26.5.2011 | 09:55
Nám í sameindalíffræði og lífefnafræði
Sameindalíffræðin er ein yngsta grein líffræðinnar. Hún fjallar um byggingu DNA, prótína og frumunnar og nýtist við rannsóknir á þroskun lífvera og sjúkdómum, vistfræði tegunda og rannsóknum á þróun. Einnig nýtast aðferðir hennar í sakamálum og til að meta faðerni/eða móðerni. Rannsóknir mínar eru á mörkum sameindalíffræði og þróunarfræði. Núna fæst ég t.d. við rannsóknir á genastjórn, þeim kerfum sem kveikja og slökkva á genum í mismunandi frumugerðum (sem kveikja á genum sem mynda taugaboðefni í heilanum en genum sem mynda meltingarensím í mallakút). Við höfum líka rannsakað genastjórn í þroskum, samanber mynd af flugufóstrum sem lituð eru með mótefnum gegn 3 mismunandi prótínum (Lott o.fl. 2007 Mynd copyright Susan Lott).
Mér finnst mjög gaman að benda á að núna hefur verið mynduð ný námsbraut í sameindalíffræði og lífefnafræði við HÍ. Raunvísindadeild og Líf- og umhverfisvísindadeild standa sameiginlega að námsbraut í lífefna- og sameindalíffræði. Boðið er upp á tvö kjörsvið, annars vegar í lífefnafræði og hins vegar í sameindalíffræði. Um er að ræða þriggja ára BS-nám (180 ECTS).
- Tvær áherslur: lífefnafræði eða sameindalíffræði. Sameiginlegt nám fyrstu tvö árin en á þriðja ári er val um sérhæfðari námskeið.
- Kenndur er grunnur að sameindalíffræði og lífefnafræði sem tekur m.a. til örverufræði, frumulíffræði, eðlisfræði, stærðfræði, efnafræði og lífrænnar efnafræði.
- Nánari áhersla: Bygging stórsameinda (DNA, próteina, fjölsykra, frumuhimna).
- Nánari áhersla: Bygging fruma, veira, baktería, vefja og erfðamengja.
- Nánari áhersla: Lögmál lífefnafræði, erfða, efnaskipta fruma, þroskunar og þróunar.
- Á þriðja ári eru í boði ýmis sérhæfð valnámskeið, t.d. um hagnýtta lífefnafræði, byggingu og eiginleika próteina, efnafræði ensíma, um aðferðir í sameindaerfðafræði, erfðamengjafræði, líftæknilega örverufræði, mannerfðafræði eða örveruvistfræði.
- Námið mótast m.a. af byltingu í lífvísindum og læknavísindum sem fylgir í kjölfar raðgreiningar á erfðamengi mannsins og fleiri lífvera. Það þarf samstillt átak lífefnafræðinga, líffræðinga, og tölvunarfræðinga til að skilja erfðamengin, frumuna og sjúkdóma.
- Áhersla er lögð á að nemendur tileinki sér hugmyndafræði og aðferðir raunvísinda og læri að beita þeim við rannsóknir á stórsameindum og líffræðilegum fyrirbærum.
- Námið opnar tækifæri til framhaldsnáms til meistara- eða doktorsgráðu eða náms til kennararéttinda.
- Sameindalíffræðingar og lífefnafræðingar með BS-gráðu frá Háskóla Íslands eru viðurkenndir á atvinnumarkaði og eftirsóttir í fjölbreytt störf hérlendis og erlendis.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.