Leita í fréttum mbl.is

Uppreisn og innræktun á Bounty

Innræktun býður heim þeirri hættu að afkomandi erfi annars sjaldgæfar skaðlegar stökkbreytingar frá báðum foreldrum. Því meiri sem skyldleikinn er, því meiri eru líkurnar á því að erfða skaðlegar breytingar. Ef t.d. systkyni æxlast eru líkurnar 1/2, því þau deila helmingi erfðaefnis foreldranna. Ef um hálfsystkyni er þetta strax skárra (1/4), og svo fram eftir götunum. Skyldleikastuðlar geta metið líkurnar á að afkomendur skyldra fái sama gen frá báðum foreldrum. Kaþólskir klerkar notuðu þetta í gamla daga, þegar hægt var að veita syndaaflausn gegn viðeigandi gjaldi (það kostaði meira að giftast náfrænku sinni en fjarskyldri).

Þegar ég var við nám í Norður Karólínu vann ég sem aðstoðarkennari Ted Emigh, sem las erfðafræði fyrir 250 manna bekk á hverju misseri. Eitt skemmtilegasta dæmið sem hann tók um innræktun var sagan um áhöfnina á Bounty. Einhverjir kannast við kvikmyndina eða bókina um uppreisnina á Bounty, en hvoru tveggja er byggt á raunverulegum atburðum sem gerðust árið 1789 (hversu nákvæmlega skiptir ekki máli hér!).

Mutiny_HMS_BountyMynd af uppreisninni af familypedia.wikia.com

Hluti áhafnarinnar settist að á lítilli eyðieyju í Kyrrahafinu, sem nefnist Pitcairn. Þeir fengu til fylgilags við sig nokkra frumbyggja (aðallega konur, líklega með svipuðum rökum og norrænir menn beittu á Bretlandseyjum), og stofnuðu nýlendu á eyjunni. Eyjan var numin af 27 manna hópi og eru nær allir núlifandi íbúar beinir afkomendur þeirra (aðalatvinnuvegurinn er sala frímerkja til frímerkjasafnara).

Kennarinn í Norður Karólínu gerði mikið úr hættunni á innrækt þegar stofninn er svona lítill. Í hans meðförum var mikil innrækt og allskonar erfðasjúkdómar landlægir þess vegna. Það virðist vera orðum aukið, það virðist sem stofnendur á eynni hafi vitað hvað þeir voru að gera og gætt þess rækilega að of skyldir einstaklingar myndu ekki parast.

Kannski að breskir múslimar ættu að reikna skyldleikastuðla eins og kaþólskir prestar gerðu í gamla daga, eða að minnsta kosti sækja í reynslu Pitcairn búa - búa til gott ættartré og vanda sig við makaval.


mbl.is Varaði við innræktun á meðal múslima
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Góður pistill.

Sumarliði Einar Daðason, 29.5.2011 kl. 17:37

2 Smámynd: Che

Þetta er svo sem ekkert nýtt. Það kom fram fyrir mörgum árum, að fæðingargallar barna í múslímskum fjölskyldum í Danmörku væri hærra en hjá öðrum börnum. Ástæðan var talin hin tíðu hjónabönd milli frændfólks. Hæst tíðni var hjá fjölskyldum með uppruna í Írak.

Ég geri ráð fyrir því að það sé fræðilega mögulegt fyrir giftingu að skima fyrir gölluðum genum sem báðir foreldrar hafa erft, en hvort það sé praktískt eða hvort það verði samþykkt á grundvelli slíkra upplýsinga að aflýsa hjónabandinu er svo önnur saga.

Che, 30.5.2011 kl. 10:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband