18.1.2012 | 15:35
Gömul viðskiptaveldi og nútíminn
Mörg fyrirtæki byggjá einkaleyfum á tiltekinni vöru eða rétti til að fjölfalda efni (bækur myndbönd eða tónverk). Þetta er skiljanlegt, hvað varðar höfund og framleiðslu. Ef einhver hefur haft fyrir því að semja mikið skáldverk, eða taka saman fræðilegan texta um hvali eða stjörnuþokur, þá er eðlilegt að viðkomandi fái greiðslu fyrir vinnu sína. Þeir geti selt Jarðnæði, Harðsoðið undraland... eða Biophiliu (Wilsons eða Bjarkar) fyrir sanngjarnt verð. Til þess að auðvelda fólki þetta spruttu upp útgefendur, bóka, hljóðritanna og tímarita. Sérhæfðir aðillar sem gerðu hlutina á hagkvæmari hátt en einyrkjar.
Nú er kominn upp annar veruleiki. Gömlu viðskiptaveldin riða til falls, vegna þess að tölvu og netvæðingin hefur grafið undan tangarhaldi þeirra og vegna þess að hinir klassísku miðlar eru á undanhaldi.
Opið aðgengi og stuldur
Tveir mikilvægir þættir í þessu samhengi eru heimspeki tölvunarfræði og vísinda og mannlegt eðli. Víkjum fyrst að heimspeki sem mjög margir "frítt-lifandi" tölvunarfræðingar vinna eftir. Þetta er hugmyndin um opinn aðgang (open access), sem er sérstaklega sterk í linux-hluta netheima. Fjöldinn allur af forritum hafa verið skrifuð með þessu fororði, forritið er opið og öllum aðgengilegt til breytinga og betrumbóta, að því skilyrtu að viðkomandi reyni ekki að selja það þriðja aðilla.
Mannlega eðlið kemur svo til leiks þegar napster kynslóðin kýs að hundsa höfundarétt. Fólki finnst ekkert mál að stela tónlist, kvikmyndum, bókum og texta af netinu, jafnvel þótt það þýði að Mugison eða Stephen Hawking hafi ekki efni á humar þau jólin. Fyrir hvern metsöluhöfund eru örugglega 100 eða fleiri höfundar eða listamenn sem rétt skrimta, og þá munar aldelis um hvert selt eintak af bók, diski eða mp-þristi.
wikipedia
Einn vettvangur baráttu klassískra viðskiptavelda og hins opna netsamfélags eru síður eins og Wikipedia. Þar er markmiðið að skapa opna alfræðiorðabók, sem allir geta lagt sín lóð á vogaskálarnar. Þar geta margir sérfræðingar hjálpast að til að skrifa skýra og aðgengilega pistla um mikilvægustu hugmyndir og staðreyndir. Þetta er frábær hugmynd, en alls ekki fullkomin í framkvæmd. Vinur minn lenti í því að bítast við nokkra sérfræðinga um ákveðið málefni, þeir leiðréttu texta hvors annars á víxl, því að þeir höfðu mjög mismunandi skilning á grundvallaratriðunum. Lyktir málsins urðu þær að vinur minn var lokaður út af stjórnendum Wikipedia, í krafti fjöldans þá höfðu hinir betur. Vinur minn hefur stundum rangt fyrir sér, en spurning er hvort að fjöldakosning sé rétta leiðin til að ákvarða atriði í alfræðiorðabók. Encyclopedia Brittanica sem finnast á mörgum íslenskum heimilum (alltaf mjög gamlar útgáfur!) gengur út á hið gagnstæða, sérfræðingar eru ráðnir til þess að uppfæra hvert atriði. Ekki er treyst á fjölda, heldur bestu mögulegu þekkingu á viðkomandi sviði.
Aðgengi að vísindagreinum
Í vísindum er aðgengi að fræðigreinum ansi sérstakt. Það komst snemma á sú hefð að vísindamenn sendu greinar til birtingar í fagtímaritum, sem ákveðnir útgefendur sáu um i) að fá faglega aðilla til að rýna og meta, ii) búa til prentunar, iii) prenta og iv) dreifa á bókasöfn og fagaðilla. Í langflestum tilfellum afsöluðu vísindamennirnir sér höfundarétti til útgefenda. Vísindamenn fá næstum aldrei greiðslur fyrir greinar eða bækur (nema þeir sem gefa út vinsælar bækur eins og Skipulag alheimsins).
Þetta er all sérstök uppsetning, þar sem vísindamenn fá flestir peninga frá almenningi (samkeppnissjóðum á vegum fylkja, ríkis og ríkjabandalaga (ESB). Bandaríska heilbrigðisstofnunin (NIH) útdeilir hundrum milljörðum á ári ($31.2 milljarðar á ári), en hefur gert þá kröfu að þeir sem þiggi styrki skuli sjá til þess að niðurstöðurnar séu öllum aðgengilegar. Það er skynsamlegt, ríkið borgar fyrir rannsókn og vill að niðurstöðurnar séu ekki læstar niðri í skúffu. Þessi heimspeki er sterk í vísindum og hefur margar birtingarmyndir (aðgengi að gögnum og kennitölur vísindamanna).
Á sama tíma bandarískir þingmenn stinga upp á SOPA lögunum til að setja bönd á hugverkaþjófa, þá liggur fyrir þinginu frumvarp um vísindaútgáfu að undirlagi félags útgefenda vísindatímarita. Þetta lagafrumvarp er sett til höfuðs stefnu NIH. Vísindamenn hafa barist gegn þessu, en fagfélög þeirra virðast steinsofandi (Academic publishers have become the enemies of science - Mike Taylor í the Guardian).
Vonandi hafa bandarískir þingmenn rænu á að hafna þessum lagafrumvörpum. Hitt er víst að miðlun upplýsinga og þekkingar er að gjörbreytast. Opnir miðlar og net þekkingar verða framtíðin. Það er okkar að tryggja að yfirvöld hafi ekki tæki til að ritskoða eða fela efni á vefnum. Þótt að við treystum stjóranum í brúnni í dag til að misbeita ekki valdi sínu, þá er ómögulegt að vita hvaða TeboðsTalibani getur náð völdum í Bandaríkjunum eða Erfðabreyttshatandi-bullukollur í ESB.
Innan vísinda er straumurinn frá hinum klassísku vísindaritum. Public library of Science (PLoS, sem gefur út PLoS biology og PLoS one) er tilraun til að skapa mótsvar við hinum einkareknu vísindatímarits-útgáfum. Þar þurfa höfundar að borga fyrir prentkostnað (um 2000 dali - hægt að fá þetta lækkað eða fellt niður ef maður kemur frá þriðja heimslandi eins og Botswana eða Íslandi). PLoS er rekið á núlli, með greiðslum fyrir útgáfu, framlögum félaga og einkaaðilla. Gömlu veldin, Nature, Science, Elsevier hafa hakkast í PLoS, en ekki orðið ágengt. PLoS one birtir greinar og umsagnir ritrýnara, opnar fyrir athugasemdir og umræður um tilteknar greinar. Annar vettvangur fyrir opin skoðanaskipti vísindamanna er arxiv.org opinn síða fyrir handrit á sviði eðlisfræði, stærðfræði, líffræði og skyldra greina. Þar má nálgast 700.000+ handrit.
Nýjir vettvangar eru að koma í stað (eða allavega sem ríkuleg viðbót) við hið klassíska ritrýningarferli sem gömlu tímaritin byggja á.
Slagurinn sem stendur um SOPA og Wikipedia, er sem sagt hluti af stærra stríði gamalla viðskiptavelda og nútímalegrar hugsunar um aðgengi að gögnum. Málið snertir bæði frelsi í samfélaginu og framtíð vísindastarfs.
Ítarefni:
Academic publishers have become the enemies of science - Mike Taylor í the Guardian
New York Times Jan. 16. 2012 Cracking Open the Scientific Process THOMAS LIN
Wikipedia lokar í 24 tíma | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:24 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.