegur talsmaður þess að auka lífrænan búskap og hann hefur lífsviðurværi sitt af því að votta lífræna framleiðsluhætti.
Erfðatækni gerir okkur kleift að flytja erfðaefni milli óskyldra lífvera en um hana hafa staðið miklar deilur. Því hefur verið haldið fram að slíkt gerist ekki í náttúrunni og beiting hennar sé því andstæð ætlan guðs, eins og Karl Bretaprins komst eitt sinn að orði. Erfðabreyttar lífverur af öllu tagi séu þess vegna hættulegar bæði umhverfinu og öðrum lífverum. Gunnar vísar til nokkurra vísindagreina því til stuðnings að útiræktun erfðabreyttra lífvera sé hættuleg. Flestar þeirra hafa verið harðlega gagnrýndar (sjá t.d. http://academicsreview.org/). Aftur á móti hundsar hann mikinn fjölda greina sem hafa ekki fundið nein neikvæð áhrif. Slík vinnubrögð eiga meira skylt við áróður en fræðimennsku.
Það er samdóma álit þeirra vísindamanna sem gerst þekkja að áhætta af ræktun og nýtingu erfðabreyttra lífvera sé hverfandi. Í þessu sambandi er rétt að benda á ályktanir í nýlegri skýrslu á vegum Evrópusambandsins þar sem sjónum var beint að niðurstöðum rannsókna á öryggi erfðabreyttra plantna fyrir umhverfi, menn og skepnur (http://ec.europa.eu/research/biosociety/pdf/a_decade_of_eu-funded_gmo_research.pdf). Frá árinu 1982 hefur sambandið lagt í þessar rannsóknir rúmar 300 milljónir evra, eða um 48 milljarða króna, og niðurstaðan er klár og kvitt: Líftæknin sem slík, og þá einkum erfðabreyttar plöntur, hefur ekki meiri hættu í för með sér en t.d. hefðbundnar kynbótaaðferðir.
Mestur styr á liðnum árum hefur staðið um beitingu líftækni í landbúnaði. Hefur henni verið stillt upp sem andstæðu búskaparhátta er byggjast á að draga úr öllum aðföngum eins og kostur er. Þessar tvær leiðir útiloka ekki hvor aðra þvert á móti. Á næstu árum þarf að framleiða enn meiri mat án þess að ganga á gæði jarðarinnar frekar en orðið er. Til þess þarf að beita öllum tiltækum ráðum sem byggjast á vísindalegum grunni. Í stað þess að einblína á tæknina eða aðferðafræðina er langtum mikilvægara að leggja mat á hvort úrræðin séu gagnreynd (e. evidence based) og leiði til þess árangurs sem að er stefnt. Með sama hætti er nauðsynlegt að vega og meta hugsanlega áhættu af nýrri tækni í samhengi við hugsanlegan kostnað sem hlytist af því að nýta hana ekki í stað þess að vísa sífellt í grunnfærnislegar útgáfur af varúðarreglunni margumtöluðu.
Við gerum okkur engar vonir um að hinir eitilhörðu andstæðingar erfðatækninnar láti sannfærast af þessum skrifum okkar. Hins vegar treystum við því að þingmenn og almennir lesendur séu reiðubúnir að hlusta á rök frá hlutlausum sérfræðingum frá helstu fræðastofnunum þjóðarinnar á þessu sviði.
Arnar Pálsson dósent, Háskóla Íslands
Áslaug Helgadóttir prófessor, Landbúnaðarháskóla Íslands
Eiríkur Steingrímsson prófessor, Háskóla Íslands
Guðmundur Eggertsson, prófessor emerítus, Háskóla Íslands
Magnús Karl Magnússon prófessor, Háskóla Íslands
Már Másson, prófessor, Háskóla Íslands
Ólafur S. Andrésson, prófessor, Háskóla Íslands
Þórunn Rafnar framkvæmdastjóri krabbameinsrannsókna, Íslenskri erfðagreiningu
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
"Á næstu árum þarf að framleiða enn meiri mat án þess að ganga á gæði jarðarinnar frekar en orðið er. Til þess þarf að beita öllum tiltækum ráðum sem byggjast á vísindalegum grunni. Í stað þess að einblína á tæknina eða aðferðafræðina er langtum mikilvægara að leggja mat á hvort úrræðin séu gagnreynd (e. evidence based) og leiði til þess árangurs sem að er stefnt"
1) Já einmitt, og það er helsta röksemdin fyrir GMO..en GMO tilraunir hafa mistekist hvað varðandi aukningu á framleiðslu. GMO tilraunum hefur verið hætt í nokkrum Afríku löndum vegna þess að engin árangur náðist. Ekki einu sinni GMO-paradísin í BNA...engin árangur. http://www.ucsusa.org/food_and_agriculture/science_and_impacts/science/failure-to-yield.html
Lífræn ræktun hefur hins vegar sannað sig allstaðar þar sem hún er reynd. og nú er svo komi að meira að segja SÞ hafa samþykkt þetta eftir að hafa farið yfir þær rannsóknir sem liggja fyrir...og reynslan er sú að lífræn ræktun tvöfaldar afköst á 3 til 10 árum..merkilegt að fjölmiðlarnir sýna þessu ekki athygli ha?
http://www.srfood.org/images/stories/pdf/press_releases/20110308_agroecology-report-pr_en.pdf
2) Lífrænar erfðabreytingar hafa gefist miklu betur en GMO
http://www.bangmfood.org/feed-the-world/17-feeding-the-world/14-non-gm-breakthroughs
"Flestar þeirra hafa verið harðlega gagnrýndar (sjá t.d. http://academicsreview.org/). Aftur á móti hundsar hann mikinn fjölda greina sem hafa ekki fundið nein neikvæð áhrif. Slík vinnubrögð eiga meira skylt við áróður en fræðimennsku."AP
Þetta er hrein áróðurssíða sem þú bendir á, og heimildirnar eftir því..
http://academicsreview.org/about-academic-review/founders/
(David Tribe)
Ath heimildir sem bent er á á þessari síðu:
The International Service for the Acquisition of Agri-Biotech Applications (ISAAA) is funded by Northern developers of GMOs, with the aim of helping developing countries in the South take up GM technology. Funders past and present include Bayer CropScience, Monsanto, Syngenta,
ISAAA's multi-million dollar budget is matched by high-profile board members, past and present, such as: Monsanto's Robert Fraley, Wally Beversdorf of Syngenta, and Gabrielle Persley, Executive Director of AusBiotech Alliance and advisor to the World Bank. ISAAA has no representatives, however, from farmer organizations in areas like Africa. http://www.powerbase.info/index.php/ISAAA
With Monsanto amongst its funders, the IPA has a specific focus on 'biotechnology', saying it wants to "combat the misinformation put out by radical groups' who oppose genetic engineering". It claims this technology is actually 'safer', 'cheaper' and 'more environmentally friendly' than conventional plant or animal breeding. Among the scientists who have promoted GM crops from IPA platforms are CS Prakash, Klaus Ammann and Steve Hughes. Amongst its published materials are items by CS Prakash and David Tribe
http://www.powerbase.info/index.php/Institute_of_Public_Affairs
http://www.powerbase.info/index.php/International_Food_Information_Council
magus (IP-tala skráð) 19.3.2011 kl. 08:07
Sæll Magus
Ef GMO plöntur sem þróaðar voru fyrir BNA virka ekki í Afríku, þá á ekki að nota þær í Afríku. En ef þær gefa mesta uppskeru í BNA, þá á að nota þær í BNA. Sammála?
Ræktun og kynbætur er erfiður bransi, og ég er mótfallin því að við útiloka erfðatæknina sem verkfæri við kynbætur. Hefðbundnar kynbætur; kynbótaval, æxlanir fjarskyldra yrkja, blendingsyrki í sáningar skiluðu mikilli aukningu í framleiðni á síðustu öld, (einnig skipti máli vélvæðing landbúnaðar og áburðargjöf).
Það er tæp hálf öld síðan fræframleiðsla fór að einskorðast við nokkra aðilla, sem ræktuðu bestu fræin. Gallinn við það er tvíþættur. A) Fræframleiðendur fengu einokunaraðstöðu og B) fjölbreytni frægerða á markaði minnkaði. Það ætti að vera augljóst að landsvæði, t.d. í mismunandi fylkjum eru misheppileg fyrir ræktun, og maísafbrigði sem plummar sig vel í Indiana virkar kannski ekki í Nebraskamold, og það er næsta ómögulegt að rækta maís í Norður Karólínu út af rýrum jarðvegi (þess vegna rækta þeir aðallega tóbak!).
Gallarnir á þessu kerfi eru því margir, en ekki einskorðaðir við GMO!
Staðhæfingarnar sem Gunnar setti fram voru tilvitnanir í einstaka rannsóknir sem fundu eitthvað, oft mjög smávægilegt, athugavert við áhrif erfðabreyttra plantna. Í mörgun tilfellum voru rannsóknirnar illa hannaðar (t.d. án viðmiðunarhópa). Samantektin á academicreviews.org er bara eitt dæmi um gagnrýni á þessar rannsóknir. Það að D. Tribe hafi tengsl við líftækniðnað eða fyrirtæki trompar alls ekki gagnrýnina á rannsóknirnar. Allar stórar samantektir, líka af hinu GMO-óvilhalla ESB, hafa ályktað að þær GMO afurðir sem eru á markaði séu ekki hættulegar dýrum (og þar með mönnum). Gunnar gerir sig sekan um að benda á einn svartan sauð, en hundsa hundrað hvítar kindur. Hann hrópar síðan - allar kindur eru svartar - bönnum þær. Þú hlýtur að sjá að slík vinnubrögð eru fyrir neðan allar hellur.
Varðandi notagildi líffrænnar ræktunar. Við vitum að græna byltingin var ekki án kostnaðar, og mér þykir mikils umvert að framleiðsla í landbúnaði í þróunarlöndunum sé ekki um of á kostnað umhverfisins og raski ekki um of byggðasamsetningu ofl. Það er ekkert vit í að setja iðnvædda búgarða upp í Afríku, eins og er reyndar komið í gang í Austur Evrópu eftir fall múrsins! Ég er hallur undir lífrænan landbúnað, en samkvæmt minni skilgreiningu þá getur maður allt eins stundað lífrænan landbúnað - og sáð erfðabreyttu fræi (ef það gefur mest af sér). Gunnar og vottunarstofan hans tóku hins vegar upp reglu um að til að lífræn býli fái vottun þurfi þau að vera 10-20 km frá GMO ökrum (býlum). Reglan er, að því ég tel, ættuð frá Evrópskum lífrænnar-ræktunar-vottunarstofum, og ég þori að veðja ef við rekjum uppruna þessara 10-20 km reglu finnum við engar "vísindalegar" staðreyndir. Mig grunar að þessar tölur hafi bara verið dregnar upp úr hatti, til að gefa herlegheitunum virðulegra yfirbragð (tölur eru alltaf meira traustvekjandi en orð).
Arnar Pálsson, 20.3.2011 kl. 14:12
1) Helsta forsendan fyrir GMO er fallin: ekki meiri uppskera
- GMO hefur ekki bætt uppskeru, ekki einu sinni í BNA þar sem þessar tilraunir hafa verið mestar og í lengstan tíma. Og það voru GMO plöntur sérhannaðar fyrir BNA, svo það sé á hreinu.
2) "Lífrænar" erfðabætur hafa á sama tíma skilað miklum árángri árangri, fyrir utan meiri uppskeru, m.a. með því að leysa vandamál sem GMO tókst ekki, sjá tengilin sem ég benti á í fyrri færslunni.
3) Ef þú skoðar atriði 1 og 2 þá sérðu að helstu forsendurnar fyrir GMO eru fallnar án þess að fara í önnur atriði varðandi áhættu, skemmdir á vistkerfinu og svo neytendum...og mengunarvandamál.
4) Verksmiðjulandbúnaðurinn/GMO er að eyðileggja vistkerfi jarðarinnar og jarðveginn sjálfann..og þetta er stórkostlegt vandamál vegna þess að því snauðari sem jarðvegurinn er að næringarefnum, því lélegri verður fæðan, og sífellt meiri utanaðkomandi efni(áburð etc) þarf til að viðhalda uppskeru, og þannig versnar jarðvegurinn enn frekar....... þetta er eitt helsta vandamálið varðandi hlýnun jarðar því notkun á utanaðkomandi áburð veldur keðjuverkandi áhrifum sem auka á hlýnun og það sem verra er, þau gera jörðina viðkvæmari sem eykur enn á skemmdir...þetta er vítahringur sem gengur aldrei upp.
5) ÞAð er bara EIN langtímalausn:
Það verður að stórminnka notkun á áburð, og skipta yfir í lífrænar ræktunaraðferðir sem byggja upp jarðveginn! - ÞAð sem er svo frábært við lífræna ræktun er það að hún byggir upp jarðveginn í stað þess að eyðileggja! Skv SÞ er algegnt að tvöfalda megi uppskeru á 3 til 10 árum...en það sem er jafnvel mikilvægara er sú staðreynd að það er hægt a byggja upp jarðveginn og landið sem heild, styrkja vistkerfið í stað þess að eyðileggja það..
6) GMO og lífrænn búskapur eru andstæður sem fara ekki saman. Forsendan fyrir því að þessi fyrirtæki græða peninga er sú að bændur verða háðir þessum fyrirtækjum um fræ og áburð, í stað þess a vera sem mest sjálfbærir....GMO er auk þess nánast eingöngu hannað fyrir stórvirkan landbúnað sem er einnig í andstöðu við lífrænan búskap.
7) Auk þess eru ýmis önnur vandamál, t.d. hvað gerist þegar fræ fjúka frá GMOræktun yfir á önnur svæði, svo sem á lífrænt býli...á lífræni bóndinn að fá skaðabætur eða á hann að borga GMOfyrirtækjunum skaðabætur fyrir að rækta GMO í leyfisleysi(eins og gerist í BNA)?
8) Meintar öryggisprófanir á GMOfæðu er mest blekking byggt á "substantial equivalence"= engar prófanir gerðar
En rannsóknir hafa gefið til kynna áhættu..
magus (IP-tala skráð) 21.3.2011 kl. 07:57
http://www.theparliament.com/latest-news/article/newsarticle/eu-urged-to-carry-out-complete-overhaul-of-food-agency/
magus (IP-tala skráð) 21.3.2011 kl. 08:02
magus (IP-tala skráð) 21.3.2011 kl. 08:11
Magus
Ég held við séum sammála um að Monsanto sé af hinu illa, og að verksmiðjulandbúnaður sé ekki gallalaus. En þú verður að geta greint á milli tækninnar og rekstrarformsins (sbr: "Verksmiðjulandbúnaðurinn/GMO er að eyðileggja vistkerfi jarðarinnar og jarðveginn sjálfann..og þetta er stórkostlegt vandamál vegna þess að því snauðari sem jarðvegurinn er að næringarefnum....")
Við erum líka sammála um mikilvægi hefðbundinnar ræktunar, og ég held að hefðbundin ræktun, og hin nýja aðferð kortlagning- og kynbótaval (marker assisted breeding) eigi eftir að leysa GMO af hólmi.
Þú segir að 1) ávinningurinn af GMO sé lítill sem enginn og að 2) lífræn ræktun dugi til að auka framleiðni í landbúnaði. Ávinningurinn af GMO hefur kannski ekki verið jafn mikill og vonast var til, en hann er samt raunverulegur (sérstaklega fyrir BT-maís). Það er samt ekki ástæða til að fleygja tækninni! Ég er því ósammála atriði 1.
Ég er einnig ósammála atriði 2), lífrænn landbúnaður er ekki með sömu framleiðni og hefðbundinn landbúnaður (sem nýtir tilbúin áburð - reyndar hérlendis í miklu hófi, sýklalyf og efnafræðilega unnin eiturefni í baráttu við pestir). Vera má að lífrænn landbúnaður leysi viss vandamál sem græna byltingin gat ekki, en á móti koma ný vandamál. Lífrænn landbúnaður þarf meira land, því framleiðsla á flatarmálseiningu er minni, og meiri mannafla. Það er ekki tilviljuna að lífrænar matvörur eru dýrari en matvörur ræktaðar með hefðbundnum aðferðum.
Því er ég ósammála álytkun þinni að við þurfum ekki á GMO tækninni að halda.
Varðandi heilsufarsáhættu af GMO plöntum, þá þykir mér þú vitna heldur valkvætt í nokkrar stúdíur en hundsa niðurstöðu rúmlega hundrað annara. En kannski er það réttlætanlegt ef maður hefur "rétt" fyrir sér, eins og Gunnar.
Arnar Pálsson, 22.3.2011 kl. 10:33
1) Ég benti á rannsóknir um skaðsemi af völdum neyslu GMO til að minna á að rannsóknir hafa verið gerðar sem sýna fram á hættumerki svo ekki meira sé sagt...og ítreka að að þessar rannsóknir voru grafnar ofaní skúffu....á sama tíma og GMO áhugamenn (ásamt Monsanto og co)fullyrða að rannsóknir hafi sannað öryggi GMO...en eins og hefur komið fram þá er öryggi GMO byggt á blekkingu sem heitir "substantial equivalence" sem þýðir að engar rannsóknir eru gerðar.
Er hugsanlegt að þú berir ófarflega mikið traust til GMO fyrirtækjanna?
2) Líffræn ræktun þarf ekki meira land - Mestu afköstin koma frá lífrænum blönduðum búskap: Þessar aðferðir gefa meira af sér en allar aðrar, þ.á.m. verksmiðjubúskapurinn. Nú hafa orðið töluverð tímamót þar sem S.Þ hafa viðurkennt þetta opinberlega...
3) Ég er ekki að tala um að henda tækninni, nema þegar kemur að því að fæða heiminn. - Ef Monsanto eða aðrir geta framleitt ný lyf eða eitthvað sniðugt með þessari tækni, so be it...
4) Fannst þú enda á heldur neikvæðum nótum..en það er óþarfi.
magus (IP-tala skráð) 22.3.2011 kl. 17:36
Það er ekki nokkur leið að leggja mat á röksemdafærslur ykkar magnúsar nema kafa ofan í gögnin (og meira til). Eithvað sem tekur meiri tíma en ég hef í augnablikinu.
En nokkrar spurningar til ykkar beggja. og þið afsakið mig vonandi ef ég spyr kjánalega.
Svona til að allt sé á hreinu þá er ég mjög skeptikskur á þá þróun sem virðist hafa orðið og vera að eiga sér stað í heimi erfðabreytinga.
spurningar (reyndar gildishlaðnar).
Endilega svariði báðir öllum spurningunum ef þið nennið.
Magnús:
Ertu að leggja til að rannsóknum og þróunn á erfðabreittum matvælum verði endanlega hætt.
Er val þitt á dæmum um neikvæð áhrif erfðabreitinga ekki heldur selektiv. Þú setur GM undir einn hatt sem virðist fyrir mér vera heldur mikil einföldun. Mér sýnist þú alhæfa mjög mikið um GM, þ.e. þín gagnrýni virðist mér eiga vel við um starfsemi WTO og þróunn einkaleifa í heiminum almennt og það hvernig fyrirtæki eins og Monsanto hafa nýtt sér þetta. hér kemur GM vissulega við sögu en eru bara hluti af vandanum. Þegar kafað er ofan í gagnrýni þína virðist hún einskorðast við markaðsvæðinguna á fyrirbærinu.
Arnar:
Hver er núverandi þörf fyrir GM? það er framleiddur matur í heiminum sem dugar meira enn 11 milljörðum manna til lífsviðurværis, en það eru á jörðinni undir 7 milljarða (konur eru líka menn). Vandamálið vannæring, snýst um dreifingu, ekki framleiðsu. Það má í þessu samhengi benda á að fyrirtæki eins og Monsanto draga úr getu okkar til að brauðfæða heiminn og þau hafa eyðilagt stór ræktanleg svæði með glæpsamlegri hegðun sinni.
það má örugglega rökstyðja að GM geti í framtíðinni verði nauðsinlegt til að auka þéttleika í matvælaframleiðslu (að því gefnu að þau geri akkúrat það) en það er framtíðavandamál og hvers vegna eigum við þá að leyfa markaðsvæðingu á GM þegar fyrirbærið á fyrst og fremst heima á rannsóknarstofum og í háskólum.
Hvað hefur ORF fram að færa sem réttlættir beiðni þeirra um útiræktun. Eru þeir ekki að framleiða snyrtivörur?
Eru ekki selektiv dæmi Magnúsar einmitt víti til varnaðar. vitiði raunverulega nóg, um erfðabreyttar lífverur (plöntur) sem framleiddar hafa verið, til að geta fullyrt um skaðleysi þeirra?
Benedikt Gunnar Ófeigsson, 22.3.2011 kl. 22:52
Ertu að leggja til að rannsóknum og þróunn á erfðabreittum matvælum verði endanlega hætt. Benedikt
Nei, ég legg til að GMO afurðir verði látrnar ganga í gegnum sömu prófanir og aðrar nýjungar, og ef þessar afurðir lifa það af þá verður að merkja þær sem GMO. - Ég legg til að vísindasamfélagið og ríkisstjórnir hætti að vinna sem PR-skrifstofa fyir Monsanto og co, með því að birta nánast eingöngu áróðurshliðina..
Þegar kemur að því að velja besta kostinn varðandi framleiðni, þá er stríðið þegar unnið: Blandaður lífrænn búskapur á minni skala er það sem koma skal. - Langmesta heildarframleiðni fyrir utan það að þessi aðferð byggir upp jarðveginn og vistkerfið, og það er eina langtíma lausin á fæðuöryggi, auk þess þá er þetta mjög mikilvægt mál varðandi hlýnun jarðar/loftlagsbreytingar, því verksmiðjulandbúnaðurinn/áburðarmenningin er að eyðileggja vistkerfi/jarðvegin og það eykur á slæm áhrif vegna loftlagsbreytinga..."positive feedback-loop" er þetta kallað..
"GMO" er dauðadæmt fyrirbæri í raunverulegum samkeppnismarkaði...hefur bara komist svona langt fyrir óheflaða spillingu..
Er val þitt á dæmum um neikvæð áhrif erfðabreitinga ekki heldur selektiv. Þú setur GM undir einn hatt sem virðist fyrir mér vera heldur mikil einföldun.
Ég ætlaði mér ekki að birta neina yfirlitsritgerð yfir allar vondar tilraunir, ég benti einfaldlega á nokkur góð dæmi til að benda á þá staðreynd að tilraunir Monsanto og co hafa sýnt fram á frekar "scary" hættur, en þessi fyrirtæki halda því gagnstæða fram....allar þessar tilraunir og fleiri til voru faldar ofaní skúffu..."substantial equivalence" er eina fosendan fyrir meintu "öryggi" GMO, en það þíðir að engar engar tilraunir eru gerðar..þetta er ein stór blekking.
- Ég bendi líka á þá staðreynd að það þarf ekki að fara út í mengunarmál og hættu fyrir neytendur, því lífræna leiðin sannar sig jafnvel þótt bara sé tekið mið af framleiðni, því hún er langmest hjá blönduðum lífrænum búum.
Þegar kafað er ofan í gagnrýni þína virðist hún einskorðast við markaðsvæðinguna á fyrirbærinu.
Sé ekki hvernig þú færð það út, en markaðsetningin er vissulega stór hluti, því auglýsingum og styrktum rannsóknum frá GMO er tekið sem heilögum sannleik. Það er engin gagnrýni...
Gagnrýni mín í sinni einföldustu mynd er þessi: Það er búið að útkljá vísindin, lífrænn búskapur rústar GMO og verksmiðjubúum frá öllum hliðum. Ríki heims þurfa að snúa sér alfarið eða sem mest að lífrænum blönduðum búskap til að að fæða heiminn og bjarga Jörðinni....það er tímasóun að bíða eftir frekari GMO tilraunum, lausnin er fyrir hendi.
= Ég vil ekki leyfa útiræktun á GMO á Íslandi, þetta á heima á rannsóknarstofum/gróðurhúsum.
magus (IP-tala skráð) 23.3.2011 kl. 07:07
Sú forsenda að „á næstu árum þurfi að framleiða enn meiri mat“ er röng. Þú getur ekki gefið þér hana. Að byggja erfðatækni á þeirri forsendu er hættulegur bissness.
Ég hef enga ástæðu til að trúa þessari forsendu, en góða ástæðu til að hafna henni. Rökin eru kjötneysla vesturlandanna. Fóður er ræktað í fátækum löndum, sem tekur gífurlegt land frá ræktun matar til manneldis. Þetta eykur verðlag á mat þar sem fóðurræktun er stunduð með þeim afleiðingum að hungursneyð eykst.
Brask með erfðabreytt matvæli til að „leysa“ þennan vanda er eins og reyna að finna draugagang með málbandi. Þetta er óréttmætt og byggir á fölskum forsendum.
Ég skal sætta mig rannsóknir á erfðabreyttum lífverum vísindanna vegna. En þegar þessar rannsóknir miða að því að leysa vanda sem minni kjötneysla (lesist kjötneysla innan eðlilegra marka) getur leyst þá er maður kominn á hættulega braut.
Semsagt rökin fyrir erfðabreyttum matvælum sem lausn á fæðuöryggi heimsins eru rök með óþarfa lúxuslíferni vesturlanda á kostnað fátækari landa. Þetta er gamla kynþáttahyggjan að endurtaka sig.
Ég myndi passa mig á þessu Arnar. Og forðast að nota þessi rök til að réttlæta rannsóknir með erfðabreyttar lífverur. Það eru til betri rök sem bjóða ekki upp á jafn hættulegan bissness og fæðuöryggisrökin bjóða upp á.
Rúnar (IP-tala skráð) 23.3.2011 kl. 12:53
Allir, afsakið tafir á svörum, ég er á kafi í verkefnum.
Magus
Það hafa verið gerðar mun strangari prófanir á GMO matvælum en öðrum matvælum, m.a. þeirra sem eru ræktuð með hefðbundnum aðferðum og framleidd í matarverksmiðjum nútímans.
Ég ber ekkert sérstakt traust til Monsanto, en mér finnst erfiðara að tortryggja þá vísindamenn sem hafa rannsakað afurðir þeirra og aðrar erfðabreyttar plöntur.
Frændi minn sem stundar lífrænann búskap þurfti að brjóta nýtt land, fórna náttúrulegri mýri og góðu fuglalandi fyrir heyrækt. Ef þú vilt sleppa öllum tilbúnum áburði og kjarnfóðri (t.d. í mjólkurframleiðslu), þá mun framleiðsla minnka. Það er bara ekki nóg af nytjadýrasaur til að koma í stað tilbúins áburðs - það verður minnkun á framleiðslu.
Takk Benedikt og Rúnar fyrir spurningarnar.
Þörfin fyrir meiri mat er byggð á óbreyttu ástandi, að öllu öðru óbreyttu, þarf meiri mat. Ég er sammála að útdeila mætti matnum betur um veröldina, draga úr kjötneyslu og sóun í fæðuframleiðslu (sbr. fiskeldi sem er með mjög lélegt prótínnýtingarhlutfall).
Rúnar, ef þú/við getur komið því til leiðar að kjötneysla minnkar og þar með þörfin fyrir framleiðni-aukningu í landbúnaði, þá væri það mikið framfaraspor. En þangað til skulum við meta stöðuna kalt og hlutlægt, og ekki fórna neinum möguleikum.
GMO og lífræn ræktun eru ekki "mutually exclusive" kostir, sbr. grein okkar:
Ein samviskuspurning til ykkar allra.
Hverskonar tilfinningu upplifðuð þið þegar þið heyrðuð fyrst um erfðabreyttar lífverur?
Arnar Pálsson, 24.3.2011 kl. 09:56
Ég er aðeins að kíkja, en svar mitt við spurningunni frá mínum bæjardyrum séð:
Forvitini.
Höskuldur Búi Jónsson, 25.3.2011 kl. 18:15
Ef að ég myndi halda því fram að erfðabreytt matvæli myndi leysa fæðuvanda heimsins, þá væri ekki ætlast til af mér að lýsa því hvaða gen ætti að splæsa í hvaða plöntur og hvar ætti að rækta þær og með hvaða áburði og skordýraeitri. Kröfur um slíka sérfræðiþekkingu leikmanna er einungis gerð til þeirra sem fullyrða gegn hugmyndafræði yfirvaldsins (sbr. álversumræðan; álversinnar þurfa aldrei að útskýra hvernig álver leysa meintan atvinnuvanda, á meðan andstæðingum álvera er alltaf skylt að útskýra hvernig „eitthvað annað“ leysir hann).
Athugaðu þó að ég er ekki á móti erfðabreyttum lífverum, hvorki til lyfja-, snyrtivöru- eða matvælaframleiðslu. Ég er einungis á móti þeirri fullyrðingu að erfðabreytt matvæli leysi fæðuvanda heimsins. Og ég er sérstlaklega hræddur við það þegar vísindamenn réttlæta starf sitt með þessum rökum.
Ástæðan er pólitísk og rökin eru sagnfræðileg. Ef að þvottavélin átti að laga stöðu konunar, iðnbyltingin stöðu verkamanna, alþjóðavæðingin stöðu fátæku landana þá er erðatæknin ekki að fara að minnka hungur í fátæku löndunum. Hún er einungis að fara að setja hana í nýja mynd. Þvottavélin færði vissulega konuna af heimillinu og út á vinnumarkaðinn, en aðeins til að taka við stöðluðum kvennastörfum sem eru illa launuð og viðhalda ósanngjörnum kynímyndum. Iðnbyltingin jók vissulega afköst og aðbúnað verkamanna en bara til að þeir gætu staðið lengur við færibandið og framleitt meira drasl fyrir yfistéttina. Þannig sé ég að erfðatæknin muni vissulega auka matvælaframleiðslu heimsins, en bara þannig að til verði þar til gerðir „útflutningakrar“ þar sem framleitt verður dýrafóður í massavís eða lífrænt eldsneyti sem flutt verður til vesturlanda svo við getum haldið áfram okkar óraunhæfa lífstíl fyrir minni pening en áður.
Vísindamenn meiga alveg halda áfram að rannsaka erfðabreytt matvæli. En ekki segja að þau muni leysa neinn vanda. Því þau munu ekki gera það. Með því að segja það eruð þið að búa til óraunhæfa væntingar sem fresta aðgerðum sem munu skila raunverulegum árangri. Ég mun aldrei ná að minnka kjötneyslu vesturlandabúa, nema að litlu leiti. Sjálfur er ég grænmetisæta, og vinir mínir hafa margir hverjir fengið innblástur af lífstíl mínum og minnkað sína kjötneyslu, en áhrifin munu aldrei ná lengra en það. Raunverulegar breytingar verða ekki fyrr en bændur í fátæku löndunum fara sjálfir að rækta á sínum forsendum. Þeir munu þá rækta meira til manneldis en minna af vörum til útflutnings. Það mun hækka verðið á innfluttu dýrafóðri og lúxusvarningi á borð við sykur og kaffi hérna á vesturlöndum með þeim afleiðingum að neysla minnkar.
Loforð um erfðabreytt matvæli slær á þessa þróun, og kemur í veg fyrir að bændur stígi þetta skref sem stíga þarf. Í stað þess að rækta til manneldis og selja innlendis fara bændur að rækta erfðabreytt (þeim hefur verið sagt að það muni leysa allt). Útfluttningur eykst, skógareiðing eykst til að rýma fyrir nýjum erfðabreyttum ökrum, flóð og þurkar aukast vegna skógareyðingar, hungur helst stöðugt, fátækt helst stöðug en verð á innfluttum lúxusvarningi hérna á vesturlöndum lækkar.
Og til að svara spurningunni þinni Arnar (í breyttri mynd, því afstaða mín í gamla daga er málinu óviðkomandi; ég er búinn að skipta um skoðun yfir 9000 sinnum síðan ég heyrði fyrst um erfðabreytingu) þá hugsa ég fyrst og fremst um vísindi og þekkingu þegar ég heyri „erfðabreytt lífvera“ ég hugsa um möguleika og hagnýtingu, en ég hugsa líka um misskiptingu og stéttaskiptingu, misskilning og misnotkun, brostnar vonir og brotin loforð. Þess vegna mæli ég gegn því að vísindamenn lofi upp í ermina sína um lausn við fæðuvanda heimsins, og réttlæti vísindin sín á fölskum grundvelli. Til þess að við getum notið flest það góða við þessa tækni án þess að henni fylgi stríð og fátækt eins og oft áður þegar ný tækni kemur fram á sjónarsviðið.
Rúnar (IP-tala skráð) 29.3.2011 kl. 19:02
Takk Rúnar fyrir góða útlistingu.
Þú ert semsagt á móti þessari tækni af hagfræðilegum eða félagslegum ástæðum. Það er fyllilega sanngjarnt, því hluti af röksemdafærslu okkar er sú að þetta sé tækni sem nýtist samfélaginu til að auka hagvöxt og stuðla að félagslegum framförum.
Lykil atriðið í málflutningi okkar er að erfðabreytingar er tækni sem verði að gagnreyna í hverju tilfelli fyrir sig. Ég mun ekki lofa þér (upp í mína ermi eða annara) að tæknin muni bæta allar þær nytjaplöntur sem reynt verður að erfðabreyta. Ég legg bara áherslu á að við eigum ekki að fleygja tækni út af fordómum, og reyna að nota það sem virkar best (til þess að meta það þarf tilraunir og tölfræði).
Mér þykir þú einfalda töluvert með því að segja að með því að hafa erfðabreytt fræ á markaðnum þá muni skógareyðing aukast, landrof, flóð fylgja í kjölfarið og ekkert ávinnast í baráttu við hungur og fátækt.
Takk fyrir að svara spurningu minni um upplifun þína þegar þú fyrst heyrðir um erfðabreyttar lífverur. Þú hefur greinilega mun sveiganlegri afstöðu en margir þeir sem ég hef rætt þetta mál við. Oftast er það þannig að fólk fór í vörn í upphafi, og skríður aldrei úr hýði sínu.
Röksemdirnar sem þú setur fram, má í raun heimfæra upp á hvaða tækniframför sem er. Spurningin er hvort að tækni sem gefur möguleika á aukinni fæðuframleiðslu sé verri en tækni sem gerir fólki kleift að fara á netið uppi á Vatnajökli. Eru erfðabreyttar plöntur verri tækni en snjallsími, af því að vísindamenn hafa bent á þann möguleika að þær nýtist til að leysa fæðuvanda heimsins.
Vandamálið er ekki tæknin heldur hvernig samfélagið meðhöndlar tæknina. Það sem þú bendir á eru brotalamir sem væru enn til staðar hefðu erfðabreyttar plöntur aldrei verið þróaðar.
Arnar Pálsson, 31.3.2011 kl. 09:34
Eins og ég sagði þá hef ég ekkert á móti þessari tækni. Heldur er ég aðeins á móti þeirri fullyrðingu að erfðabreyttar lífverur bæti matvælaöryggi heimsins.
Það sem ég á við er lítil settning úr þessum pistil: „Á næstu árum þarf að framleiða enn meiri mat án þess að ganga á gæði jarðarinnar frekar en orðið er. Til þess þarf að beita öllum tiltækum ráðum sem byggjast á vísindalegum grunni.“ Það er semsagt bara þessi litla setning sem gerir mig áhyggjufullan, en að öðru leiti er ég sammála flestu sem þú segir.
Það liggja engin rök bak við þessa fullyrðingu en hún er samt notuð bæði af vísindamönnum og fyrirtækjum til að réttlæta þessa tækni. Ég notaði pólitísk rök til að útskýra hvers vegna slíkar réttlætingar geta verið skaðlegar, og sagnfræðileg rök fyrir því að þær séu líklegast rangar (eða a.m.k. byggðar á fölskum grundvelli). En eins og ég segi þá hef ég ekkert á móti þessari tækni. Það er skiljanlegt (en ekki réttmætt) þegar fyrirtæki sem hafa beinan hag af þessari tækni nota þessa fullyrðingu til að réttlæta tilveru sína. En vísindamenn geta notað mun betri réttlætingu en falskar forsendur til að réttlæta rannsóknir sínar.
Annars held ég að við séum að mestu leiti sammála um hagnýtingamöguleika þessarar tækni. Ég er bara skeptískari á þróunina (þ.e. þær félagslegu afleiðingar) sem hún gæti haft í för með sér. Eða svo lengi sem falskar forsendur eru notaðar til að réttlæta hana.
Rúnar (IP-tala skráð) 31.3.2011 kl. 18:10
Afsakaðu Rúnar tafir á svari. Þú segir:
Það eru reyndar gögn sem sýna að erfðabreyttar plöntur standa sig vel í ræktun, en eins og magus benti á er ávinningurinn mismunandi eftir svæðum, yrkjum og öðrum þáttum.
Ég er ekki að segja að erfðabreyttar plöntur séu okkar eina hálmstrá, bara að við ættum ekki að hafna þeim á röngum forsendum. Áhersla okkar í greininni er á gagnreynd úrræði, og við værum þau fyrstu til að mæla gegn gagnlitlum úrræðum.
Mér þykir þú taka nokkuð sterkt til orða að tala um falskar forsendur, sbr. samanburðinn á snjallsíma og erfðabreyttum plöntum. Á skrifum okkar þykir mér ljóst að við deilum að miklu leyti samfélagslegu sýn og áhyggjum af iðnvæddum landbúnaði, hnattvæddu hagkerfi og skort á tengingu nútímamannsins við náttúruna og uppsprettur fæðunnar.
Arnar Pálsson, 5.4.2011 kl. 17:26
Það sem ég á við er að þörfin fyrir framleiðsluaukningu hefur ekki verið rökstudd nægilega vel. Sú staðreynd að erfðabreytt matvæli skili framleiðsluaukningu er málinu skylt einungis þar sem hún uppfyllir þessa gerviþörf. Nokkurnvegin eins og geðlyf eru notuð til að slá á hegðunarvanda (t.d. áráttu þráhyggju) þó að vandamálið tengist ekki boðefnamisræmi heldur atferli. Atferlismeðferð myndi losa þig við vandann á meðan geðlyfið slær á einkennin. Þannig eru erfðabreyttu matvælin aðeins til að slá á einkenni vandans á meðan raunverulegar breytingar á ræktun og matarhegðun fólks myndi losa okkur við vandann.
Rúnar (IP-tala skráð) 7.4.2011 kl. 13:11
Þörfin á framleiðsluaukningu er áætluð út frá fólksfjölda og núverandi fólksfjöldaaukningu á ári. Það eru stærðirnar sem við þurfum að tempra. Annars sitjum við í súpunni, sbr. fyrirlestur D. Suzuki.
http://www.hi.is/myndbond/dr_david_suzuki_fjarfyrirlestur
Arnar Pálsson, 7.4.2011 kl. 13:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.