19.8.2011 | 11:11
Þróunarkenningin er staðreynd
Fylkisstjórinn í Texas Rick Perry staðhæfir að það séu göt í þróunarkenninunni. Hann fer með rangt mál, því þróunarkenningin er safn vísindalegra tilgáta sem hafa staðist ítrekaðar prófanir.
Þróunarkenningin er ekki kenning í daglegri merkingu orðsins, hún er staðreynd. Í vísindum eru tilgátur prófaðar og reyndar, þær sem ekki tekst að afsanna eru álitnar lögmál. Í sumum tilfellum hafa lögmál mjög víðtækt notagildi og útskýra svo mörg atriði í veröldinni, að þau fá stöðu kenningar (t.d. Þróunarkenningin og Afstæðiskenningin).(Þróun og aðferð vísinda)
Rick Perry hefur skipað þrjá síðustu yfirmenn menntasviðs fylkisins, allt yfirlýsta sköpunarsinna. Þetta er áþekkt því að velja í embætti fjármálaráðherra mann sem tryði ekki á reikning. Sköpunarsinnar koma í nokkrum blæbrigðum, en sammerkt er að þeir afneita hinni vísindalegu aðferð, og sérstaklega útskýringum þróunarfræðinga á tilurð og eiginleikum mannsins.
Texas hefur verið vígöllur baráttu á milli hægrisinnaðara sköpunarsinna annarsvegar og fræðimanna og sekularista (afsakið mig vantar þýðingu eða samheiti fyrir "secularists") hins vegar. Menntasvið Texas gerði að undirlagi sköpunarsinna kröfur um efnistök í kennslubókum í líffræði, um útvötnun á útskýringum á þróun og tilvísanir til guðlegrar sköpunar eða vithönnunar "til mótvægis". (sjá einnig: Bilið milli T-rex og Texas).
Rick Perry (úr frétt mbl.is):
... bætti við að almenningsskólar í Texas kenndu bæði um sköpunarkenninguna og þróunarkenninguna. Ég býst við að þú sért nógu klár til þess að átta þig á því hvor sé sú rétta.
Það er semsagt allt í lagi að kenna börnunum
að jörðin sé kúla og pönnukaka,
að svínaflensa sé vegna veiru og afstöðu himintunglanna,
að bólusetningar veiti vernd og valdi einhverfu,
að 2 + 2 = 4 og 5
- þau muni átta sig á hinu rétta.
Markmið skóla er að kenna staðreyndir ekki sköpunarsögur eða tröllasögur sem ákveðnir þrýstihópar grundvalla sína heimsmynd á.
Hið sorglega er að hið múlbundna tveggja flokka kerfi Bandaríkjanna tryggir að Rick Perry mun eiga ágætan möguleika á að vera forseti, ef hann hlýtur náð fyrir augum Repúblikana í forvalinu. Perry hefur alla burði til að vera verri forseti en tvöfaldavaffið, hann var allavega á líka mikill skussi í skóla (Do we need another dumb Texan for president?).
Ítarefni:
Science Education Is Under Attack in the State of Texas (Again)
ICR Drops Texas Education Suit
Do we need another dumb Texan for president?
Pistlar:
Sagði þróunarkenninguna vera kenningu með götum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:13 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Þakka þér Arnar fyrir afan gáfulegan pistil. Það kemur mér sífellt í opna skjöldu hvernig fullorðið fólk getur efast um þróunarkenninguna. Það er ekki spurning um að trúa, þetta er eins og það að vatn sé blautt, það er bara raunveruleikinn. Takk fyrir smá jarðbundni.
Atli Hafsteinsson (IP-tala skráð) 19.8.2011 kl. 12:40
Mofi kallinn er nú alveg kostulegur, ekki en að fatta hvernig vísindi virka:
Það er búið að útskýra þetta svo oft fyrir honum að það er orðið svoldið pínlegt.
Arnar, 19.8.2011 kl. 14:45
Þetta kom náttúrulega úr svari Mofa við færslu Arnars..
Arnar, 19.8.2011 kl. 14:46
Ótrúlegt það sem kom frá fylkisstjóranum frá Texas.
Góður pistill, bara staðreyndir.
ThoR-E, 19.8.2011 kl. 14:57
Ég er í meginatriðum alveg sammála þessum pistli, en ég hef samt út á tvennt að setja:
Þróun er staðreynd, Þróunarkenningin sem slík er það ekki. Hún er einungis besta mögulega útskýringin sem að tegundin homo sapiens gat komið sér saman um hvað fjölbreytileika lífs á Jörðinni varðar.
"Í vísindum eru tilgátur prófaðar og reyndar, þær sem ekki tekst að afsanna eru álitnar lögmál. Í sumum tilfellum hafa lögmál mjög víðtækt notagildi og útskýra svo mörg atriði í veröldinni, að þau fá stöðu kenningar."
Þetta er ekki alveg rétt... Vísindalegt lögmál breytist ekki og verður að kenningu, en vísindalegar kenningar innihalda oft lögmál.
Lögmál er lítið annað en það sem að við sjáum gerast í heiminum í kringum okkur eftir ítrekaðar prófanir. Það að boltinn sem ég kasta upp í loftið fellur alltaf aftur til Jarðar er lögmál, útskýringar á því hvaða ferlar liggja þar að baki væri kenning (eða tilgáta þangað til að enn fleiri prófanir gætu ekki afsannað það sem er haldið fram í tilgátunni).
Annars finnst mér alltof miklum tíma eytt í athyglissjúka þöngulhausa sem munu aldrei nokkurn tíma sannfærast um eitthvað sem að stangast gegn trú þeirra.
Cognitive bias
Confirmation bias
Belief bias
Ég held að það væri mun viturlegra að berja bara hausnum ítrekað utan í næsta vegg, maður myndi þó missa meðvitund á einhverjum tímapunkti.
Maynard (IP-tala skráð) 19.8.2011 kl. 16:49
Aldrei skilið afhverju fólk kallar þróunarkenninguna Darwinisma. Þegar Herbert Spencer byrjaði með þessa kenningju.
Arnar Magnússon (IP-tala skráð) 19.8.2011 kl. 17:12
Alltaf verð ég jafn agndofa yfir að menntaðir einstaklingar í vestrænu ríki skuli geta misskilið svona hrapalega aðferðarfræði vísinda.
Mofa hafði ég gaman af að rökræða við á vefsíðu hans. Aldrei var ég dónalegur eða móðgandi en þegar spurningar mínar urðu of óþægilegar fyrir hann að svara var eins og hann umturnaðist og skyndilega var mér bannað að skrifa athugasemdir hjá honum. Svona leysa þessir menn líka óþægilegar staðreyndir, stinga höfðinu ofan í sandinn eða læsa þær úti.
Páll Geir Bjarnason, 19.8.2011 kl. 19:36
Það væri verðugt rannsóknarefni fyrir vísindin af hverju sumir eru svona rosalega viðkvæmir þegar kemur að gagnrýni á þróunarkenningunaog....hins vegar, þó að þróunarkenningin sé kannski gölluð á mörgum sviðum og skýri ekki allt út, þá mega "sköpunarsinnar" líka vara sig á að taka öllu sem "þróunarsinnar" segja, sem einhverju bulli.
Vonandi "þróast" heili okkar mannanna það mikið að við getum skilið þessa hluti betur ;-) !!
Brynjar Gunnarsson (IP-tala skráð) 20.8.2011 kl. 00:48
Mofi hreinlega sannar þróunarkenningu, það er augljóst að "Intelligent design" myndi ekki skila af sér afurð eins og honum.
Annars skil ég ekki í ykkur að nenna að karpa í mofa um þessi mál, allir aðrir eru löngu hættir að reyna rökræðu við sköpunarsinna; Það þjónar ekki neinum tilgangi; Er bara pínlegt fyrir ykkur. :)
DoctorE (IP-tala skráð) 21.8.2011 kl. 09:17
Ef við tökum galdrasöguna hans Mofa, sem hann skrifar undir og samþykkir 100%: Here
Ég get líka sagt ykkur frá því að hann Mofi lifir ALLS EKKI eftir því sem biblían segir, ALGERLEGA EKKI; Ég vil ekki bera neinar sögur um hann út, þó er alveg séns á að ég geri það ef hann verður með einhverja stæla; Það eru ekki skárri sögur en af öðrum kristling hér á blog.is.. sem hefur þörf fyrir að bera sig fyrir framan ungar stúlkur og konur.
Allt það sem Mofi skrifar um að lifa eftir biblíu, það gerir hann ekki sjálfur.. eins og er svo oft með þá sem eru ofsatrúar
DoctorE (IP-tala skráð) 21.8.2011 kl. 09:32
Ég er ekki sammála því að það sé tilgangslaust að kommenta á mofa. Með því sjá þeir sem lenda inni á síðunni hans hvers eðlis málflutningur hans er.
Ef honum væri ekki andmælt væri þetta bara einræða sem einhverjir sakleysingjar gætu fallið fyrir.
