14.6.2011 | 17:02
Snákaolía og lyfleysa
Við stöndum frammi fyrir svakalegri spurningu um heilsu og lækningar. HVERJU GETUM VIÐ TREYST?
Það gildir einu hvort fjallað sé um notagildi eða hættuna af ritalíni, broddmjólk eða Dr. Atkins-kúrnum, við þurfum leiðir til að meta áhrifin. Einnig þurfum við að vita hvar finna má rétt svör og hlutlaus.
- Ég mæli ekki með því að treysta kalli í hvítum sloppi, bara af því að hann er í hvítum sloppi og með meirapróf.
- Ég myndi frekar treysta á niðurstöður stórra og vandaðra rannsókna, en rannsókna á litlum hópi eða frásögnum einstaklinga.
- Ég myndi frekar vantreysta niðurstöðum þeirra sem hafa beina hagsmuni af sölu lyfs, meðferðar, pillu, heilsubókar eða líkamsræktartækis.
Hvaða fyrirbæri sem við höfum virkilega áhuga á ætti að meta með vandaðri vel uppsettri rannsókn. Þar sem einstaklingum (tilraunadýrum) er útdeilt í viðmiðunarhóp og meðhöndlunarhóp af handahófi, hvorki tilraunadýrin né athugandinn viti hvort um sé að ræða ekta lyf eða lyfleysu (double-blind) og síðan verður auðvitað að endurtaka herlegheitin. Jákvæðar niðurstöður geta nefnilega dúkkað upp fyrir tilviljun, og verið mistúlkaðar ef ekki er vandað til verka.
Eins er vitað að lyfleysur (placebo) hafa jákvæð áhrif á sjúklinga. Sjúklingar bregðast jákvætt við, sama hvort þeim sé gefið lyf eða ekki. Eftirvæntingin um lækningu er það sterk að fólkinu,annað hvort batnar eða líður eins og því sé að batna. Lyfleysu áhrifin eru alþekkt í læknisfræði, og virðast vera kjarninn í óhefðbundnum "lækningum" eins Freyr Eyjólfsson þáttagerðarmaður á Rás 2 fjallaði um í Lyf og lyfleysur:
Maður að nafni Dr. Edzard Ernst sem starfar við Exeter háskólann í Englandi hefur í mörg ár rannsakað óhefðbundar lækningar. Hann hefur sjálfur lært þær og tileinkað sér þær án þess þó að stunda þær af neinu kappi. Nú hefur afraksturinn af 18 ára rannsóknarvinnu hans litið dagsins ljós: Almennur leiðarvísir um óhefðbundnar lækningar. Það sem vekur mesta athygli er að 95% af því sem er í boði virðist ekki virka neitt! Dr. Edzard Ernst hefur borið saman lyfleysur, eða svokallaðar placebo töflur sem eru ekkert annað meinlausar sykurtöflur og óhefðbundar lækningar. Niðurstaðan: Mest allt af óhefðbundnum lækningum, eða 95%, hefur sömu virkni og lyfleysur.
Freyr tekur undir með Dr. Ernst og segir "[e]n ef fólki líður virkilega betur eftir heilun og andalækningar helgar þá tilgangurinn ekki meðalið?". Sannarlega mega hefðbundnar lækningar leggja meiri áherslu á líðan sjúklings, en óhefðbundnar lækningar geta haft tvennt slæmt í för með sér.
- Fólk eyðir peningum í óhefðbundnar lækningar - sem það hefði annars eytt í mikilvægari hluti.
- Mögulegt er að fólk sem leiti í óhefðbundnar lækningar sé tregara til að leita sér hefðbundinna lækninga.
Í lokinn ætla ég að klikkja út með sleggjudómi. Samfélagið er að drukkna í sjálfskipuðum lífstíls og næringapostulum, það er ofgnótt kúra og meðferða á markaðnum, pillur og fjölvítamín í löngum bunum, töfralausnir og leyndarmáladrykkir seldir fyrir fúlgur fjár, allt undir áru heilsuvakningar og æskudýrkunar. Það er alveg sérkapituli hversu viljugt fólk er að kaupa sér lausnir; pillur, detox, sílikonpúða, þorskapúða, plastdúkkur, lífstílsbækur. Það liggur við að manni langi til að skrifa bókina "Töfralausn sem fær fólk til að hætta að kaupa bækur með töfralausnum*".
Að nútímamanninum steðja margskonar hamfarir og hættur, margar þeirra afleiðingar okkar eigin lífstíls og fæðuvals. Til að greina áhættuþættina og skilgreina bestu mögulegu fæðu, hreyfingu og umhverfisaðstæður þurfum við að beita aðferðum vísinda. Fólk blótar yfirleitt og ragnar þegar minnst er á tölfræði og p-gildi, box-plott og fervikagreiningar, en þetta eru verkfærin sem við getum notað til að greina kjarnann frá hisminu. Við þurfum vísindalæst fólk til að takast á við þessar spurningar og helst einhverja meðvitund í samfélaginu um mikilvægi tölfræði. Því annars munu staðreyndir málsins drukkna í söluræðum næringapostulanna og markaðsmanna lyfjanna.
Pistillinn er innblásinn af samskiptum við Vendetta (meðal annars um næringarpostulann Dr. Mercola) og pistli Freys Eyjólfssonar um Lyf og lyfleysur.
*Sem er svona setningaskrímsli í anda furðuverksins Momus "If looks could kill I'd kill the men, whose looks would kill you if looks could kill" úr laginu A Complete History of Sexual Jealousy Parts 17-24
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Heilbrigðismál | Breytt s.d. kl. 18:02 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Mér þætti gaman ef þú hefur tíma til að horfa á heimildarmynd á mínu bloggi og gefa komment. Ég er krónískur skeptíker eins og þú veist kannski, en þetta mál, eins og það er fram sett, ruglar mig svolítið í rýminu.
Jón Steinar Ragnarsson, 14.6.2011 kl. 18:05
Lýsi feitt Kjöt og mikinn fisk,helst kæsta skötu,það þarf engvar næringaráðgjafa og vítamínspillur ef þetta er étið...
Vilhjálmur Stefánsson, 14.6.2011 kl. 23:13
Sæll Jón Steinar,
Vendetta benti mér á þessa sömu mynd og þetta var svar mitt við honum.
Arnar Pálsson, 15.6.2011 kl. 10:22
Ég skora á þig að fara af stað með þorramatskúrinn, hann myndi örugglega slá í gegn. Þú gefur út glæsilega myndskreytta bók, með einföldum uppskriftum og frásögnum fallegs fólks sem missti 1000 kíló við að byrja á kúrnum þínum og er loksins orðið hamingjusamt (allavega á meðan myndin var tekin) og sem sendir vinum sínum tölvupóst og fésbókarathugasemdir sem lofsyngja vörur þínar. Villaskötubitabakkar fyrir saumaklúbbinn, Villarúgkökuhamsatólgs-snittur fyrir þingfundinn, Villasíðuspiksrúllur fyrir nestisbox barnanna...þú getur ekki tapað.
Arnar Pálsson, 15.6.2011 kl. 10:51
Í fyrsta lagi: Frábær skrif. Sérstaklega orðalagið.
Í öðru lagi: Þegar ég ræði um hókus pókus-lækningar við vini mína (sem fæstir hafa lokið framhaldskólanámi) þá er ég óhræddur við að nota heimspeki tölfræðinnar. Eftir nokkrar samræður er maður farinn að geta útskýrt grunnhugmynd líkindafræðinnar í örfáum áhugaverðum setningum án þess að missa þráðin um hókus-pókus lækninguna.
Carl Sagan tókst að ná til fólks með núll vísindalæsi og útskýra grunnhugmynd jafn absúrd vísinda og heimsfræðinnar, David Attenborough er að gera það sama fyrir líffræðina og mannfræðina og tiltölulega nýlega hóf maður að nafni Jim al-Khalili að reyna að útskýra skammtafræði fyrir leikmönnum.
