2.12.2011 | 10:42
Aðgengi að gögnum og kennitölur vísindamanna
Fyrsta daginn minn sem doktorsnemi í Norður Karólínu lét leiðbeinandi minn Greg Gibson mig fá bókina Lords of the fly, eftir Robert Kohler. Bókin fjallaði um ávaxtafluguna (sbr undirtitillinn Drosophila Genetics and the Experimental Life) og mennina sem rannsökuðu hana í upphafi síðustu aldar. Í upphafi fjallar bókin um Thomas H. Morgan og nemendur hans en þræðir síðan hvernig flugan (og skyldar tegundir) urðu að fyrsta flokks tilraunalífveru fyrir margvíslegar rannsóknir í líffræði og læknisfræði.
Ein mikilvægasta hugmynd flugumannana var að deila efnum og aðferðum. Vísindin höfðu löngum verið dægradvöl ríkra aðalsmanna, og lítið um samstarf hópa og það að menn deildu efnivið. Ávaxtaflugugengið við Columbia Háskóla vann allt sem einn hópur, skiptust á hugmyndum og stökkbreytingum ef ekki hádegisverði og nærfatnaði. Þeir sendu líka stökkbreyttar flugustofna til hvers sem þiggja vildi og þannig varð til mjög öflugt samfélag sem byggði á þeirri heimspeki að afurðir vísinda ættu að vera öllum aðgengilegar.
Hugmyndafræðin um opið aðgengi (open access) er ríkjandi í vísindum í dag, þegar við birtum rannsókn þar sem raðgreind voru gen er þess krafist að raðirnar séu sendar í opna gagnagrunna. Og það er að færast í aukanna að fólk sendi heil gagnasett (mælingar á vænglengd þrasta, vöxt kartöfluafbrigða, tölur um arfgerð í þorskstofninum...o.s.frv) í opin varðveislusöfn (eins og t.d. Dryad, sem ég held að standi fyrir digital repository for data).
Þetta birtist á nokkra vegu, Bandaríska stofnunin fyrir líftækni upplýsingar (NCBI) leyfir fólki að senda inn gögn af ýmsu tagi. Einnig eru til gagnagrunnar fyrir margvísleg sérhæfðari gagnasett á sviði líffræði, eðlisfræði, stjarnfræði o.s.frv.
Samhliða þessu hefur aukist áherslan á að vísindamenn fái algilda kennitölu, sem þeir geti notað til að auðkenna sín verk í mismunandi gagnagrunnum. Ástæðan er sú að erfitt er að greina milli Jóns Jónssonar líffræðings og Jóns Jónssonar verkfræðings. Um það snýst ORCID (open researcher and contributor ID) verkefnið. Einn af talsmönnum verkefnisins er íslendingurinn Guðmundur A. Þórisson, sem lauk doktorsprófi frá Háskólanum Leicester. Hann hefur talað fyrir því að fleiri verk vísindamanna, ekki bara ritrýndar greinar séu aðgengilegar í gagnagrunnum. Margir stuðla að framförum með því að skrifa forrit, hanna vinnuferla og setja saman vönduð gagnasett, og það er eðlilegt að þeir hljóti umbun fyrir. Hann hefur hugsað um það hvernig svona breytingar ganga fyrir sig.
Þar skiptir mestu að fá nægilega stórt hlutfall um borð (Það skiptir engu máli þótt að þú búir til sparneytnasta bíl í heimi og leysir orkuþörf mannkyns, ef enginn trúir á lausnina þína og hún situr ónotuð í kjallara íshússins.)
Aukaefni:
Vision, T.J. Open Data and the Social Contract of Scientific Publishing. BioScience 60, 330-330 (2010). http://dx.doi.org/10.1525/bio.2010.60.5.2
Opinn aðgangur - Íslandsdeild.
Vísindadagatalið: Thomas H. Morgan og ávaxtaflugan
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 15:15 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.