Haraldur Rafn Ingvason, 21.8.2011 kl. 12:54
Ég er sammála Haraldi, fáfræðin sem amerískir sköpunarsinnar boða á ekki að fá að grassera óhindruð án athugasemda. Þetta snýst ekkert bara um þróunarkenninguna heldur hafnar þetta fólk vísindum almennt.
Reyndar er búið að búa til einhverja vindmyllu úr þróunarkenningunni sem sameinar flest allt það sem sköpunarsinnar vilja ekki sjá, td. virðis þeirra skilgreining á þróunarkenningunni ná yfir td. aldursgreiningaraðferðir (innst inni eru allir sköpunar sinnar Young Earth Creationists), jarðfræði (sem sýnir engin ummerki um alheimsflóð), stórahvell og myndun sólkerfa (heimurinn má ekki hafað skapað sig sjálfur..).
Arnar, 22.8.2011 kl. 11:03
Smá viðbót þar sem ég virðist ekki getað útskýrt mál mitt í einu innleggi þessa dagana:
Sköpunarsinnar reyna að fá alla trúaða til að hafna þróunarkenningunni á þeirri forsendu að hún stríði gegn guðinnum þeirra. Svo lauma þeir inn öllu hinu sem hentar þeim ekki og merkja það 'darwinismi!'. Og ef þeir ná sínu fram sitjum við uppi með flata ~6000 ára jörð með falleg ljós teiknuð á tjaldið sem er strekkt yfir.
Arnar, 22.8.2011 kl. 11:07
Smá innlegg um Rick Perry frá The Young Turcks
http://www.youtube.com/watch?v=dvCjAvDvvos&feature=feedu
Stórhættulegt lið.
Arnar, 22.8.2011 kl. 11:41
Haraldur,
Þeir voru að meina tilgangslaust að kommenta, vegna þess að honum væri ekki viðkomandi, þ.e. að hann gleypir ekki við þeirra eigin sjónarmiðum.
.....þannig að punkturinn þinn er eiginlega ill skiljanlegur?? Ætli hundurinn liggi ekki grafinn þar?, þ.e. þú misskilur hlutina?, eins og þessa umræðu
Bjarni G (IP-tala skráð) 22.8.2011 kl. 15:34
Takk kærlega allir fyrir innleggin. Ég vil ræða þrjá punkta.
Fyrst bendir Maynard réttilega á að lýsing mín á tengslum - tilgáta, lögmála og kenninga er ekki nákvæm. Ég biðst afsökunar á því hversu snubbótt þetta er.
Lögmál festist í sessi þegar ein eða fleiri tilgátur sem af því leiða hafa ekki verið afsannaðar (með ítrekuðum ströngum prófunum). Nokkur lögmál eða yfirgripsmiklar tilgátur má síðan sameina í stærri kenningar. Ég vildi leggja áherslu á að almennt er merking orðanna tilgáta og kenning mjög áþekk í íslensku, en ekki þegar rætt er um vísindalegar tilgátur eða kenningar. Það er því hárrétt sem Maynard segir:
Hann gerir einnig titill pistilsins að umræðuefni:
Ég er sammála því að þróun er staðreynd. Spurningin um það hvort að þróunarkenningin sé staðreynd veltur á því hvað við sammælumst um að þróunarkenningin sé. Það er hægt að tala um þróunarkenningu Darwins, hún var ófullkomin og því ekki staðreynd. Nýja sameinaða þróunarkenningin (new synthesis) var mjög yfirgripsmikil og einstakir þættir hennar hafa ekki staðist tímans tönn. En í einfaldaðri mynd þá má setja fram þróunarkenningu, sem staðhæfir i) sameiginlegan uppruna lífs á jörðinni - að þróunartré tengi allar lifandi verur, og ii) náttúrulegt val búi til aðlaganir, að iii) saga og tilviljanir geti breytt eiginleikum lífvera. Þessi þrjú atriði eru staðreyndir, og með þessari leikfimi get ég réttlætt staðhæfinguna í titli pistilsins.
i annan stað, varðandi mikilvægi þess að andæfa sköpunarsinnum. Ég skil fyllilega punkt Haraldar, um mikilvægi þess að leiðrétta ambögur, lesenda vegna frekar en skrifarans. Það má þó ekki vera á kostnað geðheilsu eða mikilvægari verka, því samskipti af þessu tagi geta orðið mjög skrautleg eins og Páll lýsir.
Í þriðja lagi, Brynjar segir:
Ef það væri sértrúarsöfnuður sem héldi því ítrekað fram að Mars væri úr frómas og sólin sítróna, þá væri e.t.v. komin upp viðkvæmni meðal stjarnfræðinga og annara fræðimanna.
Þróunarkenningin er ekki gölluð. Einstakar tilgátur byggðar á þróunarkenningunni kunna að vera rangar, það þýðir ekki að kenningi sé fallin.
Þróunarkenningin á ekki að skýra allt út, vísindalegar tilgátur og kenningar spá fyrir um afmörkuð fyrirbæri, sem hægt er að sannreyna. Þróunarkenningin fjallar um stofna, breytingar á þeim, skyldleika lífvera, þá krafta sem hafa áhrif á eiginleika lífvera, breytileika í genum, útliti og atferli. Þróunarkenningin segir ekkert um geislavirkar samsætur, rafmagn, gang himintungla o.s.frv...
E.s. takk Arnar fyrir tengilinn.
Arnar Pálsson, 22.8.2011 kl. 18:11
Ef enginn væri að kommenta á ruglið í mofa þá væri hann einn ásamt hinum ruglukollinum úr þessu aðventistabulli.. þeir eru 2-3 ruglukollar mar. Bara það eitt að vera að stappa um þetta við þá fær þá til að halda að þeir hafi eitthvað vitrænt að segja.
Hvað er einhver væri að þvaðra um að Andrés önd hafi skapað alheiminn.. og vísindamenn væru að karpa við hann um þetta; Bara hlægilega grátlegt krakkar mínir, brandari. Sköpunarþvaðrið í Mofa og öðrum sköpunarsinnum er bara það: Geðsjúkt tal um ógurlega ofurönd sem skapaði allan andapollinn svo hver sem á hana trúir verði Jóakim aðalönd en ekki bara bjarnarbófi á botni tjarnarinnar að eilífu.
DoctorE (IP-tala skráð) 22.8.2011 kl. 20:19
Já og nei, persónulega hef ég lúmskt gaman af Mofa, kallaðu það geðveiki á einhverju stigi, og hef lært meira um þróun og trúarbrögð en ég vissi áður.
Hitt er að Mofi er líklega það óöruggur í trúnni að þessi blog hans veita honum einhvers konar öryggis tilfinningu, því meira sem hann skrifa því betur sannfærir hann sjálfan sig um að trú hans sé raunveruleg. Ekki það að ég sé einhver sálfræðingur, bara lesið um þónokkra trúmenn sem hafa 'tapað trúnni' sem segja að á tímabili áður en trúin hvarf þá hafi það eina sem hélt trúnni gangandi verið að 'berjast við guðleysingja' á youtube, bloggum og spjallborðum.
Arnar, 24.8.2011 kl. 11:07
Why I'm no longer a Christian eftir notandan Evid3nc3 er mjög gott dæmi um þetta, hann minnist á þetta í einhverju vídeóinu í seríunni.
Arnar, 24.8.2011 kl. 11:10
Ég held að það sé mikilvægt að gera athugasemdir við málatilbúnað eins og Mofi er með. Reyndar lokaði hann mjög fljótlega á mig og fór að kalla mig dóna og verri nöfnum eftir að ég gerði nokkrar athugasemdir við hans málatilbúnað hér hjá Arnari fyrr í sumar/vor... Ekki veit ég hvað fór í taugarnar á honum, kannski var það sú staðreynd að hann gat ekki svarað með góðu móti..? Það sama má segja um þá sem afneita vísindum (t.d. loftslagsvísindum) og telja að um stórar samsæriskenningar sé að ræða, það þarf að svara þeim á málefnalegan hátt.
Málatilbúnaður, þar sem reynt er að setja eitthvað eins og vitræna hönnun eða afneitun á vísindum í "vísindalegan" dulbúning getur haft áhrif á veikar "sálir" ef það kemur ekkert mótspil. Það mótspil þarf að byggja á gagnrýnni umræðu og rökfærslu með stoðir í raunverulegum niðurstöðum vísindalegra rannsókna, sem hægt er að bakka upp með alvöru heimildum.
Ekki veit ég hvort að maður þurfi að elta svoleiðis umræðu uppi, en allavega svara því á vel völdum stöðum. Þannig hefur maður áhrif á umræðuna, að mínu mati.
Ég hugsa reyndar að maður geti orðið nett ruglaður á að elta þetta of mikið uppi, en hvað um það - einhver þarf að gera það ;)
Sveinn Atli Gunnarsson, 24.8.2011 kl. 11:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.