Ég held það sé ekki almenningi að kenna að vísindalæsi er jafn lítið og vera ber. Mun frekar samfélagi þar sem vísindalæsi kemur með prófgráðum (og langoftast með drepleiðinlegu og allt of löngu bóknámi).
Ég hef fundið að vísindalæsi vina minna hefur aukist samhliða mínu. Mjög líklega hefur það verið vegna samræðna við mig. Ekki það að ég sé eitthvað frábær kennari, heldur frekar að mannleg samskipti búa til gagnkvæman skilning. Við lærum hvort af öðru. Einungis sérútvaldar stofnanir vottaðar af valdbrjálæðingum hafa þó leyfi til að útlýsa mann menntaðan eftir einhliða samskipti við hann í 17-20 ár. Hinir sem ekki eru úlýstir fá stimpillinn „ómenntaðir“ og hafa því einga ástæðu til að vita að tilraunir eru marktækar fyrir tilviljun í 1 af hverjum 20 skiptum („ég er ómenntaður, hvað þar ég að vita svona hluti?“). Ég tel að samfélag sem skiptir einstaklingum í menntaða og ómenntaða viðhaldi vísindalegu ólæsi hinna ómenntuðu. Þeir hafa ekki þörf né vilja né ástæðu til að læra vísindalega aðferðafræði.
Rúnar Berg (IP-tala skráð) 19.6.2011 kl. 00:12
Takk Rúnar fyrir athugasemdina.
Gaman að heyra að vinir þínir taka líkindafræðinni svona vel. Það er öllum holt að skilja að tilviljun er alvöru þáttur í lífi og dauða.
Sjálfum hefur mér reynst erfitt að ræða líkindafræði við fólk. Hún er að mörgu leyti mótsagnarkennd, við erum mjög fljót að finna mynstur - jafnvel þótt að við vitum hvað tilviljanir geta gert.
Ég vona að pistillinn hafi ekki komið þannig út eins og ég sé að skamma almenning fyrir skort á vísindalæsi í samfélaginu. Ég er sammála þér að samfélag sem skiptir sér í menntaða og ómenntaða er ekki ákjósanlegt, ekki frekar en ég vill hafa samfélagii skipt í efnamenn og eignalausan múg.
Vandamálið er flókið og víðtækt. Ég tel líklegast að margir þættir komi að, m.a.
A. Það er ekki í upplagi okkar að hugsa vísindalega - þ.e. við erum ekki með fullkomnlega hlutlæga og rökvísa hugsun, heldur ráðast ákvarðanir okkar og gjörðir af hvötum, skoðunum, tilviljun og "lítt ígrunduðum" fordómum.
B. Kennsla hefur aðallega lagt áherslu á að miðla bestu þekkingu, á stærðfræði sem nauðsynleg er fyrir heimilisbókhaldið, líffræði mannsins og eiginleikum efna sem við notum til að byggja hús og eðlisfræði rafmagns og annarra fyrirbrigða sem við hagnýtum okkur. Minni áherslan hefur verið á að kynna nemendur fyrir aðferð vísinda, hvernig þekkingin varð til og hvernig nota má aðferðina til að takast á við ný vandamál! Vísindalæsi mætti bæta með því að kenna aðferðina samhliða bestu þekkingu!
C. Samfélagið hefur meira gaman að góðum sögum og slúðri en þekkingu. Við (og reyndar aðrir mannapar) erum forvitin um hag sambræðra okkar, hópumst að þegar einhverjir eru í slag og dáumst að nýfæddu barni (frænkunnar eða Posh-spice). Upplýsingin var bara milliskref. Hún og iðnbyltingin skilað okkur heilmikilli velmegun sem við njótum (en gleymum jafnframt þeirri hugsun og þeim gildum sem lágu til grundvallar).
D. Fjölmiðlar leggja meiri áherslu á leiki og léttúð en þekkingu og vísdóm. Á hverjum einasta miðli eru nokkir íþróttafréttamenn og mannlífs(neyslu)-fréttamenn, en bara ein miðill (RÚV) er með fréttamann/þáttargerðamann, sem helgar sig vísindum að einhverju leyti.
E. Stjórnmálamenn reyna að komast upp með allskonar rugl, og beita rökvillum, talnabrellum, svindli og óheiðarleika til að verja hugmyndfræði sína og einkavinavæðingu. Þeim er ekki í hag að hafa upplýsta, gagnrýna og vísindalega hugsandi kjósendur, og slá því iðulega andvísindalegar nótur.
Fræðimenn fortíðar voru brennandi áhugamenn, sumir efnamenn aðrir ekki, sem tókust á við stórar spurningar um eðli lífsins og veraldarinnar. Vísindin hafa sannarlega verið stofnannavædd, en það er ekki endilega til baga. Heilbrigðiskerfið hefur verið stofnannavætt, sem ég held að sé skárra en að í hverju þorpi sé sjálfsmenntaður hugsjónamaður sem reynir að meðhöndla sjúklinga á grundvelli sinnar þekkingar og reynslu eingöngu.
Vísindalegar stofnanir, tímarit, samtök og styrktaraðillar nýtast okkur við að tvinna saman þekkingu úr mörgum áttum, svara spurningum sem eru einyrkjum ofviða og safna upp meiri þekkingu en mannkynið hefur nokkurn tíman búið yfir.
Punktur þinn Rúnar er fullkomlega sanngjarn. Vísindamenn og aðrir mega aldrei gleyma því að miðla bæði þekkingunni og aðferðinni.
Því frammi fyrir ógnum heimsins er haldreipi í þekkingu og traustum aðferðum til að leysa aðkallandi vandamál.
Arnar Pálsson, 19.6.2011 kl. 12:56
Sæll frændi, mikið hef ég gaman að því að lesa svona skipulagðan og vel orðaðan texta. Það er mjög mikið til í því sem þú ert að segja.
Mig langar samt að grafa svolítið dýpra í það hvernig fólk tekur ákvarðanir og þær oft algjörlega þvert á alla rökhugsun.
Þegar sjúklingur hefur leitað hjálpar lengi og víða er ef til vill rökrétt að leita til hjávísinda, óhefðbundinna lækninga eða einhvers annars sem engin vísindi styðja.
Ég þekki vel lyfleysuáhrifin og jákvæða atferlismótun. En spurningin er hvað ætti fólk að reikna með að þessi lyfleysuáhrifendist lengi?
Atferlismótunin blívur en það gera líka sum áhrif af því ekki stenst vísindalega skoðun.
Mér finnst þú alltaf sanngjarn og velviljaður í skrifum þínum og þú og fleiri vita að nú er ég komin að því sem er undirstaða og grundvöllur lífs míns. (hátíðlegt, en erfitt að orða öðruvísi. Hver grein hefur sitt fagmál, guðfræði og heimspeki líka)
Sem sagt ég er viss um að gott samfélag byggist ekki upp af raunvísindum einum. Ég er líka viss um þau gildi sem öll stóru trúarbrögðin eru sammála um eru nauðsynleg fyrir gott mannlíf.
Meira en nóg komið að sinni.
Kveðja.
Hólmfríður Pétursdóttir, 19.6.2011 kl. 20:48
Takk fyrir gott svar.
Pistillinn þinn kom einganvegin út eins og þú værir að skamma almenning. Þú varst að benda á þá staðreynd að það væri til bóta ef almennt vísindalæsi væri meira. Ég tók undir það og reyndi að bæta því við að við gætum aukið skilning almennings á vísindum með því einfaldlega að ræða þau á jafningjagrundvelli við vini og kunningja (reyndar held ég að gagnrýni mín á stofnanavædda/kerfisbundna menntaskiptingu hafi gert skrifin mín síður skiljanleg svo að meining mín hafi síður komist til skila, biðst afsökunar á því).
Að lokum er ég sammála þessum 5 punktum sem (ásamt öðru) koma í veg fyrir að almenningur kynni sér vísindalega hugsun. Við vill ég bæta að námi er gefin stimpillinn „l-e-i-ð-i-n-l-e-g-t“ strax í grunnskóla. Skemmtilegar staðreyndir eru kenndar sem leiðinlegur utanbókarlærdómur, og öll vitneskja fær þannig á sig þennan leiðindarstimpill sem grunnskólinn setur á þekkingu.
Svo er skemmtilegt að pæla í, varðandi punkt b, að núna á 100 ára afmæli háskólans, eru í kringum 100 ár síðan Þorbergur Þórðarson reyndi að ganga menntavegin. Gagnrýni hans á þekkingamiðlun var, í byrjun ofvitans, nákvæmlega sú sama og þú nefnir sem punkt b. Miðað við viðhorf samfélagsins ætla ég að giska á að önnur 100 ár þurfi að líða áður en menntastofnanir bæta sig á þessu sviði.
Rúnar Berg (IP-tala skráð) 20.6.2011 kl. 02:03
Sæl Hólmfríður
Lyfleysuáhrifin eru mjög forvitnileg, en erfitt er að gera sér grein fyrir því í hverju þau liggja. Að hluta getur verið að þau gefi heilanum/meðvitundinni tækifæri til að þagga niður í sársaukaboðum sem hafi náð að festast í sessi. Ef þú hugsar um sársaukann í tánni sem þú misstir við Stalíngrad á hverjum morgni, þá mun hann lifa með þér. En ef heilinn fær tækifæri til að gleyma, þá getur verið að sársaukaboðin lendi neðan þröskulds og hætti að angra þig. Mér er minnisstætt að Eiður Smári sagði að sér hefði verið ráðlagt að harka af sér og spila í gegnum sársaukann (eftir hryllilega fótbrotið í landsleiknum forðum) - sem mætti útskýra á þennan hátt.
Hitt getur verið að andlegt ástand hafi á einhvern hátt jákvæð áhrif á sjúkdóminn sjálfann. Kannski þannig að óvissan eða hræðslan ýti undir meinsemdina, en að friðurinn sem fylgi sjúkdómsgreiningu (jafnvel rangri!) eða pillu hjálpi líkama viðkomandi að yfirstíga sjúkdóminn.
Veit ekki hvort þessar tilgátur séu réttar eða hvaða aðrar hafa verið settar fram til að útskýra lyfleysuna.
Ég var ekki að færa rök fyrir því að raunvísindin ein ættu að liggja til grundvallar ákvörðunum eða grunneiningum samfélagsins, bara að við ættum að gera þeim hærra undir höfði en nú er gert.
Mér blöskrar sölumennskan og hjávísindin sem einkenna margar náttúru og óhefðbundnar "lækningar". Ég veit að þetta vandamál mun ekki hverfa, en mun svo sannarlega reyna að fræða fólk um gallana í málflutningi þessara "meistara".
Arnar Pálsson, 20.6.2011 kl. 16:13
Takk Rúnar fyrir ábendinguna.
Það má vera að pistillinn hafi verið full snarpur. Það var ekki meiningin að skamma almenning og ég er þakklátur þér fyrir tækifærið til að skerpa á aðalatriðunum.
Ég væri meira en til í að heyra hvaða fleiri atriði þú telur að skipti hér máli. Þessi fimm tíndi ég bara til í fljótheitum, en þau eru örugglega fleiri.
Ég er sammála þér um mikilvægi þess að kenna vísindalega aðferð, en veit frá fyrstu hendi að það er erfiðara að kenna hana en t.d. byggingu gensins eða firði Íslands.
En ef ég má leyfa mér örlítinn Ragnar Reykás, þá má líka færa rök fyrir því að samfélagið þurfi ekki almennt vísindalæsi. Við þurftum bara einn Edison, einn Bell, einn Turing, til að finna upp merkilega hluti. En samfélagið þarf einnig nægilega stóran hóp fólks sem getur komið miklum uppgötvunum og framfararsporum í almennt brúk. Hliðarverkun þess atarna er að við (almenningur) getum komist upp með fáfræði á mörgum sviðum, sem getur leitt til þess að við þekkjum ekki muninn á snákaolíu og steinolíu. Spurningin er hvort að það sé ásættanlegar hliðarverkanir eða vandamál sem þarf að leysa.
Arnar Pálsson, 20.6.2011 kl. 16:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.