Leita í fréttum mbl.is

Erindi: Guðmundur Georgsson á Keldum og erfðamengi hitaþolinna baktería

Ég vildi benda líffræðilega þenkjandi fólki á tvö forvitnileg erindi í þessari viku. Fyrst ber að nefna erindi Sigurðar Ingvarssonar um Guðmund Georgsson lækni, sem starfaði lengstum á Rannsóknastöð háskólans í meinafræði að Keldum. Úr tilkynningu:

Miðvikudaginn 11. janúar 2012 er við hæfi að rifja upp rannsóknastörf Guðmundar Georgssonar læknis, en þá eru liðin 80 ár frá fæðingu hans, en hann lést 13. júní 2010. Fræðasvið Guðmundar var meinafræði og starfaði hann lengst af á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum sem sérfræðingur í líffærameinafræði og einnig veitti hann stofnuninni forstöðu um árabil. Doktorsritgerð Guðmundar frá Háskólanum í Bonn fjallaði um æxlisvöxt, en að Keldum starfaði hann lengst af með príon- og veirusjúkdóma í sauðfé. Meinafræði hefur skipað stóran sess í starfinu á Keldum og framlag Guðmundar á því fræðasviði efldi skilning á framgangi sjúkdóma og samspili hýsils og sýkils. Hann var í mikilvægri alþjóðlegri samvinnu beggja vegna Atlantshafsis. Guðmundur vann að því að efla Tilraunastöðina sem alþjóðlega vísindastofnun og vildi ávallt framgang hennar sem mestan. Í fyrirlestrinum verður rýnt í helstu vísindaritverk Guðmundar.

Hitt erindið flytur Sigmar Stefánsson doktorsnemi við Líf og umhverfisvísindadeild HÍ sem starfar með Guðmundi Ó. Hreggviðssyni á Matís. Erindi hans fjallar um erfðamengi hitaþolinna baktería af ættkvíslinni Thermus. Úr tilkynningu:

Föstudaginn 13. janúar 2012 mun Sigmar Stefánsson doktorsnemi við Matís og Líf og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands halda erindi um aðskilnað tegunda í ættkvísl hitakærra Thermus baktería.

Doktorsverkefni Sigmars fjallar um erfðamengi hitaþolinna Thermus baktería, sem eru algengar í heitum hverum m.a. á Íslandi. Markmiðið er að skilgreina umhverfisbreytur sem hafa áhrif á erfðauppbyggingu mismunandi Thermus tegunda og stofna, sem hafa verið raðgreindar í heild sinni. Könnuð er samsetning erfðamengjanna, flutningur gena á milli tegunda (hliðlægur genaflutningur - lateral gene transfer) og breytingar á genafjölskyldum. Sigmar hefur skrifað forrit til að kanna erfðasamsetningu Thermus tegundanna með tilliti til efnaskipta, umritunar, prótín og umhverfisbreyta.

Titill erindisins er Pan-thermus, classification and evolutionary analysis of the thermophilic microbial genus of Thermus. (Pan-thermus, aðskilnaður tegunda í ættkvísl hitakærra Thermus baktería). Erindið verður flutt á ensku.

Föstudagfyrirlestrar Líffræðistofnunar fara fram í stofu 130 í Öskju, Náttúrufræðahúsi HÍ. Þeir eru öllum opnir með húsrúm leyfir og eru fluttir á íslensku (nema annað sé tekið fram). Dagskrá í heild sinni má sjá á vef Líf og umhverfisvísindadeildar HÍ.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband