21.2.2012 | 16:05
Eilífðarsmáblóm í tímavél
Sumar plöntur mynda mjög harger fræ sem endast áratugi, og spíra oft löngu eftir að foreldri þeirra runnu sitt skeið. Tilgátur eru uppi um að þetta sé leið plantna til að dreifa áhættunni, þrauka erfið ár eða kuldaskeið. Ef veðrátta er nægilega rysjótt eða umhverfi óstöðugt, þá mun veljast fyrir eiginleikum sem tryggja að fræin spíri ekki öll á sama tíma, heldur muni sum liggja í dvala lengur en önnur.
Hins vegar er ljóst að venjuleg fræ geta ekki legið í dvala í 30.000 ár. Ávextirnir sem rússnesku vísindamennirnir fundu árið 2007 í sífrera voru heldur ekki með fullþroskuð fræ. Lykillinn virðist hafa verið íkornar sem söfnuðu ávöxtum í forðabúr sín, þar sem þeir frusu og héldust frosnir til dagsins í dag. Tilraunir til að fá fræin til að spíra lukkuðust ekki, en vefjarækt kom þá til bjargar.
Vefjarækt gengur út að fá frumur plantna, t.a.m. úr fræbelg eða laufblaði, til að fjölga sér og mynda nýjan einstakling. Plöntur eru merkilegar að því leyti að þær má einrækta á þennan hátt (margar plöntur gera þetta alveg sjálfar!), og þetta hefur verið notað markvisst í plöntukynbótum.
Þetta er í fyrsta skipti sem tekst að lífga við smáblóm sem lá í sífreranum. Margir hafa reynt að koma til gömlum fræjum sem fundist hafa á túndrunni, og e.t.v. fundu rússnesku líffræðingarnir hér leið til að ferðast um tímann. Rannsóknir sem þessar gefa okkur nefnilega tækifæri á að skoða eiginleika, erfðir og líffræði tegunda sem nú eru horfnar (eða allavega breyttar).
Þannig getum við kannað eiginleika eilífðarsmáblóms sem afhjúpast okkur í kjölfar merkilegs ferðalags. Það er skemmtilegt að hugsa til þess að íkornar voru við stjórnvölin á tímavélinni.
Leiðréttingar á orðalagi.
Eins og Benjamín benti á þá eru "loðnir einhyrningar" reyndar "loðnir nashyrningar" (woolly rhinoceros), sbr. einhyrningar og mammútar frá tímum mammúta
"kornum ávaxtanna" á líklega að vera "fræ ávaxtana"
"mammútar" eru "loðfílar"
Einnig er erfitt að skilja að það "fundust smávægileg frávik í formi blaðanna og kyns blómanna"? Í útgáfu BBC, sem var þýdd hér nánast hugsunarlaust, er sagt " found subtle differences in the shape of petals and the sex of flowers". Mér þykir líklegast að um sé að ræða mun á kynvef plantnanna, en hvorki BBC (Richard Black environmental correspondent) né mbl.is (NN) reyna að útskýra það almennilega.Ítarefni:
Pistill Ed Young (Not exactly rocket science) um þetta efni: Flowers regenerated from 30,000-year-old frozen fruits, buried by ancient squirrels
BBC 21. febrúar 2012 Frozen plants spring back to life
Frumheimildin:
Yashina, Gubin, Maksimovich, Yashina, Gakhova & Gilichinsky. 2011. Regeneration of whole fertile plants from 30,000-y-old fruit tissue buried in Siberian permafrost. PNAS http://dx.doi.org/10.1073/pnas.1118386109
Ræktuðu upp úr 30.000 ára ávexti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:17 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Ævintýralegur furuheimur vísinda. Að vísu sér maður undrið á hverjum degi í mismunandi mynd. Sönn gleði er að fá að njóta náttúrunnar sem við eigum nóg af. Reyni að fara eins oft og ég get í Heiðmörk og sé þá aldrei sömu myndina. Að hafa fengið tækifæri til að sjá og skoða er fyrir mér mesta undrasmíð. Ein stærsta gjöfin.
Veit ekki um blinda. Líklega þróa þeir með sér önnur skynfæri og fá þá uppgötvað aðra heima? Erfðafræðin er hér furuverk eins og allt lífið. Tónar alheims.
Sigurður Antonsson, 21.2.2012 kl. 21:10
Það er rétt Sigurður að náttúran birtist á marga vegu. Ég er fjarska þakklátur fyrir sjónina, hún afhjúpar margskonar dýrðir á hverjum degi.
Mér skilst að í blindum þroskist hin skilningavitin betur, þær stöðvar í heilanum verða stærri og nýti þá rýmd sem sjónsvæðin nýttu áður.
Arnar Pálsson, 22.2.2012 kl. 11:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.