Leita í fréttum mbl.is

Litli vísindamaðurinn og voldugi risinn

Vísindamenn stunda rannsóknir og kynna fyrir öðrum með erindum, bókum en aðallega ritrýndum vísindagreinum.

Það felur í sér að vísindamaðurinn skrifi skýrslu um rannsókn sína, með inngangi, aðferðalýsingu, niðurstöðum og ályktunum. Allt þarf þetta að vera samkvæmt ströngustu reglum, vitna þarf rétt í heimildir, hanna tilraunir og rannsóknir sem best, vinna úr gögnum af heiðarleika og framkvæma ströngustu tölfræðipróf. Einnig þurfa ályktanir að vera í samræmi við niðurstöður og varast skal allar rang- og oftúlkanir.

Vísindamenn birta greinar þessar í fagtímaritum, sem ákveðin fræðafélög eða útgefendur sjá um að gefa út. Höfundar senda inn handrit sín, og útgefandinn fær i) faglega aðilla til að rýna og meta rannsóknina, ii) býr hana til prentunar, iii) prentar og iv) dreifir á bókasöfn og fagaðilla. Útgefandinn var stundum sjálfseignar fagfélag, en algengara var að einkafyrirtæki sæi um þennan hluta ferilsins Í langflestum tilfellum afsala vísindamenn sér höfundarétti til útgefenda.

Nú er svo komið að sumir útgefendur eru orðnir nokkuð stórir, Elsevier er einn slíkra útgáfurisa í heimi vísindanna. Hagnaður Elsevier árið 2010 var 1,1 milljarður bandaríkjadala (36% af veltu). Peningar koma til útgáfufyrirtækjanna frá háskólum og fyrirtækjum sem kaupa áskriftir að vísindaritum.

Starfsfólk útgefenda eru yfirritstjórar, og fólk sem sér um uppsetningu greina, rafræna útgáfu og markaðshluta. En faglegi hlutinn er í höndum sjálfboðaliða úr röðum vísindamanna. Fagritstjórar og yfirlesarar eru vísindamenn sem gefa vinnuna sína, byggt á þeirri heimspeki að allir þurfi að leggja sitt af mörkum. Einnig fylgir því orðstír að lesa yfir greinar hjá góðu vísindariti, og sérstaklega ef fólki er boðin staða ritstjóra. Sumir vísindamenn fá bónus frá sinni heimastofnun ef þeir eru skipaðir ritstjórar.

Staðan er því þannig að útgefandinn birtir vísindagreinar (sem höfunda afsala sér rétti á), fær aðra vísindamenn til að lesa þær yfir (að kostnaðarlausu) og selur síðan enn öðrum vísindamönnum aðgang að greinunum. Lögfræðingar myndu aldrei semja svona af sér.

Litli vísindamaðurinn hefur loksins gripið til mótaðgerða. Stofnuð hafa verið ný gal-opin vísindatímarit  (eins og PLoS biology) og einnig hHafa stærðfræðingar skipulagt andóf gegn Elsevier. Nú hafa rúmlega 5700 vísindamenn staðfest að þeir vilji ekki birta í, lesa yfir né ritstýra tímaritum Elsevier. 

Einnig liggja fyrir bandaríkjaþingi drög að lögum sem tryggja að niðurstöður ALLRA rannsókna sem almenningur (ríkið) borgi fyrir séu aðgengilegar ÖLLUM vísindamönnum og samfélaginu í heild. Það orkar nefnilega tvímælis, að ríkið borgi fyrir rannsóknirnar og svo aftur fyrir að fá aðgang að niðurstöðunum.

Heimildir og ítarefni:

NYTIMES THOMAS LIN Mathematicians Organize Boycott of a Publisher 13 febrúar 2012

Undirskrifarlisti gegn Elsevier   The cost of knowledge

Herkvaðning stærðfræðingsins Timothy Gower

Eldri pistlar okkar um skyld efni:

Gömul viðskiptaveldi og nútíminn

Aðgengi að gögnum og kennitölur vísindamanna)

Eftirskrift um fyrirsögn. Titilinn er sannarlega orðaleikur, og fjarri því að vísindamenn séu máttlausar brúður og útgefendur vondir risar. Þeir eru bara fyrirtæki sem reynir að þrífast, afla tekna og hagnast. Engu að síður er mikilvægt að endurmeta það hvernig niðurstöður vísindarannsókna er komið á framfæri, með hliðsjón af aukinn meðvitund um opinn aðgang og minni prentkostnað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Óli Helgason

Kórrétt... Glæsilegt... Frábært...!

Sævar Óli Helgason, 17.2.2012 kl. 19:06

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Sævar Óli

Arnar Pálsson, 22.2.2012 kl. 11:03

3 identicon

Gott innlegg frá Sleðanum, eins og alltaf! Færslan síðan í síðasta mánuði var líka góð:

Gömul viðskiptaveldi og nútíminn - http://apalsson.blog.is/blog/apalsson/entry/1217947/

Má við þetta bæta að afsal höfundarréttar til útgefenda var eflaust ágætishugmynd á sínum tíma, og líklega lykilatriði í að gera útgáfu fræðirita yfirhöfuð mögulega fyrr á öldum þegar prent var eini miðillinn í boði.

Kostnaður við dreifingu efnis nú á dögum (þ.e. á á rafrænu formi yfir Netið) er hinsvegar nær hverfandi samanborið við prentað form. Alls kyns nýjir möguleikar á miðlun vísindalegrar þekkingar hafa opnast, ekki síst í tengslum við opinn aðgang fyrir alla. Það er ekki lengur þörf á framsali höfundarréttar til að koma þessu í kring. Rekstur PLoS síðusta áratug sannar það.

Samt sem áður halda margir stærstu útgáfurisarnir áfram með sinn venjubundna rekstur eins og ekkert hafi í skorist, með hausinn kyrfilega skorðaðan í sandinum á meðan þá rekur að feigðarósi. Sumir, eins og Nature Publishing Group, eru reyndar farnir að átta sig. Aðrir - Elsevier er þar efst á blaði - eru með ógnarlega "langan fatt" og löngu komnir úr takt við vísindasamfélagið sem þeir þykjast þjóna. Ekki furða að http://thecostofknowledge.com séu komnir með yfir 7 þúsund manns á lista.

Guðmundur Á. Þórisson (IP-tala skráð) 22.2.2012 kl. 23:41

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Guðmundur fyrir áréttinguna.

PLoS er ágætis viðmið fyrir þá sem vilja birta óháð gömlu útgáfuveldunum. Þeir eru reyndar reknir að stórum hluta fyrir styrkfé, t.d. frá einkaaðillum með hugsjónir (þeir finnast ekki hérlendis!).

Vonandi skrifa sig sem flestir vísindamenn á undirskriftalistann

http://thecostofknowledge.com

Arnar Pálsson, 24.2.2012 kl. 09:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband