15.12.2011 | 15:08
Íslensku vísindabækur ársins
Fjórar íslenskar vísinda og fræðibækur hljóta mín einlægustu meðmæli. Tvær þeirra eru þýðingar (Fiskurinn í okkur og Skipulag alheimsins) en tvær samþætta vísindi og samfélag (Sæborgir og Þingvellir).
Your inner fish eftir Neil Shubin var þýdd af Guðmundi Guðmundssyni og gefin út af Ormstungu á haustmánuðum undir titlinum Fiskurinn í okkur. Um er að ræða snilldartexta frá höfundarins hendi. Neil samþættir steingervingafræði, þekkingu okkar á líffærum og genum til að afhjúpa hina sameiginlegu þætti spendýra, hryggdýra og fjölfruma dýra.
Úr tilkynningu Ormstungu.
Hvers vegna lítum við út eins og raun ber vitni? Hvað á mannshöndin sameiginlegt með fluguvæng? Eru tengsl milli brjósta, fiskhreisturs og svitakirtla? Af hverju fáum við hiksta?
Til þess að skilja betur starfsemi líkamans og grafast fyrir um uppruna algengustu sjúkdóma þarf að leita að upptökunum í ótrúlegustu kvikindum eins og ormum, flugum og fiskum.
Í þessari bók skyggnist höfundur milljónir ára aftur í sögu alls lífs, löngu áður en nokkur skepna gekk um á jörðinni, og skýrir hvernig nýjar uppgötvanir og aðferðir náttúruvísindanna bregða birtu á skyldleika manna við gerólíkar lífverur, eins og bakteríur, sæfífla, orma, flugur, fiska og marglyttur.
Fyrst er lýst hvernig menn bera sig að við að leita steingervinga og segir svo frá því hvernig Tiktaalik, týndi hlekkurinn milli lagar- og landhryggdýra, fannst árið 2006 á norðurslóðum Kanada nálægt 80. breiddargráðu. Fundurinn varpaði nýju ljósi á upphafið að þróun landhryggdýra og breytingarnar sem urðu á vistkerfi jarðar.
Shubin leggur áherslu á að við berum með okkur arfleið forföður sem bjó í hafinu. Á sama hátt má segja að við berum með okkur arfleið sameiginlegs forföður okkar og ávaxtafluga, okkar og amöbu og okkar og gersvepps. (úr Darwin var fiskur)
Þetta þýðir einnig að kengúrur bera einnig í sér arfleifð forföðurs sem bjó í hafinu, og ávaxtaflugur þætti sem sameiginlegur forfaðir okkar og þeirra bjó yfir fyrir 500-450 milljón árum síðan.
Skipulag alheimsins er eftir hinn heimskunna Stephen_Hawking sem nýtur aðstoðar galdramannsins(pennans) Leonards Mlodinow . Þýðingu önnuðust Baldur Arnarsson og Einar H. Guðmundsson, og fá má bókina á tilboði á aðeins 3.990 kr. Við fjölluðum stuttlega um bókina áður (SKIPULAG ALHEIMSINS á íslensku) en birtum hér aðeins ágrip af vefsíðu íslensku þýðingarinnar:
Hér kynna Stephen Hawking og Leonard Mlodinow nýjustu hugmyndir vísindamanna um ráðgátur alheimsins. Þeir setja fram þá tilgátu að ekki sé til nein ein útgáfa af raunveruleikanum. Einnig útskýra þeir fjölheimstilgátuna sem gerir ráð fyrir mörgum alheimum og kynna til sögunnar þá tilgátu að alheimurinn eigi sér ekki aðeins eina tilvist eða sögu. Loks fjalla þeir um M-kenninguna, útskýringuna á lögmálum sem stjórna okkur og alheiminum. Hún er sennilega besta heildstæða kenningin um allt sem völ er á. Ef hægt er að staðfesta kenninguna, segja þeir, verður hún sameinaða kenningin sem Einstein leitaði að og hinn endanlegi sigur mannlegrar rökhugsunar.
Sjá einnig Bókin sem íslenskir bókaútgefendur vildu ekki gefa út! á stjörnufræðivefnum og umfjöllun Gunnars Th. Gunnarssonar um Skipulag alheimsins.
Þingvellir, þjóðgarðar og heimsminjar Sigrúnar Helgadóttur samþættir vísindi, sögu og samfélag. Sigrún hlaut fræðibókaverðlaun hagþenkis fyrir bók sína um Jökulsárgljúfur og þessi bók er engu síðri. Mann skyldi ætla að nóg hafi verið skrifað um Þingvelli, og að erfitt sé að toppa meistaraverk Péturs Jónassonar og Páls Hersteinssonar heitins Þingvellir- undraheimur í mótun. Sigrún tekur vel á viðfangsefninu, og hefur bersýnilega varið mörgum dögum við rannsóknir á rituðum heimildum og ekki síður að kanna landið með eigin fótum. Þingvellir eru náttúrulega einstakt jarðfræðifyrirbæri, en skarta einnig sérstæðu lífríki. Saga staðarins er samofin sögu þjóðarinnar. Þótt við lifum ekki lengur eins og Hraunfólkið, þá tel ég ákaflega hollt fyrir íslendinga að muna, bæði uppruna lýðræðisins og þá samvinnu og vinnusemi sem hélt lífi í forfeðrum okkar.
Sæborgir Úlfhildar Dagsdóttur bókmenntafræðings kom út um miðbik ársins hjá Háskólaútgáfunni. Um er að ræða ágætlega skrifaða samantekt á snertiflötum tækni, líffræði, læknisfræði og verkfræði. Titill bókarinnar er Sæborgin: Stefnumót líkama og tækni í ævintýri og veruleika og spannar vítt svið. Sem bókmenntafræðingur nálgast Úlfhildur viðfangsefnið mikið til frá sjónarhorni ritaðs skáldskaps, en er einnig rösk að tína þemu og hugmyndir úr tónlist og myndlist. Veikleikar bókarinnar eru kannski helst í umfjöllun um líftækni, þar sem hún hefur ekki alveg burði til að greina mun á raunverulegum minna verulegum möguleikum á inngripum og tæknivæðingu læknavísinda. Það verður þó að viðurkennast að markmið hennar er líklega víðtækara en að kanna í þaula hagnýtt sambland tækni og lífvera. Hún segir allavega í viðtali við RVE í Fréttablaðinu (Líftækni í ljósi skáldskapar 13. ágúst 2011)
Allt miðar þetta að því að skoða hvaða áhrif tækni hefur á samfélagið okkar og einstaklinginn sjálfan eða hugmyndir okkar um mennsku," bendir Úlfhildur á og bætir við að hugmyndirnar séu setta fram til að dýpka skilning íslenskra lesenda á þessum flóknu fyrirbrigðum, líftækni og sæborgum. Blaðamaður biður hana vinsamlegast um að útskýra nánar hugtakið sæborg áður lengra er haldið. "Sæborg er nærtækt dæmi um líftækni úr skáldskap og vísar til lífveru sem er að einhverju leyti vélræn eða vélar sem er að einhverju leyti lífræn," segir hún og tekur ófreskju Frankensteins og tortímandann úr samnefndum kvikmyndum sem dæmi um slíkar verur. "Ef við heimfærum þá skilgreiningu yfir á veruleikann mætti segja að við séum flest að einhverju leyti sæborgir í samfélögum nútímans sem reiða sig á alls konar tól og tækni. Svona rétt eins og þú ert að pikka þetta samtal inn á tölvu sem er þá orðin framlenging af þér," segir hún glettin. "Þess vegna fannst mér sæborgin ágætt viðmið því við getum sett okkur í hennar spor."Hvernig þessi nálgun á síðan eftir að hugnast vísindamönnum segir Úlfhildur svo annað mál. "Ég veit að þeir sem starfa á þessu sviði eru lítt gefnir fyrir að skella þessu öllu saman í einn hrærigraut eins og gert er í bókinni. Mér finnst hins vegar nauðsynlegt til að setja hlutina í stærra samhengi," segir hún og kveðst vona að bókin veki umtal. "Eiginlega stóla ég á að hún valdi deilum," segir hún og brosir.
Ég get eindregið mælt með hugvekju Úlfhildar og bendi á að hún mun fjalla um efni bókarinnar á morgun (16. des 2011), á fræðslufundi Vísindafélags Íslands. Erindið kallast Frankenstein og félagar: líftækni í ljósi skáldskapar (Kaffi Sólon, Bankastræti 7a efri hæð, kl. 15:00).
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Bækur | Breytt s.d. kl. 15:12 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Hugsa mér gott til glóðarinnar að lesa allar þessar bækur. Undrandi á því að bókaútgefendur skuli ekki hafa viljað gefa út bók eftir jafn frægan mann og Hawking. Hún er ekki einu sinni í Bókatíðindum. Svo eru krimmar og lélegar skáldsögur lofaðar upp úr öllu valdi í auglýsingum. Hvað er að þessum mönnum?
Sigurður Þór Guðjónsson, 15.12.2011 kl. 16:23
Sæll Sigurður
Ég botna ekkert í þessu með bók Hawkings, en þetta er lýsandi fyrir viðhorf bókaútgefenda og mögulega þjóðarinnar.
Vísindi og fræði eru ekki í tísku á Íslandi, við erum frekar land skáldskapar og kveðskapar nú sem endra nær.
E.s. ég eyddi fyrri athugasemd minni vegna þess að ég hnýtti saman skáldskap og blammeringar í setningarómynd.
Arnar Pálsson, 16.12.2011 kl. 16:29
Skipulag alheimsins er alveg hreint mögnuð bók. Tek undir að það er óskiljanlegt að bókaútgefendur vildu ekki koma nálægt útgáfu bókarinnar. Vonandi naga þeir sig í handarbökin yfir skammsýni sinni.
Gunnar Th. Gunnarsson, 17.12.2011 kl. 13:36
Er að hugsa um að nálgast "kipulag alheimsins.
Hitt er svo alveg rétt að vísindi virðast ekki eiga upp á pallborðið um þessar mundir og ekki allir sem skilja vísindalega nálgun og afneita jafnvel þeim hluta vísindanna sem ekki passa við persónlegar skoðanir viðkomandi. En vonandi mun það breytast í framtíðinni, enda eru vísindi undirstaða þekkingar okkar á svo mörgum sviðum.
Sveinn Atli Gunnarsson, 20.12.2011 kl. 14:49
Gunnar
Bókaútgefendur skilja aðallega sölutölur, vonandi nær skipulag alheimsins stjarnfræðilegri sölu hérlendis...
Sveinn
Mæli eindregið með bókinni.
Það er alveg sérkapituli hvernig fólk misskilur vísindi eða leyfir sér að sveigja þau í "viðkvæmum" eða "pólitískum" málum.
Ég er hræddur um að við eigum eftir að sjá meira af innfluttum fordómum gagnavart ákveðnum vísindum eða niðurstöðum, því skilningur landans á eðli vísinda er ansi grunnur.
Lausnin er vitalega skýr og fordómalaus miðlun grundvallaratriða vísindalegrar aðferðar, með einföldum og gagnsæum dæmum.
Arnar Pálsson, 20.12.2011 kl. 17:03
Gott mál! Takk fyrir að vekja athygli á þessum verkum.
Svanur Sigurbjörnsson, 31.12.2011 kl. 02:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.