9.9.2011 | 12:38
Hvert stefnir Tyrkland?
Pistill þessi fjallar ekki um deilur Ísraels, Tyrklands og Palestínumanna.
Tyrkland nútímavæddist snemma á síðustu öld þegar Ataturk leiddi frelsisbaráttu tyrkja og stofnaði nútímalegt lýðveldi ríki á rústum gamla Ottoman heimsveldisins. Aðferðir hans voru all harkalegar, ofbeldi og ofsóknir, en markmiðið var að færa Tyrkland fram í timann. Hann setti upp lýðveldi með öflugt stjórnkerfi, laust við ívilnanir presta og aðalsmanna, iðnvæddi og menntaði þjóð sína. Hann klauf þjóðríkið frá Íslam, bannaði trúardómstóla sem byggðu á sharia lögum.
Þeir tyrkir sem ég kynntist í Bandaríkjunum (þegar ég var við nám í Norður Karólinu) voru allir trúir þessari sýn á Tyrkland. Landsmenn voru sannarlega múhameðstrúar, en þessir nemar sem við kynntumst voru fyrst of fremst stoltir Tyrkir sem vildu mennta sig og gera vel fyrir land sitt. Margir þeirra fengu styrki til náms erlendis, sem þeir urðu að endurgreiða með eins konar þegnskyldu vinnu. Læknar sem sóttu sérmenntun til Ameríku, urðu að vinna einhver ár á spítala í Tyrklandi (ellegar endurgreiða styrkinn að fullu).
Í stjórnartíð Erdogans og félaga í hinum íslamska AKP flokki (kosnir til valda árið 2002) virðist sem Tyrkland hafi sveigt af braut Ataturks. Það er ekki slæmt í sjálfu sér, því í Tyrklandi var herinn með of mikil ítök, en þeir hafa einnig lagt til atlögu við dómskerfið og menntakerfið.
Í Nature vikunnar er fjallað um tvær atlögur stjórnar Erdogans að vísindastarfi í Tyrklandi. Með tilskipun var rannsóknaráði Tyrklands (TÜBİTAK, the Scientific and Technological Research Council of Turkey) breytt á þann hátt að ítök stjórnmálamanna voru aukin (svipaðar breytingar voru gerðar á 10 öðrum ráðum og stofnunum sem eiga að vinna á vísindalegum grunni). Það segir sig sjálft að leppar skipaðir af stjórnmálamönnum eru tæplega færustu sérfræðingar á hverju sviði, og því viðbúið að fagleg vinnubrögð séu á undanhaldi.
Annað útspil var tilskipun um Tyrknesku vísindaakademíuna (Turkish Academy of Sciences TÜBA), sem er/var sjálfstætt ráð Tyrkneskra vísinda og tæknifélaga. Samkvæmt tilskipuninni færist TÜBA undir menntamálaráðaneyti Tyrklands, sem skipar þriðjung fulltrúa, þriðjungur er skipaður af Menntaráð Tyrklands (sem er hæl stjórnvalda og forsætisráðherrans) og þriðjungur eru "frjálsir" fulltrúar vísinda og tækni í Tyrklandi. Með þessu gerræðislega inngripi er hérmeð búið að svipta Tyrkneska vísindamenn sjálfstæðinu. Þetta væri svona svipað og ef Menntamálaráðaneytið tæki yfir KSÍ, Fuglavernd eða líffræðifélagið.
Því miður eru þessir atburðir ekki einsdæmi, stjórn Erdogans hefur hoggið niður sjálfstæðar vísindastofnanir og lamað rannsóknir í sameindalíffræði með fáranlega ströngum lögum um erfðabreyttar lífverur. Nú er skammt að bíða að íslömsku sköpunarsinnarnir banni rannsóknir á þróun, eða jafnvel náttúrulegt val á tyrkneskri grundu.
Ítarefni:
Editorial A very Turkish coup Nature 477, 131 (08 September 2011) doi:10.1038/477131a
Egypt: Doubts cast on Turkish claims for model democracy Robert Tait guardian.co.uk, Sunday 13 February 2011
Vilja ekki svara Erdogan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:59 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Aldrei skilið afhverju þetta kerfi hefur ekki verið tekið upp á Íslandi. Bara það að bæji/sveitafélög úti á landi myndu styrkja nám í læknisfræði eða bara kennaranámi gegn því að viðkomandi kæmi og ynni í X ár.
Arnar, 9.9.2011 kl. 12:47
Annars virðast sköpunarsinnar vera í mikilli sókn í Tyrklandi og vera í miklu sambandi við ID samtök ýmiskonar í BNA. Sem er mjög skemmtilegt í ljósi þess að ID-sinnar þverneita fyrir það að vera sköpunarsinnar.
Arnar, 9.9.2011 kl. 12:49
Arnar
Ég er sammála þér með styrki til náms og endurgreiðslu í formi þegnskylduvinnu. Með þessu má leysa læknaskortinn hérlendis, þ.e. dæmið um lækninn var ekki tilviljun.
Tyrknesku sköpunarsinnarnir eru í miklum ham. Þeir hafa sannarlega sótt í smiðju amerískra sköpunarsinna og njóta stuðnings þeirra. Tilgangurinn helgar meðalið og bræðralagið.
Öfgamenn allra trúarbragða sameinist.
Arnar Pálsson, 9.9.2011 kl. 13:05
Þeir sem eru hlynntir því að fá Tyrkland inn í ESB gera sér ekki grein fyrir, að það eru aðallega stórborgirnar Istanbul og Ankara auk Izmir, þar sem veraldleg (secular) sjónarmið hafa unnið á, en ekki til sveita. Það er stundum sagt, að í bæjum og þorpum á anatólísku hásléttunni hafi tíminn stöðvazt á 7. öld, enda eru nauðungarhjónabönd og heiðursmorð ennþá iðkuð þar skv. sharia-lögum. Þótt sharia-dómstólarnir séu ekki formlega starfandi lengur.
Varðandi afturhvarf til stjórnar islamista í opinbera kerfinu (menntun og vísindarannsóknum), þá vissu allir þegar flokkur Erdogans tók við stjórnartaumunum, þá myndi þetta gerast smátt og smátt, þótt ekki væri hægt að stofna islamskt ríki, enda gengur það í berhögg við stjórnarskrána. (Nákvæmlega eins og þegar baptistinn George W. Bush varð forseti, þá var augljóst að það myndi verða afturför í öllum vísindalegum framförum og skólastarfi).
En að öðru leyti er ég heilshugar hlynntur stuðningi Tyrkja við Palestínumenn í Gaza hvað varðar flutning á nauðsynjum þangað. Svo er bara spurning hvort verði stríð ef þeir senda herskip næst með skipalestinni.
Annars hefur hagur Gazabúa vænkazt til muna eftir að landamærin milli Gaza og Egyptalands voru opnuð að einhverju leyti. Fyrir þann tíma voru Palestínumenn á svæðinu í sömu sporum og gyðingarnir í ghettóunum í Warszawa eftir 1939: Innilokaðir, einangraðir, sveltir og án lyfja.
Vendetta, 9.9.2011 kl. 18:52
Ég áttaði mig fyrst á þessari tengingu íslamskra og ameriskra ID sinna þegar ég rakst á og lagðist aðeins yfir hina stórglæsilegu bók Atlas of Creation. Varð kjaftstopp þegar ég áttaði mig á að höfundurinn var tyrkneskur múslimi. Bókin er flottasti áróðurspési sem ég hef séð og stílar á þá gamalreyndu taktík að ef eitthvað er sagt nógu oft þá hljóti það að vera satt.
Raunar verður að teljast skondið í þessu ljósi, allt hið gagnkvæma villurtúartal bókstafskristinna og bókstafsmúslíma - sem trúa svo eftir allt á sama guðinn. Fátt sýnir hugsandi fólki betur fram á þá staðreynd að bókstafstrúarbrögð eru aðeins pólitískt stjórntæki - og það mjög öflugt!
Um höfundin og verk hans má fræðast á þessari síðu. Skrauteg lesning á köflum.
Haraldur Rafn Ingvason, 9.9.2011 kl. 21:54
Vendetta
Samkvæmt því sem ég hef lesið er AKP ekki alvondur flokkur, og þeir hafa komið mikilvægum umbótum í gegn. Ítök hersins í Tyrkneskum stjórnmálum voru fáranlega mikil, en það þýðir ekki að í stað þeirra sé betra að fá ítök ímannana.
Bæði Erdogan og W.Bush klæddu sig í skikkju hófsamra, en tala/töluðu samt með lykilorðum og leyniorðalagi við sína kjarna stuðningsmenn. Málið er að kjósendur vissu ekki hvað þeir voru að velja, kjósendur vita það sjaldnast og því komast stjórnmálamenn upp með allskonar auglýsingabrellur og lýtalækningar á sjálfum sér.
Deila Ísraela og Palestínu er ein sorgarsaga, og e.t.v. eru þessi útspil Tyrkja til hins betra. Samt finnst mér þeir of stóryrtir og að þeir beini orðum sínum til öfgahópa, en reyna ekki að miðla málum eða landa lausn. Kýs að ræða þetta ekki ítarlegar.
Haraldur
Atlas sköpunar er náttúrulega alger skandall. Þessum bókum er dælt á öll ráðaneyti á Vesturlöndum, skólastofnanir og fleira. Þetta er ígildi "carpet-bombing" í stríðinu gegn vísindum. Blessunarlega eru flestir hérlendis ónæmir fyrir vitleysunni, en ímyndaðu þér ef einhvert glórulaust fólið velst í embætti ráðherra hérlendis....æi íslandsagan geymir bílfarma af slíku fólki. Hjálpi oss Tútti.
Arnar Pálsson, 9.9.2011 kl. 22:15
Það ættu að vera lög gegn því að nefna eitthvað apparat sem berst á móti framþróun vísinda "Science Research Foundation".
Arnar, 12.9.2011 kl. 11:52
Markaðssetning, sbr. Discovery institute, Patriot act, "yes we can", "the third way"...
Arnar Pálsson, 13.9.2011 kl. 11:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.