Leita í fréttum mbl.is

Er hægt að vera bæði fræðari og sérfræðingur?

Vísindi síðustu áratuga ára, hafa einkennst af frekari sérhæfingu fræðasviða og viðfangsefna vísindamanna. Sannarlega eru til forvitnilegar undantekningar, þar sem eðlisfræðingar hlaupa yfir í líffræði, læknar í tölfræði og fuglafræðingar í felur. En á öld sérhæfingar, hvaða möguleika eiga sérfræðingar á því að verða fræðarar? Eðlilega stendur þessi spurning mér dálítið nærri, þar sem ég stunda rannsóknir dagvinnu og leitast við að fræða með pistlum mínum. Vandamálið er alls ekki nýtt af nálinni, eins og Steindór J. Erlingsson rekur í pistli á vísindavefnum stóð Julian Huxley í sömu sporum í upphafi síðustu aldar (Hver var Julian Huxley og hvert var hans framlag til líffræðinnar?). Pistillinn hefst svo:

Julian Huxley (1887-1975) er einn af þekktustu líffræðingum Breta á 20. öld. Kom hann víða við en er líklega kunnastur fyrir Evolution, Modern Synthesis (1942). 

Fisher og Wright höfðu leyst gátuna um erfðafræði Mendels og þróunartilgátur Darwins, en sameinaða þróunarkenningin (the new synthesis) þarfnaðist frekari tenginga við almenna líffræði, steingervinga og grasafræði. Í bók sinni og alþýðlegum skrifum kynnti Julian samþættingu erfðafræði Mendels og þróunarfræði Darwins fyrir vísindamönnum og öðrum. Framlag hans til vísinda var hins vegar minna, eins og Steindór rekur:

Í sjálfsævisögu Hogbens getur hann þess að á meðan Huxley starfaði í Bandaríkjunum hafi hann haft einstakt tækifæri til þess að kynna sér það nýjasta sem var að gerast þar innan dýrarfræðinnar. Eftir fyrri heimsstyrjöldina kynnti hann þessar nýjungar, sem „enn höfðu ekki haft nein áhrif á breska dýrafræði“, í fyrirlestrum víða um Bretland. Hogben bendir hins vegar á að áhrif Huxleys á upprennandi kynslóð líffræðinga hafi „á engan hátt endurspeglað nýmæli rannsókna hans“. Þetta má glöggt sjá í þeirri staðreynd að á tímabilinu 1921–1925 átti Huxley í nokkrum erfiðleikum með að fá niðurstöður rannsókna sinna birtar.

Vinir hans voru vel meðvitaðir um þetta vandamál. Töldu þeir skýringuna liggja í „endalausum ritstörfum og annarri vinnu sem beindi orku hans“ frá vísindarannsóknum, eins og Hogben komst að orði í bréfi árið 1922. Breski líffræðingurinn George P. Bidder (1863–1953) var ekkert að skafa utan af því í bréfi til Huxleys síðla sumars 1925 þegar hann bað Huxley „í guðanna bænum“ að gera upp við sig

í hvaða grein líffræðinnar þú ert sérfræðingur. Enginn getur núorðið verið allsherjar sérfræðingur, nokkuð sem þykir svo víst að ef einhver reynir að kynna sig sem slíkan, mun fólk að ósekju telja hann ótraustan á öllum sviðum. Þú mátt ekki láta hugdettuna um að herma eftir afa þínum [T.H. Huxley] leiða þig af réttri braut; við ráðum yfir tíu sinni meiri líffræðilegri þekkingu nú en þá, ef til vill tuttugu sinnum.
Hér komum við að kjarna málsins. Þó Huxley hafi verið ötull talsmaður nýju dýrafræðinnar í Bretlandi hlýddi hann ekki kalli samtímans um að kafa djúpt ofan í vel skilgreind rannsóknaverkefni. Það þarf því ekki að koma á óvart að alþýðleg skrif Huxleys og efasemdir um gæði rannsóknavinnu hans komu í tvígang á síðari hluta þriðja áratugarins í veg fyrir að hann næði kjöri í Konunglega félagið í London, virtasta breska vísindafélaginu. Huxley var loks kjörinn árið 1938.

Að mínu viti eru kosningar í félög og stjórnir bara eitt birtingarform framlags vísindamannsins. Starf að skipulagi, geta til framkvæmda, ritstjórn og stjórnarseta eru allt mikilvæg atriði í vísindastarfi, en allir vísindamenn vilja einnig uppgötva eitthvað verulega nýtt og spennandi. Til þess þarf maður eiginlega að vera sérfræðingur, jafnvel það mikill sérfræðingur að bara hinir 5 fluguvængjasérfræðingarnir eigi séns á að skilja hvað þú ert að fara.

Steindór J. Erlingsson. „Hver var Julian Huxley og hvert var hans framlag til líffræðinnar?“. Vísindavefurinn 27.9.2011. http://visindavefur.is/?id=60745. (Skoðað 23.10.2011). 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Merkilegt að enginn skuli kveikja á þessari spennandi umræðu. Ég held að það hljóti að vera mjög erfitt að sameina það að stunda rannsóknir á þröngu efni, af þeirri einbeitingu og þrautseigju, sem ég held að þurfi til að ná árangri á því sviði og að kenna.

Einstaka einstaklingum er líklega gefið að geta hvort tveggja, en varla samtímis. Það fer þó líklega eitthvað eftir hvert viðfangsefnið er.

Hólmfríður Pétursdóttir, 31.10.2011 kl. 01:05

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæl Hólmfríður

Góður vísindamaður þarf að geta hannað rannsóknir, framkvæmt þær, greint gögnin, sett niðurstöðurnar í samhengi, kynnt þær með erindum og sett fram í vísindagrein. Enginn vísindamaður er góður í þessu öllu, en þarf að bera til brunns grunnfærni á öllum sviðum. Því ef maður klikkar á einu atriði er í raun klippt á keðjuna. Eina atriðið sem menn komast kannski upp með að vera slakir í er - að kynna efni með erindum. 

Þeir sem eru góðir að kynna með erindum eru oft góðir kennarar, en góðir kennarar eru ekki endilega góðir vísindamenn.

Háskólakerfið mætti alveg vera sveiganlegra, og nýta þannig krafta góðra kennara og góðra rannsakenda á sem skilvirkastann hátt.

Arnar Pálsson, 1.11.2011 kl. 17:09

3 identicon

Ég var að skoða MIT háskólann í Bandaríkjanum um daginn, þar sá ég að boðið var upp á framhaldsnám í vísindaskrifum (Science Writing). Mig grunar að prógrammið sé meira sniðið að miðlun vísinda (t.d. blaðaskrifum, popp tímaritum, bókum eða öðrum skemmtilegum formum) fyrir leikmenn, fremur en fyrir núverandi vísindamenn að bæta það hvernig þeir koma vísindunum sínum frá sér. En viðleitnin er áhugaverð.

Rúnar (IP-tala skráð) 2.11.2011 kl. 13:07

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Rúnar

Held að þú lýsir margmiði þessa framhaldsnáms rétt. Það væri samt sannarlega þörf á því fyrir vísindamenn að taka eitt eða fleiri námskeið á þessu sviði.

Einn sprækasti vísindamaðurinn í deildinni minni í Norður Karólínu hafði einmitt unnið fyrir sér sem fréttapenni, áður en hann fór í framhaldsnám í líffræði. Ég tel það mjög mikilvægt að ungt fólk æfi sig í skrifum, slíkt nýtist óháð því hvaða atvinnu fólk landar.

Arnar Pálsson, 2.11.2011 kl. 15:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband