28.3.2011 | 10:49
Pistlapakki
Ég vil benda áhugasömum á nokkra nýlega og forvitnilega pistla. Þeir eru sannarlega úr sitthvorri áttinni.
Villi benti mér á að pistlar Freys Eyjólfssonar útvarpsmanns og Geirfugls eru aðgengilegir á vef RÚV. Ég mæli sérstaklega með pistli hans um Denisovans mennina, sem voru frændur Neanderthalsmanna en æxluðust einnig við Homo sapiens. Hann segir meðal annars:
Nýi maðurinn, sem ekki hefur enn fengið nafn en verið kallaður Fjallamaðurinn, fannst í helli í Altai fjöllum í Síberíu. Þetta er að vísu ekki meira en lítið fingurbein sem fannst og er talið vera um 30.000 ára gamalt, en það er engum vafa undirorpið að hér er á ferðinni ný manntegund. Þetta þykja stórtíðindi í vísindaheimnum að sérstök manntegund hafi lifað á þessum tíma á norðurhjara veraldar í Asíu en þar hafa ekki áður fundist svo gömul mannabein. Það er ekki síður stórmerkilegt að lítill hópur nútímamanna sem nú býr á Melanesíu í Kyrrahafi er erfðafræðilega skyldur þessum dularfulla manni í Síberíu.
Björgvin Leifsson líffræðingur og kennari skrifar vandaðan pistil um erfðabreyttar lífverur (sem ég fékk að lesa yfir):
Að undanförnu hefur talsvert verið rætt um kosti og galla erfðabreyttra lífvera í fjölmiðlum og meðal almennings og stjórnmálamanna. Oft hefur umræðan einkennst af töluverðri vanþekkingu, sem er iðulega undanfari fordóma. Í þessu greinarkorni reyni ég að útskýra erfðabreytingar og erfðabreyttar lífverur á alþýðlegan hátt í þeirri veiku von að einhverjir hafi gagn og gaman af.
Róbert A. Stefánsson, Rannveig Magnúsdóttir, og Guðmundur I. Guðbrandsson skrifa um ágengar tegundir í sjó. Umræðan hefur snúist að miklu leyti um innfluttar plöntur og skógartré, en vistkerfi sjávarins er mikilvægara fyrir efnahag okkar og því fyllilega ástæða til að meta hvort framandi tegundir ógni því eður ei. Þetta er fjarri því að vera auðveld spurning:
Flutningur framandi lífvera milli hafsvæða er mikið áhyggjuefni á heimsvísu því víða hefur orðið tjón á lífríki sjávar vegna ágengra tegunda. Skaðinn hefur verið frá því að vera smávægilegur upp í að kollvarpa heilum vistkerfum. Framandi lífverur hafa líka valdið skemmdum á skipum, veiðarfærum, vatnsleiðslum og eldi fisks og skeldýra. Á lista yfir óæskilegustu lífverurnar sem staðfest hefur verið að flytjist milli landa á þennan hátt eru m.a. skeldýr, krabbadýr, þörungar og bakteríur sem hafa valdið skaða á lífríki í Vestur-Evrópu. Með hækkandi hitastigi sjávar hafa víða skapast skilyrði fyrir framandi tegundir til að koma undir sig fótunum í umhverfi sem þær hefðu annars ekki getað þrifist í.
Að síðustu las ég nýverið umfjöllun Vantrúar um þingsályktunartillögu Árna Johnsen um "um mikilvægi fræðslu um kristni og önnur trúarbrögð og lífsviðhorf"
Greinargerðin með umfjölluninni er að mínu viti frekar döpur, svona á par við greinargerð um bann við útiræktun á erfðabreyttum plöntum. Vantrúarmenn eru einnig þeirrar skoðunar, og benda einnig á að greinargerðin sé næstum orðrétt úr ranni Gísla Jónssonar (sem birti mjög áþekka grein á vef biskupsstofu):
Til að unnt sé að fjalla um þessa tillögu þarf að feðra hana rétt. Greinargerðin, sem fylgir tillögunni, er nánast orðrétt og samhljóða pistli sr. Gísla Jónassonar er birtist á vefriti Biskupsstofu, http://www.tru.is, þann 7. desember sl. Þingskjalið er þó að sönnu lagt fram nokkrum dögum fyrr, en báðir eru sr. Gísli og 1. flm. tillögunnar stakir heiðursmenn með óflekkað mannorð og því útilokað að um ritstuld sé að ræða. Því verður að telja líklegt að þingsályktunartillagan sé unnin í nánu samstarfi við Þjóðkirkjuna og að hún sé jafnvel runnin undan rifjum hennar, enda samband þings og kirkju ákaflega náið og frjósamt eins og alkunna er.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.