Leita í fréttum mbl.is

Fyrirlestur meistara David Suzuki í dag

Margt stórkostlegt stendur fyrir dyrum í tilefni 100 ára afmæli Háskóla Íslands. Apríl er helgaður verkfræði og náttúruvísindum, og að því tilefni verður boðið til fyrirlesturs David Suzuki síðdegis í dag (4. apríl 2011, kl 17:00 í stofu 132 í Öskju Náttúrufræðihúsi HÍ). Úr tilkynningu:

Dr. David T. Suzuki er prófessor emeritus í líffræði við Háskóla Bresku Kólumbíu sem hefur fengið fjölda alþjóðlegra viðurkenninga fyrir störf sín. Margir líffræðingar kannast við nafn hans sem meðhöfundar vinsællar kennslubókar í erfðafræði sem hefur verið kennd í mörg ár í líffræðiskor HÍ. Hann er virkur náttúruverndarsinni,sem hefur m.a. unnið ötullega við að vekja athygli á áhrifum loftslagsbreytinga. Meðal almennings er David Suzuki best þekktur sem sjónvarpsmaður en hann er þekktur fyrir að útskýra náttúruvísindin á einfaldan og heillandi hátt. Sjónvarpsþættir hans "The Nature of Things",  hafa verið sýndir á mörgum helstu sjónvarpsstöðvum heims. Þættir hans voru sýndir í ríkisjónvarpinu á níunda áratug síðustu aldar.

Kesara Jónsson prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild kynnir fyrirlestur David Suzuki. Fyrirlesturinn sem fer fram á ensku er fluttur með fjarfundarbúnaði og öllum opinn meðan húsrúm leyfir.

Fólk á mínum aldri kannast vel við Suzuki úr sjónvarpsþáttunum sem sýndir voru á níunda áratugnum. Hann er einstaklega góður fræðari og miðlaði bæði áhuga og virðingu fyrir náttúrunni. Líffræðingar kannast einnig við hann sem höfund bókarinnar An introduction to genetic analysis (nú erum við að kenna útgáfu 9. en sjöunda útgáfan er aðgengileg í heild sinni á vef Bandarísku heilbrigðismálastofnunarinnar). 

Dr. Suzuki er erfðafræðingur að upplagi, lauk doktorsprófi í dýrafræði frá Chicago háskóla. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að vinna sem nýdoktor við þann háskóla milli 2003 og 2006, í þróunarfræði og vistfræðideildinni og vann einmitt með ávaxtaflugur eins og David Suzuki. Hann notaði ávaxtaflugur til að rannsaka endurröðun erfðaefnis, áhrif efna á þau ferli og einnig hitanæmar stökkbreytingar. Hann greindi einnig stökkbreytingar sem eru kuldanæmar, það þýðir að einstaklingar eru einkennalausir, nema þeir þroskist við lágan hita. 

Áhugi Suzuki á umhverfismálum varð til þess að hann stofnaði sérstakan sjóð (David Suzuki foundation) til að berjast fyrir friðun dýra og landsvæða, til að sporna gegn loftslagsbreytingum, ýta undir sjálfbærari efnahag og vekja vitund og áhuga fólks á náttúrunni. Sjóðurinn og starfsmenn þess hafa beitt sér í mörgum málum, loftslagsmálum, heilbrigðismálum, verndun vatnakerfa, hafsins og villtrar náttúru. Á síðunni að dæma þá virðast áherslurnar vera ágætar, en dálítið örlar á granólahippa réttrúnaði (þar sem staðhæfingar um hreinleika og vistvináttu ýmissa úrræða virðast byggðar á litlum gögnum). En í það heila er áherslan sannarlega lofsverð og mörgum þörfum verkefnum er sinnt.

Í þessum anda verður fyrirlesturinn fluttur með fjarfundarbúnaði, sem er umhverfisvænt að því leyti að Dr. Suzuki þarf þá ekki að þyngja breiðþotu sem flýgur yfir Atlanshafið með tilheyrandi útblæstri koltvíildis.

Upplýsingar um lífshlaup David Suzuki má finna á vef samtaka hans.

Hlýðið endilega á mjög forvitnilegt viðtal við David Suzuki í speglinum (1. apríl 2011). Hann talar meðal annars um stríðið gegn þekkingu og vísindum, sem tóbaksframleiðendur og olíufélögin hafa stundað með hræðilega góðum árangri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Ég var á staðnum, frábær viðburður og verður fróðlegt að sjá þetta á netinu (mér heyrðist einhver segja það).  Veistu hvar sé líklegast að maður heyri af því ef þetta birtist á netinu?

Höskuldur Búi Jónsson, 5.4.2011 kl. 20:13

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Sammála Höskuldur, þetta var frábær fyrirlestur fluttur af miklum eldhuga.

Takk kærlega fyrir ábendinguna, ég gróf þetta upp með hraði.

http://www.hi.is/myndbond/dr_david_suzuki_fjarfyrirlestur

Fjarfundurinn raskaði hefðbundnu fyrirlestraformi töluvert, en þetta gekk bærilega fyrir sig.

Arnar Pálsson, 7.4.2011 kl. 09:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband